Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1055/2013

Nr. 1055/2013 27. nóvember 2013
­REGLUR
um lausafjárhlutfall o.fl.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til lánastofnana og samstæðna lánastofnana og ná bæði til lausa­fjár­hlutfalls í erlendum gjaldmiðlum og samtals.

2. gr.

Skilgreiningar og orðskýringar.

Í reglum þessum merkir:

  1. Aðilar í fjármálastarfsemi: Aðilar sem eru undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins sam­kvæmt 2. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, erlendir aðilar sem eru háðir sambærilegu eftirliti þar sem þeir eru með lögheimili, eignar­haldsfélög á fjármálasviði, sbr. 4. mgr. 97. gr. laga nr. 161/2002 um fjármála­fyrirtæki, og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi, sbr. 6. mgr. 97. gr. laga nr. 161/2002.
  2. Afleiða: Samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhverra þátta á tilteknu tímabili, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs, verðbréfa­vísitölu, ávöxtunarkröfu eða hrávöruverðs, þar með talið en þó ekki eingöngu valréttarsamningur, vaxtaskiptasamningur, gjaldeyrisskiptasamningur og fram­virkur samningur.
  3. Erlendur aðili: Einstaklingar og lögaðilar með lögheimili erlendis.
  4. Fjármálafyrirtæki: Aðilar sem hafa starfsleyfi samkvæmt 6. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
  5. Innlán: Til innlána teljast í reglum þessum fjárhæðir sem bindiskyldur aðili skuldar viðskiptavinum aðrar en þær sem tilkomnar eru vegna útgáfu framseljanlegra skuldaskjala.
  6. Innlendur aðili: Einstaklingar og lögaðilar með lögheimili á Íslandi.
  7. Lausafjárfyrirgreiðsla: Samningur um fjármögnun þar sem sá fyrirvari er gerður að einungis megi nýta fjármögnun ef ekki reynist hægt að endurfjármagna markaðsfjármögnun mótaðila á gjalddaga.
  8. Lausafjárhlutfall: Með lausafjárhlutfalli er átt við hlutfall lausafjáreigna, sbr. ákvæði III. kafla, og lausafjárút- og innstreymis, sbr. kafla IV og V, skipt eftir íslenskum krónum, erlendum gjaldmiðlum og samtals. Lausafjárhlutfall er reiknað fyrir íslenskar krónur, erlenda gjaldmiðla og samtals.
  9. Lánastofnun: Viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar og aðrar lánastofnanir sem starfa samkvæmt lögum, og ber að uppfylla reglur Seðlabanka Íslands um bindiskyldu, nú reglur nr. 373/2008.
  10. Lánsheimild: Samningur um fjármögnun sem ekki er lausafjárfyrirgreiðsla.
  11. Lánshæfiseinkunn: Með lánshæfiseinkunn er í reglum þessum átt við láns­hæfis­einkunn til langs tíma frá alþjóðlega viðurkenndu lánshæfismatsfyrirtæki (e. external credit assessment institution, ECAI), en lánshæfiseinkunn til skamms tíma sé langtímaeinkunn ekki til staðar. Séu lánshæfiseinkunnir ekki samhljóða, skal nota staðalaðferð fyrir viðmið á lánshæfiseinkunn, sbr. 7. gr. reglna Fjár­mála­eftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjár­mála­fyrirtækja.
  12. Lítil og meðalstór fyrirtæki: Fyrirtæki flokkast sem lítil eða meðalstór í reglum þessum ef þau uppfylla skilyrði 17. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja ef að auki innlán og önnur fjármögnun frá fyrirtækinu og samstæðu þess er undir viðmiðunarmörkum samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007.
  13. Opinbert fyrirtæki: Fyrirtæki sem rekið er af opinberum aðilum, þ.e. ríki og/eða sveitarfélögum.
  14. Samstæða lánastofnunar: Með samstæðu lánastofnunar er átt við móðurfélag, sem er lánastofnun, og dótturfélög, sem móðurfélagið er annaðhvort alfarið eða að stærstum hluta eigandi að hlutum í og fer með yfirráð í á grundvelli meiri hluta atkvæða.
  15. Viðskiptavinir á fjármálamarkaði: Aðilar í fjármálastarfsemi, einingar um sér­verkefni á sviði verðbréfunar (e. securitisation special purpose entities, SSPE) og sjóðir um sameiginlega fjárfestingu (e. collective investment undertakings, CIU).
  16. Virk útlán: Lánssamningur lánastofnunar við einstakling eða lögaðila sem er í fullum skilum og án sértækrar virðisrýrnunar (e. fully performing).

