Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1055/2006

Nr. 1055/2006 30. nóvember 2006
REGLUR
um alþjóðlegt meistaranám í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti (LL.M. in Natural Resources Law and International Environmental Law) við lagadeild Háskóla Íslands.

1. gr.

Prófgráðan LL.M. í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti er veitt að loknu meistaraprófi í lögum. Prófgráðan veitir þó ekki þau réttindi sem fylgja embættisprófi í lögum (cand. jur.) eða mag.jur.-prófi. Kennsla í meistaranámi fer almennt fram á ensku. Enska verður jafnframt notuð í prófum og ritgerðum.

2. gr.

Skilyrði fyrir inntöku í meistaranámið er að umsækjandi hafi lokið B.A.-prófi í lögum frá Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi að afloknu að minnsta kosti þriggja ára laganámi. Heimilt er að taka við umsóknum frá þeim sem hyggjast ljúka B.A.-prófi í lögum frá Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi.

Heimilt er að óska eftir því að umsóknum fylgi staðfesting á því að umsækjandi hafi fullnægjandi kunnáttu í ensku á mæltu og rituðu máli, og ennfremur gögn sem sýna að umsækjandi sé í stakk búinn til að leggja stund á framhaldsnám í lögum.

3. gr.

Meistaranámið jafngildir 45 einingum. Meistaranemi skal ljúka 30 einingum með prófum í námskeiðum, sbr. A- og B-lið 2. mgr., og 15 einingum með lokaverkefni, sbr. C-lið 2. mgr.

Námið skal uppbyggt með eftirfarandi hætti, nema annað sé ákveðið fyrir 1. desember ár hvert fyrir næstkomandi háskólaár:

A. Haustmisseri (15 ein, 30 ECTS):

1. Basic Course In Public International Law - 3 ein (6 ECTS).
2. International Environmental Law - 3 ein (6 ECTS).
3. EC Environmental Law - 3 ein (6 ECTS).
4. International Law of Sustainable Development - 3 ein (6 ECTS).
5. International Human Rights Law - 3 ein (6 ECTS).

B. Vormisseri (15 ein, 30 ECTS):

1. Natural Resources Law I (Basic Course) - 4 ein (8 ECTS).
2. Natural Resources Law II (Law of the Sea) - 4 ein (8 ECTS).
3. Natural Resources Law III (Fisheries Policy) - 4 ein (8 ECTS).
4. EEA- and EFTA-Law - 3 ein (6 ECTS).

C. Lokaritgerð (15 ein, 30 ECTS)

Heimilt er samkvæmt umsókn frá meistaranema, sem berst lagadeild eigi síðar en 15. júní fyrir næstkomandi háskólaár, að veita honum undanþágu frá því að þreyta próf í námskeiðunum Basic Course In Public International Law og International Human Rights Law á haustmisseri, sbr. A-lið 2. mgr., enda sýni hann fram á með viðeigandi gögnum að hann hafi þegar stundað sambærilegt nám á meistarastigi við aðra háskóla. Meistaranema er skylt að þreyta próf í öðrum námskeiðum í meistaranámi.

Nemandi skal hafa lokið meistaranámi eigi síðar en 3 árum eftir fyrstu innritun í námið.

4. gr.

Námsmat skal að jafnaði fela í sér verkefnavinnu auk munnlegs eða skriflegs prófs. Til að ljúka námskeiði skal nemandi hljóta að minnsta kosti einkunnina 6,0.

5. gr.

Meistaranemi skal fyrir 15. febrúar ár hvert velja einn af kennurum lagadeildar sem umsjónarkennara með lokaverkefni sínu, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. Valið er háð samþykki kennarans og meistaranámsnefndar, sbr. 6. gr.

Efnissvið lokaritgerðar er háð samþykki umsjónarkennara. Lokaverkefni skal að jafnaði vera í formi ritgerðar sem svarar til 90-120 bls. (36.000 til 48.000 orða). Umsjónar­kennari getur ákveðið að nemandi þreyti próf úr efni lokaverkefnis og metið árangur hans sem hluta af lokaeinkunn. Umsjónarkennari gefur einkunn fyrir loka­verkefni ásamt prófdómara sem tilnefndur er af meistaranámsnefnd. Heimilt er meistara­náms­nefnd að ákveða, að fenginni tillögu frá umsjónarkennara, að í stað prófs komi opinber fyrirlestur nemanda um efni lokaverkefnis og skal valið vera í samræmi við almennar reglur lagadeildar um val slíkra verkefna.

Um lokaritgerðir gilda að öðru leyti almennar reglur lagadeildar HÍ um kandídatsritgerðir, meistararitgerðir og önnur lokaverkefni til meistaraprófs í lögfræði.

6. gr.

Deildarfundur í lagadeild kýs þriggja manna meistaranámsnefnd til tveggja ára í senn og skulu a.m.k. tveir nefndarmanna vera úr hópi fastráðinna kennara við deildina.

Meistaranámsnefnd tekur ákvarðanir samkvæmt reglum þessum, meðal annars hvaða námskeið er boðið upp á í meistaranámi, vægi þeirra, hvenær þau eru kennd og hvernig námsmati sé hagað, sbr. 2. mgr. 3. gr.

Meistaranámsnefnd fjallar um og tekur ákvörðun um umsóknir til náms til meistaraprófs. Nefndin ákveður form umsókna sem deildarforseti staðfestir. Nefndin getur gert tillögu um að takmarka inntöku nýrra nemenda við ákveðinn fjölda, sbr. 9. mgr. 91. gr. reglna nr. 458/2000.

Deildarforseti getur setið fundi meistaranámsnefndar.

Ef ekki er samkomulag um mál í meistaranámsnefnd skal það lagt fyrir deildarfund til ákvörðunar. Ennfremur getur nefndin eða deildarforseti ákveðið að leggja mál fyrir deildarfund til fullnaðarákvörðunar.

7. gr.

Að öðru leyti en nánar er kveðið á um í reglum þessum skal farið eftir reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000.

8. gr.

Reglur þessar sem samþykktar hafa verið af deildarfundi í lagadeild og hlotið stað­festingu háskólaráðs, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og ákvæði IV. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, öðlast þegar gildi.

Reglur nr. 664/2002, um meistaranám í þjóðarétti og umhverfisrétti (LL.M. in International and Environmental Law) við lagadeild Háskóla Íslands halda gildi sínu uns nemendur sem skráðir voru í það nám hafa brautskráðst.

Háskóla Íslands, 30. nóvember 2006.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 21. desember 2006