Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 757/2012

Nr. 757/2012 13. september 2012
REGLUGERÐ
um birtingu upplýsinga sem eru tengdar upprunaábyrgðum raforku.

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja birtingu áreiðanlegra upplýsinga sem eru tengdar upprunaábyrgðum raforku, svo tekin séu af öll tvímæli um að einungis einu sinni sé tekið tillit til hverrar orkueiningar. Reglugerðinni er ætlað að stuðla að aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa við framleiðslu á rafmagni og umhverfisvitund notenda raf­orku með miðlun upplýsinga.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til skyldu til að upplýsa notendur um uppruna afhentrar raforku og magn skilgreindra úrgangsefna sem beint leiðir af raforkuvinnslu auk fyrirkomulags við upplýsingagjöf og meðferð slíkra upplýsinga.

3. gr.

Skilgreiningar.

 1. Stöðluð yfirlýsing: Yfirlýsing um uppruna raforku og úrgangsefni útgefin af sölu­fyrirtækjum sem selja ekki upprunaábyrgðir eða aðrar sambærilegar afurðir.
 2. Sértæk yfirlýsing: Yfirlýsing um uppruna raforku og úrgangsefni sem sölufyrirtæki skulu gefa út ef þau selja upprunaábyrgðir eða aðrar sambærilegar afurðir.
 3. Afskráning: Aðgerð sem framkvæmd er í þeim tilgangi að selja eða nota raforku af þekktum uppruna.
 4. Úrgangsefni: Koldíoxíð (mælt í g/kWst.) og geislavirkur úrgangur (mældur í mg/kWst.) sem beint leiðir af raforkuvinnslu.
 5. Sölufyrirtæki: Fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.
 6. Raforka af þekktum uppruna: Uppruni afhentrar raforku telst þekktur ef sam­svarandi magn upprunaábyrgða er afskráð í íslenska skráningarkerfinu innan til­skil­inna tímamarka og að öðru leyti í samræmi við leiðbeiningar Orkustofnunar.
 7. Raforka af óþekktum uppruna: Uppruni afhentrar raforku telst óþekktur ef sam­svarandi magn upprunaábyrgða er ekki afskráð í íslenska skráningarkerfinu innan tímamarka og að öðru leyti í samræmi við leiðbeiningar Orkustofnunar.
 8. Raforkuafurð (electricity product): Raforka sem afhent er af sölufyrirtæki til notenda með fyrirframskilgreindri yfirlýsingu varðandi uppruna, orkugjafa eða önnur eigindi raforkunnar.
 9. Raforkuleif (residual electricity): Raforka sem afhent er af sölufyrirtæki til notenda án fyrirframskilgreindrar yfirlýsingar varðandi uppruna, orkugjafa eða önnur eig­indi raforkunnar.
 10. Notandi: Sá sem kaupir raforku til eigin nota.
 11. Upprunaábyrgð: Staðfesting á að raforka sé framleidd með tilteknum orkugjafa.

II. KAFLI

Yfirlýsingar til notenda.

4. gr.

Upplýsingaskylda sölufyrirtækja.

Sölufyrirtæki skulu a.m.k. árlega upplýsa notendur sína á eða með reikningum og í kynningargögnum í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, um:

 1. uppruna afhentrar raforku,
 2. magn úrgangsefna, a.m.k. með tilvísun í heimildir, s.s. opinberlega aðgengilegar heimasíður þar sem finna má slíkar upplýsingar.

Upplýsingarnar skulu ná til raforkuafhendingar til notenda á síðastliðnu almanaksári og skulu uppfærðar 1. júlí ár hvert með upplýsingum fyrir liðið almanaksár. Upplýsingarnar má setja fram í yfirlýsingum, sbr. 5. og 6. gr., og skulu þær þá bera nafn, merki og heimilisfang sölufyrirtækis.

Orkustofnun gefur út leiðbeiningar um nánara efnisinnihald þeirra upplýsinga sem sölu­fyrirtækjum ber að birta.

5. gr.

Staðlaðar yfirlýsingar.

Sölufyrirtæki sem selja raforkuleifar skulu eigi síðar en 1. júlí ár hvert upplýsa notendur sína um uppruna raforku og úrgangsefni. Varðandi hlutdeild raforku af óþekktum upp­runa í raforkuleif er sölufyrirtækjunum heimilt að nota upplýsingar um samsetningu sem Orkustofnun birtir opinberlega á heimasíðu sinni, sbr. 8. gr reglugerðarinnar.

6. gr.

Sértækar yfirlýsingar.

Sölufyrirtæki sem selja raforkuafurðir skulu eigi síðar en 1. júlí ár hvert upplýsa notendur sína um uppruna raforku og úrgangsefni. Þessi sölufyrirtæki skulu útbúa sértæka yfir­lýsingu í samræmi við 9. og 10. gr.

7. gr.

Notkun yfirlýsinga af hálfu raforkunotenda.

