Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1100/2011

Nr. 1100/2011 1. desember 2011
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 263/2010 um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands.

1. gr.

2. mgr. 1. gr. orðast svo:

Í reglum þessum er kveðið á um lágmarksskilyrði í tengslum við framgang og ótímabundna ráðningu. Fræðasviðum háskólans er hverju um sig heimilt að skilgreina nánari skilyrði og verklag við mat á umsóknum, t.d. á vettvangi deildar, sem háskólaráð staðfestir í formi sérreglna.

2. gr.

2. og 3. mgr. 2. gr. orðast svo:

Lektor, dósent, sérfræðingur eða fræðimaður getur óskað eftir framgangi í starfi. Rektor getur, án auglýsingar, flutt lektor í dósentsstarf, dósent í prófessorsstarf, sérfræðing í starf fræðimanns og fræðimann í starf vísindamanns, enda liggi fyrir hæfnisdómur dómnefndar fræðasviðs samkvæmt ákvæðum reglna þessara.

Heimilt er að flytja lektor í starf prófessors og sérfræðing í starf vísindamanns, enda uppfylli viðkomandi lágmarksskilyrði til að gegna starfinu að mati dómnefndar fræðasviðs samkvæmt reglum þessum.

3. gr.

3. gr., um umsóknarfrest og umsóknir, orðast svo:

Sækja skal um framgang til forseta fræðasviðs fyrir 1. nóvember ár hvert. Framgangur samkvæmt reglum þessum tekur gildi við upphaf nýs háskólaárs 1. júlí.

Áður en umsókn um framgang er lögð fram ber viðkomandi starfsmanni að leita eftir forkönnun á stigum hjá vísindasviði háskólans. Beiðni um slíka forkönnun skal berast vísindasviði fyrir 1. október ár hvert. Þegar forkönnun vísindasviðs liggur fyrir tekur viðkomandi starfsmaður sjálfur ákvörðun um það hvort hann leggur fram umsókn um framgang. Forseti fræðasviðs getur einnig óskað eftir því að vísindasvið kanni fjölda stiga einstakra starfsmanna sem viðkomandi forseti vill hvetja til að sækja um framgang.

Umsókn um framgang skal uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til umsókna um laus störf skv. 37. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Umsókn um framgang í starf dósents og prófessors skal auk þess fylgja kennsluferilskrá umsækjanda. Í umsókninni skal umsækjandi gera grein fyrir þeim verkum sínum á sviði rannsókna, kennslu, stjórnunar og þjónustu sem hann telur veigamest með tilliti til umsóknar sinnar um framgang. Umsækjandi skal einnig nefna a.m.k. fjóra utanaðkomandi sérfræðinga sem geta veitt umsögn um verk hans, sbr. 4. gr. reglna þessara. Sérfræðingarnir skulu vera viðurkenndir vísindamenn á sínu sviði og starfa utan Háskóla Íslands. Umsókn skal vera bæði á íslensku og ensku.

Forseti fræðasviðs beinir umsókn um framgang til dómnefndar viðkomandi fræðasviðs innan tveggja vikna frá lokum umsóknarfrests. Forseta fræðasviðs er heimilt að leggja fram greinargerð með umsókn starfsmanns um framgang.

4. gr.

4. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Dómnefnd fræðasviðs.

Á hverju fræðasviði starfar föst þriggja manna dómnefnd sem rektor skipar til þriggja ára í senn. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir af háskólaráði og er annar þeirra formaður nefndarinnar en hinn skal vera starfandi utan Háskóla Íslands. Þriðji nefndarmaðurinn er skipaður sérstaklega fyrir hvert framgangsmál. Hann skal vera sérfræðingur á viðkomandi sviði og skal tilnefndur af viðkomandi deild eða stofnun. Varamenn skal tilnefna og skipa á sama hátt. Í dómnefnd fræðasviðs má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla, nema því verði ekki við komið. Formaður nefndarinnar skal hafa verið metinn hæfur til að gegna starfi prófessors. Í dómnefnd skulu sitja bæði karlar og konur. Um sérstakt hæfi nefndarmanna gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hlutverk dómnefndar fræðasviðs er eftirfarandi:

  1. að meta hvort umsækjendur um framgang uppfylla þau lágmarksskilyrði sem sett eru um það starfsheiti sem við á samkvæmt ákvæðum 6. gr. reglna þessara, 41. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 og sérreglna deilda,
  2. að meta árangur og virkni umsækjanda í starfi sínu við Háskóla Íslands og veita framgangsnefnd Háskóla Íslands álit um hvort mælt sé með því að framgangur verði veittur.

