Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1223/2019

Nr. 1223/2019 11. desember 2019

REGLUR
ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2020.

Eftirfarandi reglur skulu gilda um mat á hlunnindum til tekna og kostnaði til frádráttar frá tekjum vegna tekjuársins 2020, sbr. 118. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breyt­ingum, sbr. og A-lið 1. mgr. 30. gr. þeirra laga og ákvæði í c-lið 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Skattmat þetta gildir einnig við stað­greiðslu opin­berra gjalda á árinu 2020 nema um sé að ræða tekjur sem undanþegnar eru staðgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu.

Skattmatið tekur til hvers þess sem nýtur hlunninda eða er aðnjótandi gæða, sem telja ber til tekna skv. 7. gr. laga nr. 90/2003, óháð starfssambandi milli þess er lætur hlunnindi eða gæði af hendi og þess sem þeirra nýtur. Skiptir ekki máli hvort það sem meta skal til tekna er endurgjald fyrir vinnu eða er tilkomið með öðrum hætti. Þegar talað er um launamann eða starfsmann í reglum þessum skal það eftir því sem við á einnig taka til maka hans og barna, svo og hvers þess aðila sem nýtur viðkomandi hlunninda í krafti eignar eða stjórnaraðildar, vensla eða tengsla, við þann sem hlunnindin lætur í té.

1. Almennt um mat á hlunnindum.

Telja ber til tekna hvers konar gæði sem mönnum hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir þá ekki máli hvaðan þau stafa eða í hvaða formi þau eru. Á það t.d. við um fatnað, fæði, húsnæði, hvers konar fríðindi, greiðslur í vörum eða afurðum, svo og framlög og gjafir sé verð­mætið hærra en almennt gerist um tækifærisgjafir.

Þau gæði og hlunnindi, sem ekki hafa verið í krónum talin, skal meta til peningaverðs og telja þau til tekna á því verði. Skulu þau metin til tekna á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma nema við þau eigi sérstakt tekjumat, sbr. kafla 2 hér á eftir.

Séu hlunnindi, eða annað sem telja ber til tekna, látið af hendi gegn greiðslu sem er lægri en skatt­matið eða gangverðið skal telja mismuninn til tekna. 

2. Sérstakt tekjumat.

2.1 Ýmis starfstengd hlunnindi.

Öll hlunnindi og fríðindi sem launagreiðandi lætur starfsmanni í té til einkaþarfa eru lögð að jöfnu við laun til viðkomandi og ber að telja til tekna miðað við markaðsverð eða gangverð, þ.e. til tekna skal telja fjárhæð sem nemur þeim kostnaði sem launamaðurinn hefði þurft að leggja út fyrir í þessu sambandi, nema um hlunnindi eða fríðindi þessi gildi sérstakt matsverð samkvæmt skattmati þessu. Hér er átt við hlunnindi og fríðindi tengd starfinu, sem starfsmaður nýtur án þess að greiða fyrir þau fullt verð, hvort sem um er að ræða að launamaðurinn fái eitthvað til eignar, afnota, láns eða neyslu.

Ekki skal telja til tekna almennar kaffiveitingar starfsmanna á starfsstað, afnot þeirra af heilsu­bótaraðstöðu á starfsstað, fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og þátttöku í námskeiðum sem tengjast starfi þeirra beint.

Ekki skal telja til tekna hlunnindi og fríðindi sem felast í ýmsum viðurgjörningi við starfsmenn og t.d. árshátíð, starfsmannaferðum, jólagleði og sambærilegum samkomum og viðburðum, enda sé að jafnaði um að ræða viðburði sem standi öllum starfsmönnum launagreiðandans til boða og árlegur kostnaður af þeim nemi ekki hærri fjárhæð en 135.000 kr. á hvern starfsmann. Hlunnindi og fríðindi af umræddum toga umfram 135.000 kr. skulu teljast starfsmanni til tekna, hvernig sem fyrirkomulagi á greiðslum launagreiðanda er háttað.

Sömu reglur gilda um framlög launagreiðanda til starfsmannafélaga sem nýtt eru til greiðslu á sams konar kostnaði og að framan greinir.

2.2 Fatnaður.

Telja skal til tekna á kostnaðarverði fatnað sem látinn er starfsmanni í té. Þetta á þó ekki við um einkennisfatnað sem starfsmönnum er ætlað að nota við störf sín, eða annan þann fatnað sem auðkenndur er eða merktur launagreiðanda, og einkum er nýttur vegna starfa í þágu hans.

Eigi skal reikna launamanni til tekna nauðsynlegan öryggis- eða hlífðarfatnað sem launa­greið­andi afhendir honum til afnota við störf hans, þ.m.t. er sá öryggis- og hlífðarfatnaður sem launa­greiðendum er skylt skv. lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningum að afhenda starfs­mönnum án endur­gjalds.

