Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1022/2009

Nr. 1022/2009 11. desember 2009
REGLUR
um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands.

1. gr.

Almennt.

Hugvísindastofnun er rannsóknastofnun sem starfrækt er við Háskóla Íslands og heyrir undir hugvísindasvið. Hún er miðstöð rannsókna á fræðasviðinu og aðrar rann­sókna­stofnanir þess og stofur starfa innan vébanda hennar.

2. gr.

Hlutverk.

Hlutverk Hugvísindastofnunar er:

 1. að vera samstarfsvettvangur rannsókna innan hugvísindasviðs og styðja rann­sókna­samstarf við innlenda og erlenda fræðimenn,
 2. að stuðla að þróun og eflingu rannsókna og rannsóknaumhverfis á hug­vísinda­sviði, með rannsóknahagsmuni aðildarstofnana og einstakra kennara að leiðarljósi,
 3. að sinna ráðgjöf og aðstoð á vettvangi hugvísindasviðs, m.a. við öflun styrkja, skipu­lag, mótun og stjórnun rannsóknaverkefna, ráðstefnu- og fundahald og útgáfu,
 4. að stýra ráðstefnum og útgáfu sem stjórn stofnunarinnar ákveður að efna til, þ.m.t. Hugvísindaþingi,
 5. að útvega aðstöðu, eftir því sem unnt er og í samvinnu við aðildarstofnanir, fyrir styrkþega, starfsmenn rannsóknaverkefna, nemendur í rannsóknanámi og gistifræðimenn á vegum sviðsins, og stuðla að tengslum og samstarfi þeirra við fræðimenn sviðsins,
 6. að annast skrifstofuhald og þjónustu við rannsóknastofnanir og stofur Hug­vísinda­stofnunar.

Verkefnum sínum og hlutverki skal stofnunin sinna í samvinnu við hlutaðeigandi rann­sókna­stofnanir og stjórnsýslu hugvísindasviðs eftir því sem við á, en jafnframt í sam­vinnu við aðrar stofnanir innan og utan Háskóla Íslands.

3. gr.

Aðstaða.

Hugvísindasvið lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað, eftir því sem kostur er.

4. gr.

Skipulag stofnunarinnar.

Innan vébanda Hugvísindastofnunar starfa einstakar stofnanir og stofur sem sinna rann­sóknum á hugvísindasviði. Þær skiptast annars vegar í grunnstofnanir sviðsins og sjálf­stæðar rann­sókna­stofnanir með heimilisfesti á hugvísindasviði, sem eiga fulltrúa í stjórn Hugvísindastofnunar, og hins vegar í rannsóknastofur sem komið er á fót innan einstakra stofnana.

Grunnstofnanir og aðrar rannsóknastofnanir með heimilisfesti á hugvísindasviði eru faglega sjálfstæðar og starfa samkvæmt starfsreglum sem stjórn Hugvísindastofnunar setur að fengnu samþykki stjórnar fræðasviðsins. Starfsreglurnar skulu birtar á heima­síðu Hugvísindastofnunar og/eða hugvísindasviðs.

Allir fastráðnir kennarar hugvísindasviðs eiga meginaðild að einni grunnstofnun á fagsviði sínu og hafa þar atkvæðisrétt, óháð því hvort þeir eigi einnig aðild að öðrum grunn­stofnunum, sjálfstæðum rannsóknastofnunum og/eða rannsóknastofum. Grunn­stofnunum er heimilt að veita fastráðnum kennurum innan sama rannsóknasviðs, sem starfa á öðrum fræðasviðum háskólans, sem og samstarfsaðilum utan skólans, gesta­aðild að stofnuninni, eftir því sem nánar er kveðið á um í starfsreglum þeirra.

Grunnstofnanir Hugvísindastofnunar eru:

 1. Bókmennta- og listfræðastofnun,
 2. Guðfræðistofnun,
 3. Heimspekistofnun,
 4. Málvísindastofnun,
 5. Sagnfræðistofnun,
 6. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Hugvísindastofnun og grunnstofnanir, í samráði við stjórn Hugvísindastofnunar, geta einnig komið á fót rannsóknastofum sem sinna tilteknum rannsóknaverkefnum, rann­sókna­sviði eða samstarfi, samkvæmt starfsreglum sem stjórn viðkomandi stofnunar setur þeim.

Fleiri en ein stofnun á hugvísindasviði, stofnanir og starfsfólk annarra fræðasviða háskólans eða stofnanir utan háskólans geta átt aðild að rannsóknastofum.

Stjórn Hugvísindastofnunar og stjórn grunnstofnunar geta ákveðið að leggja niður rann­sókna­stofu, t.d. þegar því rannsóknaverkefni er lokið sem stofunni var ætlað að sinna.

Ákvarðanir um að koma á fót, hýsa eða loka rannsóknastofnunum eru háðar staðfestingu stjórnar hugvísindasviðs.

Stjórnsýsla Hugvísindastofnunar er hluti af skrifstofu hugvísindasviðs. Forseti fræða­sviðsins er stjórnarformaður Hugvísindastofnunar og yfirmaður stofnunarinnar. Rekstrar­stjóri hugvísindasviðs kemur fram sem yfirmaður starfsmanna stofnunarinnar í umboði forseta hugvísindasviðs og skipuleggur tengsl hennar við aðra starfsemi skrif­stofunnar.

5. gr.

Aðild.

