Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 680/2009

Nr. 680/2009 27. júlí 2009
REGLUR
um sakaskrá ríkisins.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Ríkissaksóknari heldur tölvufærða sakaskrá fyrir allt landið og nefnist hún: Sakaskrá ríkisins.

2. gr.

Tilgangur sakaskrár er:

 1. að skrá niðurstöður sakamála til notkunar við rannsókn og meðferð sakamála,
 2. að gefa út sakavottorð og veita upplýsingar úr skránni eftir því sem mælt er fyrir um í III. til VI. kafla,
 3. að vera grundvöllur sakfræðilegra rannsókna og til úrvinnslu á tölfræðilegum upplýsingum um sakamál.

II. KAFLI

Færsla í sakaskrá.

3. gr.

Í sakaskrá skal færa upplýsingar um sakamál á hendur einstaklingi eða lögaðila þegar máli er lokið með:

 1. dómi eða viðurlagaákvörðun í máli vegna brots á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni,
 2. dómi eða viðurlagaákvörðun í máli vegna brots á öðrum lögum, að frátöldum umferðarlögum, þegar ákveðin er fangelsisrefsing, ákvörðun refsingar er frestað eða ákveðin er réttinda- eða leyfissvipting eða dæmd er sekt 50.000 krónur eða hærri,
 3. lögreglustjórasátt í máli vegna brots á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni,
 4. dómi, viðurlagaákvörðun eða lögreglustjórasátt í máli vegna brots á umferðar­lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim þegar sekt er 100.000 krónur eða hærri eða brot hefur leitt til réttinda- eða leyfissviptingar eða brot varðar akstur sviptur ökurétti,
 5. lögreglustjórasátt eða sektargerð tollstjóra í máli vegna brots á öðrum lögum þegar sekt er 50.000 krónur eða hærri eða brot hefur leitt til réttinda- eða leyfis­sviptingar,
 6. ákærufrestun og þegar fallið er frá saksókn.

Einnig skal færa upplýsingar um mál í sakaskrá þegar niðurstaða þess hefur samkvæmt lögum ítrekunaráhrif á síðara brot.

Sýknudóma skal ekki færa í sakaskrá nema sýkna byggist á 15. gr. almennra hegningar­laga. Þó skal færa í sakaskrá sýknudóma sem áfrýjað er.

4. gr.

Í sakaskrá skal færa sömu eða sambærilegar upplýsingar og greinir í 3. gr. í málum þar sem íslenskir ríkisborgarar eða erlendir menn búsettir hér á landi hafa verið dæmdir til viðurlaga erlendis eða undirgengist viðurlög hjá erlendum stjórnvöldum, enda berist sakaskrá upplýsingar um slíkar niðurstöður.

Með sama hætti skal skrá erlendar ákvarðanir um viðurlög þegar fullnusta þeirra fer fram hér á landi.

5. gr.

Í sakaskrá skal einnig færa upplýsingar um:

 1. uppgjöf sakar í málum, sem lokið hefur verið fyrir dómstólum,
 2. uppreist æru,
 3. náðun og breytingar á skilorðstíma,
 4. reynslulausn og breytingar á skilorðstíma,
 5. ákvörðun um að afplána skuli refsingu eða eftirstöðvar refsingar sem gefin hefur verið eftir með skilorðsbundinni náðun eða reynslulausn,
 6. áfrýjun mála sem færð eru í sakaskrá,
 7. lok afplánunar fangelsisrefsingar,
 8. úrlausn um niðurfellingu öryggisráðstafana skv. VII. kafla almennra hegningar­laga,
 9. endurveitingu réttinda, sem sakborningur hefur verið sviptur,
 10. aðrar breytingar á niðurstöðum sem getið er í 3. gr.

6. gr.

Hafi dómi verið áfrýjað til Hæstaréttar og sakborningur er þar sýknaður skal afmá úr saka­skrá niðurstöður héraðsdóms. Sama gildir þegar Hæstiréttur ónýtir ákvörðun um viður­lög sem sakborningur hefur undirgengist skv. 163. gr. laga um meðferð sakamála, vísar máli frá héraðs­dómi eða ómerkir málsmeðferð héraðsdóms.

