Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 334/2013

Nr. 334/2013 20. mars 2013
REGLUR
um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélaga.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Skilgreiningar hugtaka.

Í reglum þessum merkir:

  1. Hlutdeild (hlutdeildarfélag): Eign í félagi, þó ekki dótturfélagi, sem annað félag og dótturfélög þess eiga verulegan eignarhlut í eða hafa myndað varanleg tengsl við í þeim tilgangi að hafa áhrif á rekstur þess. Slíkt félag telst hlutdeildarfélag. Félag er ávallt talið eiga verulegan eignarhlut ef það og dótturfélög þess eiga a.m.k. 20% eignarhlut beint eða óbeint (í hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti) í öðru félagi.
  2. Hluteignarfélag: Félag sem á annað félag að dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi.
  3. Samstæða: Hópur fyrirtækja sem samanstendur af móðurfélagi, dótturfélagi þess og þeim fyrirtækjum sem móðurfélagið eða dótturfélög þess eiga hlutdeild í auk fyrirtækja sem tengjast hvert öðru með tengslum sem um getur í liðum a. og b. hér að neðan:
    1. fyrirtæki og önnur fyrirtæki sem það tengist ekki, sem er stjórnað í sam­einingu samkvæmt samningi við fyrirtækið eða samkvæmt ákvæðum í samþykktum fyrirtækjanna eða,
    2. meirihluti stjórnar eða stjórnenda fyrirtækisins og annarra fyrirtækja sem það tengist ekki, samanstendur af sömu einstaklingum á reikningsárinu.
  4. Viðskipti innan samstæðu: Hvers konar millifærslur þar sem vátryggingafélög innan samstæðu eru um efndir beint eða óbeint háð öðrum fyrirtækjum innan samstæðunnar eða einstaklingum eða lögaðilum sem mynda náin tengsl við fyrirtæki innan samstæðunnar, hvort sem millifærslurnar eru samkvæmt samningi eða ekki og hvort sem þær eru gegn greiðslu eða ekki.
  5. Samþjöppun áhættu: Allar áhættur fyrirtækja innan samstæðu sem eru nægjan­lega stórar til að ógna gjaldþoli eða almennri fjárhagsstöðu vátrygg­inga­félaga innan samstæðunnar. Slíkar áhættur geta m.a. myndast vegna mótaðila­áhættu, fjárfestingaráhættu, vátryggingaáhættu, markaðsáhættu, annarrar áhættu eða samtvinnunar eða víxlverkunar milli þessara áhætta.

Sé ekki annað tekið fram hafa hugtök í þessum reglum sömu merkingu og í lögum um vátryggingastarfsemi.

II. KAFLI

Viðbótareftirlit með samstæðu.

2. gr.

Gildissvið viðbótareftirlits.

Eftirfarandi aðilar skulu lúta viðbótareftirliti:

  1. vátryggingafélög sem eru hluteignarfélög annars vátryggingafélags,
  2. vátryggingafélög sem eru dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði,
  3. vátryggingafélög sem eru dótturfélög blandaðra eignarhaldsfélaga á vátrygg­inga­sviði. Ekki er þó reiknað aðlagað gjaldþol slíkra félaga.

Viðbótareftirlit með vátryggingasamstæðu felur ekki í sér að eftirlitsstjórnvöldum beri skylda til þess að hafa eftirlit með starfsemi þeirri sem blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, vátryggingafélög utan EES eða fyrirtæki innan vátryggingasamstæðu, sem ekki eru eftirlitsskyld, hafa með höndum, umfram það sem leiðir af ákvæðum um viðbótareftirlit.

Viðbótareftirlit skal taka til:

  1. dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélagsins,
  2. hluteignarfélaga vátryggingafélagsins,
  3. félaga sem eru dóttur- eða hlutdeildarfélög hluteignarfélags vátryggingafélagsins.

Halda má einstöku vátryggingafélagi utan viðbótareftirlits ef félagið er með höfuðstöðvar í ríki utan EES og lagalegar hindranir eru á því að afla nauðsynlegra upplýsinga til að reikna aðlagað gjaldþol. Sama á við ef félagið hefur óverulega þýðingu fyrir útreikninginn eða ef fjárhagsstaða þess gæfi villandi mynd miðað við markmið eftirlits með aðlöguðu gjaldþoli.

3. gr.

Framkvæmd viðbótareftirlits.

