Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 970/2012

Nr. 970/2012 8. nóvember 2012
REGLUGERÐ
um sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk.

1. gr.

Skipun sérfræðiteymisins.

Velferðarráðherra skal skipa allt að sjö manns í sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk. Fulltrúar teymisins skulu búa yfir sér­þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og þekkingu og reynslu af aðgerðum til að koma í veg fyrir beitingu nauðungar. Ráðherra skipar formann og varaformann úr þeirra hópi.

Í teyminu skulu sitja einstaklingar með menntun á sviðum fötlunarfræði, þroska­þjálfa­fræði, læknisfræði og sálfræði. Heimilt er að skipa í teymið einstaklinga með annars konar menntun enda uppfylli viðkomandi skilyrði 1. mgr.

Ráðuneytið skal sjá teyminu fyrir starfsmanni sem hefur umsjón með innkomnum erindum, safnar nauðsynlegum gögnum og tekur á móti tilkynningum skv. 5. gr.

2. gr.

Upphaf máls.

Telji forstöðumaður eða annar þjónustuveitandi að starfsemi hans feli í sér nauðung eða að aðstæður séu fyrir hendi sem leitt gætu til beitingar nauðungar, skal hann hafa samband við sérfræðiteymið og óska eftir ráðgjöf. Telji persónulegur talsmaður, rétt­inda­gæslumaður eða hinn fatlaði einstaklingur sjálfur að hann sé beittur nauðung getur hann leitað til sérfræðiteymisins enda hafi forstöðumaður eða þjónustuveitandi ekki gert það að eigin frumkvæði.

Þegar mál berst teymi fer formaður yfir málsatvik og ákveður hvaða fulltrúar þess skuli koma að málinu. Formaður metur eftir atvikum máls hverju sinni hversu marga fulltrúar teymisins hann telur þörf á að taki þátt í meðferð málsins og hvaða þekkingu þeir þurfi að búa yfir.

Að lágmarki skulu þrír fulltrúar teymisins koma að hverju máli og skal formaðurinn vera einn þeirra. Sé mál sérstaklega flókið, til dæmis vegna sjaldgæfra eða flókinna fatlana, og formaður metur það svo að sérþekkingu sé ekki að finna innan teymisins getur hann óskað eftir aðstoð sérfræðinga á viðkomandi sviði.

3. gr.

Ráðgjöf og leiðbeiningar.

Eftir að formaður hefur úthlutað málinu til fulltrúa teymisins skulu þeir eins fljótt og því verður við komið funda með forstöðumanni eða þjónustuveitanda og hinum fatlaða einstaklingi og/eða persónulegum talsmanni hans. Jafnframt skulu þeir afla nauðsynlegra upplýsinga og gagna sem málið varða og kynna sér hagi þess einstaklings sem um ræðir. Þá skulu þeir greina upplýsingar um samskipti viðkomandi við aðra íbúa eða samstarfsmenn ef það á við. Teymið skal athuga aðstæður á heimili hins fatlaða einstaklings, sérstaklega fjölda starfsmanna og samskipti þeirra við hann. Þá skal einnig kannað hvort upplýsingum til hans sé komið til skila á þann veg sem hann skilur og hversu mikið tillit er tekið til óska viðkomandi. Loks skal teymið koma með ábendingar um úrbætur og aðgerðir sem komið geta í veg fyrir að beita þurfi viðkomandi nauðung.

Teymið skal vera þjónustuveitendum innan handar við þróun einstaklingsáætlana og aðgerða til að koma í veg fyrir beitingu nauðungar.

4. gr.

Umsagnir um beiðnir um undanþágur.

Reynist ráðgjöf og leiðbeiningar ekki nægjanlegar til að koma í veg fyrir að beita þurfi nauðung og forstöðumaður eða annar þjónustuveitandi metur það svo að nauðsynlegt sé að óska eftir undanþágu frá banni við beitingu nauðungar skv. 12. gr. laga nr. 88/2011, skal sérfræðiteymið veita forstöðumanni eða þjónustuveitanda umsögn sína. Í henni skal koma fram til hvaða aðgerða hefur verið gripið, ráðgjöf sú sem teymið veitti vegna máls og hvernig staðið var að framkvæmd tillagna teymisins. Þá skal einnig koma fram mat teymisins á aðstæðum í viðkomandi máli og hvernig það telji að haga skuli aðgerðum þannig að þær feli í sér sem minnsta skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti hins fatlaða einstaklings.

5. gr.

Tilkynningar um beitingu nauðungar.

Sérfræðiteymið ber ábyrgð á því að taka við tilkynningum um beitingu nauðungar vegna þeirra einstaklinga sem veitt hefur verið undanþága. Skal teymið fylgjast með hvort aðgerðir þær sem veitt hefur verið heimild til að beita séu til þess fallnar að ná markmiði því sem stefnt var að. Telji teymið að aðgerðir séu ekki til þess fallnar að ná markmiðinu getur það komið með ábendingar um úrbætur eða óskað eftir að undanþágunefnd, sbr. 15. gr. laga nr. 88/2011, taki málið upp að nýju.

Teymið tekur einnig við tilkynningum um nauðung sem beitt er í neyðartilvikum í sam­ræmi við 13. gr. laga nr. 88/2011. Berist teyminu fleiri en þrjár tilkynningar um beit­ingu sambærilegrar nauðungar í neyðartilvikum vegna sama einstaklings skal teymið hafa samband við viðkomandi þjónustuveitanda og bjóða fram aðstoð sína.

6. gr.

Þagnarskylda.

Fulltrúar teymisins skulu gæta þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn í starfinu og leynt eiga að fara vegna persónulegra hagsmuna hins fatlaða einstaklings og almannahagsmuna. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 14. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 6. nóvember 2012.

Guðbjartur Hannesson.

Sveinn Magnússon.

B deild - Útgáfud.: 19. nóvember 2012