Þegar mál, sem lokið hefur verið að sakborningi fjarstöddum, er endurupptekið og dæmt skal héraðsdómur tilkynna sakaskrá um þann dóm og skal þá afmá úr sakaskrá fyrri innfærslu um niðurstöðu máls.

Þegar ríkissaksóknari fellir úr gildi ákvörðun um viðurlög sem sakborningur hefur undir­gengist samkvæmt boði lögreglustjóra eða tollstjóra afmáir hann jafnframt við­komandi ákvörðun úr sakaskrá hafi hún verið skráð þar.

7. gr.

Héraðsdómstólar, lögreglustjórar og tollstjóri tilkynna um niðurstöður í málum sem lokið er hjá þeim og færa skal í sakaskrá.

Ríkissaksóknari sér um að niðurstöður Hæstaréttar, ákærufrestanir sem hann afgreiðir og mál skv. 4. gr. verði færð.

Dómsmálaráðuneytið og Fangelsismálastofnun ríkisins tilkynna um þau atriði sem færa ber skv. 5. gr.

Tilkynningar til sakaskrár skulu vera skriflegar og ákveður ríkissaksóknari að öðru leyti form þeirra.

III. KAFLI

Upplýsingar úr sakaskrá til hins skráða.

8. gr.

Gefa skal út sakavottorð handa þeim sem þess óskar um hann sjálfan. Sakavottorð handa þeim sem er yngri en 18 ára skal þó aðeins láta í té að fyrir liggi samþykki þess sem fer með forsjá viðkomandi.

Í sakavottorði samkvæmt þessum kafla skal einungis tilgreina upplýsingar um brot á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni með eftirgreindum takmörkunum:

 1. niðurstöður máls skv. 3. gr. aðrar en fangelsisdóma skal ekki tilgreina ef liðin eru 3 ár frá því máli var lokið,
 2. fangelsisdómur skal ekki tilgreindur ef liðin eru 5 ár frá dómsuppkvaðningu eða frá því dómþoli var látinn laus hafi hann afplánað refsingu,
 3. ráðstafanir skv. 62.-67. gr. almennra hegningarlaga skal ekki tilgreina ef liðin eru 5 ár frá því ráðstöfun var felld niður.

Ríkissaksóknari getur í sérstökum tilvikum veitt undanþágu frá tímamörkum sem tilgreind eru í 2. mgr.

Sakavottorð samkvæmt þessum kafla skal hafa að geyma upplýsingar um hvað tilgreina ber á vottorði skv. 2. mgr.

9. gr.

Beiðni um útgáfu sakavottorðs samkvæmt þessum kafla skal beina til lögreglustjóra eða til sýslumanns í þeim umdæmum þar sem sýslumaður fer ekki með lögreglustjórn og skal hún vera skrifleg og undirrituð eða með rafrænum hætti.

Sakavottorð verður ekki látið í té nema sá, sem eftir því leitar, sanni með framvísun fullnægjandi persónuskilríkja að vottorð varði hann. Óski annar en maður sjálfur eftir sakavottorði skal tryggt að viðkomandi hafi heimild til að veita því viðtöku.

IV. KAFLI

Upplýsingar úr sakaskrá til yfirvalda.

10. gr.

Auk þess sem ríkissaksóknari gefur út sakavottorð til eigin afnota skulu vottorð gefin út til eftirtalinna samkvæmt beiðni:

 1. dómstóla,
 2. dómsmálaráðuneytisins,
 3. umboðsmanns Alþingis,
 4. lögreglustjóra, þ.m.t. ríkislögreglustjórans,
 5. Fangelsismálastofnunar,
 6. Útlendingastofnunar.

Ríkissaksóknari gefur út sakavottorð til erlendra yfirvalda vegna rannsóknar og með­ferðar sakamáls eða vegna öflunar ríkisfangs eða ökuréttinda.

Ríkissaksóknari getur veitt lögreglustjóra og ríkislögreglustjóranum heimild til rafrænnar fyrirspurnar í sakaskrá og til útgáfu sakavottorðs samkvæmt þessum kafla að uppfylltum nánari skilyrðum samkvæmt VII. kafla.

11. gr.

