Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 152/2010

Nr. 152/2010 10. febrúar 2010
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

Við 2. mgr. 22. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Heimilt er fræðasviði að kjósa fulltrúa á háskólaþing með rafrænni atkvæðagreiðslu.

2. gr.

6. mgr. 47. gr. orðast svo: Sviðsstjóri kennslusviðs tekur ákvörðun um það hvort innritun í grunnnám skuli heimiluð, að fenginni umsögn hlutaðeigandi deildar. Umsækjanda er heimilt að kæra synjun sviðsstjóra um innritun til áfrýjunarnefndar í málefnum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Leiðbeina skal um kæruheimild þegar ákvörðun sviðsstjóra er tilkynnt.

3. gr.

50. gr. orðast svo:

Ferli kvartana og kærumála nemenda.

Telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, mat á námsframvindu eða annað er lýtur að kennslu og prófum skal hann senda skriflegt erindi til skrifstofu deildar. Þar skal skilmerkilega greint frá því hvert álitaefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstuðningur fyrir henni. Deild skal fjalla um álitaefnið svo fljótt sem unnt er og afgreiða það, að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá því að erindið barst. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma, skal tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Uni stúdent ekki niðurstöðu deildar getur hann skotið máli sínu til úrskurðar stjórnar fræðasviðs. Slík erindi skulu send skrifstofu fræðasviðsins. Deildir og stjórn fræðasviðs endurmeta ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara eða prófdómara.

Umsækjanda um innritun í framhaldsnám er heimilt að bera synjun deildar og eftir atvikum námsstjórnar undir stjórn viðkomandi fræðasviðs. Ef um þverfræðilegt nám er að ræða er heimilt að bera ákvörðunina undir stjórn þess fræðasviðs sem vistar námið nema annað sé ákveðið í reglum um námið.

Málum verður ekki skotið til stjórnar fræðasviðs fyrr en ákvörðun deildar samkvæmt 1. eða 2. mgr. liggur fyrir eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kvörtun samkvæmt 1. mgr. var fyrst skriflega lögð fyrir deild. Forseti þeirrar deildar er í hlut á víkur sæti við umfjöllun og afgreiðslu erinda af þessu tagi í stjórn fræðasviðs.

Ákvarðanir stjórnar fræðasviðs samkvæmt þessari grein eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Nefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Málum verður ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en stjórn fræðasviðs hefur tekið ákvörðun í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir stjórn fræðasviðs. Leiðbeina skal um kæruheimild þegar ákvarðanir samkvæmt þessari grein eru tilkynntar.

4. gr.

Við 84. gr. bætast tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:

MA-nám á sviði hnattrænna tengsla, fólksflutninga og fjölmenningarfræða er 120 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.

Diplómanám á sviði hnattrænna tengsla, fólksflutninga og fjölmenningarfræða er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi í mannfræði eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í MA-nám að uppfylltum inntökuskilyrðum.

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. reglnanna:

a. 1. mgr. orðast svo:

Stjórnmálafræðideild veitir kennslu sem hér segir:

  1. Til BA-prófs í stjórnmálafræði.
  2. Til MA-prófs í stjórnmálafræði.
  3. Til MA-prófs í alþjóðasamskiptum.
  4. Til MA-prófs í evrópufræðum.
  5. Til MA-prófs í kynjafræði.
  6. Til MPA-prófs í opinberri stjórnsýslu.
  7. Til doktorsprófs í stjórnmálafræði og kynjafræði.

b. Við bætast tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:

MA-nám í evrópufræðum er sjálfstætt 120 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.

Diplómanám í evrópufræðum er sjálfstætt 30 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í MA-nám að uppfylltum inntökuskilyrðum.

6. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar öðlast þegar gildi. Frá sama tími falla úr gildi reglur nr. 478/2006 um undanþágur frá auglýsingaskyldu vegna ráðningar í störf við Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 10. febrúar 2010.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 25. febrúar 2010