Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 552/2016

Nr. 552/2016 1. júní 2016

STARFSREGLUR
fyrir svæðisskipulagsnefnd Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar.

1. gr.

Dalabyggð, Reykhólahreppur og Strandabyggð hafa komið á fót svæðisskipulagsnefnd sem hefur það hlutverk að vinna tillögu að svæðisskipulagi fyrir sveitarfélögin, fjalla um breytingar á því og annast lögbundna endurskoðun. Nefndin starfar í umboði og undir yfirstjórn hlutaðeigandi sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 22. gr. skipulagslaga.

Markmið með gerð svæðisskipulagsins er að móta og festa í sessi sameiginlega framtíðarsýn á þróun svæðisins í þeim tilgangi að styrkja atvinnulíf og byggð.

2. gr.

Sveitarstjórnir Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar skipa tvo fulltrúa hver í nefndina og jafnmarga til vara.

Hver fulltrúi, sbr. 1. mgr., fer með eitt atkvæði á fundum.

Ef sveitarstjórar eru ekki kjörnir fulltrúar í svæðisskipulagsnefnd er þeim heimilt að sitja fundi nefndarinnar, með málfrelsi og tillögurétt án atkvæðisréttar, sbr. 2. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Svæðisskipulagsnefnd er heimilt að bjóða öðrum að sitja einstaka fundi nefndarinnar eða taka þátt í vinnslu afmarkaðra þátta vinnunnar, eftir því sem nefndin telur best þjóna viðfangsefnum sínum hverju sinni.

3. gr.

Svæðisskipulagsnefndin kýs sér formann og varaformann. Nefndin kýs sér jafnframt ritara úr sínum hópi eða felur starfsmönnum eða ráðgjöfum nefndarinnar að rita fundargerðir og annast tilheyrandi frágang og utanumhald nefndarstarfsins.

Meðan svæðisskipulagið er í gildi skal svæðisskipulagsnefnd skipuð að loknum hverjum sveitar­stjórnar­kosningum. Fulltrúar þess sveitarfélags sem síðast fór með formennsku í nefndinni boða til fyrsta fundar hennar að loknum sveitarstjórnarkosningum.

4. gr.

Hlutverk svæðisskipulagsnefndar er tvíþætt. Annars vegar vinnur nefndin svæðisskipulag fyrir sveitarfélögin þrjú. Nefndin annast vinnslu, kynningu og afgreiðslu svæðisskipulagsins og umhverfis­mats þess undir yfirstjórn viðkomandi sveitarstjórna. Hins vegar, eftir staðfestingu svæðis­skipulags­ins, er hlutverk nefndarinnar að sjá um framfylgd, breytingar og endurskoðun á svæðis­skipulag­inu. Í starfi sínu tekur svæðisskipulagsnefnd mið af landsskipulagsstefnu auk mark­miða svæðisskipulagsins sjálfs og þróunar í sveitarfélögunum.

Skipulagsákvarðanir svæðisskipulagsnefndar eru háðar samþykki allra hlutaðeigandi sveitarstjórna.

5. gr.

Vinna svæðisskipulagsnefndar felst m.a. í því sem hér segir. Nefndin tekur saman lýsingu á skipulags­verkefninu í upphafi svæðisskipulagsvinnunnar, sbr. 1. mgr. 23. gr. skipulagslaga, þ.m.t. lýsing á umfangi og nákvæmni upplýsinga í umhverfisskýrslu, sbr. 6. gr. laga um umhverfismat áætl­ana. Nefndin leitar samþykkis sveitarfélaganna á lýsingunni. Að því loknu kynnir nefndin lýs­ing­una opinberlega og leitar samhliða umsagna Skipulagsstofnunar og valinna umsagnaraðila. Síðan vinnur nefndin svæðisskipulagstillögu og umhverfisskýrslu í samræmi við fyrirliggjandi lýsingu.

Nefndin kynnir svæðisskipulagstillögu ásamt umhverfisskýrslu fyrir almenningi, leggur hana fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir til samþykktar og sendir hana að því loknu til athugunar hjá Skipulags­stofnun. Að lokinni athugun Skipulagsstofnunar er tillagan auglýst í samræmi við ákvæði 24. gr. skipulagslaga og gefinn frestur til athugasemda.

