Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 162/2011

Nr. 162/2011 21. febrúar 2011
REGLUR
um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna eða þeirra sem eiga virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda.

1. gr.

Reglur þessar taka til sérhverrar fyrirgreiðslu, sbr. skilgreiningu hugtaksins í 2. gr., fjármálafyrirtækis til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna eða þeirra sem eiga virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda, þ. á m. til samstæðu fjármálafyrirtækis, dótturfélaga þess og fjármálasamsteypu.

Ríki og seðlabankar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins falla utan gildissviðs þessara reglna.

2. gr.

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Fyrirgreiðsla (áhættuskuldbinding í skilningi 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki): Lán­veiting, verðbréfaeign, eignarhluti, veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis, afleiðu­samn­ingar og aðrar skuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækinu. Auk þess fellur undir skilgrein­inguna lánveiting til þriðja aðila með tryggingu í fjármálagerningum útgefnum af einum eða fleiri aðilum tilgreindum í 1. mgr. 1. gr. reglna þessara.

Framkvæmdastjóri: Einstaklingur sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga eða laga um fjármálafyrirtæki, burtséð frá starfsheiti að öðru leyti.

Lykilstarfsmaður: Einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu fyrir­tækisins.

Náin tengsl: Náin tengsl teljast vera til staðar þegar:

 1. bein eignatengsl eða bein yfirráð yfir allt að 20% af hlutafé eða stofnfé eða atkvæðavægi fyrirtækis liggja fyrir, eða
 2. yfirráð eða samstarf er til staðar milli aðila.

Samstarf: Samstarf skal vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti. Samstarf skal alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:

 1. Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í staðfestri samvist eða skráðri sambúð. Foreldrar og börn teljast enn fremur aðilar í samstarfi.
 2. Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, c- og d-lið.
 3. Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. aðili á með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 20% hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Félag, móðurfélag þess, dótturfélög og systurfélög teljast í samstarfi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, b- og d-lið.
 4. Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.

Yfirráð: Tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og félags.

Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.

3. gr.

Fjármálafyrirtæki er óheimilt að veita stjórnarmanni, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanni eða þeim sem á virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda, fyrirgreiðslu í skilningi reglna þessara nema gegn traustum tryggingum. Fjárhæð fyrirgreiðslu skal hvorki fara yfir 1% af eiginfjárgrunni né 100 millj. kr., þ.e. hvort sem lægra reynist. Framlenging eða endurnýjun á samningi telst til nýrrar fyrirgreiðslu.

Við mat á því hvort fyrirgreiðsla til hvers og eins aðila samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglna þessara fari yfir leyfileg mörk samkvæmt 1. mgr. hér að framan skal líta til samtölu fyrirgreiðslna til þess aðila og aðila í nánum tengslum við hann.

4. gr.

Við útreikning fyrirgreiðslu skal leggja saman fjárhæð lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta, veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis, afleiðusamninga svo og aðrar skuld­bindingar gagnvart fjármálafyrirtækinu. Auk þess skal fyrirgreiðsla til þriðja aðila með tryggingu í fjármálagerningum útgefnum af aðilum tilgreindum í 1. mgr. 1. gr. þessara reglna tekin með við útreikninginn.

Fjárhæð afleiðusamninga skal vera grundvallarfjárhæð, sbr. þá fjárhæð sem er marg­földuð með áhættuhlutfalli í útreikningi á útlánaígildi.

Tryggingar koma ekki til frádráttar við útreikning fyrirgreiðslu.

5. gr.

Fyrirgreiðslur skulu eingöngu veittar gegn eftirfarandi tryggingum:

 1. Fyrsti eða annar veðréttur á íbúðarhúsnæði. Veðsetning má ekki fara yfir 80% af opinberu fasteignamati eða markaðsvirði, eftir því hvort reynist lægra.
 2. Skráð ríkisskuldabréf og skuldabréf með ríkisábyrgð. Veðsetning má ekki fara yfir 90% af markaðsvirði bréfsins.
 3. Skráð auðseljanleg hlutabréf sem uppfylla skilyrði Fjármálaeftirlitsins til þess að vera flokkuð sem slík þegar kemur að útreikningi á eiginfjárkröfu vegna veltu­bókar, sbr. 35. gr. viðauka 1 í tilskipun nr. 2006/49/EB, eða skuldabréf útgefin af sömu aðilum. Veðsetning má ekki fara yfir 50% af virði slíkra bréfa á markaði.
 4. Innstæður hjá fjármálafyrirtæki. Veðsetning má ekki fara yfir 100% af innstæðu.
 5. Eðalmálmar í skilningi laga nr. 77/2002 um vörur unnar úr eðalmálmum. Veð­setning má ekki fara yfir 60% af virði eðalmálmsins.
 6. Bifreiðar. Veðsetning má ekki fara yfir 70% af viðmiðunarvirði Bílgreinasambands Íslands. Samanlagðar fyrirgreiðslur veittar á grundvelli tryggingar í bifreið mega þó aldrei nema hærri fjárhæð en 10 millj. kr.

Þrátt fyrir það er segir í 1. mgr. er heimilt að veita fyrirgreiðslu án trygginga fyrir að hámarki 2 millj. kr. Veðhlutfall skal ávallt vera undir tilskildum mörkum. Við veitingu fyrirgreiðslu skal veðhlutfall skrásett með formlegum hætti. Virði trygginga skal reikna ársfjórðungslega fyrir stafliði a og f. Aðra liði skal reikna daglega.

6. gr.

Fari fyrirgreiðslur yfir þau mörk sem kveðið er á um í 3. gr. eða ef farið er yfir mörk leyfðs veðsetningarhlutfalls samkvæmt 5. gr. skal hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki sam­stundis tilkynna það Fjármálaeftirlitinu sem er þá heimilt, ef sérstakar aðstæður mæla með því, að veita fyrirtækinu tiltekinn frest til að laga sig að gildandi takmörkum.

7. gr.

Fjármálafyrirtæki skal hafa yfir að ráða traustu stjórnunar- og upplýsingakerfi og innra eftirlitskerfi þar sem allar fyrirgreiðslur til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykil­starfsmanna eða þeirra sem eiga virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda, og breytingar á þeim, eru rekjanlegar þannig að unnt sé að hafa eftirlit með þeim.

8. gr.

Fjármálafyrirtæki skal ársfjórðungslega, þ.e. miðað við lok mars, júní, september og desember, senda skýrslu um fyrirgreiðslur til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykil­starfsmanna eða þeirra sem eiga virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda til Fjármálaeftirlitsins. Skýrslur skulu hafa borist Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 30 dögum frá uppgjörsdegi.

9. gr.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 3. mgr. 29. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fjármálaeftirlitinu, 21. febrúar 2011.

Gunnar Þ. Andersen.

Ragnar Hafliðason.

B deild - Útgáfud.: 22. febrúar 2011