Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 465/2016

Nr. 465/2016 17. maí 2016

VERKLAGSREGLUR
um starfsemi fagráðs eineltismála í grunnskólum.

1. gr.

Gildissvið.

Verklagsreglur þessar eru gefnar út í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, sbr. 4. mgr. 30. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, og taka til starfsemi fagráðs eineltismála í grunnskólum. Fagráðið starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 1040/2011, en er sjálfstætt í störfum sínum hvað varðar málsmeðferð og afgreiðslu einstakra mála. Samkvæmt 7. gr. reglu­gerðarinnar geta aðilar skólasamfélagsins (foreldrar og forráðamenn nemanda, nemandi, starfs­fólk skóla, stjórnendur skóla), auk annarra aðila sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tóm­stunda­starfi, óskað eftir aðkomu fagráðs ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn, innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga. Sömu aðilar geta jafnframt vísað máli til fagráðs vegna meints aðgerðaleysis skóla eða sveitar­félags.

2. gr.

Hlutverk fagráðs eineltismála í grunnskólum.

Fagráð eineltismála í grunnskólum hefur einkum tvíþætt hlutverk varðandi mál sem því berast og uppfylla framangreind skilyrði tilvitnaðrar reglugerðar. Í fyrsta lagi verður ráðið stuðningsaðili við skólasamfélagið, sem meðal annars getur falist í almennri ráðgjöf, leiðbeiningum eða upp­lýs­inga­gjöf. Í öðru lagi skal ráðið leitast við að ná fullnægjandi úrlausn í eineltismálum, sé þess nokkur kostur, og gefa út ráðgefandi álit í máli á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga er ráðinu berast í tilteknu máli.

3. gr.

Skipan fagráðs.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar fagráð eineltismála í grunnskólum. Það skal skipað þremur aðalmönnum og þremur varamönnum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við úrlausn samskiptavanda og eineltis.

4. gr.

Starfshættir fagráðs.

Fagráðið skal hafa fasta fundartíma, a.m.k. tvisvar í mánuði og oftar ef þurfa þykir. Fagráðið skal svo fljótt sem auðið er bregðast við einstökum málum og skulu niðurstöður liggja fyrir eins fljótt og unnt er.

Ef ráðið telur að ekki liggi fyrir nægilega greinargóðar upplýsingar skal það afla þeirra gagna og upplýsinga sem það telur nauðsynleg til að upplýsa málið.

Fagráðið skoðar, út frá hagsmunum nemanda, sjálfstætt þau mál sem því berast og ákvarðar hvort það telur að viðkomandi mál eigi undir það á grundvelli 1. gr. verklagsreglna þessara.

Verkefnisstjóri starfar með fagráði og sinnir tilteknum verkefnum sem fagráð felur honum, s.s. að boða til og undirbúa fundi þess. Verkefnisstjóri tekur ekki þátt í formlegri afgreiðslu einstakra mála, og ber ekki ábyrgð á málsmeðferð eða ráðgefandi áliti fagráðs. Verkefnisstjóri skráir sérstaklega öll mál sem berast ráðinu í tölvuskrá og kannar á grundvelli 1. gr. verklagsreglna þessara hvort mál hafi hlotið viðeigandi málsmeðferð eða hvort foreldrar eða aðrir þeir aðilar skólasamfélagsins sem vísa máli til fagráðsins séu ósáttir við þá málsmeðferð sem mál hefur fengið hjá skólayfirvöldum og sérfræðiþjónustu sveitarfélags. Verkefnisstjóri vísar þeim málum sem ekki uppfylla skilyrðin að höfðu samráði við fagráð til réttra aðila allt eftir eðli máls. Fagráðið hefur samráð við þar til bæra sérfræðinga eftir því sem þörf krefur við úrlausn mála. Í málsmeðferð sinni gætir ráðið að reglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Álit fagráðsins eru ráðgefandi og endanleg. Ráðið skal afla upplýsinga um stöðu máls með formlegum hætti innan árs. Séu málsaðilar ósáttir við úrlausn máls getur fag­ráðið tekið málið upp aftur, að beiðni aðila máls, telji það tilefni til þess á grundvelli 24. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993.

5. gr.

Vísun máls til fagráðs.

Foreldrar og aðrir aðilar skólasamfélagsins, svo sem nemendur, starfsfólk og stjórnendur grunn­skóla auk annarra aðila sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- og tómstundastarfi, geta vísað til fagráðs eineltismálum sem þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og sérfræðiþjónustu sveitar­félaga hefur ekki tekist að leysa. Tilvísun eða beiðni um að taka mál fyrir í ráðinu skal fylgja greinar­gerð ásamt afritum af gögnum málsins. Ef foreldrar treysta sér ekki til að senda inn skriflegar greinargerðir um viðkomandi mál þá skal verkefnisstjóri skrá niður málavexti, annaðhvort með sím­tali eða bjóða upp á viðtal.

6. gr.

Meðferð upplýsinga og gagna.

Við meðferð og öflun persónuupplýsinga skal fagráðið gæta þess að þær séu unnar með sann­gjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga samkvæmt fyrirmælum laga nr. 77/2000 um persónu­vernd og meðferð persónuupplýsinga og lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014 með áorðnum breyt­ingum. Gæta skal þess að upplýsingar sem aflað er séu viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsyn­legt er miðað við tilgang þeirra og að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum.

7. gr.

Skipunartími fagráðs og þóknun.

Fagráð skal skipa til þriggja ára í senn. Fagráð skal skila greinargerð til ráðuneytisins um starfsemi sína fyrir lok hvers árs. Um þóknun fyrir störf í fagráðinu er greitt samkvæmt ákvörðun ráðu­neytis­ins.

8. gr.

Vanhæfi.

Um mögulegt vanhæfi þeirra sem sitja í fagráði gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

9. gr.

Gildistaka.

Verklagsreglur þessar eru settar skv. 7. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skóla­samfélags­ins í grunnskólum nr. 1040/2011, sbr. 4. mgr. 30. gr. laga nr. 91/2008 um grunn­skóla, og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi fyrri verklagsreglur um starfsemi fagráðs eineltis­mála í grunn­skólum frá 6. mars 2012.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 17. maí 2016.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 31. maí 2016