2.3 Bifreiðahlunnindi.

Almennt.

Færa skal starfsmanni til tekna umráð hans yfir bifreið launagreiðanda. Á sama hátt skal færa einstaklingi til tekna umráð yfir bifreið í eigu rekstraraðila þótt ekki sé um launagreiðslur að ræða að öðru leyti.

Hafi launagreiðandi bifreið á leigu eða til láns og láti starfsmanni hana í té til umráða skulu þau metin starfsmanninum til tekna á sama hátt og ef bifreiðin væri í eigu launagreiðandans, sbr. það sem hér fer á eftir. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort bifreið er tekin á t.d. rekstrar- eða fjármögn­unar­leigu, eða samkvæmt annars konar greiðslu-/afnotafyrirkomulagi, eða á leigu frá bílaleigu. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða bensín- eða díselbifreið, eða bifreið sem notar aðra orkugjafa.

Greiði starfsmaður launagreiðanda sínum sannanlega fyrir afnot bifreiðarinnar koma slíkar greiðslur til frádráttar tekjumatinu.

Ekki skal telja til skattskyldra bifreiðahlunninda starfsmanna umráð og notkun á bifreiðum sem eru með sérútbúnu öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði og sem jafnan er ekið af sérstökum bifreiða­stjóra.

Full og ótakmörkuð umráð.

Láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fólksbifreið, þ.m.t. skutbifreið, jeppabifreið, eða aðra bifreið sem hægt er að hafa sambærileg not af, til fullra umráða skal meta þau starfsmanni til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni.

Hafi starfsmaður fleiri en eina bifreið frá launagreiðanda sínum til fullra eða ótakmarkaðra umráða samtímis fyrir sig eða fjölskyldu sína skal reikna starfsmanninum til hlunninda umráð hans yfir hverri bifreið fyrir sig.

Eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnar­menn félaga teljast ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota, þ.m.t. skutbifreiðum, jeppabifreiðum, eða öðrum þeim bif­reiðum sem hægt er að hafa sambærileg not af.

Útreikningur bifreiðahlunninda.

Við ákvörðun á fjárhæð fullra bifreiðahlunnindi skal miða við aldur og verð bifreiðar, að með­töldum virðisaukaskatti. Jafnframt þarf að taka tillit til þess hvort bifreið er í eigu launagreiðanda eða hvort hann hefur hana t.d. á rekstrarleigu.

Bifreið í eigu launagreiðanda – keypt 2014 eða síðar.

Ársumráð slíkrar bifreiðar skulu miðast við 28% af upphaflegu kaupverði bifreiðarinnar sam­kvæmt eignaskrá launagreiðandans eða þess sem innir hlunnindin af hendi. Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir kaupár en mest þannig að við­mið­unarverð til útreiknings á bifreiðahlunnindum verði aldrei lægra en 50% af kaupverði hennar.

Dæmi:

Kaupverð bifreiðar á árinu 2019 var 10.000.000 kr. Þegar bifreiðahlunnindi fyrir tekjuárið 2020 eru reiknuð er heimilt að færa kaupverðið niður um 10%. Stofn til útreiknings verður því 9.000.000 kr. á tekjuárinu 2020 og tekjur af hlunnindum miðað við heilt ár verða 28% af þeirri fjárhæð eða 2.520.000 kr. sem svarar til 210.000 kr. á mánuði.

Bifreið í eigu launagreiðanda – keypt 2013 eða fyrr.

Ársumráð slíkrar bifreiðar skulu miðast við 28% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint í bæklingnum Bifreiðaskrá, RSK 6.03, fyrir það ár sem bifreiðin var tekin í notkun. Bifreiðaskrár er að finna á upplýsingavef ríkisskattstjóra, rsk.is. Sé bifreiðin ekki í skránni skal miða við verð á sambærilegum bifreiðum. Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir kaupár en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á bifreiðahlunnindum verði aldrei lægra en 50% af verði hennar.

Dæmi:

Bifreið var tekin í notkun á árinu 2013. Verð hennar samkvæmt bifreiðaskrá 2013 var 8.000.000 kr. Þegar bifreiðahlunnindi fyrir tekjuárið 2020 eru reiknuð er heimilt að færa verðið niður um 10% á ári frá og með árinu 2014 til og með ársins 2020. Niðurfærslan reiknast alltaf af því verði sem útreikningur bifreiðahlunninda var byggður á árið áður, en þó aldrei hærra hlutfall en 50%. Í þessu dæmi verður niðurfærslan því 50% af upphaflega útreikningsverðinu. Stofn til útreiknings verður þannig 4.000.000 kr. og tekjur af hlunnindum miðað við heilt ár verða 28% af þeirri fjárhæð eða 1.120.000 kr. sem svarar til 93.333 kr. á mánuði.