Dómnefnd fræðasviðs skal afla umsagna tveggja til þriggja viðurkenndra utanaðkomandi sérfræðinga á fræðasviði umsækjandans, sem fylgja skulu umsókn til framgangsnefndar Háskóla Íslands, nema nefndin telji að umsækjandi uppfylli ekki lágmarksskilyrði skv. a-lið 2. mgr. Dómnefnd er heimilt að leita út fyrir þann hóp utanaðkomandi sérfræðinga sem umsækjandi nefnir í umsókn sinni, sbr. 3. gr. Tilkynna skal umsækjanda, viðkomandi deildarforseta og forseta fræðasviðs hvaða sérfræðingar muni veita álit. Dómnefnd fræðasviðs er heimilt að óska eftir upplýsingum um mat á fyrri störfum umsækjanda frá stjórnsýslu háskólans.

Er álit dómnefndar fræðasviðs liggur fyrir veitir nefndin umsækjanda allt að 14 daga andmælarétt.

Um málsmeðferð og störf dómnefndar fræðasviðs gilda auk ákvæða reglna þessara ákvæði 40.–43. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Mæli dómnefnd fræðasviðs með því að framgangur verði veittur sendir hún framgangsnefnd háskólans umsóknargögn, greinargerð dómnefndar fræðasviðs og umsagnir sérfræðinga innan fjögurra mánaða frá því að umsóknarfresti lauk, eða eigi síðar en 1. mars.

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr., um mat á umsóknum um framgang:

  1. Orðin „dóm- og framgangsnefnd“ í 2. tölulið 2. mgr. og í 4. mgr. breytast og verða (í viðeigandi beygingarfalli): dómnefnd.
  2. Yfirskrift töflu 3 orðast svo: Lágmarksfjöldi stiga úr tilgreindum flokkum rannsóknahluta matskerfis.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Ef kennari er samkvæmt auglýsingu eða ráðningarsamningi ráðinn á listrænum forsendum skulu kröfur um lágmarksfjölda rannsóknastiga við framgang vera í samræmi við töflu 1. Enn fremur er gerð krafa um að slíkur kennari hafi að lágmarki fjórðung stiga úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. töflu 3. Samkvæmt því er gerð krafa um 130 rannsóknastig í starf dósents og þar af skulu 20 stig vera úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. þessara reglna. Við framgang í starf prófessors er gerð krafa um 270 stig og þar af skulu 45 stig vera úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 6. gr.

6. gr.

2. mgr. 8. gr. orðast svo:

Rektor sendir umsókn um ótímabundna ráðningu til forseta fræðasviðs sem aflar umsagnar viðkomandi deildar. Að því búnu sendir forseti fræðasviðs umsóknina ásamt umsögn til framgangsnefndar Háskóla Íslands. Framgangsnefnd Háskóla Íslands gerir tillögu til rektors um hvort umsækjandi skuli ráðinn ótímabundinni ráðningu.

7. gr.

9. gr., um mat á störfum og ákvörðun um ótímabundna ráðningu, orðast svo:

Framgangsnefnd Háskóla Íslands metur störf umsækjanda og gerir rökstudda tillögu til rektors um hvort ráða beri umsækjanda ótímabundið.

Við mat á störfum umsækjanda skal byggja á þeim sjónarmiðum sem tilgreind eru í 6. gr. reglna þessara. Gerð er krafa um 40 rannsóknastig á síðustu fimm árum fyrir kennara, en 50 rannsóknastig á fimm árum fyrir sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn, úr tilgreindum flokkum matskerfis Háskóla Íslands sbr. 1. tölul. 2. mgr. 6. gr., meðan á tímabundinni ráðningu stendur. Einnig skal umsækjandi um ótímabundna ráðningu hafa lokið stuttu námskeiði í kennsluaðferðum og -tækni við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands eða hafa hlotið hliðstæða þjálfun á öðrum viðurkenndum vettvangi. Framangreint ákvæði um lágmarksrannsóknastig úr tilteknum flokkum matskerfisins á fyrstu fimm árum í starfi tekur ekki til kennara sem ráðnir eru á listrænum forsendum.

Veita skal umsækjanda 14 daga frest til þess að tjá sig um tillögu framgangsnefndar Háskóla Íslands.

Rektor tekur ákvörðun, að fenginni tillögu framgangsnefndar Háskóla Íslands, um hvort ráðning verður ótímabundin. Niðurstaða rektors skal liggja fyrir að minnsta kosti þremur mánuðum áður en tímabundinni ráðningu umsækjanda lýkur.

8. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar samkvæmt heimild í 4. gr., 15. gr. og 17. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 1. desember 2011.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 2. desember 2011