Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 774/2015

Nr. 774/2015 15. júlí 2015

REGLUR
um umgengni og frágang grafreita í Skálholtskirkjugarði.

1. gr.

Reglur þessar taka til umgengni í Skálholtskirkjugarði. Sóknarnefnd Skálholtskirkju fer með kirkjugarðsstjórn.

2. gr.

Kirkjugarðurinn er friðhelgur. Öllum er frjáls umferð um kirkjugarðinn, með þeim tak­mörkunum sem af þessum reglum leiða. Óheimil er öll óþarfa umferð, leikir og hvers konar hávaði.

3. gr.

Þeir aðstandendur sem kjósa að skreyta leiði ástvina sinna um jól með rafljósi eða kertum, eru beðnir um að fjarlægja þær skreytingar aftur fyrir 10. janúar. Kransar og aðrar skreytingar frá jólahaldi skal fjarlægja eigi síðar en 1. mars. Kostnaður við að tengjast rafmagni fylgir ákveðinni verðskrá.

4. gr.

Á leiði er heimilt að gróðursetja lágvaxin blóm og runna. Gróðursetning á trjám og hávöxnum runnum (yfir 1 m) á grafreiti er óheimil. Í eldri hluta garðsins má gróður ekki vera hærri en 0,5 m. Óheimilt er að gróðursetja skriðula fjölæringa eða annað sem sáir sér yfir á önnur leiði.

5. gr.

Almennt er ekki mælt með sérstakri afmörkun grafreita. Hún er með öllu óheimil í eldri hluta kirkjugarðsins. Kjósi aðstandendur að hafa sérstaka afmörkun um grafreiti skal efri brún hennar vera í sömu hæð og jarðvegsyfirborð. Afmörkunin má yfirtaka 1/3 hluta grafreits og innan hennar má setja blóm eða annað til minningar um hinn látna. Umhirða þess svæðis er á ábyrgð aðstandenda. Með öllu er óheimilt að setja upp girðingar úr timbri, málmi, steini eða öðrum efnum.

6. gr.

Í nýja hluta kirkjugarðsins skal hámarksbreidd legsteins á einföldum grafreit vera 0,8 m og 1,8 m þegar legsteinn nær yfir 2 grafreiti. Hámarkshæð legsteins er 1,2 m frá yfirborði jarðvegs. Trékross má setja á grafreit til bráðabirgða að hámarki í 2 ár. Hæð hans má ekki vera meiri en 0,9 m frá yfirborði jarðvegs.

7. gr.

Í eldri hluta kirkjugarðs, umhverfis kirkjuna, skulu fyrst og fremst vera púltsteinar í stærðinni 50 x 40 x 10/20 sm (l-b-h). Legsteinarnir skulu liggja láréttir á jörðu með skáhallandi leturfleti er snýr til austurs. Óheimilt er að legsteinar séu hærri en 50 sm frá yfirborði jarðvegs. Trékross má hér einnig setja á grafreit til bráðabirgða skv. 6. grein.

8. gr.

Í eldri hluta kirkjugarðsins, sunnanvert við kirkjuna, er duftgrafreitur. Um hann gilda sérstakar reglur.

Einfaldur duftgrafreitur er 75 x 75 sm. Tvöfaldur duftgrafreitur er 75 x 150 sm. Legsteinar á duftgrafreitum skulu einkum vera púltsteinar en þó er heimilt að setja þar náttúrustein að sömu stærð og hæð, þ.e. 50 x 40 x 10/20 sm (l-b-h).

9. gr.

Við val á grafarstæði skal haft samráð við umsjónarmann kirkjugarðs. Grafartaka er óheimil án hans samþykkis og skal í öllu vera undir hans stjórn eða þeirra sem hann tilnefnir til verksins. Aðstandendur skulu hafa samband við umsjónarmann áður en gengið er frá grafreit og minnismerki.

10. gr.

Uppsetning minnismerkja er á ábyrgð aðstandenda sem og endanlegur frágangur grafreita. Varðandi uppsetningu legsteina og umferð vélknúinna ökutækja í tengslum við hana skal sýna ítrustu varfærni og gæta þess að skemma ekki gras né valda óþarfa ónæði. Ganga skal frá merkingu leiðis innan 6 mánaða frá greftrun.

11. gr.

Sóknarnefnd Skálholtskirkju ber enga skaðabótaábyrgð þótt umbúnaður grafarstæðis, minningarmarka, gróður eða annað sem á grafarstæði kann að vera, verði fyrir skemmdum eða ónýtist af völdum náttúruafla eða skemmdarvarga.

12. gr.

Reglur þessar eru settar að tillögu sóknarnefndar Skálholtskirkju samkvæmt heimild í 51. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4. maí 1993, og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 15. júlí 2015.

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Fanney Óskarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 2. september 2015