Bifreið sem er ekki í eigu launagreiðanda.

Ársumráð slíkrar bifreiðar skulu miðast við 28% af verði bifreiðarinnar samkvæmt verðlista við­komandi bifreiðaumboðs þegar launagreiðandi fær umráð yfir bifreiðinni, t.d. þann dag sem bif­reið er tekin á leigu. Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir að launagreiðandi fær umráð yfir henni en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á bifreiða­hlunnindum verði aldrei lægra en 50% af verði hennar.

Dæmi:

Bifreið var tekin á leigu á árinu 2015. Verð hennar samkvæmt verðlista bifreiðaumboðsins þegar gengið er frá leigusamningi var 10.000.0000 kr. Þegar bifreiðahlunnindi fyrir tekjuárið 2020 eru reiknuð er heimilt að færa verðið niður um 10% hvert áranna 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020 eða u.þ.b. 41% samtals. Stofn til útreiknings verður því 5.904.900 kr. tekjuárið 2020 og tekjur af hlunn­indum miðað við heilt ár verða 28% af þeirri fjárhæð eða 1.653.372 kr. sem svarar til 137.781 kr. á mánuði.

Ef starfsmaður greiðir sjálfur rekstrarkostnað bifreiðar.

Greiði starfsmaður sjálfur rekstrarkostnað bifreiðar sem hann hefur til umráða skal lækka hlut­fall hlunninda um 6% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint að framan. Með rekstrar­kostnaði í þessu sambandi er átt við eldsneytiskostnað, smurningu, þrif o.þ.h.

Ef um er að ræða bifreið sem eingöngu notar rafmagn sem orkugjafa og starfsmaður hleður bif­reiðina á eigin kostnað, en annar rekstrarkostnaður er greiddur af launagreiðanda, er heimilt að lækka hlutfall hlunninda þannig að miðað sé við 27% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint að framan í stað 28%.

Hlunnindi fyrir hluta úr ári.

Mánaðarleg hlunnindi teljast 1/12 af hlunnindum reiknuðum eins og að framan greinir fyrir hvern byrjaðan mánuð og skal við það miðað ef umráðin vara hluta úr ári.

Dæmi:

Maður fær bifreið til fullra umráða frá launagreiðanda sínum 15. janúar á staðgreiðsluári til 10 júní s.á. Bifreiðahlunnindi reiknast í þessum dæmi í fimm fulla mánuði. Upphafstíminn er 15. janúar og fimmti mánuðurinn hefst 16. maí.  

Bifreið í sameign starfsmanns og launagreiðanda.

Sé bifreið í sameign starfsmanns og launagreiðanda skal, í samræmi við framanritað, telja starfs­manni til hlunninda umráð þess hluta bifreiðarinnar sem er í eigu launagreiðanda.

Takmörkuð afnot.

Hafi starfsmaður haft afnot af bifreið launagreiðanda síns og honum er einungis heimilt að nota hana utan vinnutíma til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og til einstakra tilfallandi afnota telst hann hafa takmörkuð afnot af bifreiðinni, enda sé hún að öðru leyti notuð í daglegum rekstri launa­greiðanda. Takmörkuð afnot skulu metin til tekna miðað við 111 kr. á hvern ekinn kíló­metra. Gögn um takmörkuð afnot skulu greinilega færð og vera aðgengileg skattyfirvöldum hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá starfsmanni. Sé um frekari afnot að ræða telst starfsmaður hafa full umráð bifreiðar eins og greint er frá hér að framan.

Þegar bifreið launagreiðanda er notuð til að koma starfsmönnum milli heimilis og vinnustaðar utan þess tíma sem almenningssamgöngur eru fyrir hendi og kjarasamningar kveða á um slíkt, skal ekki telja þann akstur til skattskyldra tekna starfsmanna. Við þessar aðstæður er heimilt að launa­maður nýti bifreið þessa til aksturs milli heimilis síns og vinnustaðar, enda sé honum jafnframt gert að sækja/skila öðrum starfsmönnum sama launagreiðanda til og frá heimilum þeirra,við upphaf eða lok vinnudags.

2.4 Önnur vélknúin ökutæki.

Færa skal launamanni til tekna umráð hans yfir öðrum vélknúnum ökutækjum launagreiðanda en bifreiðum, s.s. mótorhjólum, torfæruhjólum, vélsleðum, fjórhjólum og öðrum sambærilegum tækjum. Sé um slík umráð að ræða teljast þau ætíð full og ótakmörkuð.

Hafi launagreiðandi vélknúið ökutæki á leigu eða til láns og láti launamanni það í té til umráða skulu þau metin launamanninum til tekna á sama hátt og ef tækið væri í eigu launagreiðandans, sbr. það sem hér fer á eftir.