II. KAFLI

Laust fé og lausafjárhlutfall.

3. gr.

Mat á lausu fé.

Til lauss fjár lánastofnunar í reglum þessum teljast bæði lausar eignir í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum.

Lánastofnun skal kappkosta að eiga nægt laust fé til að mæta greiðsluskuldbindingum sínum. Laust fé skal flokkað eftir neðangreindum sjö tímabilum:

  1. Laust innan þrjátíu daga.
  2. Laust eftir þrjátíu daga til allt að þriggja mánaða.
  3. Laust eftir þrjá mánuði til allt að sex mánaða.
  4. Laust eftir sex mánuði til allt að tólf mánaða.
  5. Laust eftir tólf mánuði til allt að þrjátíu og sex mánaða.
  6. Laust eftir þrjátíu og sex mánuði til allt að sextíu mánaða.
  7. Laust eftir sextíu mánuði.

Lausafjárhlutfall eins og það er skilgreint í reglum þessum skal reiknað mánaðarlega á grundvelli upplýsinga í lok hvers mánaðar samkvæmt sérstökum skýrslum sem skilað er til Seðlabankans, sbr. nánar 20. gr.

4. gr.

Lágmark lausafjárhlutfalla.

Lausafjárhlutfall lánastofnunar skal á hverjum tíma eigi vera lægra en 1 fyrir 1. tl. 2. mgr. 3. gr. í erlendum gjaldmiðlum annars vegar og samtals hins vegar. Sé lánastofnun ekki með vegið útflæði í erlendum gjaldmiðlum næstu 30 daga samkvæmt IV. kafla, eða vegið útflæði í erlendum gjaldmiðlum er bæði undir kr. 100.000.000 (krónur eitt hundrað milljónir) og ekki umfram 10% af vegnu heildarútflæði samkvæmt IV. kafla, nægir að vegið innflæði í erlendum gjaldmiðlum sé umfram vegið útflæði auk þess sem lausa­fjárhlutfall sé eigi lægra en 1 samtals. Lánastofnun skal einnig gera grein fyrir kröfum og skuldbindingum fyrir önnur tímabil, þ.e. samkvæmt 2.-7. tl. 2. mgr. 3. gr.

Auk lausafjárhlutfalls samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skal einnig reikna lausafjárhlutfall fyrir næstu þrjá mánuði og fylgjast með þróun þessara hlutfalla við mat á lausafjáráhættu lánastofnunar. Telji Seðlabankinn lausafjáráhættu lánastofnana gefa tilefni til, getur hann aukið við þær kröfur sem gerðar eru í 1. mgr. 4. gr. varðandi lausafjárhlutfall.

Lánastofnun skal færa allar fjárhæðir í milljónum íslenskra króna en greint niður á íslenskar krónur, evrur, Bandaríkjadali og aðra gjaldmiðla. Við útreikning skal umreikna fjárhæðir miðað við miðgengi íslensku krónunnar samkvæmt síðustu opinberu gengis­skráningu Seðlabankans í viðkomandi mánuði. Allar fjárhæðir eru færðar án vægis.

Komi til þess að lánastofnun sé, eða fyrirsjáanlegt er að hún verði, innan næstu sex mánaða, undir því lágmarki sem sett er í 1. mgr. 4. gr. skal hún án tafar tilkynna Seðlabankanum um það með skriflegum hætti þar sem ástæður þess eru tilgreindar með fullnægjandi hætti. Viðkomandi lánastofnun skal enn fremur leggja fram tímasetta áætlun um hvernig hún hyggst ná því lágmarki lausafjárhlutfalls sem sett er í 1. mgr. 4. gr.

III. KAFLI

Lausar eignir.

5. gr.

Almennt.

Lánastofnun skal færa eignaliði í skýrslur eins og nánar er tilgreint í leiðbeiningum með reglum þessum, sbr. 24. gr., að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fram í þessari grein.