Sama málsmeðferð á við þegar um breytingu á svæðisskipulagi er að ræða.

6. gr.

Á vinnslutíma svæðisskipulagstillögunnar skal halda fundi í svæðisskipulagsnefnd eftir því sem þörf krefur, að jafnaði þó eigi sjaldnar en á 2ja mánaða fresti. Eftir staðfestingu svæðisskipulags fundar nefndin eftir þörfum. Þó skal nefndin koma saman að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum og meta hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið og tilkynna Skipulagsstofnun um niður­stöðu sína, sbr. 26. gr. skipulagslaga.

Telji nefndin þörf á endurskoðun svæðisskipulags gerir hún rökstudda tillögu um það til hlutað­eigandi sveitarfélaga. Samþykki allra sveitarfélaga þarf áður en ráðist verður í endurskoðun svæðis­skipulags.

Fundargerðir eru ritaðar á fundum svæðisskipulagsnefndar og staðfestar af fundarmönnum á fundi eða í kjölfar hans. Fundargerðir eru sendar hlutaðeigandi sveitarstjórnum sem leggja þær fram til afgreiðslu á næsta fundi sveitarstjórnanna.

Formaður nefndarinnar, eða starfsmaður nefndarinnar fyrir hans hönd, boðar til funda með a.m.k. þriggja daga fyrirvara. Tillaga að dagskrá fylgir fundarboði. Boðun með tölvupósti er fullgild, en ganga skal eftir staðfestingu nefndarmanna um mætingu.

Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað og formaður eða varaformaður og helmingur nefndarmanna eru viðstaddir. Leitast skal við að ná samkomulagi um ákvarðanir og afgreiðslur svæðisskipulagsnefndarinnar. Takist það ekki ræður afl atkvæða. Þó getur nefndin ekki ályktað um mál sem varða sérstaklega hagsmuni eins sveitarfélags að fulltrúum þess fjarstöddum.

7. gr.

Sveitarfélögin ráða skipulagsráðgjafa til að stýra vinnu við gerð svæðisskipulagsins og sinna annarri nauðsynlegri ráðgjöf henni tengdri. Gerður skal skriflegur samningur við ráðgjafa. Kostnaður vegna svæðisskipulagsins greiðist af sveitarfélögunum í hlutfalli við íbúafjölda og með framlagi Skipulagssjóðs, í samræmi við samþykkta þátttöku sjóðsins, sbr. 2. tl. 1. mgr. 18. gr. skipulagslaga. Meðan svæðisskipulagstillaga er í vinnslu skal greiðsluskipting milli sveitarfélaga miða við íbúafjölda 1. janúar 2016 og síðan 1. janúar ár hvert þar til tillagan hefur verið staðfest.

Hvert sveitarfélag greiðir kostnað vegna þátttöku sinna fulltrúa í svæðisskipulagsnefnd, s.s. nefndarlaun og ferðakostnað.

Árlegur kostnaður vegna starfa nefndarinnar eftir gildistöku svæðisskipulags skiptist milli sveitarfélaganna í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar viðkomandi árs. Kostnaður vegna breytinga sem afmarkast við einstök sveitarfélög, undirbúningur þeirra og kynning, greiðist, eftir staðfestingu svæðisskipulagsins, af viðkomandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum sameiginlega þegar við á, í samræmi við íbúafjölda. Ekki er gert ráð fyrir að vinnuframlag stofnana sveitarfélaganna, s.s. vegna gagnaöflunar og samræmingarvinnu, verði reikningsfært heldur beri hvert sveitarfélag kostnað vegna þess.

8. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt 4. mgr. 9. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum, hafa einnig hlotið samþykki sveitarstjórna allra hlutaðeigandi sveitarfélaga og öðlast þegar gildi.

1. júní 2016.

Sveinn Pálsson, sveitarstjóri Dalabyggðar.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps. 

Jón Gauti Jónsson, oddviti Strandabyggðar.


B deild - Útgáfud.: 22. júní 2016