Greiði launamaður launagreiðanda sínum sannanlega fyrir afnot tækisins koma slíkar greiðslur til frádráttar tekjumatinu.

Útreikningur hlunninda.

Við ákvörðun á fjárhæð hlunninda skal miða við aldur og verð tækis, að meðtöldum virðis­auka­skatti. Jafnframt þarf að taka tillit til þess hvort tækið er í eigu launagreiðanda eða hvort hann hefur það t.d. á rekstrarleigu.

Tæki í eigu launagreiðanda.

Ársumráð tækis skulu miðast við 28% af upphaflegu kaupverði í hendi eiganda. Heimilt er að færa verð tækisins niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir kaupár en mest þannig að viðmið­unarverð til útreiknings á hlunnindum verði aldrei lægra en 50% af kaupverði þess.

Dæmi:

Kaupverð tækis á árinu 2019 var 3.000.000 kr. Þegar hlunnindi fyrir tekjuárið 2020 eru reiknuð er heimilt að færa kaupverðið niður um 10%. Stofn til útreiknings verður því 2.700.000 kr. tekjuárið 2020 og tekjur af hlunnindum miðað við heilt ár verða 28% af þeirri fjárhæð eða 756.000 kr. sem svarar til 63.000 kr. á mánuði.

Tæki sem er ekki í eigu launagreiðanda.

Ársumráð slíks tækis skulu miðast við 28% af verði þess samkvæmt verðlista viðkomandi sölu­aðila þegar launagreiðandi fær umráð yfir tækinu, t.d. þann dag sem tækið er tekið á leigu. Heimilt er að færa verð tækisins niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir að launagreiðandi fær umráð yfir því en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á hlunnindum verði aldrei lægra en 50% af verði þess.

Dæmi:

Tæki var tekið á leigu á árinu 2017. Verð þess samkvæmt verðlista söluaðila þegar gengið er frá leigusamningi var 5.000.0000 kr. Þegar hlunnindi fyrir tekjuárið 2020 eru reiknuð er heimilt að færa verðið niður um 10% hvert áranna 2018, 2019 og 2020, eða sem nemur um 27% samtals. Stofn til útreiknings verður því 3.345.000 kr. og tekjur af hlunnindum miðað við heilt ár verða 28% af þeirri fjárhæð eða 1.020.600 kr. sem svarar til 85.050 kr. á mánuði.

Greiði starfsmaður sjálfur rekstrarkostnað tækis sem hann hefur til umráða skal lækka hlutfall hlunninda um 6% af hlunnindamatsverði þess, sbr. að framan. Með rekstrarkostnaði í þessu sam­bandi er átt við eldsneytiskostnað, smurningu, þrif o.þ.h.

2.5 Hlunnindi af notkun einkaflugvéla.

Telja skal til skattskyldra hlunninda starfsmanns notkun flugvéla (vélknúinna flugtækja) sem launagreiðandi hefur forráð yfir, þ.e. er í eigu launagreiðanda eða aðila honum tengdum, eða hann hefur á leigu frá skyldum eða óskyldum aðila, ef ferð telst vera í einkaþágu starfsmanns, fjölskyldu hans eða annarra aðila á hans vegum. Orlofs- og skemmtiferðir og ferðir sem farnar eru vegna við­burða sem ekki tengjast með beinum hætti starfi í þágu launagreiðanda teljast vera í einkaþágu. Ferðir til og frá starfsstöðvum launagreiðanda bæði innanlands og utan teljast ekki í einkaþágu starfs­manns í þessu sambandi.

Meta skal hlunnindi þessi miðað við 225.000 kr. á hvern byrjaðan flugtíma, nema ef um er að ræða litlar eins hreyfils flugvélar þá skal meta hlunnindin miðað við 20.000 kr. á hvern byrjaðan flugtíma. Með flugtíma í þessu sambandi er átt við þann tíma sem ferð tekur frá því flugvél fer frá stæði á flugvelli þar til hún hefur verið stöðvuð á stæði að ferð lokinni. Sé flugvél látin bíða eftir farþega milli ferða bætist sá tími við flugtíma. Sé flugvél flogið til baka án farþega bætist sá flugtími einnig við flugtíma til útreiknings á hlunnindum.

Það er á ábyrgð launagreiðanda að fylgjast með notkun slíkra flugvéla sem hér um ræðir og reikna hlunnindi af notkun þeirra, eftir því sem efni standa til, og halda eftir staðgreiðslu af þeim hlunnindum, sbr. 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. gr. reglu­gerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með áorðnum breytingum.