Lausar eignir skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Eignir eru undir stjórn þeirrar einingar lánastofnunar sem er ábyrg fyrir lausa­fjár­stýringu. Sú eining skal hafa rétt og getu til að selja eignina.
  2. Eignin má ekki vera gefin út af lánastofnuninni sjálfri eða samstæðu sem hún tilheyrir eða af eiganda aðila í fjármálastarfsemi innan samstæðunnar.
  3. Verðbréf skulu uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
    1. Viðskipti skulu vera með bréfin á skipulegum markaði.
    2. Verð bréfanna skal vera augljóst eða auðvelt að reikna virði bréfanna.
    3. Þau skulu vera tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga eða á sambærilegum markaði utan EES.
    4. Þau skulu vera veðhæf í seðlabanka.
  4. Verðbréf, önnur en sértryggð skuldabréf og verðbréf með ábyrgð ríkis, sveitar­félaga eða opinberra fyrirtækja, skulu ekki vera gefin út af aðila í fjár­mála­starfsemi.
  5. Eignir mega ekki vera veðsettar og skulu vera kvaðalausar að öðru leyti.

Eignir skulu færðar á markaðsvirði. Ef lánastofnun hefur varið sig gegn verðbreytingum á eign með afleiðusamningi, skal aðlaga markaðsvirði eignarinnar miðað við útflæði sem yrði af því að loka slíkri stöðu.

Óheimilt er að tvítelja innflæði og lausar eignir.

Ef eign uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir lausar eignir samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 5. gr. er lánastofnun samt sem áður heimilt að telja hana áfram með lausum eignum næstu þrjátíu daga. Komi til þess að lausafjáreign lánastofnunar teljist ekki lengur uppfylla skilyrði samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 5. gr. skal lánastofnun tilkynna Seðlabankanum um slíkt og skila yfirliti yfir hverja þá eign sem hér fellur undir ásamt markaðsvirði hennar á meðan heimild er nýtt til að telja eignina til lausra eigna lánastofnunar.

6. gr.

Eignir.

Eftirtaldar kröfur í eigu lánastofnunar skulu teljast til lausafjárkrafna að uppfylltum skil­yrðum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. og falla undir 1. tl. 2. mgr. 3. gr.:

Lausafjáreignir, stig 1: Eftirfarandi eignaliðir hafa 100% vægi:

  1. Sjóður.
  2. Laus innlán í seðlabönkum.
  3. Verðbréf útgefin af eða með ábyrgð íslenska ríkisins, opinberra fyrirtækja og sveitar­félaga í íslenskum krónum.
  4. Verðbréf með 0% áhættuvog samkvæmt staðalaðferð í V. kafla reglna Fjár­mála­eftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármála­fyrirtækja, útgefin af eða með ábyrgð ríkis, sveitarfélaga, seðlabanka, Alþjóða­gjaldeyrissjóðsins, opinberra fyrirtækja, Alþjóðagreiðslubankans, Seðla­banka Evrópu eða alþjóðlegra þróunarbanka.

Lausafjáreignir, stig 2A: Eftirfarandi eignaliðir hafa 85% vægi:

  1. Verðbréf með 20% áhættuvog samkvæmt staðalaðferð í V. kafla reglna Fjár­mála­eftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjár­mála­fyrirtækja, útgefin af eða með ábyrgð ríkis, sveitarfélaga, seðlabanka, Alþjóða­gjaldeyrissjóðsins, opinberra fyrirtækja, Alþjóðagreiðslubankans, Seðla­banka Evrópu eða alþjóðlegra þróunarbanka.
  2. Skuldabréf fyrirtækja með lánshæfiseinkunn að lágmarki AA-.
  3. Sértryggð skuldabréf með lágmarkseinkunn AA-.

Lausafjáreignir, stig 2B:

  1. Verðbréf tryggð með fasteignaveðlánum, sem gefin eru út í samræmi við lög nr. 33/2013 um neytendalán, með lágmarkseinkunn AA, skulu hafa 75% vægi.
  2. Skuldabréf fyrirtækja með lánshæfiseinkunn milli A+ og BBB- skulu hafa 50% vægi.
  3. Hlutabréf skráðra félaga, annarra en aðila í fjármálastarfsemi, skulu hafa 0% vægi.

Lausar eignir 2A og 2B, sbr. 3. og 4. mgr. 6. gr., skulu aldrei vera umfram 40% af heildar lausum eignum reiknað með vægi. Lausar eignir 2B, sbr. 4. mgr. 6. gr. skulu aldrei vera umfram 15% af heildar lausum eignum, reiknað með vægi.

7. gr.

Upplýsingaliðir.

Að auki skal í skýrslur telja eignir til upplýsinga með 0% vægi:

  1. Sértryggð skuldabréf útgefin af íslenskri lánastofnun, önnur en þau sem talin eru í 3. mgr. 6. gr.
  2. Skuldabréf íslenskra lögaðila með lánshæfiseinkunn frá alþjóðlega viðurkenndu lánshæfismatsfyrirtæki, önnur en þau sem talin eru upp í 6. gr. og 1. tl. 7. gr.
  3. Önnur verðbréf en þau sem koma fram að ofan og eru veðhæf í seðlabanka.
  4. Bindifjárhæð til tryggingar í greiðslu- og uppgjörskerfum.

