Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1210/2008

Nr. 1210/2008 23. desember 2008
REGLUR
um framkvæmd eftirlits með innheimtustarfsemi samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Innheimtuaðilar.

Reglur þessar taka til:

 1. Leyfisskyldra aðila skv. innheimtulögum nr. 95/2008.
 2. Viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sem stunda innheimtu.
 3. Opinberra aðila sem stunda aðra innheimtu en innheimtu skatta, gjalda og lög­innheimtu.

2. gr.

Lögaðili í eigu lögmanns.

Lögaðila sem að öllu leyti er í eigu lögmanns/lögmanna og/eða lögmanns­stofu/lögmannsstofa er heimilt að stunda innheimtu án innheimtuleyfis að því skilyrði uppfylltu að starfsemin falli undir eftirlit úrskurðarnefndar lögmanna.

II. KAFLI

Innheimtuleyfi.

3. gr.

Leyfisskyldir aðilar.

Aðilar sem stunda innheimtu fyrir aðra eða kaupa kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfir í atvinnuskyni skulu hafa innheimtuleyfi, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 5. gr. innheimtulaga.

Lögmönnum, opinberum aðilum, viðskiptabönkum og sparisjóðum, öðrum lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum er þó heimilt að stunda innheimtu án innheimtuleyfis, sbr. 2. mgr. 3. gr. innheimtulaga.

4. gr.

Umsókn.

Umsókn um innheimtuleyfi skal vera skrifleg á þar til gerðum umsóknareyðublöðum.

Umsókn skulu fylgja eftirfarandi gögn því til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 4. gr. innheimtulaga fyrir veitingu innheimtuleyfis:

 1. Staðfesting á lögræði umsækjanda.
 2. Staðfesting þess efnis að umsækjandi hafi undanfarin fimm ár hvorki farið fram á eða verið í greiðslustöðvun né bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta.
 3. Sakavottorð umsækjanda.
 4. Spurningalisti Fjármálaeftirlitsins um hæfi umsækjanda, ásamt náms- og starfsferilsyfirliti.
 5. Staðfesting á lögheimili umsækjanda hér á landi.
 6. Staðfesting þess efnis að umsækjandi sé ekki í vanskilum með vörsluskatta.

Þegar umsækjandi er lögaðili skal framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi skila inn þeim gögnum sem tilgreind eru í 2. mgr. þessa ákvæðis. Að auki þarf að skila inn fyrir lögaðila gögnum skv. 2. og 6. tl. 2. mgr. þessa ákvæðis.

Umsókn skulu jafnframt fylgja þau gögn sem tilgreind eru á umsóknareyðublaði sem Fjármálaeftirlitið leggur fram þ. á m. upplýsingar um starfsskipulag viðkomandi innheimtustarfsemi, viðskipta- og rekstraráætlun fyrir viðkomandi starfsemi, upplýsingar um hliðarstarfsemi viðkomandi innheimtuaðila og þegar unnt er endurskoðaðar ársskýrslur viðkomandi aðila síðastliðin þrjú ár.

Ef umsækjandi hyggst stunda innheimtu fyrir aðra skal umsókn einnig fylgja staðfesting frá vátryggingafélagi um vátryggingu eða frá banka eða sparisjóði um bankaábyrgð sem fullnægir ákvæðum 14. gr. innheimtulaga.

Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir að frekari gögn fylgi umsókn um innheimtuleyfi.

5. gr.

Hæfi.

Við mat á nægilegri þekkingu eða starfsreynslu, skv. c-lið 1. mgr. 4. gr. innheimtulaga ber að líta til þess hvort menntun, starfsreynsla og starfsferill viðkomandi aðila er með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.

6. gr.

Veiting innheimtuleyfis.

Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu innheimtuleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst Fjármálaeftirlitinu.

Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu um innheimtuleyfi í Lögbirtingablaði.

7. gr.

Synjun innheimtuleyfis.

Fullnægi umsókn ekki skilyrðum innheimtulaga eða reglugerða eða reglna settra á grundvelli þeirra skal Fjármálaeftirlitið synja um innheimtuleyfi.

Synjun Fjármálaeftirlitsins um innheimtuleyfi skal vera skrifleg og tilkynnt umsækjanda svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst Fjármálaeftirlitinu.

8. gr.

Svipting innheimtuleyfis.

Fjármálaeftirlitið getur svipt leyfishafa innheimtuleyfi ef hann hefur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt innheimtulögum, reglugerðum eða reglum settum á grundvelli þeirra eða hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir veitingu innheimtuleyfis.