2.6 Samgöngugreiðslur.

Ekki skal telja til skattskyldra hlunninda greiðslu launagreiðanda á kostnaði launamanns vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda, ef nýttar eru almennings­samgöngur eða vistvænn samgöngumáti að hámarki samtals 96.000 kr. miðað við starf allt árið eða 8.000 kr. á mánuði og að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

  1. Undirritaður sé formlegur samningur milli launagreiðanda og launamanns um nýtingu á almenningssamgöngum eða vistvænum ferðamáta vegna ferða launamannsins til og frá vinnu sinnar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda. Nýting slíks ferðamáta þarf að vera í sem nemur a.m.k. 80% af heildarfjölda ferða. Nái starfsmaður ekki þessu hlutfalli er heimilt að undanþiggja helming framangreindrar fjárhæðar frá skattskyldu (4.000 kr. á mánuði), enda nemi vistvænar ferðir a.m.k. 40% af heildarfjölda ferða.
  2. Með vistvænum samgöngumáta er átt við að nýttur sé annar ferðamáti en með vélknúnum öku­tækjum samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga. Vélknúið ökutæki, annað en reiðhjól, er ökutæki sem ætlað er til aksturs á landi og er búið aflvél til að knýja það. Undir vistvænan samgöngumáta telst þannig t.d. nýting á reiðhjóli, þ.m.t. með hjálparvél, sbr. skilgreiningu í umferðarlögum, nýting vélknúins hlaupahjóls og ganga en ekki nýting á bifreið.
  3. Séu framangreind skilyrði ekki uppfyllt er alltaf um að ræða skattskyld hlunnindi án frádráttar ef greiðsla er vegna ferða launamanns til og frá vinnu.

2.7 Fæði.

Fæði, sem launagreiðandi lætur starfsmanni og/eða fjölskyldu hans í té endurgjaldslaust, skal metið starfsmanninum til tekna sem hér segir:

  Morgunverður 358 kr.
  Hádegisverður eða kvöldverður 536 kr.
  Fullt fæði á dag 1.429 kr.

Ef um er að ræða börn yngri en 12 ára er heimilt að lækka framangreindar fjárhæðir um fjórðung.

2.8 Íbúðarhúsnæði og orlofshús.

Endurgjaldslaus afnot af íbúðarhúsnæði og orlofshúsnæði sem launagreiðandi lætur starfsmanni í té til umráða skulu metin starfsmanninum til tekna. Skal matið vera sem hér segir:

Árleg afnot skulu metin til tekna sem jafngildi 5% af fasteignamati íbúðarhúsnæðisins (þ.m.t. bílskúr og önnur sérstaklega metin mannvirki á lóð íbúðarhúsnæðis) og lóðar og margfölduð með gildistölu þess svæðis þar sem húsnæðið er, sbr. eftirfarandi:

Gildistala Staðsetning (sveitarfélagsnúmer innan sviga)
   
1,0 Reykjavíkurborg (0000), Seltjarnarnesbær (1100), Mosfellsbær (1604), Kópavogs­bær (1000), Garðabær (1300), Hafnarfjarðarkaupstaður (1400).
   
0,80 Grindavíkurbær (2300), Sandgerðisbær (2503), Sveitarfélagið Garður (2504), Reykjanes­bær (2000), Sveitarfélagið Vogar (2506), Akraneskaupstaður (3000), Akureyrarkaupstaður (6000), Sveitarfélagið Árborg (8200), Hveragerðisbær (8716), Sveitarfélagið Ölfus (8717).
   
0,70 Önnur sveitarfélög.

Endurgjaldslausa orkunotkun (rafmagn og hita) skal telja til tekna á kostnaðarverði.

Fylgi starfi launamanns kvöð um búsetu í húsnæði, sem launagreiðandi lætur honum í té, er ríkis­skattstjóra heimilt að lækka mat húsnæðishlunninda við álagningu opinberra gjalda ef launa­maður telst ekki nýta húsnæðið að fullu. Íbúðarhúsnæði allt að 150 m² að viðbættum 5 m² fyrir hvern íbúa umfram sex telst fullnýtt.

Eigi skal meta til tekna afnot af húsnæði í verbúðum eða vinnubúðum þar sem launamaður dvelur um takmarkaðan tíma í þjónustu launagreiðanda.

Endurgjaldslaus afnot starfsmanns af orlofshúsnæði frá launagreiðanda skulu talin til tekna með 3.500 kr. fyrir hvern dag, sem starfsmaður eða fjölskyldumeðlimir hans hafa húsnæðið til afnota, umfram 10 daga á ári. Afnot í allt að 10 daga á ári teljast ekki til tekna.

Með orlofshúsnæði er í þessu sambandi átt við sumarbústaði og annað það húsnæði sem ætlað er til slíkrar notkunar, þ.m.t. íbúðir í þéttbýli, sem og hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagnar og aðrir tengi­vagnar.

