Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 758/2014

Nr. 758/2014 18. júlí 2014
REGLUGERÐ
um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu.

1. gr.

Almenn ákvæði.

Með reglugerð þessari eru sett nánari ákvæði um framkvæmd laga nr. 58/2010 um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Reglugerðin felur í sér ákvæði um eftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi, varnartengdum vörum og miðlun þeirra samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

2. gr.

Útflutningseftirlit.

Enginn má flytja út hergögn eða hluti með tvíþætt notagildi nema með leyfi ráðherra. Lögreglustjóri veitir þó leyfi fyrir útflutningi á þeim vopnum sem falla undir gildissvið vopnalaga, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið. Skrá yfir leyfisskyld hergögn kemur fram í fylgiskjali 5 og skrá yfir leyfisskylda hluti með tvíþætt notagildi kemur fram í fylgiskjali 3 við reglugerð þessa. Nánar er kveðið á um framkvæmd útflutningsleyfa í þeim gerðum Evrópusambandsins sem innleiddar eru með reglugerð þessari.

Utanríkisráðuneytið heldur skrá yfir aðila sem hafa fengið leyfi til þess að flytja út hergögn. Áður en útflytjandi notar almennt útflutningsleyfi fyrir hluti með tvíþætt notagildi skal hann skrá sig hjá utanríkisráðuneytinu.

3. gr.

Innleiðing gerða.

Eftirfarandi gerðir Evrópusambandsins um eftirlit með útflutningi skulu öðlast gildi hér á landi með þeirri aðlögun sem getið er um í 4. gr. Gerðirnar, ásamt viðaukum, eru birtar sem fylgiskjöl við reglugerð þessa:

Fylgiskjal 1: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 428/2009 frá 5. maí 2009 um að setja Bandalagsreglur um eftirlit með útflutningi, tilflutningi, miðlun og viðkomu hluta með tvíþætt notagildi.

Fylgiskjal 2: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1232/2011 frá 16. nóvember 2011 um breytingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 428/2009 um að koma á fót Bandalagskerfi um eftirlit með útflutningi, tilflutningi, miðlun og viðkomu hluta með tvíþætt notagildi.

Fylgiskjal 3: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 388/2012 frá 19. apríl 2012 um breytingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 428/2009 um að koma á fót Bandalagskerfi um eftirlit með útflutningi, tilflutningi, miðlun og viðkomu hluta með tvíþætt notagildi.

Fylgiskjal 4: Sameiginleg afstaða ráðsins 2008/944/SSUÖ frá 8. desember 2008 um skilgreiningu almennra reglna um eftirlit með útflutningi hertækni og herbúnaðar.

Fylgiskjal 5: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/18/ESB frá 29. janúar 2014 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/43/EB að því er varðar skrána yfir varnartengdar vörur.

Viðaukar við framangreindar gerðir eru birtir á frummáli, sbr. 14. gr. laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 58/2010.

Framangreindar gerðir binda einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir án frekari lögfestingar, eftir því sem við getur átt.

4. gr.

Aðlögun.

Gerðir skv. 3. gr. skulu aðlagaðar með eftirfarandi hætti:

a)

ákvæði varðandi ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofn­anir, tungumál, yfirráðasvæði eða aðildarríki Evrópusambandsins („EB“, „ESB“, „banda­lagsins“ eða „sameiginlega markaðarins“) eiga við um íslenska ríkisborgara, einstak­linga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða Ísland, eftir því sem við á;

b)

ákvæði um tilkynningar eða skýrslugerðir til aðildarríkja Evrópusambandsins eða stofnana gilda ekki. Hið sama á við um ákvæði um gildistöku eða hvenær gerðir skuli koma til framkvæmda;

c)

tilvísanir í gerðir, sem eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), eiga við um þau ákvæði íslensks réttar sem innleiða þær gerðir, eftir því sem við á;

d)

tilvísanir í gerðir, sem eru ekki hluti EES-samningsins, eiga við um hliðstæð ákvæði íslensks réttar, eftir því sem við á, þ.m.t. ákvæði tollalaga nr. 88/2005;

e)

vefsetur með upplýsingum um lögbær stjórnvöld á Íslandi er: www.utn.is/ utflutningseftirlit.

Ákvæði sem varða tilfærslu milli ríkja Evrópusambandsins eiga við um útflutning til EES-ríkja. Almenn útflutningsleyfi samkvæmt II. viðauka við reglugerð ráðsins (EB) nr. 428/2009 gilda til EES-ríkja, sbr. fylgiskjal 1 og 2, með þeim skilyrðum sem þar eru ákveðin.

5. gr.

Varnartengdar vörur.

Á grundvelli ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 111 frá 14. júní 2013 og nr. 167 frá 8. október 2013 skulu eftirtaldar gerðir Evrópusambandsins öðlast gildi hér á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka við EES-samninginn (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun), bókun I (um altæka aðlögun) og öðrum ákvæðum samningsins:

Fylgiskjal 6: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/43/EB frá 6. maí 2009 um að einfalda skilmála og skilyrði vegna tilflutnings varnartengdra vara innan Banda­lagsins.