IV. KAFLI

Útflæði.

8. gr.

Almennt.

Lánastofnun skal færa útflæði í skýrslur á tímabil, sbr. 1.-7. tl. 2. mgr. 3. gr., eins og nánar er tilgreint í leiðbeiningum með reglum þessum, sbr. 24. gr.

9. gr.

Innlán og fjármögnun án trygginga.

Innlánsskuldbindingar lánastofnunar skulu teljast til lausafjárskuldbindinga. Telja skal innlán sem eru laus til útgreiðslu innan næstu þrjátíu daga og þau innlán sem eru bundin til lengri tíma en útgreiðsla væri möguleg án verulegs kostnaðar fyrir innlánseigandann og falla þau undir 1. tl. 2. mgr. 3. gr. Önnur innlán eru færð á tímabil, sbr. 2.-7. tl. 2. mgr. 3. gr., eftir binditíma innlánanna.

Fjárhæðir innlána færast ásamt áföllnum vöxtum. Einungis skal telja þau innlán sem ekki eru veðsett.

Innlendir aðilar:

  1. Innlán einstaklinga eru talin með 5% vægi að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum, en geti lánastofnun ekki greint innlán einstaklinga, sbr. skilyrði í a. og b. liðum 1. tl. 3. mgr. 9. gr., skal flokka öll innlán þessara aðila með 10% vægi. Lánastofnun skal skila Seðlabankanum árlega skilgreiningum og forsendum að baki flokkunar innlána á milli 1. og 2. tl. 3. mgr. 9. gr. og í hvert sinn sem breyting verður á þessum skilgreiningum og forsendum.
    1. Innlán skulu vera að fullu tryggð af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    2. Einungis skal telja innlán frá viðskiptavinum sem eiga í viðskiptasambandi við lánastofnunina sem gera úttekt innlána ólík­lega, þ.e. viðskiptavinur er með innlán á launareikningum eða veltureikningum eða innlánseigendur hafa sögu um viðskiptasamband við bankann.
  2. Innlán einstaklinga, önnur en þau sem talin eru í 1. tl. 3. mgr. 9. gr., fá 10% vægi.
  3. Innlán lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru talin með 5% vægi að uppfylltum eftir­farandi skilyrðum, en geti lánastofnun ekki greint innlán fyrirtækja, sbr. skil­yrði í a. og b. liðum 3. tl. 3. mgr. 9. gr., skal flokka öll innlán þessara aðila með 10% vægi. Lánastofnun skal skila Seðlabankanum árlega skilgreiningum og forsendum að baki flokkunar innlána á milli 3. og 4. tl. 3. mgr. 9. gr. og í hvert sinn sem breyting verður á þessum skilgreiningum og forsendum.
    1. Innlán skulu vera að fullu tryggð af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    2. Einungis skal telja innlán á veltureikningum eða innlán viðskiptavinar sem er hluti viðskiptasambands við lánastofnunina sem gera úttekt mjög ólík­lega.
  4. Innlán lítilla og meðalstórra fyrirtækja, önnur en þau sem talin eru í 3. tl. 3. mgr. 9. gr., fá 10% vægi.
  5. Innlán lögaðila í rekstrarsambandi má flokka sérstaklega að fengnu samþykki Seðlabankans. Sá hluti innlána aðila í rekstrarsambandi sem er vegna þessa rekstrarþáttar fær 25% vægi. Þann hluta innlána lögaðila í rekstrarsambandi sem er að fullu tryggður af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, má færa með 5% vægi. Innlán vegna rekstrarsambands skal uppfylla eftirtalin skilyrði:
    1. Innlánin eru á sérgreindum reikningum og nauðsynleg fyrir rekstrarþátt eiganda innlánanna.

    2. Markmið eiganda innlánanna er ekki aðeins að ávaxta innlánin og því eru innlánin ekki háð innlánsvaxtastigi, þ.e. fjárhæð þeirra breytist ekki mikið með breyttu vaxtastigi.