Ekki skal telja til tekna starfsmanns greiðslu frá launagreiðanda, eða eftir atvikum stéttarfélagi, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við leigu á orlofshúsnæði eða með öðrum hætti til greiðslu á orlofsdvöl, að því marki sem slík greiðsla fer ekki yfir 55.000 kr. á ári. Skilyrði er að starfsmaður leggi fram fullgilda og óvefengjanlega reikninga fyrir greiðslu á kostnaði vegna orlofsdvalar þessarar.

2.9 Heilsurækt.

Ekki skal telja til tekna starfsmanns greiðslu frá launagreiðanda, eða eftir atvikum stéttarfélagi, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við íþróttaiðkun og aðra heilsurækt að því marki sem slík greiðsla fer ekki yfir 60.000 kr. á ári. Skilyrði er að starfsmaður leggi fram fullgilda og óvefengjanlega reikninga fyrir greiðslu á viðkomandi kostnaði. Með kostnaði við íþróttaiðkun og heilsurækt er átt við greiðslu á aðgangi að líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og skíðasvæðum, greiðslu á æfingagjöldum í íþróttasali og félagsgjöldum í golfklúbba sem og þátttökugjöld vegna annarrar hreyfingar sem stunduð er með reglubundnum hætti. Einnig fellur hér undir kostnaður við aðra heilsurækt eins og t.d. jóga og annar sambærilegur kostnaður, þ.m.t. kostnaður vegna endur­hæfingar sem er sambærileg og önnur íþróttaiðkun.

2.10 Lán.

Telja skal til skattskyldra tekna mismun á vöxtum af lánum sem fengin eru hjá launagreiðanda, eða fyrir milligöngu hans, ef þeir eru lægri en þeir vextir sem birtir eru af Seðlabanka Íslands í sam­ræmi við 10. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Miða skal við stöðu láns í byrjun hvers mánaðar og almenna vexti þess mánaðar eins og þeir eru birtir í töflu á heimasíðu Seðlabanka Íslands, „bankavextir og dráttarvextir“, og reikna staðgreiðslu opinberra gjalda á þann hátt mánaðar­lega. Eftir atvikum skal miða við almenna vexti af verðtryggðum eða óverðtryggðum lánum. Sama á við um greiðslufresti og afborganir af kaupum á hlutabréfum eða öðrum eignum.

3. Frádráttur vegna ökutækjastyrks og dagpeninga.

3.1 Frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk.

Frá ökutækjastyrk, sem launamaður skal færa til tekna, heimilast til frádráttar tiltekinn kostnaður á hvern ekinn kílómetra í þágu launagreiðanda. Aldrei leyfist hærri fjárhæð til frádráttar en talin er til tekna sem ökutækjastyrkur. Skilyrði fyrir frádrættinum er að fyrir liggi skriflegur afnotasamningur þar sem aksturserindum er skilmerkilega lýst og að færð hafi verið akstursdagbók eða aksturs­skýrsla, þ.m.t. á rafrænu formi, þar sem skráð er hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturs­erindi, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglu­gerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Einnig þarf að liggja fyrir hver heildarakstur bifreiðar er á hverju ári. Færa skal þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengi­leg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Sé um að ræða greiðslu vegna tilfallandi aksturs í þágu launagreiðanda allt að 500 km á ári er heimilt að færa frádrátt án þess að fyrir liggi skriflegur afnota­samn­ingur en skráning á akstrinum þarf að vera fyrir hendi, sbr. framangreind skilyrði.   

Ef greiddur er ökutækjastyrkur samkvæmt sundurliðuðum gögnum, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með áorðnum breytingum, skal heimilt að halda honum utan staðgreiðslu ef fjárhæð greiðslu fyrir hvern ekinn kílómetra fer ekki umfram kostnað samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins á hverjum tíma, miðað við hæstu fjár­hæðir.

Til frádráttar í skattframtali heimilast fjárhæð sem tekur mið af heildarakstri í þágu launagreið­anda. Frádráttur er ákvarðaður miðað við hver heildarakstur hefur verið í þágu launagreiðanda og þá fjárhæð sem gildir á því akstursbili, sbr. töflu að neðan. Frádráttur verður þó aldrei lægri fjárhæð en orðið hefði ef akstur hefði numið hámarksakstri samkvæmt akstursbilinu fyrir framan. Hafi akstur t.d. numið 1.010 km skal miða frádrátt við 108 kr. á hvern km, en þó aldrei lægri fjárhæð en 111.000 kr. (þ.e. 1.000 km margfaldað með 111 kr.) Eftirfarandi fjárhæðir heimilast til frádráttar á móti greiðslum frá launagreiðanda vegna akstur í hans þágu miðað við hvern ekinn kílómetra:

Akstur í þágu
launagreiðanda
Frádráttur á hvern
ekinn kílómetra
0-1.000 km 111 kr.
1.001-2.000 km 109 kr.
2.001-3.000 km 107 kr.
3.001-4.000 km   94 kr.
4.001-5.000 km   92 kr.
5.001-6.000 km   90 kr.
6.001-7.000 km   88 kr.
7.001-8.000 km   87 kr.
8.001-9.000 km   85 kr.
9.001-10.000 km   83 kr.
10.001-11.000 km   79 kr.
11.001-12.000 km   77 kr.
12.001-13.000 km   75 kr.
13.001-14.000 km   73 kr.
14.001-15.000 km   71 kr.
15.001 og meira   66 kr.