Fjármálaeftirlitið ber ábyrgð á viðbótareftirliti með vátryggingasamstæðum sem starfa eingöngu hér á landi eða þar sem móðurfélagið er vátryggingafélag með starfsleyfi hér á landi.

Hafi vátryggingafélög sem starfa í fleiri en einu aðildarríki sama móðurfélagið sem er vátryggingafélag utan EES, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhalds­félag á vátryggingasviði, koma eftirlitsstjórnvöld sér saman um hvert þeirra fer með viðbótar­eftirlit með samstæðunni.

4. gr.

Gæði upplýsinga og aðgangur að upplýsingum.

Vátryggingafélög sem lúta viðbótareftirliti skulu hafa til staðar innri ferla til að tryggja að fyrirliggjandi séu nauðsynlegar upplýsingar í viðbótareftirliti og vegna útreiknings aðlag­aðs gjaldþols.

5. gr.

Viðskipti innan samstæðu.

Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með viðskiptum innan samstæðu í samræmi við 3. mgr. 63. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi.

Bendi upplýsingar, sem Fjármálaeftirlitið aflar samkvæmt áðurnefndu ákvæði, til að gjald­þol vátryggingafélags sé eða geti verið í hættu, skal Fjármálaeftirlitið grípa til við­eig­andi aðgerða í samræmi við 86. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

III. KAFLI

Útreikningur aðlagaðs gjaldþols og lágmarksgjaldþols
þegar hluteignarfélag er vátryggingafélag

6. gr.

Mat á eignarhlutum í dóttur- og hlutdeildarfélögum.

Taka skal hlutfallslega tillit til eignarhluta hluteignarfélagsins í dóttur- og hlut­deildar­félögum. Með því er átt við sama hlutfall og notað er við skilgreiningu á eignar­hlut í samstæðuuppgjöri samstæðunnar.

Ef dótturfélag er vátryggingafélag sem ekki uppfyllir lágmarkskröfur um gjaldþol skal draga frá eignarhlut móðurfélagsins fjárhæð sem samsvarar eignarhlut minnihluta­eiganda í því sem vantar upp á að gjaldþol sé fullnægjandi. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæði þessarar málsgreinar telji það að ábyrgð móðurfélags sé skýrt og ótvírætt takmörkuð við hlutafjáreignina.

Ef ekki eru fjárhagsleg eignatengsl á milli vátryggingafélaga í samstæðu skal Fjár­mála­eftirlitið ákveða við hvaða eignarhlut er miðað.

7. gr.

Lækkun aðlagaðs gjaldþols vegna tví- eða margnýtingar eignaliða.

Við útreikning á aðlöguðu gjaldþoli skal draga eftirfarandi eignir félaga samstæðunnar frá gjaldþoli, hafi þær ekki þegar verið dregnar frá í samstæðuuppgjöri:

  1. eignir hluteignarfélags sem notaðar eru til að fjármagna liði sem mæta gjaldþoli dóttur- eða hlutdeildarfélags,
  2. eignir dóttur- og hlutdeildarfélags sem notaðar eru til að fjármagna liði sem mæta gjaldþoli hluteignarfélags,
  3. eignir dóttur- og hlutdeildarfélaga sem notaðar eru til að fjármagna liði sem mæta gjaldþoli annars dóttur- eða hlutdeildarfélags.

Óinnborgað hlutafé í dóttur- og hlutdeildarfélögum getur aðeins myndað hluta gjaldþols í viðkomandi dóttur- eða hlutdeildarfélagi. Óinnborgað hlutafé, sem hugsanlega skuld­bindur hluteignarfélagið skal ekki talið með. Óinnborgað hlutafé í hluteignarfélagi skal ekki talið til gjaldþols ef það skuldbindur dóttur- eða hlutdeildarfélag sem er vátrygg­inga­félag. Óinnborgað hlutafé í dóttur- eða hlutdeildarfélagi skal ekki talið með ef það skuld­bindur annað dóttur- eða hlutdeildarfélag séu bæði félögin vátryggingafélög.

Telji Fjármálaeftirlitið að eignir sem fjármagna gjaldþol dóttur- eða hlutdeildarfélags sem er vátryggingafélag, séu ekki tiltækar til að fjármagna gjaldþol hluteignarfélagsins, má aðeins telja þessar eignir með í aðlöguðu gjaldþoli í þeim mæli sem þær fjármagna hluta af gjaldþoli dóttur- eða hlutdeildarfélags.

