Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 422/2008

Nr. 422/2008 16. apríl 2008
SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Landspítalasjóð Íslands.

1. gr.

Sjóður þessi var stofnaður með almennum samskotum um land allt er konur gengust fyrir til minningar um stjórnmálaréttindi íslenskra kvenna, fengin 19. júní 1915. Kvenfélög þau í Reykjavík er í fyrstu gengust fyrir fjársöfnun til sjóðsins voru Hið íslenska kven­félag, Hvíta bandið, Kvenfélag Fríkirkjusafnaðarins, Kvenréttindafélag Íslands í Reykjavík, Lestrarfélag kvenna í Reykja­vík, Thorvaldsensfélagið, Ungmennafélagið Iðunn og Verkakvennafélagið Framsókn.

Hinn 1. janúar 1998 voru fjórir sjóðir, Dánargjöf Peter D. Petersen, Bókasjóður Víði­hlíðar, Minningarsjóður hjónanna Kristínar Jóhannsdóttur og Hjalta Jóhannssonar og fyrri konu hans, Gróu Þorkelsdóttur og Minningarsjóður Sigríðar Lárettu Pétursdóttur og Steinunnar Stefaníu Einarsdóttur, sameinaðir Landspítalasjóði Íslands, sbr. skipulagsskrá sjóðsins nr. 281/1999. Í febrúar 2008 var Minningarsjóður Guðjóns Björnssonar verzlunar­manns og konu hans Guðlaugar Jónsdóttur, sameinaður Landspítalasjóði.

Skipulagsskrá fyrir sjóðinn var fyrst staðfest 24. nóvember 1916 og er nafn sjóðsins: Landspítalasjóður Íslands.

Sjóðurinn skal vera óháður fjárhag, rekstri og lögbundinni stöðu Landspítala. Heimili sjóðs­ins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Stofnfé Landspítalasjóðs var 23.729,09 kr. Bundinn höfuðstóll sjóðsins samkvæmt skipulagsskrá frá 10. nóvember 2003 nam 581.000 kr. en er nú hækkaður í 732.000 kr. með framlagi af óráðstöfuðu eigin fé. Þennan höfuðstól má ekki skerða. Eigið fé sjóðsins í árslok 2006 nam samtals 162.595.527 kr.

Eignum sjóðsins á hverjum tíma umfram bundið fé skal varið í samræmi við tilgang hans, sbr. 3. gr.

3. gr.

Landspítalasjóði má skipta upp í deildir og verkefni. Tilgangur sjóðsins er:

  1. Að styrkja rannsóknir og efla vísindastarfsemi á Landspítala.
  2. Að bæta aðstöðu sjúklinga á spítalanum, m.a. með því að leggja fram fé til kaupa á lækningatækjum fyrir spítalann.
  3. Að styrkja hvers konar aðra starfsemi á spítalanum, sjúklingum og starfsmönnum til hagsbóta.

Sjóðnum er þó ekki heimilt að leggja fram fé eða lána spítalanum fjármuni til að standa straum af venjulegum rekstrarútgjöldum.

4. gr.

Tekjur sjóðsins eru gjafafé, styrkir, minningargjafir og áheit sem tengd eru starfsemi Landspítala eða einstökum deildum hans, ágóði af fjáröflun sem tengd er starfsemi spítal­ans eða einstakra deilda hans, rannsóknarstyrkir vegna vísindarannsókna í tengsl­um við sjúkrahúsið og önnur fjárframlög sem sjóðnum kunna að berast, ásamt vöxtum af eignum hans.

5. gr.

Við bókhald sjóðsins skal halda sérstaka skrá yfir gjafir, rannsóknarstyrki vegna vísinda­rannsókna í tengslum við sjúkrahúsið og önnur fjárframlög til hans, sem eru bundin því skilyrði að þau nýtist starfsemi á tiltekinni deild spítalans. Við ákvörðun styrkja til einstakra deilda skal hafa hliðsjón af þessari skrá sjóðsins.

Stjórn sjóðsins er heimilt að skipa fulltrúaráð fyrir einstakar deildir eða verkefni og setja þeim starfsreglur. Einn meðlimur slíks ráðs skal teljast vera ábyrgðarmaður deildar eða verkefnis. Þessum fulltrúaráðum má fela úthlutun gjafa, styrkja eða annarra fjárframlaga í samræmi við starfsreglur og tilgang Landspítalasjóðs, sbr. 3. gr.

6. gr.

Framkvæmdastjórn Landspítala skipar að tillögu forstjóra þrjá menn í stjórn Landspítala­sjóðs til fjögurra ára í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum.

Stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni á ári og skal til þeirra boðað af formanni. Stjórn sjóðsins skal halda fundargerðabók um ákvarðanir sínar og um hvað eina er varðar rekstur sjóðsins.

Fulltrúaráð deilda sjóðsins eða verkefna á hans vegum, sbr. 2. mgr. 5. gr., skulu halda fundi svo oft sem þurfa þykir og skal til þeirra boðað af ábyrgðarmanni. Þessi ráð skulu rita fundargerðir um ákvarðanir sínar.

7. gr.

Stjórn sjóðsins ákveður styrkveitingar úr sjóðnum í samræmi við tilgang hans, sbr. 3. gr., sbr. þó ákvæði 2. mgr. 5. gr. Stjórnunarkostnað, þ.m.t. kostnað vegna starfa full­trúa­ráða deilda og verkefna, sbr. 2. mgr. 5. gr., má greiða af tekjum sjóðsins.

8. gr.

Bókhald og fjárvörslu sjóðsins annast skrifstofa fjárreiðna og upplýsinga hjá Landspítala og skal reikningsár sjóðsins miðast við almanaksárið. Skrifstofa fjárreiðna og upplýsinga semur árlega ársreikning fyrir stjórn sjóðsins, og skal hann liggja fyrir eigi síðar en 1. júní ár hvert fyrir undangengið ár. Bókhald og reikningsskil sjóðsins skulu vera í sam­ræmi við bókhaldslög, nr. 145/1994, og við ársreikningalög, nr. 144/1994, auk reglna Landspítala um bókhald sérsjóða og tengdra verkefna.

Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af endurskoðanda Landspítala. Endurskoðaður ársreikningur skal sendur Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár.

9. gr.

Skipulagsskrá þessari verður hvorki breytt né Landspítalasjóður Íslands lagður niður nema með einróma samþykki sjóðstjórnar og að fengnu samþykki embættis sýslumanns.

10. gr.

Í samræmi við lög um sjóði, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988, með síðari breytingum, skal leita staðfestingar á skipulagsskrá þessari hjá embætti sýslumanns. Sama á við um breytingar á skipulagsskrá.

Við staðfestingu þessarar skipulagsskrár fellur úr gildi skipulagsskrá fyrir Landspítalasjóð Íslands sem staðfest var 10. nóvember 2003, nr. 863/2003 í B-deild Stjórnartíðinda.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

Sýslumaðurinn á Sauðárkróki, 16. apríl 2008.

Ríkarður Másson.

Helgi Már Ólafsson.

B deild - Útgáfud.: 7. maí 2008