Hafi maður fengið greitt sérstakt gjald vegna aksturs á vegum þar sem ekki er bundið slitlag eða torfærugjald vegna aksturs á vegslóðum sem ekki eru færir fólksbílum er heimilt að óska eftir að frádráttur verði 15% hærri í fyrrnefnda tilvikinu og 45% hærri í síðarnefnda tilvikinu vegna þess aksturs, þó aldrei hærri fjárhæð en greidd var fyrir hvern ekinn kílómetra.

Akstur launamanns á milli heimilis hans og venjulegs vinnustaðar telst ekki í þágu launa­greiðanda. Aki launamaður hins vegar beint frá heimili sínu til annars vinnustaðar en hins venjulega að beiðni launagreiðanda getur verið heimilt að færa frádrátt á móti greiðslum fyrir slík afnot ökutækis, enda séu þau afnot af ökutæki launamanns beinlínis tengd starfi hans en ekki fólgin í því einu að komast á vinnustað.

Reiknuð árleg afskrift einkabifreiðar sem jafnframt er nýtt í þágu rekstrar skal nema 735.000 kr. Afskrift slíks ökutækis sem notað er hluta úr ári reiknast hlutfallslega miðað við notkunartíma.

3.2 Frádráttur á móti dagpeningum.

Frádráttur á móti dagpeningum sem launamaður hefur fengið greidda frá launagreiðanda sínum er heimill, enda hafi dagpeningarnir verið greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðandans utan venjulegs vinnustaðar og launamaðurinn sannanlega greitt gistingu samkvæmt reikningi og fæði og annan ferðatengdan kostnað, svo sem fargjöld að og frá flugvöllum. Frádrátturinn er jafnframt háður því skilyrði að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launamanni, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga, svo og nafn og kennitala launa­manns. Fái launamaður greidda dagpeninga frá lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar hafa ráðandi stöðu þurfa jafnframt ætíð að liggja fyrir reikningar um kostnað vegna ferðalaga í þágu launagreiðandans. Frádráttur getur aldrei numið hærri fjárhæð en þeim kostnaði nemur sem sannað er að sé ferðakostnaður í þágu launagreiðandans.

Ef greiddir eru dagpeningar, ferðapeningar og hliðstæður ferða- og dvalarkostnaður, sbr. 2. gr. reglu­gerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með áorðnum breyt­ingum, skal heimilt að halda þeim greiðslum utan staðgreiðslu ef fjárhæðin fer ekki umfram kostnað samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins á hverjum tíma, hvort heldur er um að ræða ferðir innanlands eða utan.

Að uppfylltum framangreindum skilyrðum er leyfilegur frádráttur frá greiddum dagpeningum á árinu 2020 að hámarki sama fjárhæð og nemur ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins á hverjum tíma um greiðslu dagpeninga, hvort heldur er um að ræða ferðir innanlands eða utan eða ferðir þar sem greiddir eru skertir dagpeningar, s.s. vegna þjálfunar, náms eða eftirlitsferða. Nemi dagpeninga­greiðsla launagreiðanda lægri fjárhæð en ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins segir til um skal frádráttur þó að hámarki vera sama fjárhæð og greiðslunni nemur. Nemi dagpeningagreiðsla hærri fjár­hæð en ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins segir til um ber viðtakanda greiðslunnar að sundurliða hana í skattframtali sínu og telst sá hluti greiðslunnar sem umfram er til skattskyldra tekna viðkomandi.

Frá tekjum manna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er heimilt, í stað þess að ferða­kostnaður annar en gisti- og fæðiskostnaður erlendis sé dreginn frá samkvæmt reikningi, að draga frá fasta fjárhæð, sem nemur 30% af þeim hluta dagpeninga sem er vegna annars kostnaðar en gistingar samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins hverju sinni.

3.3 Vinna erlendis.

Sé dvöl launamanns erlendis vegna tímabundinna almennra starfa þar á vegum íslensks launa­greiðanda eiga reglur í tölulið 3.2 um frádrátt á móti dagpeningum vegna ferðalaga ekki við en honum er þá heimilt að draga frá sérgreindum greiðslum, sem hann kann að hafa fengið vegna uppihalds, fjárhæð sem nemur 30 SDR á dag allt að einu ári, í stað þess að færa til frádráttar fæðiskostnað samkvæmt reikningi. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þó launamaður komi í stuttar heimsóknir hingað til lands á umræddu tímabili.