Í sakavottorði samkvæmt þessum kafla skal ekki tilgreina þær upplýsingar sem skráðar hafa verið um viðkomandi einstakling eða lögaðila þegar 10 ár eru liðin frá síðustu af eftirtöldum tímamörkum:

 1. lokum afplánunar fangelsisrefsingar,
 2. lokum reynslutíma reynslulausnar,
 3. uppkvaðningu úrskurðar um niðurfellingu ráðstöfunar skv. 62.-67. gr. almennra hegningarlaga,
 4. lokum réttindasviptingar eða endurveitingu réttinda,
 5. uppkvaðningu endanlegs dóms eða dagsetningu ákvörðunar sem ekki fellur undir a-d lið.

Hafi viðkomandi hlotið tvo eða fleiri fangelsisdóma ber að færa þá alla í sakavottorð þótt aðeins einn þeirra sé innan þeirra tímamarka sem getur í 1. mgr. Ríkissaksóknari getur einnig ákveðið í sérstökum tilvikum að í sakavottorði séu upplýsingar um niðurstöður eldri mála.

12. gr.

Ríkissaksóknari getur ákveðið að aðrir opinberir aðilar en þeir sem greinir í 10. gr. fái afhent sakavottorð eða ákveðnar upplýsingar úr sakaskrá, enda hafi þeir lögvarða hags­muni af að fá slíkar upplýsingar.

13. gr.

Beiðni um sakavottorð samkvæmt þessum kafla skal vera skrifleg en ríkissaksóknari getur fallist á að þeir sem taldir eru í 10. gr. setji fram beiðni með rafrænum hætti.

V. KAFLI

Upplýsingar úr sakaskrá til einkaaðila.

14. gr.

Upplýsingar úr sakaskrá má ekki veita einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum einka­aðilum, nema það leiði af 15. eða 16. gr. eða fyrir því sé heimild í lögum.

15. gr.

Ríkissaksóknari getur veitt einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum einkaaðilum ákveðnar upplýsingar úr sakaskrá, enda sé það gert til þess að mögulegt verði að gæta lögvarinna hagsmuna sem greinilega eru ríkari en þeir hagsmunir sem felast í að halda upp­lýs­ing­unum leyndum.

VI. KAFLI

Upplýsingar til notkunar í vísindalegu skyni.

16. gr.

Upplýsingar úr sakaskrá má veita samkvæmt tilteknum skilyrðum þegar þær eru nauðsyn­legar til vísindalegra eða tölfræðilegra rannsókna sem hafa verulega þýðingu.

VII. KAFLI

Öryggisreglur.

17. gr.

Ríkissaksóknari ákveður hverjir hafa aðgang að sakaskrá og gefur út persónulegt og leynilegt auðkennisorð sem viðkomandi verður að nota til að geta tengst skránni. Auð­kennis­orð skulu endurnýjuð ekki sjaldnar en einu sinni á ári.

Auðkennisorð skulu ekki vera lesanleg á skjá. Í hvert sinn sem sá, sem aðgang hefur að sakaskrá, víkur frá skjá, skulu gerðar þær ráðstafanir, að áframhaldandi aðgangur krefjist þess að auðkennisorð sé skráð á ný.

18. gr.

Aðgangur að sakaskrá er þessi:

 1. að gera fyrirspurn,
 2. að prenta út sakavottorð og upplýsingar,
 3. að skrá upplýsingar,
 4. að leiðrétta og breyta skráðum upplýsingum og að afmá skráðar upplýsingar.

Þegar auðkennisorð er gefið út skal jafnframt ákveðið hvers konar aðgang viðkomandi hefur að sakaskránni.

19. gr.

Í lok hvers vinnudags skal taka öryggisafrit af sakaskránni og það varðveitt í læstri eld­traustri hirslu.

Ekki sjaldnar en með fjögurra vikna millibili skal taka öryggisafrit af sakaskránni og það varðveitt í læstri hirslu í öðru húsnæði en þar sem sakaskráin er varðveitt.

20. gr.

Reglur þessar eru settar með stoð í 225. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og öðlast gildi 15. ágúst 2009.

Reykjavík, 27. júlí 2009.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari.

B deild - Útgáfud.: 6. ágúst 2009