Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1067/2006

Nr. 1067/2006 7. desember 2006
REGLUR
um viðurkenningu háskóla á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Í viðurkenningu háskóla felst staðfesting á því að starfsemi hans sé í samræmi við lög um háskóla nr. 63/2006 og reglur settar á grundvelli þeirra.

Viðurkenning háskóla er byggð á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi og er ætlað að stuðla að því að íslenskir háskólar uppfylli gæðakröfur og standist alþjóðlegan samanburð.

Viðurkenning háskóla er bundin við tiltekin fræðasvið og tiltekna undirflokka viðkomandi fræðasviðs. Háskólar geta eingöngu starfað á fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nær til.

Viðurkenning felur ekki í sér að stjórnvöld séu skuldbundin til að veita fé til viðkomandi háskóla.

II. KAFLI

Veiting viðurkenningar.

2. gr.

Háskóla má reka sem ríkisstofnun, sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi.

Viðurkenning háskóla er veitt að fullnægðum skilyrðum 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Í umsókn skal tilgreina þau fræðasvið og þá undirflokka viðkomandi fræðasviðs sem viðurkenningu háskóla er ætlað að ná til.

Í umsókn um viðurkenningu skulu koma fram ítarlegar upplýsingar og gögn er varða skilyrði skv. 3. gr. laga um háskóla, sbr. eftirfarandi:

  1. Hlutverk og markmið. Hlutverk háskóla og þau markmið, sem honum eru sett, skulu vera skýr og í samræmi við hlutverk háskóla, sbr. 2. gr. laga um háskóla.
  2. Stjórnskipan og skipulag. Stjórnskipan og skipulag skal vera í samræmi við 15. og 16. gr. laga um háskóla.
  3. Fyrirkomulag kennslu og rannsókna. Háskóli skal standa svo að kennslu og rannsóknum að það sé í samræmi við meginsjónarmið laga um háskóla. Háskóli skal setja sér siðareglur, m.a. um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga um háskóla.
  4. Hæfisskilyrði starfsmanna. Háskóli skal uppfylla 17. og 18. gr. laga um háskóla og þær kröfur sem leiða af þeim.
  5. Reglur um inntökuskilyrði og um réttindi og skyldur nemenda. Reglur um inntökuskilyrði nemenda skulu vera í samræmi við 19. gr. laga um háskóla. Reglur um réttindi og skyldur nemenda skulu taka mið af málsmeðferðarreglu 20. gr. laga um háskóla og að því er tekur til ríkisrekinna háskóla skulu þær vera í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1997. Reglur annarra háskóla skulu vera í samræmi við málefnalega stjórnsýslu og meginreglur stjórnsýsluréttar, eftir því sem við getur átt.
  6. Aðstaða kennara og nemenda og þjónusta við þá. Aðstaða nemenda og kennara skal vera með þeim hætti að háskóla sé kleift að uppfylla hlutverk sitt og markmið. Þjónusta við kennara og nemendur er háð sama skilyrði.
  7. Innra gæðakerfi. Lýsing á innra gæðakerfi háskóla skal vera í samræmi við 11. og 12. gr. laga um háskóla.
  8. Lýsing á inntaki náms. Háskóla ber að birta lýsingu á þekkingu og hæfni nemenda við námslok fyrir hverja námsleið sem í boði er á viðkomandi fræðasviði og undirflokki viðkomandi fræðasviðs, í samræmi við viðmið um æðri menntun og prófgráður, sbr. 5. gr. laga um háskóla.
  9. Fjárhagur. Háskóli skal sýna fram á rekstrargrundvöll fyrir starfsemi sinni, hvort sem fjárhagur hans byggir á VIII. kafla laga um háskóla, starfsemi hans er fjármögnuð af ríkinu á grundvelli annarra laga, eða af einkaaðilum með öðrum hætti. Gerð er sú krafa til háskóla að fjárhagsstaða hans sé á hverjum tíma slík að hann fái mætt þeim skuldbindingum sem hann undirgengst gagnvart nemendum, starfsliði og viðskiptaaðilum háskólans, þ.m.t. ríkissjóði.

3. gr.

Menntamálaráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd sem veitir umsögn um umsóknir um viðurkenningu er tekur til einstakra fræðasviða og tiltekna undirflokka viðkomandi fræðasviðs.