    3. Vextir á innlánunum og aðrir skilmálar tengdir innlánunum eru ákvarðaðir fyrirfram og breytast því sjaldan.

  6. Innlán lögaðila annarra en viðskiptavina á fjármálamarkaði sem ekki eru talin í 3.-5. tl. 3. mgr. 9. gr. fá 20% útflæðisvægi ef öll fjárhæðin er tryggð af Trygg­ingar­sjóði innstæðueigenda og fjárfesta.
  7. Innlán lögaðila annarra en viðskiptavina á fjármálamarkaði sem eru ekki talin í 3.-6. tl. 3. mgr. 9. gr. fá 40% vægi.
  8. Innlán ríkis, sveitarfélaga, seðlabanka, opinberra fyrirtækja og alþjóðlegra þró­unar­banka fá 20% útflæðisvægi ef öll fjárhæðin er tryggð af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.
  9. Innlán ríkis, sveitarfélaga, seðlabanka, opinberra fyrirtækja og alþjóðlegra þróunarbanka sem falla ekki undir 8. tl. 3. mgr. 9. gr. fá 40% vægi.
  10. Innlán fjármálafyrirtækja í greiðslustöðvun og/eða slitameðferð og/eða hvers kyns lögaðila sem leiða má frá slíkum aðilum, þar á meðal en þó ekki eingöngu dótturfélög, yfirtökufélög eða samrunafélög fá 100% vægi.
  11. Innlán innlendra viðskiptavina á fjármálamarkaði annarra en lífeyrissjóða fá 100% vægi.
  12. Innlán lífeyrissjóða fá 100% vægi.

Erlendir aðilar:

  1. Innlán erlendra viðskiptavina á fjármálamarkaði fá 100% vægi.
  2. Innlán erlendra aðila, sem falla undir lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, fá 25% vægi.
  3. Önnur innlán erlendra aðila en eru talin í 1. og 2. tl. 4. mgr. 9. gr. fá 100% vægi.

10. gr.

Verðbréf og aðrir fjármálagerningar.

Útflæði vegna fjármögnunar í formi framseljanlegra óveðtryggðra og veðtryggðra verð­bréfa og annarra fjármálagerninga færist með eftirfarandi hætti:

  1. Greiðslur vegna óveðtryggðrar verðbréfaútgáfu lánastofnunar, þ.m.t. víxla og skulda­bréfa, fá 100% vægi.
  2. Greiðslur vegna eignavarinna verðbréfa, sértryggðra skuldabréfa og samsettra fjármálaafurða fá 100% vægi.
  3. Greiðslur í tengslum við viðskiptabréf með veði í eignum og aðra skammtíma­fjármögnun með samsettum fjármálaafurðum og fjármögnun þar sem bankinn getur verið skyldugur til að kaupa til baka innan þrjátíu daga vegna samn­ings við mótaðila fá 100% vægi.

11. gr.

Samningsbundin láns- og lausafjárfyrirgreiðsla.

Ónýtta láns- og lausafjárfyrirgreiðslu skal telja til útflæðis að því marki sem hún verður ekki afturkölluð skilyrðislaust og án tafar:

  1. Ónýttar yfirdráttarheimildir, lausafjárfyrirgreiðslur og aðrar lánsheimildir til ein­staklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja fá 5% vægi.
  2. Ónýttar lánsheimildir til ríkis, sveitarfélaga, seðlabanka, opinberra fyrirtækja og alþjóðlegra þróunarbanka fá 10% vægi.
  3. Ónýttar lánsheimildir til lögaðila annarra en viðskiptavina á fjármálamarkaði fá 10% vægi.
  4. Ónotuð lausafjárfyrirgreiðsla til ríkis, sveitarfélaga, seðlabanka, opinberra fyrir­tækja og alþjóðlegra þróunarbanka fær 30% vægi.
  5. Ónotuð lausafjárfyrirgreiðsla til lögaðila annarra en viðskiptavina á fjár­mála­markaði fær 30% vægi.
  6. Ónýttar lánsheimildir og lausafjárfyrirgreiðslur til lánastofnana fá 40% vægi.
  7. Ónýttar lánsheimildir til aðila í fjármálastarfsemi annarra en lánastofnana fá 40% vægi.
  8. Ónotuð lausafjárfyrirgreiðsla til aðila í fjármálastarfsemi annarra en lánastofnana fær 100% vægi.
  9. Ónýttar lánsheimildir og lausafjárfyrirgreiðslur til annarra lögaðila en koma fram í 1.-8. tl. 11. gr. fá 100% vægi.

12. gr.

Veðlánasamningar og endurhverf verðbréfakaup.

