1. gr. Persónulegir talsmenn. Lögráða einstaklingar sem vegna fötlunar sinnar eiga erfitt með að gæta hagsmuna sinna eiga rétt á að velja persónulegan talsmann sér til aðstoðar. Persónulegur talsmaður skal þekkja til persónulegra þarfa og áhugamála þess einstaklings sem hann aðstoðar. Allar ráðstafanir persónulegs talsmanns skulu vera í samráði og með samþykki þess sem hann aðstoðar og með hagsmuni hans að leiðarljósi. 2. gr. Samkomulag um persónulegan talsmann. Fatlaður einstaklingur og persónulegur talsmaður skulu gera með sér samkomulag þar sem fram kemur að hinn fyrrnefndi feli persónulegum talsmanni að aðstoða sig í málum sem varða hann og þjónustu við hann. Samkomulag getur tekið til allra þeirra atriða sem talin eru í 3. gr. eða hluta þeirra. Í því skal einnig koma fram til hvaða fjárhagslegra ráðstafana samkomulagið tekur þannig að ljóst sé hvað persónulegur talsmaður megi annast í nafni hins fatlaða einstaklings. Geti fatlaður einstaklingur ekki undirritað samkomulag eða tjáð vilja sinn með einhverjum hætti, eða þá að ljóst sé að fatlaður einstaklingur skilji ekki hvað felst í samkomulaginu, getur réttindagæslumaður undirritað samkomulag fyrir hans hönd. Slíkt samkomulag nær þó ekki til þess að stofna til fjárskuldbindinga í nafni hins fatlaða einstaklings. Persónulegur talsmaður getur þó á grundvelli slíks samkomulags annast þá fjárumsýslu sem nauðsynleg er í daglegu lífi einstaklings og séð um hefðbundin dagleg útgjöld. Í samkomulagi skal skýrlega tilgreina bankareikning í eigu hins fatlaða einstaklings sem persónulegur talsmaður hefur aðgang að í því skyni. Þá getur persónulegur talsmaður, á grundvelli slíks samkomulags, undirritað umsókn um þjónustu og bætur og annast það sem nauðsynlegt er til þess að hinn fatlaði fái þá þjónustu eða bætur. Hinn fatlaði einstaklingur getur hvenær sem er afturkallað umboð persónulegs talsmanns samkvæmt samkomulaginu og skal réttindagæslumaður aðstoða hann við það komi fram ósk þess efnis. Þá getur réttindagæslumaður með samþykki hins fatlaða einstaklings afturkallað umboð persónulegs talsmanns, í samráði við réttindavakt ráðuneytisins, telji hann viðkomandi ekki gegna skyldum sínum gagnvart hinum fatlaða einstaklingi. Persónulegur talsmaður getur hvenær sem er sagt sig frá samkomulaginu með skriflegri tilkynningu til réttindagæslumanns og þess sem hann hefur aðstoðað. 3. gr. Hlutverk persónulegs talsmanns. Persónulegur talsmaður aðstoðar fatlaðan einstakling á grundvelli samkomulags þeirra á milli og þá einkum við eftirfarandi: Persónulegur talsmaður skal styðja fatlaðan einstakling við að taka sjálfstæðar ákvarðanir og aðstoða hann við að átta sig á þeim valkostum sem hann hefur í hvert sinn. Þjónustuveitendur og aðrir skulu ávallt kalla til persónulegan talsmann, með hinum fatlaða einstaklingi, þegar verið er að ræða málefni sem varða hagsmuni, heilsu og velferð hans. Persónulegur talsmaður er hinum fatlaða einstaklingi innan handar varðandi persónuleg málefni og styður hann við undirbúning upplýstrar ákvörðunar, svo sem um heilbrigðisþjónustu, val á búsetu, atvinnu, tómstundum o.fl. Persónulegur talsmaður skal fylgjast með að fatlaður einstaklingur fái viðeigandi tilboð um tómstundir og fái notið tækifæra til starfsþróunar og símenntunar. Persónulegur talsmaður skal sjá til þess að afþreying, hlutir og annað sem hann velur fyrir hönd hans sé í samræmi við áhugamál og smekk viðkomandi eftir því sem framast er unnt. Persónulegur talsmaður skal hafa aðgang að upplýsingum um sameiginlega sjóði sem hinn fatlaði einstaklingur greiðir í vegna reksturs heimilis og húsnæðis. Hinn fatlaði einstaklingur á rétt á því að persónulegur talsmaður sitji húsfundi og aðra fundi þar sem ákveðið er hvernig slíkum fjármunum skuli ráðstafað. Persónulegur talsmaður getur aðstoðað hinn fatlaða einstakling við ráðstöfun fjármuna vegna daglegra útgjalda og skal þá taka fram í samkomulagi hversu víðtækt umboðið er að þessu leyti, sbr. 2. gr.
4. gr. Fræðsla fyrir persónulega talsmenn. Persónulegir talsmenn skulu í upphafi starfs síns fá fræðslu um innihald og áherslur í starfi sínu. Þar skal einkum fjallað um hugmyndafræði valdeflingar og sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, grunnþætti velferðarkerfisins, þá þjónustu sem er í boði fyrir fatlað fólk, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og hlutverk þeirra. Þá skal réttindavakt ráðuneytisins bjóða persónulegum talsmönnum upp á reglulega fræðslu á starfstíma þeirra. Réttindavakt ráðuneytisins skal útbúa fræðsluefni fyrir persónulega talsmenn og er heimilt að semja við hagsmunasamtök fatlaðs fólks um að annast fræðsluna í samvinnu við réttindagæslumenn. 5. gr. Skyldur persónulegra talsmanna og eftirlit með störfum þeirra. Persónulegur talsmaður sem fer með fjárumsýslu fyrir fatlaðan einstakling samkvæmt samkomulagi skal halda bókhald yfir tekjur og útgjöld hins fatlaða einstaklings. Réttindagæslumaður getur hvenær sem er óskað eftir að skoða bókhald sem persónulegur talsmaður heldur fyrir hönd hins fatlaða einstaklings. Þegar persónulegur talsmaður hættir að aðstoða fatlaðan einstakling skal hann afhenda hinum fatlaða einstaklingi bókhald og önnur gögn sem hann hefur undir höndum vegna aðstoðar sinnar. Réttindagæslumaður skal yfirfara bókhald með fötluðum einstaklingi og persónulegum talsmanni hans eigi sjaldnar en árlega. Réttindagæslumenn skulu halda skrá um persónulega talsmenn á sínu svæði og hafa eftirlit með störfum þeirra. 6. gr. Endurgreiðsla á útlögðum kostnaði persónulegs talsmanns. Ráðuneytið endurgreiðir persónulegum talsmönnum sannanlegan kostnað sem þeir bera af störfum sínum fyrir fatlaðan einstakling. Greitt er fyrir eftirfarandi: Launatap. Ferðakostnað eða akstur samkvæmt akstursdagbók. Gistikostnað og annan kostnað sem sannanlega fellur til vegna aðstoðar við hinn fatlaða einstakling.
7. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 9. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, tekur þegar gildi. Velferðarráðuneytinu, 6. nóvember 2012. Guðbjartur Hannesson. Sveinn Magnússon. |