Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 42/2016

Nr. 42/2016 3. júní 2016

LÖG
um breyt­ingu á lög­um um gjald­eyr­is­mál, lög­um um meðferð krónu­eigna sem háðar eru sér­stök­um tak­mörk­un­um og lög­um um sér­stak­an skatt á fjármála­fyr­ir­tæki (fjár­streym­istæki til að draga úr neikvæðum áhrif­um fjár­magnsinn­streym­is).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu: 

I. KAFLI

Breyt­ing á lög­um um gjald­eyr­is­mál, nr. 87/1992, með síðari breyt­ing­um.

1. gr.

    Við 13. gr. m laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Heimilt er að endurfjárfesta fjármuni sem losna við sölu eða uppgreiðslu nýfjárfestingar sem upp­fyllir skilyrði 2., 3. og 4. mgr.
    Fjárfestir skal, með aðstoð fjármálafyrirtækis hér á landi, tilkynna um endurfjárfestingu til Seðla­banka Íslands skv. 6. mgr. innan viku frá því að hún var gerð. Tilkynningu skulu fylgja gögn sem stað­festa að fjárfesting uppfylli ákvæði 6. mgr.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Seðlabanka Íslands er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að setja reglur sem kveða á um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris í tengslum við:

  1. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri eða sem ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri.
  2. Innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnunum hér á landi aðrar en þær sem eru tilkomnar vegna fjármuna sem eru endurfjárfestanlegir skv. 13. gr. e eða 13. gr. f eða sem falla undir 13. gr. l eða 13. gr. m, þó ekki ef þær eru til komnar vegna 5. tölul. þessarar máls­greinar.
  3. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m í hlutdeildarskírteinum sjóða sem fjárfesta í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri eða eiga innstæður í innlendum gjaldeyri.
  4. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m í eigin fé fyrirtækis sem eru gerðar í þeim tilgangi að fjárfesta, beint eða óbeint, í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri eða sem ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri.
  5. Lánveitingar til innlends aðila sem nýttar eru til fjárfestinga í innlendum gjaldeyri í þágu lánveitanda í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri eða ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri. Hið sama á við um slíkar lánveitingar sem nýttar eru til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum sjóða eða í eigin fé fyrirtækis sem fjárfest eða ráðstafað er, beint eða óbeint, með þeim hætti sem lýst er í 1. málsl.

    Skyldu til bindingar reiðufjár skal uppfylla með því að ráðstafa bindingarfjárhæð inn á bundinn reikning hjá innlánsstofnun hér á landi. Bindingarhlutfall af bindingargrunni ákvarðar bindingar­fjárhæð. Innlánsstofnun skal innan sama viðskiptadags leggja fjárhæð sem samsvarar allri bindingar­fjárhæð skv. 1. málsl. á bundinn reikning hjá Seðlabanka Íslands. Bindingu reiðufjár lýkur þegar bindingar­tími er liðinn, óháð því hvort nýtt innstreymi erlends gjaldeyris sem myndar bindingar­grunn hefur verið losað með sölu eða endurgreiðslu. Úttektir af bundnum reikningum eru óheimilar á bindingar­tíma. Innlegg á bundna reikninga innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands skulu háð sama bindingartíma og samsvarandi bindingarfjárhæð. Óheimilt er að veðsetja bindingar­fjárhæð og innlán innlánsstofnana á bundnum reikningum hjá Seðlabanka Íslands.
    Í reglum skv. 1. mgr. skal kveða nánar á um framkvæmd bindingar reiðufjár, þar á meðal um:

  1. bindingartíma, bindingarhlutfall og vexti á bundnum reikningum innlánsstofnana hjá Seðla­banka Íslands, sbr. 3. málsl. 2. mgr.,
  2. uppgjörsmynt bindingarfjárhæðar og samsvarandi fjárhæðar á bundnum reikningum innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands.

    Bindingarhlutfall má nema allt að 75% og bindingartími má vera allt að fimm ár. Ákvarðanir Seðlabanka Íslands um bindingarhlutfall, bindingartíma og vexti skulu grundvallast á lögbundnum markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjár­mála­stöðugleika.
    Í reglum skv. 1. mgr. er heimilt að kveða á um mismunandi bindingartíma, bindingarhlutfall, uppgjörs­mynt og vexti eftir tegund fjármuna sem mynda bindingargrunn.
    Brot gegn ákvæði þessu og reglum settum á grundvelli þess varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.

II. KAFLI

Breyt­ing á lög­um um meðferð krónu­eigna
sem háðar eru sér­stök­um tak­mörk­un­um, nr. 37/2016.

3. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þær aflandskrónueignir sem undanþegnar eru 3. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál, vegna flutnings úr vörslum erlends lögaðila til innláns­stofnunar eða vörsluaðila hér á landi, á grundvelli bréflegrar umsóknar sem Seðlabanki Íslands hefur móttekið fyrir gildistöku laga þessara.

4. gr.

    Við 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna bætist: þátttöku í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands 2016, millifærslna milli reikninga með innstæður skv. a-lið 1. tölul. 2. gr. og fjárfestinga í fjár­mála­gerningum samkvæmt undanþágulista útgefnum af Seðlabanka Íslands, sbr. heimild í 4. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál, eftir 23. maí 2016.

5. gr.

    Á eftir orðunum „til að nýta til“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: gjaldeyrisviðskipta í gjaldeyris­útboði Seðlabanka Íslands árið 2016 eða til.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:

  1. Við 1. mgr. bætist: og fjármálagerningum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem tilgreindir eru á fjárfestingarlista Seðlabanka Íslands skv. 5. mgr.
  2. Í stað orðanna „skulu varðveitt“ í 3. mgr. kemur: og aðrir fjármálagerningar skv. 1. mgr. skulu varðveittir.
  3. Á eftir orðunum „Seðlabanka Íslands“ í 4. mgr. kemur: og öðrum fjármálagerningum skv. 1. mgr.
  4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
        Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða á hverjum tíma þá fjármálagerninga, útgefna í innlendum gjaldeyri, sem eigendur innstæðna skv. 1. mgr. geta fjárfest í. Fjármálagerningar skv. 1. málsl. skulu tilgreindir á sérstökum fjárfestingarlista og skal hann birtur á vef Seðla­bankans.
  5. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Heimild til fjárfestinga í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands og fjármálagerningum útgefnum í innlendum gjaldeyri.

III. KAFLI

Breyt­ing á lög­um um sér­stak­an skatt á fjármála­fyr­ir­tæki,
nr. 155/2010, með síðari breyt­ing­um.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Heimilt er að draga frá skattstofni skv. 3. gr. skuldir skattskylds aðila sem nemur heildarfjárhæð bindingarfjárhæða samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögum um gjaldeyrismál.

IV. KAFLI

Gild­istaka.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirt­inga­blað öðlast lögin gildi við birtingu.

Gjört á Bessastöðum, 3. júní 2016.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Bjarni Benediktsson.


A deild - Útgáfud.: 3. júní 2016