Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 156/2011

Nr. 156/2011 23. desember 2011
LÖG
um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (áhættustýring, vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga, starfsendurhæfingarsjóður, hæfi stjórnarmanna og sérstök vaxtaniðurgreiðsla).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.
    Við 3. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að móta eftirlitskerfi sem gerir sjóðnum kleift að greina, vakta, meta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins.

2. gr.
    Ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. skal lífeyrissjóði vera heimilt að hafa allt að 15% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2011, allt að 13% mun fyrir árið 2012 og allt að 11% mun fyrir árið 2013, án þess að honum sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Ákvæði 1. mgr. 39. gr. um að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda á ekki við um tryggingafræðilega athugun fyrir árin 2011, 2012 og 2013.
    Þegar metið er hvort lífeyrissjóður falli undir 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. skal miða við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga árin 2011, 2012 og 2013.

3. gr.
    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

    a. (XII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. skulu lífeyrissjóðir, þ.m.t. lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum og staðfestri reglugerð, sbr. 54. gr., greiða gjald sem samsvarar 0,13% af samanlögðum iðgjaldsstofni, sbr. 1. mgr. 3. gr., allra sjóðfélaga til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, sem starfar á vegum aðila vinnumarkaðarins. Fyrsta greiðslan skal reiknuð af iðgjaldsstofni júlímánaðar 2012. Gjalddagi skal vera tíundi dagur næsta mánaðar eftir að launagreiðandi hefur staðið skil á lífeyrisiðgjaldi skv. 2. mgr. 7. gr. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og gjaldið fellur í gjalddaga.
    Iðgjald launagreiðanda, þ.m.t. þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs skal vera 0,13% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. og skal reiknast í fyrsta sinn af iðgjaldsstofni septembermánaðar 2011. Iðgjaldið veitir réttindi til þjónustu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Launagreiðanda skv. 1. málsl. er skylt að standa skil á iðgjaldinu til viðkomandi lífeyrissjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald, sbr. 2. mgr. 7. gr. Lífeyrissjóðir ráðstafa iðgjaldinu til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og skal fara eftir þeim ákvæðum sem almennt gilda í þeim innheimtusamningum sem gerðir hafa verið milli aðila.
    Skipunartími samráðsnefndar sem skipuð var af ráðherra velferðarmála og ráðherra lífeyrismála samkvæmt ákvæði til bráðabirgða X skal framlengdur til 1. febrúar 2012.

    b. (XIII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 31. gr. er stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum heimilt að eiga sæti í stjórn annars lífeyrissjóðs til 1. júlí 2012.

    c. (XIV.)
    Við álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013 skulu aðilar sem falla undir 6. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum, greiða sérstakt gjald í ríkissjóð sem nemur 0,0814% af hreinni eign til greiðslu lífeyris, sbr. 39. gr., eins og hún er í lok næstliðins árs. Gjalddagi er 1. nóvember 2012 og 1. nóvember 2013 og eindagi 15 dögum síðar. Greiða skal fyrir fram upp í álagt gjald hinn 31. desember 2011 og 1. nóvember 2012 og miðast sú greiðsla við hreina eign til greiðslu lífeyris eins og hún var í árslok 2010 og 2011 og það skatthlutfall sem kveðið er á um í ákvæði þessu. Um álagningu og innheimtu fer samkvæmt ákvæðum X.–XIII. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eftir því sem við á.

4. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði a-liðar 3. gr. öðlast gildi 1. janúar 2012 og gildir til 1. júlí 2012.

Gjört á Bessastöðum, 23. desember 2011.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 29. desember 2011