Fylgiskjal 7: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/80/ESB frá 22. nóvember 2010 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/43/EB að því er varðar skrána yfir varnartengdar vörur.

Fylgiskjal 8: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/10/ESB frá 22. mars 2012 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/43/EB að því er varðar skrána yfir varnartengdar vörur.

Fylgiskjal 9: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/47/ESB frá 14. desember 2012 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/43/EB að því er varðar skrána yfir varnartengdar vörur.

Fylgiskjal 10: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/24/ESB frá 11. janúar 2011 um vottun fyrirtækja á sviði varnartengdra vara skv. 9. gr. tilskipunar Evrópu­þingsins og ráðsins 2009/43/EB um að einfalda skilmála og skilyrði vegna tilflutn­ings varnartengdra vara innan Bandalagsins.

6. gr.

Miðlunarþjónusta.

Enginn má stunda, án leyfis ráðherra, miðlunarþjónustu með hergögn eða hluti með tvíþætt notagildi sem leyfi þarf fyrir samkvæmt reglugerð ráðsins (EB) nr. 428/2009, sbr. fylgiskjal 1.

7. gr.

Leyfisskilyrði.

Nú hefur útflytjandi leyfi til að flytja út hergögn eða hluti með tvíþætt notagildi í fleiri en einni sendingu og skal hann þá skila til ráðuneytisins yfirliti yfir útflutning sinn 1. mars, 1. júní, 1. september og 1. desember ár hvert. Þar skulu koma fram sömu upplýsingar og skila þarf inn vegna umsóknar um einstakt útflutningsleyfi.

Ef sótt er um leyfi til útflutnings á hergögnum eða hlutum með tvíþætt notagildi, sem tilgreindir eru í IV. viðauka við reglugerð ráðsins (EB) nr. 428/2009, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 800/2011, þá skal fylgja vottorð um lokanotanda vöru.

Ef sótt er um leyfi til útflutnings á hergögnum eða hlutum með tvíþætt notagildi eða íhluti þeirra, sem eru háðir útflutningsleyfi annarra ríkja, þá skal afrit þeirra leyfa fylgja.

Útflytjandi skal tilgreina númer almenns útflutningsleyfis og dagsetningu einstaks útflutn­ings­leyfis eða heildarleyfis í útflutningsskýrslu sem hann skilar samkvæmt tolla­lögum nr. 88/2005.

8. gr.

Innflutningur.

Enginn má flytja inn eða láta hafa viðkomu hérlendis, án leyfis ráðherra, hluti sem geta nýst, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, við­hald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flug­skeytum sem geta borið slík vopn.

9. gr.

Flugskeyti.

Enginn má senda upp flugskeyti, án leyfis ráðherra, sem er 500 kg eða meira að þyngd og með 300 km fluggetu eða meira.

10. gr.

Framsal.

Framsal leyfis samkvæmt reglugerð þessari er óheimilt nema með leyfi ráðherra.

11. gr.

Undanþágur.

Eftirfarandi hergögn og hlutir með tvíþætt notagildi eru undanþegin leyfisskyldu sam­kvæmt þessari reglugerð:

a)

útflutningur íslenskra stjórnvalda, að því gefnu að eignarréttur sé ekki yfirfærður og að varan eða þjónustan sé notuð af íslenskum stjórnvöldum erlendis eða að viðtakandinn sé stjórnvald í NATO- eða EES-ríki;

b)

björgunartæki og búnaður sem flutt eru út í tengslum við hjálparstörf eða neyðar­aðstoð;

c)

vörur í erlendri eigu sem skilað er til útlanda eftir að hafa verið tímabundið fluttar inn í tengslum við prófun, sýningu, sýnikennslu eða opinberar æfingar;

d)

vörur, tækni og þjónusta til notkunar um borð í skipum í íslenskri eigu sem sigla undir íslenskum fána og loftförum í íslenskri eigu í milliríkjaflugi;

e)

vopn sem eru háð útflutningsleyfi skv. vopnalögum nr. 16/1998;

f)

vörur sem eingöngu eru í beinni gegnumferð um íslenskt tollyfirráðasvæði, þegar sendandi og móttakandi eru staðsettir utan íslensks tollyfirráðasvæðis. Þetta á þó ekki við um hluti sem falla undir 3. eða 4. mgr. 4. gr. laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010.

12. gr.

Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skal sæta viðurlögum skv. 13. gr. laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.

13. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 4., 5. og 14. gr. laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 800/2011. Fylgiskjal 1 við þá reglugerð heldur þó gildi sínu að svo miklu leyti sem því er ekki breytt með reglugerð þessari, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð þessa.

Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og gerðir Evrópusambandsins, sem fela í sér breytingar á II. viðauka við EES-samninginn og varða varnartengdar vörur, eru birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB, nema annað sé tekið fram.

Utanríkisráðuneytinu, 18. júlí 2014.

Gunnar Bragi Sveinsson.

Einar Gunnarsson.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 20. ágúst 2014