Veðlánasamningar, endurhverf verðbréfakaup og aðrir sambærilegir samningar færast með eftirfarandi hætti:

  1. Veðlán og endurhverf verðbréfakaup þar sem veðandlag er 1. stigs eign, sbr. 2. mgr. 6. gr., og fjármögnun í seðlabönkum eru með 0% vægi.
  2. Veðlán og endurhverf verðbréfakaup þar sem veðandlag er 2. stigs eign A, sbr. 3. mgr. 6. gr., eru með 15% vægi.
  3. Veðlán og endurhverf verðbréfakaup þar sem veðandlag er annað en 1. stigs eða 2. stigs eign A, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr., þar sem mótaðilinn er ríki, sveitarfélög eða opinber fyrirtæki eru með 25% vægi.
  4. Veðlán og endurhverf verðbréfakaup þar sem veðandlag eru verðbréf tryggð með fasteignaveðlánum sem falla undir 2. stigs eignir B, sbr. 4. mgr. 6. gr., eru með 25% vægi.
  5. Veðlán og endurhverf verðbréfakaup þar sem veðandlag eru skuldabréf sem falla undir 2. stigs eignir B, sbr. 4. mgr. 6. gr., eru með 50% vægi.
  6. Öll önnur veðlán og endurhverf verðbréfakaup fá 100% vægi.

13. gr.

Aðrir liðir.

Lánastofnun skal að auki telja til útflæðis annað samningsbundið útflæði og varúðar­færslur vegna afleiðusamninga og fleiri liða utan efnahags samkvæmt eftirfarandi liðum:

  1. Afleiðuskuldir bókaðar á móti afleiðukröfum sem falla í gjalddaga innan þrjátíu daga (hrein staða) fá 100% vægi.
  2. Aukin lausafjárþörf vegna ákvæða í samningum (afleiðusamningar og aðrir samn­ingar), s.s. vegna lækkunar lánshæfismats lánastofnunar fær 100% vægi.
  3. Aukin lausafjárþörf vegna mögulegra verðbreytinga á veðum sem lánastofnun hefur lagt fram sem tryggingu vegna afleiða og annarra viðskipta:
    1. Tryggingar í formi 1. stigs eigna samkvæmt 2. mgr. 6. gr. fá 0% vægi.
    2. Tryggingar í formi eigna, annarra en þeirra sem skilgreindar eru sem 1. stigs eignir samkvæmt 2. mgr. 6. gr. fá 20% vægi.
  4. Umframveð frá mótaðila lánastofnunar vegna afleiðusamninga fá 100% vægi.
  5. Aukin lausafjárþörf, veðköll vegna afleiðusamninga fær 100% vægi.
  6. Aukin lausafjárþörf vegna afleiðusamninga sem kveða á um heimild til að skipta á veðum úr 1. stigs eignum samkvæmt 2. mgr. 6. gr. fyrir önnur veð fær 100% vægi.
  7. Aukin lausafjárþörf vegna mögulegra breytinga á markaðsvirði afleiðusamninga fær 100% vægi.
  8. Ábyrgðir, skjalaábyrgðir (e. letter of credit), láns- og lausafjárlínur sem lána­stofnunin hefur gefið út og má afturkalla án skilyrða fá 0% vægi.
  9. Samningsbundnar skyldur til að veita lán/fjármögnun sem ekki eru nefndar í 11. gr. fá 100% vægi.
  10. Uppfyllt bindiskylda samkvæmt reiknaðri meðalstöðu fær 100% vægi.
  11. Aðrar samningsbundnar greiðslur fá 100% vægi.

V. KAFLI

Innflæði.

14. gr.

Almennt.

Lánastofnun skal færa innflæði í skýrslur á tímabil, sbr. 1.-7. tl. 2. mgr. 3. gr., eins og nánar er tilgreint í leiðbeiningum með reglum þessum, sbr. 24. gr.

Innflæði reiknast að hámarki 75% af útflæði við útreikning lausafjárhlutfalls.

15. gr.

Veðlánasamningar og endurhverf verðbréfasala.

Veðlánasamningar, endurhverf verðbréfasala og aðrir sambærilegir samn­ingar færast með eftirfarandi hætti:

  1. Innflæði vegna samninga með veði í 1. stigs eignum, sbr. 2. mgr. 6. gr., fá 0% vægi.
  2. Innflæði vegna samninga með veði í 2. stigs eignum A, sbr. 3. mgr. 6. gr., fá 15% vægi.
  3. Innflæði vegna samninga með veði í bréfum tryggðum með íbúðalánum sem falla undir 2. stigs eignir B, sbr. 4. mgr. 6. gr., fá 25% vægi.
  4. Innflæði vegna samninga með veði í öðrum skuldabréfum sem falla undir 2. stigs eignir B, sbr. 4. mgr. 6. gr., fá 50% vægi.
  5. Innflæði vegna samninga með veði í öðrum eignum en þeim sem teljast til 1. stigs og 2. stigs eigna, sbr. 2.-4. mgr. 6. gr. og teljast til 1.-4. tl. 15. gr., fá 100% vægi.

