Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 311/2016

Nr. 311/2016 1. apríl 2016

AUGLÝSING
um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja.

1. gr.

Gildissvið.

Í samræmi við 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, með síðari breytingum og ákvæði Nice-samningsins frá 15. júní 1957 um alþjóðlega flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar vöru­merkja, með síðari breytingum, gildir eftirfarandi flokkaskrá fyrir vörur og þjónustu vegna skrán­ingar vörumerkja. Flokkaskráin er birt sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.

Flokkaskráin er í samræmi við 10. útgáfu alþjóðlegu skrárinnar um flokkun vöru og þjónustu við skráningu vörumerkja samkvæmt Nice-samningnum sem tók gildi 1. janúar 2012 og þær breyt­ingar sem átt hafa sér stað frá þeim tíma. Flokkaskráin er uppfærð með rafrænum hætti um hver áramót.

2. gr.

Breytingar þann 1. janúar 2016.

Eftirfarandi breytingar urðu á yfirskriftum flokkaskrárinnar þann 1. janúar 2016:

  1. Flokkur 2: Tilgreiningunni „málmþynnur og málmduft fyrir málara, skreytingamenn, prentara og listamenn“ var breytt í „málmþynnur og málmduft til nota við málun, skreytingar, prentun og listsköpun“.
  2. Flokkur 5: Tilgreiningunni „Lyfjablöndur fyrir menn og blöndur til dýralækninga“ var breytt í „Lyf og lyfjablöndur til lækninga fyrir menn og dýr“.
  3. Flokkur 6: Tilgreiningin „vörur úr ódýrum málmum sem ekki heyra undir aðra flokka“ var felld brott.
  4. Flokkur 14: Tilgreiningin „svo og vörur úr góðmálmum eða húðaðar með þeim sem ekki heyra undir aðra flokka“ var felld brott.
  5. Flokkur 16: Tilgreiningin „og vörur úr þessum efnum sem ekki eru taldar í öðrum flokkum“ var felld brott og fyrsta málslið breytt í „Pappír og pappi“. Tilgreiningin „(sem ekki eru talin í öðrum flokkum)“ var felld brott.
  6. Flokkur 17: Tilgreiningunni „Gúmmí“ var breytt í „Óunnið og hálfunnið gúmmí“. Tilgreiningin „vörur úr þessum efnum sem ekki eru taldar í öðrum flokkum“ var felld brott og í stað hennar bætt við tilgreiningunni „efni sem komið geta í staðinn fyrir þau“.
  7. Flokkur 18: Tilgreiningin „og vörur gerðar úr þessum efnum sem ekki eru taldar í öðrum flokkum“ var felld brott.
  8. Flokkur 20: Tilgreiningin: „vörur (ekki taldar í öðrum flokkum) úr tré, korki, reyr, spansk­reyr, tágum, horni, beini, fílabeini, hvalbeini, skel, rafi, perlumóður, sæfrauði, svo og úr efnum sem geta komið í stað þessara, eða úr plasti“ var umorðuð og er nú „óunnin eða hálf­unnin bein, horn, fílabein, hvalbein eða perlumóðir; skeljar; sæfrauð; raf“.
  9. Flokkur 21: Tilgreiningin „ekki taldar í öðrum flokkum“ var felld brott.
  10. Flokkur 22: Tilgreiningin „Kaðlar, seglgarn“ varð „Kaðlar og seglgarn“. Tilgreiningin „segl­dúkur, yfirbreiðslur“ varð „segldúkar og yfirbreiðslur“. Tilgreiningin „og skjóður (ekki taldar í öðrum flokkum)“ var felld brott. Tilgreiningin „(nema úr gúmmíi eða plasti)“ varð „(nema úr pappír, pappa, gúmmíi eða plasti)“.
  11. Flokkur 24: Tilgreiningin „vefnaðarvörur sem ekki eru taldar í öðrum flokkum“ var felld brott og í stað hennar kom „efni sem komið geta í staðinn fyrir vefnað“.
  12. Flokkur 28: Tilgreiningin „sem ekki eru taldar í öðrum flokkum“ var felld brott.
  13. Flokkur 30: Tilgreiningunni „pastry“ var í ensku útgáfu flokkaskrárinnar breytt í fleirtölu (e. pastries), það hafði ekki áhrif á íslenska þýðingu skrárinnar.
  14. Flokkur 31: Tilgreiningin „Korn og“ var felld brott. Tilgreiningin „sem ekki eru taldar í öðrum flokkum“ var felld brott. Tilgreiningunni „hrátt og óunnið korn og fræ“ var bætt við á undan „ferskir ávextir og grænmeti“. Tilgreiningunni „lifandi dýr“ var bætt við á undan „dýrafóður“.