Samtala liða skv. 2. og 3. mgr. má ekki vera hærri en lágmarksgjaldþol viðkomandi dóttur- eða hlutdeildarfélags.

8. gr.

Lækkun aðlagaðs gjaldþols vegna gagnkvæmrar fjármögnunar.

Ekki skal telja til aðlagaðs gjaldþols eignir sem verða til við gagnkvæma fjármögnun vátryggingafélagsins, sem verið er að reikna aðlagað gjaldþol fyrir, sbr. 2. gr., og dóttur- eða hlutdeildarfélags, hluteignarfélags vátryggingafélagsins eða annars hlutdeildar- eða dótturfélags hluteignarfélags vátryggingafélagsins.

Ekki skal telja til aðlagaðs gjaldþols eignir hlutdeildar- og dótturfélaga sem myndaðar eru með gagnkvæmri fjármögnun við annað hlutdeildar- eða dótturfélag.

Gagnkvæm fjármögnun telst það meðal annars að eitt félag eigi hlutafé í öðru félagi eða kröfu á það, en það félag eigi eignir sem teljist til gjaldþols fyrra félagsins.

9. gr.

Útreikningur aðlagaðs gjaldþols vegna dóttur- og hlutdeildarfélaga hluteignarfélags.

Sé dóttur- eða hlutdeildarfélag, sem er vátryggingafélag, einnig hluteignarfélag vátrygg­inga­félags skal reikna aðlagað gjaldþol fyrir fyrrnefnda vátryggingafélagið.

Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá 1. mgr. ef viðkomandi vátryggingafélög hafa bæði starfsleyfi gefið út hér á landi og fyrrnefnda vátryggingafélagið er tekið með við mat á aðlöguðu gjaldþoli hluteignarfélagsins.

Einnig má veita undanþágu frá 1. mgr. þegar fyrrnefnda félagið lýtur eftirliti eftirlits­stjórnvalds í öðru aðildarríki, enda hafi eftirlitsstjórnvöld komist að samkomulagi um að Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsstjórnvald hluteignarfélagsins annist viðbótareftirlit með samstæðunni.

Forsenda þess að veitt sé undanþága frá skyldu til þess að reikna aðlagað gjaldþol er að Fjármálaeftirlitið og viðkomandi eftirlitsstjórnvöld telji að eignir sem fjármagna gjaldþol skiptist eðlilega á þau fyrirtæki sem koma við sögu.

Sé dóttur- eða hlutdeildarfélag skv. 1. mgr. með starfsleyfi útgefið í öðru aðildarríki getur Fjármálaeftirlitið heimilað að aðlagað gjaldþol vegna þess félags sé metið samkvæmt aðferðum eftirlitsstjórnvalds aðildarríkisins.

Sé dóttur- eða hlutdeildarfélagið með starfsleyfi í ríki utan EES skal reikna aðlagað gjald­þol eins og um vátryggingafélag með starfsleyfi í aðildarríki sé að ræða. Telji Fjármála­eftirlitið að gjaldþolsreglur viðkomandi ríkis séu sambærilegar því sem þekkist innan EES getur það heimilað að mat á aðlöguðu gjaldþoli og eignir sem fjármagnað geta gjaldþol séu í samræmi við reglur þess ríkis. Heimilt er Fjármálaeftirlitinu í þessu skyni að vísa til álits annarra aðildarríkja eða stofnana EES á vátryggingamarkaði.

10. gr.

Dóttur- eða hlutdeildarfélög sem eru eignarhaldsfélög á vátryggingasviði.

Við útreikning aðlagaðs gjaldþols dótturfélags, sem er hluteignarfélag vátryggingafélags í gegnum eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, skal reikna með fjárhagsstöðu eignar­halds­félagsins. Líta skal á eignarhaldsfélagið eins og það væri vátryggingafélag og skal aðlagað gjaldþol þess ekki vera lægra en 0.

11. gr.

Skortur á upplýsingum um erlend félög.

Hafi Fjármálaeftirlitið ekki aðgang að upplýsingum sem eru nauðsynlegar til þess að reikna aðlagað gjaldþol og varða dóttur- eða hlutdeildarfélag í öðru ríki, hvort sem það ríki er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða ekki, þá skal draga bókfært virði þess félags frá liðum sem geta verið hluti af gjaldþoli. Ekki má telja með dulinn hagnað af slíkri hlutdeild sem hluta af gjaldþoli.