Áður en til sviptingar innheimtuleyfis kemur skal leyfishafa veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma við úrbótum að mati Fjármálaeftirlitsins. Að öðrum kosti skal leyfishafa veittur kostur á að koma að skriflegum athugasemdum.

Ákvörðun um sviptingu innheimtuleyfis skal vera skrifleg. Tilkynning um sviptingu innheimtuleyfis skal birt í Lögbirtingablaði.

9. gr.

Starfsábyrgðartrygging.

Aðili sem stundar innheimtu á grundvelli innheimtuleyfis skal hafa í gildi starfsábyrgðar­tryggingu sem fullnægir skilyrðum 14. gr. innheimtulaga.

Innheimtuaðili skal senda Fjármálaeftirlitinu staðfestingu á endurnýjun starfsábyrgðar­tryggingar.

III. KAFLI

Eftirlit.

10. gr.

Skrá Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið skal halda skrá yfir þá aðila sem falla undir eftirlit þess samkvæmt innheimtulögunum.

Í skrá Fjármálaeftirlitsins yfir innheimtuaðila skal skrá eftirfarandi eftir því sem við getur átt:

 1. Heiti innheimtuaðila, félagsform, starfssvæði, lögheimili og varnarþing.
 2. Starfssvið og tilgang.
 3. Dagsetningu innheimtuleyfis.
 4. Upplýsingar um framkvæmdastjóra eða yfirmann innheimtuaðila ef hann er lögaðili.
 5. Útibú innheimtuaðilans.
 6. Skráð og innborgað hlutafé og stofnfé og eigið hlutafé ef innheimtuaðili er lögaðili.
 7. Nöfn hluthafa og eignarhlut þeirra í innheimtuaðilanum ef hann er lögaðili.
 8. Nöfn þeirra sem skuldbinda mega innheimtuaðilann.
 9. Dagsetningu sviptingar innheimtuleyfis, slit félags innheimtuaðilans og þegar innheimtuaðilinn er máður úr skrá Fjármálaeftirlitsins.

Tilkynna ber Fjármálaeftirlitinu fyrirfram breytingar á áður tilkynntum upplýsingum, þar á meðal breytingar á framkvæmdastjóra eða yfirmanni, breytingar á fjölda útibúa og ef innheimtufyrirtæki uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

Ef nýr framkvæmdastjóri eða yfirmaður tekur til starfa hjá lögaðila sem fengið hefur innheimtuleyfi ber honum að skila inn þeim gögnum sem tilgreind eru í 2. mgr. 4. gr. þessara reglna.

11. gr.

Skýrsluskil.

Þeir aðilar sem heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins samkvæmt innheimtulögunum skulu á hálfs árs fresti skila til Fjármálaeftirlitsins skýrslu um framkvæmd innheimtu­starfseminnar og fjárhagsstöðu ásamt öðrum upplýsingum og gögnum sem Fjármálaeftirlitið óskar eftir.

Skýrsluskil skulu fara fram rafrænt í gegnum skýrsluskilakerfi Fjármálaeftirlitsins og er frestur til að skila inn skýrslu vegna fyrri árshelmings 31. ágúst ár hvert og skýrslu vegna síðari árshelmings ásamt endurskoðuðum ársreikningi 31. mars ár hvert.

12. gr.

Tilkynning um framkomna skaðabótakröfu.

Innheimtuaðili skal þegar í stað tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef gerð er skaðabótakrafa vegna starfa hans. Í tilkynningunni skulu koma fram upplýsingar um efni og fjárhæð kröfunnar.

13. gr.

Eftirlit Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið skal athuga rekstur þeirra aðila sem heyra undir eftirlit þess samkvæmt innheimtulögum svo oft sem þurfa þykir og hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum og gögnum.

Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með þeim aðilum sem heyra undir eftirlit þess gilda að öðru leyti lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

14. gr.

Viðurlög.

Ef aðili sem heyrir undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins samkvæmt innheimtulögunum brýtur gegn þeim lögum eða reglugerðum eða reglum settum á grundvelli þeirra getur Fjármálaeftirlitið beitt viðurlögum og öðrum úrræðum sem kveðið er á um í innheimtulögunum og í lögum um opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum.

15. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 1. mgr. 21. gr. innheimtulaga og öðlast gildi þann 1. janúar 2009.

Fjármálaeftirlitinu, 23. desember 2008.

Jónas Fr. Jónsson.

Ragnar Hafliðason.

B deild - Útgáfud.: 31. desember 2008