Auk framangreindra breytinga urðu breytingar á tilgreiningum ýmissa vara og þjónustu sem falla undir yfirskriftir flokkanna. Þær eru aðgengilegar á vefsíðu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO).

3. gr.

Leiðréttingar.

Auk þeirra breytinga sem tilgreindar eru í 2. gr., þykir rétt að gera eftirfarandi leiðréttingar:

  1. Flokkur 3: Rétt þykir, í samræmi við ensku útgáfu flokkaskrárinnar að á eftir tilgreiningunni „Bleikiefni og önnur efni til nota við fataþvott“ komi semikomma og tilgreiningin „efni til nota við ræstingu, fægingu, hreinsun og slípun“.
  2. Flokkur 5: Í samræmi við ensku útgáfu flokkaskrárinnar þykir rétt að semikomma komi á eftir „efni til að eyða meindýrum“. Á eftir því komi „sveppaeyðir, illgresiseyðir“.
  3. Flokkur 6: Í samræmi við ensku útgáfu flokkaskrárinnar þykir rétt að semikomma komi í stað kommu á eftir „byggingarefni úr málmi“.
  4. Flokkur 8: Tilgreiningin „cutlery“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar hefur verið þýdd sem „egg­járn og hnífapör“. Rétt þykir að þýða tilgreininguna sem „hnífapör“.
  5. Flokkur 9: Tilgreiningin „data processing equipment, computers“ í ensku útgáfu flokka­skrárinnar hefur verið þýdd sem „gagnavinnslubúnaður og tölvur“, rétt er að komma komi í staðinn fyrir „og“.
  6. Flokkur 10: Í samræmi við ensku útgáfu flokkaskrárinnar þykir rétt að semikomma komi í stað kommu á eftir „dýralækninga“.
  7. Flokkur 16: Tilgreiningin „artist‘s materials“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar hefur verið þýdd sem „vörur handa listamönnum“ en réttara þykir að þýða hana sem „vörur fyrir listamenn“.
  8. Flokkur 18: Í samræmi við ensku útgáfu flokkaskrárinnar þykir rétt að bæta orðinu „dýra“ fyrir aftan „skinn og húðir“.
  9. Flokkur 22: Í samræmi við efni flokksins þykir réttara að þýða orðið „sacks“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar sem „sekkir“ í stað „pokar“.
  10. Flokkur 31: Réttara þykir að þýða orðið „fresh“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar sem „ferskir“ í stað „nýir“.
  11. Flokkur 40: Tilgreiningin „Treatment of materials“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar hefur verið þýdd sem „Vinnsla og meðferð efna og hluta“. Réttara þykir að þýða tilgreininguna sem „Meðferð efna“.
  12. Flokkur 44: Tilgreiningin „for human beings or animals“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar hefur verið þýdd sem „fyrir menn og dýr“. Réttara þykir að nota „fyrir menn eða dýr“.

4. gr.

Nánari tilgreining á yfirskriftum flokka við endurnýjun vörumerkja.

Í samræmi við ákvörðun Einkaleyfastofunnar um þrengri túlkun á yfirskriftum flokkaskrárinnar frá 1. janúar 2014, er heimilt við fyrstu endurnýjun merkis eftir það tímamark að tilgreina nánar þá vöru og/eða þjónustu sem merki er skráð fyrir. Útvíkkun á vernd er ekki heimil og tilgreining skal vera í samræmi við þá útgáfu alþjóðlegu flokkaskrárinnar sem í gildi var á þeim tíma sem merkið var skráð.

Við endurnýjun skal, ef merki var skráð:

  1. fyrir 1. janúar 2002, stuðst við 7. útgáfu flokkaskrárinnar,
  2. frá 1. janúar 2002 til 29. janúar 2007, stuðst við 8. útgáfu flokkaskrárinnar,
  3. frá 30. janúar 2007 til 31. desember 2011, stuðst við 9. útgáfu flokkaskrárinnar,
  4. frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2013, stuðst við 10. útgáfu flokkaskrárinnar.

Það er á ábyrgð eigenda eða umboðsmanna þeirra að tilgreina nánar vöru og/eða þjónustu í sam­ræmi við 2. mgr. Telji Einkaleyfastofan umsókn um endurnýjun ekki fullnægjandi er veittur frestur til að lagfæra umsóknina í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki.

5. gr.

Gildistaka.

Auglýsing þessi öðlast gildi 15. apríl 2016. Jafnframt fellur þá úr gildi auglýsing um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja nr. 1190/2011.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 1. apríl 2016.

F. h. iðnaðar- og viðskiptaráðherra,

Valgerður Rún Benediktsdóttir.

Brynhildur Pálmarsdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 14. apríl 2016