Við upplýsingagjöf um uppruna, orkugjafa eða önnur eigindi raforkuvinnslu eða raforku­not skulu sölufyrirtæki og notendur byggja á upplýsingum í yfir­lýsingum.

III. KAFLI

Ákvörðun upplýsinga í yfirlýsingu.

8. gr.

Ákvörðun upplýsinga í staðlaðri yfirlýsingu.

Orkustofnun gefur út, fyrir 1. júní ár hvert, upplýsingar fyrir íslenskan raforkumarkað um raforkuleif sem afhent var á síðastliðnu almanaksári, ásamt upplýsingum um úrgangsefni tengd raforkuframleiðslunni.

Upplýsingar í stöðluðum yfirlýsingum um uppruna raforku skulu byggðar á upplýsingum Orkustofnunar og leiðréttingum vegna afskráðra upprunaábyrgða, sbr. 10. gr. reglu­gerðar þessarar. Mismunur vegna afskráðra upprunaábyrgða skal leiðréttur með upp­lýs­ingum um samsetningu útgefnum af Orkustofnun, sbr. 5. gr.

Upplýsingar um úrgangsefni, sem Orkustofnun birtir á heimasíðu sinni, skulu byggðar á bestu tiltæku upplýsingum um viðkomandi orkugjafa.

9. gr.

Ákvörðun upplýsinga í sértækri yfirlýsingu.

Sölufyrirtæki skal fyrir 1. júlí ár hvert útbúa og birta sértæka yfirlýsingu sem sýnir upp­runa þeirrar raforku sem upprunaábyrgðir hafa verið afskráðar fyrir og úrgangsefni við framleiðslu hennar á liðnu almanaksári.

Ef í kynningargögnum eða reikningum kemur fram að raforkuvinnsla er eingöngu af þekktum uppruna og er aðgreinanlegur frá almennri afhendingu raforku, skal uppruni raf­orkunnar tilgreindur sérstaklega fyrir þann hluta. Að öðru leyti skal miðað við upp­lýsingar Orkustofnunar.

Upplýsingar um úrgangsefni, sem Orkustofnun birtir á heimasíðu sinni, skulu byggðar á bestu tiltæku upplýsingum um viðkomandi orkugjafa.

10. gr.

Skráning upplýsinga vegna sértækra yfirlýsinga.

Í þeim tilgangi að skrásetja afhendingu á raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sem upprunaábyrgðir hafa verið gefnar út fyrir, skal sölufyrirtæki árlega afskrá samsvarandi fjölda raforkuafurða í formi upprunaábyrgða. Árleg afskráning skal eiga sér stað í síðasta lagi 31. mars fyrir síðastliðið almanaksár.

Afskráning upprunaábyrgða vegna vinnslutímabila á tilteknu almanaksári sem eiga sér stað fyrir 31. mars næsta árs skulu telja í upplýsingagjöf vegna liðins almanaksárs. Síðari afskráningar skulu telja í upplýsingagjöf yfirstandandi almanaksárs. Uppruna­ábyrgðir sem ekki hafa verið afskráðar fyrir 31. mars skulu taldar með raforku­leif.

Sölufyrirtæki skal útbúa greinargerð sem sýnir útreikning upplýsinga í sértækri yfir­lýsingu. Sértækar yfirlýsingar og greinargerðir skulu framsendar Orkustofnun eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Sölufyrirtækið skal varðveita gögn í 6 ár frá útsendingu yfirlýs­ingar.

IV. KAFLI

Upplýsingaskylda, eftirlit og kærur.

11. gr.

Upplýsingaskylda.

Sölu- og raforkuvinnslufyrirtæki skulu skv. beiðni Orkustofnunar miðla öllum upplýs­ingum tímanlega, sem nauðsynlegar eru til að stofnunin geti á fullnægjandi hátt efnt skyldur sínar skv. reglugerð þessari.

Sölufyrirtæki skulu senda Orkustofnun upplýsingar um upprunaábyrgðir sem afskráðar hafa verið vegna upplýsingagjafar síðasta almanaksár.

12. gr.

Eftirlit og kærur.

Orkustofnun fer með eftirlit með réttmæti upplýsinga í sértækum yfirlýsingum. Ákvarð­anir Orkustofnunar eru kæranlegar til úrskurðarnefndar raforkumála.

V. KAFLI

Gildistaka.

13. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 5. gr. og 45. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi gr. 9a reglu­gerðar um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 5. og 8. gr. reglugerðar þessarar skal Orkustofnun eigi síðar en 1. október 2012 gefa út upplýsingar um samsetningu skv. 8. gr. vegna ársins 2011. Sölu­fyrirtækin skulu eigi síðar en 15. nóvember 2012 upplýsa notendur um uppruna afhentrar raforku og úrgangsefni sem leiðir af framleiðslu hennar í samræmi við ákvæði reglu­gerðar þessarar.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. september 2012.

F. h. r.

Kristján Skarphéðinsson.

Ingvi Már Pálsson.

B deild - Útgáfud.: 14. september 2012