Á grundvelli umsóknar og upplýsinga sem háskólar leggja fram skv. 2. gr., skal sérfræðinganefnd veita umsögn til menntamálaráðherra sem inniheldur niðurstöður mats á þáttum í a.-i.-lið 3. mgr. 2. gr., auk mats á eftirfarandi þáttum:

  1. Fræðilegri þekkingu og getu háskóla á fræðasviði og undirflokki viðkomandi fræðasviðs m.t.t. gæða kennslu og rannsókna, aðstöðu og aðbúnaðar í fræðilegu tilliti, miðlun þekkingar og tengsla við samfélagið.
  2. Hvernig stuðningi háskólans er háttað gagnvart; fræðasamfélaginu í heild, kennurum og sérfræðingum á viðkomandi fræðasviði og menntun og þjálfun nemenda.
  3. Sérstaklega skal skoða styrk fræðasviðs og undirflokka þess út frá námsskipulagi, einkum tengsl milli grunn- og framhaldsnáms og við önnur fræðasvið, eftir því sem við getur átt.
  4. Stöðu fræðasviðs og undirflokka viðkomandi fræðasviðs hér á landi og í alþjóðlegum samanburði. Skal þá m.a. litið til samstarfs við innlenda og erlenda háskóla og stofnanir á tilgreindu fræðasviði, innlendar sem erlendar.

Umsögn sérfræðinganefndar skal studd ítarlegum og málefnalegum rökum.

Ef niðurstaða sérfræðinganefndar er sú að mæla ekki með viðurkenningu, skal hún tilgreina þau skilyrði sem hún telur háskóla ekki uppfylla, sbr. 2. gr., eða þá þætti sem hún telur að viðkomandi háskóli þurfi að bæta til að öðlast viðurkenningu á tilteknu fræðasviði og undirflokki viðkomandi fræðasviðs. Að fenginni slíkri umsögn veitir menntamálaráðherra viðkomandi háskóla tiltekinn tímafrest til úrbóta. Þær skulu metnar af viðkomandi sérfræðinganefnd, sem veitir menntamálaráðherra umsögn hvort úrbætur teljist fullnægjandi. Endanleg ákvörðun um afgreiðslu umsóknar er síðan tilkynnt háskóla.

4. gr.

Viðurkenning háskóla á fræðasviði og tilteknum undirflokkum viðkomandi fræðasviðs er ótímabundin, og sérstakt vottorð gefið út um hana. Þegar viðurkenning er veitt er tekin ákvörðun um heiti viðkomandi háskóla á erlendum tungumálum á grundvelli reglna sem menntamálaráðherra setur, skv. 9. mgr. 3. gr. laga um háskóla.

Háskóli skal sækja um heimild til menntamálaráðherra óski hann eftir viðurkenningu til að stunda kennslu eða rannsóknir á öðru fræðasviði en viðurkenning hans nær þegar til. Sama gildir ef um er að ræða annan undirflokk viðkomandi fræðasviðs, en viðurkenning hans nær þegar til. Skal þá fylgt ákvæðum 2. og 3. gr., eftir því sem við á.

III. KAFLI

Afturköllun viðurkenningar.

5. gr.

Hyggist háskóli láta af kennslu eða rannsóknum á tilteknu fræðasviði skal mennta­mála­ráðuneyti tilkynnt um það. Hafi ekki verið stunduð kennsla eða rannsóknir í tvö ár samfleytt á fræðasviði, sem viðurkenning háskóla nær til, fellur viðurkenning háskóla á því fræðasviði úr gildi á grundvelli sérstakrar tilkynningar menntamála­ráðherra, að undangenginni umsögn viðkomandi háskóla.

Uppfylli háskóli, sem fengið hefur viðurkenningu, ekki ákvæði háskólalaga og reglur og skilyrði sem sett eru á grundvelli þeirra eða þær kröfur sem gerðar eru til kennslu og rannsókna, getur menntamálaráðherra afturkallað viðurkenningu á einstökum fræða­sviðum, undirflokki viðkomandi fræðasviðs eða að fullu.

Afturköllun viðurkenningar skv. 2. mgr. skal, eftir því sem við á, taka mið af niðurstöðu ytra mats, skv. 13. gr. laga um háskóla og reglna um gæðaeftirlit með kennslu og rannsóknum. Ef niðurstaða ytra mats, eða aðrar ástæður, leiða til þess að háskóli teljist ekki uppfylla skilyrði sem viðurkenning hans byggir á, skal tilgreina ástæður þess og jafnframt hvað viðkomandi háskóli þurfi að bæta, til að halda viðurkenningu á fræðasviði og undirflokki viðkomandi fræðasviðs. Menntamálaráðherra veitir háskóla tiltekinn tímafrest til úrbóta. Úrbætur skulu metnar, eftir atvikum að fengnu áliti ytri matshóps, og ákvörðun síðan tilkynnt háskóla.

IV. KAFLI

Gildistaka.

6. gr.

Reglur þessar eru settar skv. heimild í 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 7. desember 2006.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 22. desember 2006