4. Frádráttur vegna fósturs barna.

Ef framteljandi hefur fengið greiðslur vegna barna sem sett eru í fóstur hjá honum af barna­verndarnefnd eða meðferðarstofnunum ber að tekjufæra þær greiðslur. Færa má til frádráttar sannan­legan kostnað sem beint tengist þessum greiðslum. Einnig má færa, í stað sannanlegs kostnaðar, frá­drátt sem svarar til tvöfalds barnalífeyris vegna hvers barns, en þó aldrei hærri fjárhæð en greiðslunum nemur. Sé tekið fram í samningi milli sveitarfélags og framteljanda að greiðslur vegna fósturbarns miðist við að framfærslukostnaður barnsins teljist vera hærri en nemur tvöföldum barnalífeyri er heimilt að færa umsamda fjárhæð vegna framfærslu til frádráttar í stað sannanlegs kostnaðar. Þessar reglur eiga þó ekki við þegar um er að ræða reglubundna starfsemi sem felst í að taka börn í fóstur frá barnaverndarnefnd eða meðferðarstofnunum. Þá skal telja greiðslur til tekna sem rekstrartekjur og rekstrarkostnað til frádráttar eftir almennum reglum þar um.

5. Frádráttur vegna dagvistunar eða sumardvalar barna.

Greiðslur vegna dagvistunar barna og sumardvalar á að gera upp sem rekstrartekjur. Til frádráttar má færa rekstrarkostnað eftir almennum reglum þar um. Þó má í stað frádráttar sem byggist á sannan­legum kostnaði færa til frádráttar 224 kr. fyrir hvern veittan morgunverð eða síðdegis­hressingu og 446 kr. fyrir hvern veittan hádegis- eða kvöldverð. Vegna 12 ára barna og eldri er þó heimilt að færa til frádráttar 291 kr. fyrir hvern veittan morgunverð eða síðdegis­hressingu og 580 kr. fyrir hvern hádegis­verð eða kvöldverð. Slíkur frádráttur má þó aldrei vera hærri en innheimt var fyrir fæði sam­kvæmt gjaldskrá.

Í stað sannanlegs viðhaldskostnaðar húsnæðis og húsbúnaðar, kostnaðar vegna hreinlætisvara, föndurvara, bóka, bifreiðakostnaðar, gæsluvallagjalda o.þ.h. má færa til frádráttar á móti öðrum tekjum en vegna fæðissölu, 25% af þeim tekjum. Ef um sumardvöl er að ræða má færa til frádráttar 20% af tekjum án fæðissölu, enda sé um gistingu að ræða. Slíkur frádráttur má þó aldrei vera hærri fjárhæð en innheimt er vegna þessara liða samkvæmt gjaldskrá.

6. Frádráttur hjá stuðningsfjölskyldum fatlaðra barna.

Greiðslur til stuðningsfjölskyldna fatlaðra barna teljast að fullu til skattskyldra tekna en á móti má færa beinan kostnað vegna umönnunar og dvalar barnanna. Í stað sannanlegs kostnaðar má færa frádrátt eftir sömu reglum og samkvæmt kafla 5 að framan. Sé um kostnað að ræða sem leiðir af sér­þörfum barnsins vegna fötlunar má færa þann kostnað til frádráttar, auk frádráttar samkvæmt skatt­mati þessu, enda sé gerð sérstök grein fyrir honum.

7. Frádráttur vegna vistunar aldraðra og öryrkja.

Greiðslur vegna vistunar aldraðra eða öryrkja í heimahúsum teljast að fullu til skattskyldra tekna en á móti má færa beinan kostnað sem af vistuninni leiðir. Í stað sannanlegs kostnaðar er heimilt að færa til frádráttar á móti greiðslum fjárhæð sem svarar til tvöfalds ellilífeyris (grunnlífeyris), en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur greiðslunum. Þessi regla á þó ekki við ef um er að ræða atvinnu­rekstur. Þá skal telja greiðslur til tekna sem rekstrartekjur og rekstrarkostnað til frádráttar eftir almennum reglum þar um.

8. Fæðisfrádráttur hjá launagreiðanda.

Launagreiðendur sem ekki færa sérreikning yfir fæðiskostnað launamanna sinna mega draga frá tekjum sínum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi 1.429 kr. fyrir hvern heilan fæðisdag sem þeir láta launamönnum sínum í té fæði án endurgjalds. Sama gildir um fæði sem launagreiðandi lætur fjölskyldu launamannsins í té án endurgjalds, enda séu hlunnindi þessi talin launamanni til tekna, sbr. kafla 2.7.

Reykjavík, 11. desember 2019.

Snorri Olsen ríkisskattstjóri.


B deild - Útgáfud.: 23. desember 2019