Aðild að Hugvísindastofnun eiga prófessorar, dósentar, lektorar, þ.m.t. erlendir sendi­kennarar og aðjunktar við hugvísindasvið, sérfræðingar og nýdoktorar sem fá aðstöðu hjá Hugvísindastofnun og doktorsnemar sem skráðir eru í nám á hugvísindasviði. Auk þeirra geta aðrir fræðimenn, innan eða utan háskólans, tengst einstökum stofnunum eða rannsóknastofum. Slík tengsl fela ekki í sér sjálfkrafa aðild að Hugvísindastofnun.

6. gr.

Stjórn.

Forseti hugvísindasviðs skipar stjórn Hugvísindastofnunar og er hún skipuð eins og hér segir:

 1. einum fulltrúa frá hverri rannsóknastofnun sbr. 4. gr. og skulu þeir valdir á fundum hlutaðeigandi stofnana, til þriggja ára í senn,
 2. einum fulltrúa nemenda sem skráðir eru í doktorsnám á hugvísindasviði, kosnum af félagi doktorsnema á hugvísindasviði til eins árs í senn,
 3. forseta hugvísindasviðs, sem jafnframt er formaður stjórnar.

Hver tilnefningaraðili, sbr. a og b lið 1. mgr., tilnefnir tvo, einn karl og eina konu til að taka sæti í stjórn. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Formaður stjórnar skipuleggur starf stofnunarinnar í samvinnu við stjórn og starfsmenn og kemur fram fyrir hennar hönd.

7. gr.

Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar, eða starfsmaður í umboði hans, boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara hið minnsta, ef því er við komið.

Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef einn eða fleiri af deildarforsetum sviðsins eða rektor ber fram slíka ósk og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt.

Fastir starfsmenn stofnunarinnar skulu að jafnaði sitja fundi stjórnar, og hafa þeir þar málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns.

Fundargerðir skulu birtar á heimasíðu Hugvísindastofnunar.

8. gr.

Verkefni stjórnar.

Stjórn fjallar um öll sameiginleg málefni stofnunar, ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart forseta fræðasviðs, semur fjárhagsáætlun og gerir tillögu til forseta fræðasviðs um fjárveitingar og skiptingu þeirra ásamt skiptingu annarra tekna. Stjórn sker úr vafaatriðum er upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunar.

Stjórn efnir til ársfundar sem skal að jafnaði halda á öðrum ársfjórðungi, og leggja þar fram ársskýrslu og fjárhagsyfirlit síðasta árs. Ársfundur er jafnframt vettvangur umræðu um rannsóknastefnu sviðsins og um rekstur og starfsemi stofnunarinnar. Ársfundinn sitja þeir sem aðild eiga að stofnuninni, sbr. 5. gr.

Stjórn Hugvísindastofnunar gegnir hlutverki vísindanefndar hugvísindasviðs.

9. gr.

Starfslið.

Fastráðnir starfsmenn Hugvísindastofnunar bera ábyrgð á daglegu starfi hennar, í samræmi við starfslýsingu þeirra og í samráði við formann stjórnar og rekstrarstjóra sviðsins. Fastráðnir starfsmenn taka einnig þátt í stefnumótun með stjórn stofnunarinnar, í samræmi við starfslýsingu þeirra.

Um ráðningu starfsfólks fer eftir ákvæðum sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands.

10. gr.

Fjármál o.fl.

Tekjur Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

 1. framlag frá hugvísindasviði,
 2. styrkir til einstakra verkefna,
 3. greiðslur fyrir þjónustu við umfangsmikil verkefni, t.d. hlutdeild í styrkjum,
 4. greiðslur fyrir aðra þjónustustarfsemi,
 5. tekjur af útgáfustarfsemi,
 6. aðrar tekjur, t.d. framlög frá Háskóla Íslands, styrkir frá hinu opinbera eða einka­aðilum, gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjár­lögum.

Tekjur sínar notar Hugvísindastofnun til eigin rekstrar, í sameiginlega sjóði stofnunarinnar og til að skapa rannsóknastofnunum fjárhagslegan grundvöll. Forstöðumenn aðildar­stofnana bera ábyrgð á fjármálum þeirra gagnvart stjórn Hugvísindastofnunar og forseta hugvísindasviðs.

Reikningshald Hugvísindastofnunar, aðildarstofnana hennar og rannsóknastofa skal vera hluti af reikningshaldi háskólans í umsjón rekstrarstjóra hugvísindasviðs.

Hugvísindastofnun, stofnunum og stofum sem innan hennar starfa, er heimilt að taka að sér þjónustuverkefni gegn gjaldi. Hugvísindastofnun greiðir í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands ákveðið hlutfall af öllum tekjum af þjónustuverkefnum samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

Veiti Hugvísindastofnun þjónustu í frjálsri samkeppni við atvinnustarfsemi annarra aðila skal sú starfsemi stofnunarinnar afmörkuð frá öðrum rekstri. Gæta ber að þeim ákvæðum samkeppnislaga sem banna niðurgreiðslu samkeppnisrekstrar með opinberu fé. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

11. gr.

Gildistaka

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett að fenginni tillögu stjórnar hugvísindasviðs og á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast gildi 1. janúar 2010. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 281/2006, um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, reglur nr. 731/2001, um Guðfræðistofnun Háskóla Íslands, með síðari breytingum og reglur nr. 737/2001 um Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, með síðari breytingum.

Háskóla Íslands, 11. desember 2009.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 22. desember 2009