16. gr.

Láns- og lausafjárfyrirgreiðsla.

Samningsbundnar lánsheimildir, lausafjárfyrirgreiðslur og aðrar óádregnar fjármögn­unar­heimildir fá 0% vægi.

17. gr.

Samningsbundnar greiðslur.

Greiðslur til lánastofnunar af verðbréfum í hennar eigu skal einungis telja að því marki sem slíkt kemur ekki fram í 6. gr. Aðeins skal telja til innflæðis greiðslur af virkum útlánum.

  1. Afborganir og vaxtagreiðslur af lánssamningum við einstaklinga og lögaðila aðra en aðila í fjármálastarfsemi fá 50% vægi. Aðeins skal telja greiðslur af virkum útlánum.
  2. Yfirdráttarlán fá 0% vægi.
  3. Greiðslur af verðbréfum á gjalddaga og afborganir og vaxtagreiðslur af láns­samningum við aðila í fjármálastarfsemi og seðlabanka fá 100% vægi. Aðeins skal telja greiðslur af virkum útlánum.

18. gr.

Innlán í öðrum lánastofnunum og bundin innlán í seðlabanka.

Innlán eru flokkuð í rekstrarlegum tilgangi að fengnu samþykki Seðlabankans til sam­ræmis við 5. tl. 3. mgr. 9. gr.

  1. Innlán sem eru ekki í rekstrarlegum tilgangi fá 100% vægi.
  2. Innlán sem eru í rekstrarlegum tilgangi fá 0% vægi.

19. gr.

Annað.

Hrein staða afleiðusamninga og aðrar samningsbundnar greiðslur en áður hafa verið taldar teljast að fullu til innflæðis:

  1. Afleiðukröfur bókfærðar á móti afleiðuskuldum sem falla í gjalddaga innan þrjátíu daga (hrein staða) fá 100% vægi.
  2. Aðrar samningsbundnar greiðslur fá 100% vægi. Lánastofnun skal skila skýringum varðandi hvað fellur hér undir.

VI. KAFLI

Skýrsluskil, upplýsingar, viðurlög, leiðbeiningar og gildistaka.

20. gr.

Skýrsluskil.

Skýrslum um laust fé skal skilað til Seðlabankans fyrir tíunda dag (10.) hvers mánaðar vegna móðurfélags en fyrir tuttugasta dag (20.) hvers mánaðar vegna samstæðu lánastofnunar. Ef skiladag ber upp á helgar- eða frídag skal skila næsta virka dag á eftir. Komi til þess að Seðlabankinn óski sérstaklega eftir því að skýrslum um laust fé sé skilað oftar en segir í 1. málsl. skal lánastofnun verða við því.

Móðurfélag í samstæðu lánastofnunar skal bera ábyrgð á að skýrslum um laust fé sam­stæðu lánastofnunar sé skilað í samræmi við reglur þessar.

Innri endurskoðandi lánastofnunar, ef hann er til staðar, eða aðalbókari skal yfirfara aðferðir við skýrslugerð lauss fjár að minnsta kosti einu sinni á ári og senda Seðla­bankanum skriflega yfirlýsingu þar um. Slík yfirlýsing skal jafnframt send þegar fyrsta skýrsla lánastofnunar er útbúin samkvæmt reglum þessum.

Auk lausafjárskýrslna samkvæmt reglum þessum skal við skýrsluskil skila til upplýsinga, innstæðu- og fjármögnunaryfirliti, eins og nánar er lýst í leiðbeiningum með reglum þessum.

21. gr.

Upplýsingar.

Skylt er, að viðlögðum viðurlögum, að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg til að framfylgja reglum þessum.

22. gr.

Dagsektir.

Nái lausafjárhlutföll lánastofnunar ekki því lágmarki sem sett er í 1. mgr. 4. gr. er heimilt að beita dagsektum á þær fjárhæðir sem á vantar samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú reglur nr. 389/2002.

Seðlabankanum er heimilt að beita dagsektum við vanrækslu á skýrsluskilum samkvæmt 20. gr. á grundvelli reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú reglur nr. 389/2002.