12. gr.

Aðferð við mat á aðlöguðu gjaldþoli og lágmarksgjaldþoli.

Aðlagað gjaldþol mynda þær eignir samkvæmt samstæðuuppgjöri sem nýta má til fjármögnunar gjaldþols, sbr. 6.-10. gr. Lágmark aðlagaðs gjaldþols samstæðu er annaðhvort samanlagt lágmarksgjaldþol hluteignarfélagsins og hlutfallslegrar hlutdeildar þess í lágmarksgjaldþoli dóttur- og hlutdeildarfélaga eða lágmarksgjaldþol reiknað fyrir samstæðureikning í samræmi við 32. og 33. gr. laga nr. 56/2010 um vátrygg­inga­starfsemi.

Sé ekki gerður samstæðureikningur má nota aðrar aðferðir til útreiknings á aðlöguðu gjaldþoli og lágmarksgjaldþoli, sbr. 13. gr.

13. gr.

Aðrar aðferðir við mat á aðlöguðu gjaldþoli og lágmarksgjaldþoli.

Starfi vátryggingasamstæða í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins getur Fjár­mála­eftirlitið í samráði við önnur eftirlitsstjórnvöld heimilað að 12. gr. um mat á aðlöguðu gjaldþoli og lágmarksgjaldþoli eigi ekki við. Samhliða skal ákvarðað að við útreikning á aðlöguðu gjaldþoli eða lágmarksgjaldþoli sé notuð aðferð 1 eða aðferð 2 í 3. kafla viðauka I við tilskipun 98/78/EB.

IV. KAFLI

Útreikningur aðlagaðs gjaldþols og lágmarksgjaldþols þegar hluteignarfélag
er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða vátryggingafélag í ríki utan EES.

14. gr.

Mat á aðlöguðu gjaldþoli og lágmarksgjaldþoli.

Þegar hluteignarfélag vátryggingafélags er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða vátrygg­ingafélag með starfsleyfi í ríki utan EES skulu ákvæði III. kafla þessara reglna gilda eins og hluteignarfélagið væri vátryggingafélag með starfsleyfi í aðildarríki að breyttu breytanda.

Sé móðurfélag vátryggingafélags eignarhaldsfélag á vátryggingasviði skal aðlagað gjald­þol þess ekki vera lægra en 0.

Sé hluteignarfélag vátryggingafélags vátryggingafélag með starfsleyfi í ríki utan EES, skal útreikningur aðlagaðs gjaldþols vera í samræmi við ákvæði 6. mgr. 9. gr.

15. gr.

Undanþága frá útreikningi aðlagaðs gjaldþols.

Fjármálaeftirlitið getur heimilað undanþágu frá útreikningi aðlagaðs gjaldþols vegna vátrygg­inga­félags í eftirfarandi tilvikum:

 

a)

þegar vátryggingafélagið er dóttur- eða hlutdeildarfélag annars vátrygginga­félags sem reiknað hefur verið aðlagað gjaldþol fyrir samkvæmt þessum kafla,

 

b)

þegar vátryggingafélagið og eitt eða fleiri önnur vátryggingafélög með starfs­leyfi hér á landi eru dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði eða vátrygg­inga­félags með starfsleyfi í ríki utan EES, og vátryggingafélagið er tekið með í útreikningi aðlagaðs gjaldþols vegna eins hinna vátryggingafélaganna,

 

c)

þegar vátryggingafélagið og eitt eða fleiri vátryggingafélög með starfsleyfi í öðrum aðildarríkjum eru dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði eða vátryggingafélags með starfsleyfi í ríki utan EES, og samkomulag er um að annað aðildarríki fari með viðbótareftirlitið í samræmi við 2. mgr. 3. gr.

V. KAFLI

Ófullnægjandi aðlagað gjaldþol.

16. gr.

Ófullnægjandi aðlagað gjaldþol.

Sé aðlagað gjaldþol ekki í samræmi við kröfur III. eða IV. kafla þessara reglna skal Fjármálaeftirlitið grípa til aðgerða gagnvart því vátryggingafélagi sem reiknað er aðlagað gjaldþol fyrir, í samræmi við 86. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi.

VI. KAFLI

Gildistaka.

17. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 6. mgr. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 56/2010. Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Fjármálaeftirlitinu, 20. mars 2013.

Unnur Gunnarsdóttir.

Halldóra E. Ólafsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 17. apríl 2013