Vanræki lánastofnun að afhenda Seðlabankanum upplýsingar sem bankinn óskar eftir samkvæmt 21. gr. er heimilt að beita dagsektum samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú reglur nr. 389/2002.

Um ákvörðun dagsekta, kæruheimild og innheimtu gilda ákvæði 6., 7. og 8. gr. reglna Seðlabanka Íslands um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú reglur nr. 389/2002, eftir því sem við getur átt, og um skuldfærslu dagsekta á hlutaðeigandi aðila gildir 5. mgr. 22. gr. eftir því sem við getur átt.

Seðlabankanum er heimilt að skuldfæra reiknuð viðurlög á viðskiptareikning viðkomandi lánastofnunar hjá bankanum að liðnum a.m.k. sjö dögum frá því að ákvörðun um dagsektir var kynnt aðila. Lánastofnun, sem annast bindiskyldu fyrir aðra bindiskylda lánastofnun, heimilar Seðlabankanum að skuldfæra viðurlög vegna viðkomandi stofnunar á reikning sinn í bankanum.

23. gr.

Tímabundin heimild varðandi samstæður lánastofnana.

Seðlabankinn getur veitt lánastofnun tímabundna heimild til að undanskilja tiltekið/tiltekin dótturfélag/-félög frá samstæðuskilum enda sýni móðurfélag í samstæðu lánastofnunar fram á, með fullnægjandi hætti að mati Seðlabankans, að dótturfélag/-félög hafi lítil áhrif á lausafjárhlutfall og lausafjáráhættu samstæðunnar. Móðurfélag skal leggja til grund­vallar skriflegri umsókn sinni rökstuddar ástæður þess að heimila skuli samstæðu lána­stofnunar að undanskilja tiltekið/tiltekin dótturfélag/-félög frá samstæðuskilum.

24. gr.

Leiðbeiningar.

Seðlabankinn gefur út leiðbeiningar um nánari framkvæmd reglna þessara.

25. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 12. gr. laga nr. 36/2001, um Seðla­banka Íslands, taka gildi 1. desember 2013. Frá sama tíma falla úr gildi reglur Seðla­banka Íslands um lausafjárhlutfall nr. 782 frá 27. september 2012.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Til aðlögunar að reglum þessum skal lágmark lausafjárhlutfalls lánastofnunar, sbr. 1. mgr. 4. gr., sbr. einnig 1. tl. 2. mgr. 3. gr., vera með eftirfarandi hætti fram til 1. janúar 2017:

  1. Frá gildistöku reglna þessara og til og með 31. desember 2013 skal lausa­fjár­hlutfall lánastofnunar eigi vera lægra en 0,6 fyrir 1. tl. 2. mgr. 3. gr. Lausa­fjár­hlutfall lánastofnunar í erlendum gjaldeyri skal þó eigi vera lægra en 1.
  2. Frá 1. janúar 2014 og til og með 31. desember sama ár skal lausa­fjár­hlutfall lána­stofnunar eigi vera lægra en 0,7 fyrir 1. tl. 2. mgr. 3. gr. Lausafjárhlutfall lána­stofn­unar í erlendum gjaldeyri skal þó eigi vera lægra en 1.
  3. Frá 1. janúar 2015 og til og með 31. desember sama ár skal lausafjárhlutfall lána­stofnunar eigi vera lægra en 0,8 fyrir 1. tl. 2. mgr. 3. gr. Lausafjárhlutfall lána­stofnunar í erlendum gjaldeyri skal þó eigi vera lægra en 1.
  4. Frá 1. janúar 2016 og til og með 31. desember sama ár skal lausafjárhlutfall lána­stofnunar eigi vera lægra en 0,9 fyrir 1. tl. 2. mgr. 3. gr. Lausafjárhlutfall lána­stofnunar í erlendum gjaldeyri skal þó eigi vera lægra en 1.
  5. Frá 1. janúar 2017 skal lausafjárhlutfall lánastofnunar eigi vera lægra en 1 fyrir 1. tl. 2. mgr. 3. gr.

Bráðabirgðaákvæði þetta fellur úr gildi þann 1. janúar 2017 en frá og með þeim degi skal lágmark lausafjárhlutfalls lánastofnunar vera í samræmi við 1. mgr. 4. gr. reglna þessara, sbr. 5. tl. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis þessa.

Reykjavík, 27. nóvember 2013.

Seðlabanki Íslands,

 

Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.

Sigríður Benediktsdóttir
framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 29. nóvember 2013