Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1236/2005

Nr. 1236/2005 21. desember 2005
REGLUR
um erlenda lektora og sérfræðinga við Háskóla Íslands.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um störf þeirra sem ráðnir eru til Háskóla Íslands með starfsheitið erlendur lektor (sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands) eða erlendur sérfræðingur og byggjast á samningum við þriðja aðila.

Reglurnar gilda ekki um þá, sem tímabundið sinna kennslu og öðrum starfsþáttum við Háskóla Íslands á grundvelli samkomulags við heimaríki, og án þess að fyrir liggi ráðningarsamningur um starf við Háskóla Íslands.

Ákvæði kjarasamninga Félags háskólakennara og sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands, sbr. einkum III. kafla reglna nr. 458/2000, gilda um erlenda lektora nema kveðið sé sérstaklega á um annað í þessum reglum.

2. gr.

Skilgreining starfs.

Deild eða stofnun skilgreinir starf erlends lektors/sérfræðings í samræmi við stefnumörkun og þróunaráætlun deildar/stofnunar. Skýrt þarf að koma fram í skilgreiningu starfs hvaða sérstöku hæfni- og menntunarkröfur umsækjendur um starfið þurfa að uppfylla, með tilliti til fræðasviðs og prófgráða. Sérhvert starf erlends lektors/sérfræðings tengist tilteknu erlendu ríki (heimaríki) eða heimshluta.

Rektor f.h. viðkomandi háskóladeildar/stofnunar gerir samning við erlenda aðila (ríki eða alþjóðastofnanir) um stuðning við starfið, þar sem kveðið er á um bæði faglega þætti og fjárhagslega.

3. gr.

Nánar um störf erlendra lektora.

Umsækjendur um auglýst starf erlends lektors skulu vera ríkisborgarar þess ríkis sem í hlut á og ekki hafa fasta búsetu á Íslandi þegar þeir sækja fyrst um starfið. Þessi skilyrði þurfa ekki að vera uppfyllt ef kemur til framlengingar á ráðningarsamningi um starfið, sbr. 2. mgr. 7. gr.

Almennt skal gerð krafa um að umsækjendur hafi tungu heimaríkis að móðurmáli en ekki á hinn bóginn að þeir hafi kunnáttu í íslensku. Heimilt skal þó vera í undantekningartilvikum að áskilja að viðkomandi hafi fullnægjandi íslenskukunnáttu, enda sé þess sérstaklega getið í auglýsingu. Dómnefnd metur hvort umsækjendur uppfylla þessa sérstöku hæfniskröfu.

Starfsskyldur erlendra lektora skiptast milli kennslu, rannsókna og stjórnunar í samræmi við almennar reglur sem háskólaráð setur þar að lútandi að höfðu samráði við Félag háskólakennara. Heimilt er þó með samkomulagi við viðkomandi erlendan lektor að skilgreina starfsskyldur hans þannig að hann sinni menningarmiðlun eða öðrum slíkum þáttum og að aðrir starfsþættir breytist sem því nemur. Sá hluti menningarmiðlunar sem ekki getur fallið undir hefðbundna starfsþætti verður þó mest 10% og takist hlutfallslega jafnt af öllum starfsþáttum. Deild ákveður til hvaða starfa við kennslu og stjórnun kennara er vísað, skv. nánari ákvæðum í þessari grein.

Erlendir lektorar eru hins vegar undanþegnir skyldu til að sækja deildarfundi, nema viðkomandi óski sérstaklega eftir því að hafa slíka skyldu og deildarfundur hefur fallist á það. Ákvörðun deildarfundar þar að lútandi skal bókuð í fundargerð.

Um skyldu til þess að sækja skorarfundi gildir það sama og um deildarfundi. Erlendur lektor getur alla jafna ekki orðið formaður eða varaformaður skorar, sbr. 2. mgr. 22. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands, og þá og því aðeins að hann hafi gott vald á íslensku máli.

Miðað skal við að viðvera erlends lektors sé með sama hætti og annarra kennara, bæði innan og utan kennslu- og prófatímabila, en leitast skal við að koma til móts við óskir um orlofstöku utan kennslutíma, eftir því sem frekast er unnt.

4. gr.

Nánar um störf erlendra sérfræðinga.

Umsækjendur um auglýst starf erlends sérfræðings skulu vera starfandi í þeim heimshluta sem kveðið er á um í samningum um starfið og ekki hafa fasta búsetu á Íslandi þegar þeir sækja fyrst um starfið. Þessi skilyrði þurfa ekki að vera uppfyllt ef kemur til framlengingar á ráðningarsamningi um starfið, sbr. 2. mgr. 7. gr.

Við ráðningu í störf erlendra sérfræðinga er ekki gerð krafa um ríkisfang eða tungumálakunnáttu.

Starfsskyldur erlendra sérfræðinga skiptast á milli rannsókna og stjórnunar samkvæmt almennum reglum Háskóla Íslands og/eða tengdra stofnana.

5. gr.

Auglýsing starfs og umsóknir.

Starf erlends lektors/sérfræðings skal auglýst í samræmi við gildandi reglur og verklag innan Háskóla Íslands. Auk þess skal auglýsing birt á viðeigandi vettvangi erlendis. Áður en starf er auglýst skal liggja fyrir staðfesting þess efnis, að nægilegt fé sé fyrir hendi til þess að ráða í það.

Um form umsóknar, umsóknarfrest og önnur slík atriði fer samkvæmt sameiginlegum reglum Háskóla Íslands. Heimilt er þó að víkja frá viðmiðum um umsóknarfrest að teknu tilliti til þess hvar auglýsing hefur birst.

6. gr.

Hæfnismat og tillögugerð um veitingu starfsins.

Um hæfnismat og tillögugerð um veitingu starfsins fer skv. sameiginlegum reglum Háskóla Íslands og sérreglum viðkomandi deildar/stofnunar eftir því sem við getur átt.

Heimilt skal vera að víkja frá ákvæðum sérreglna deildar/stofnunar hvað varðar álitsumleitan og leita umsagnar aðila í heimaríki eða á vegum alþjóðastofnunar varðandi umsóknir um störf erlendra lektora/sérfræðinga og byggja tillögugerð og ákvörðun um ráðningu í starfið m.a. á slíkum gögnum.

7. gr.

Ráðningarsamningur.

Hverju sinni skal gerður tímabundinn ráðningarsamningur til allt að þriggja ára um starf erlends lektors/sérfræðings.

Heimilt er að framlengja tímabundinn ráðningarsamning þannig að heildarráðningartími verði allt að fimm ár.

Heimilt er að binda ráðningarsamning þeirri forsendu að samningur sé í gildi milli Háskólans og heimaríkis/alþjóðastofnunar sbr. 2. mgr. 2. gr.

8. gr.

Önnur starfstengd atriði.

Um aðstöðu erlendra lektora/sérfræðinga gildir það sama og um aðstöðu annarra háskólakennara og sérfræðinga.

Um orlof erlendra lektora/sérfræðinga, greiðslur í lífeyrissjóð og slík lögbundin atriði fer skv. lögum.

Réttur erlendra lektora/sérfræðinga til rannsóknamissera og styrkja úr sjóðum er hinn sami og hvað aðra háskólakennara varðar. Réttur þessi er samkvæmt reglum háskólaráðs og/eða kjarasamningum Félags háskólakennara eftir því sem við á.

Um laun og önnur kjör erlendra lektora/sérfræðinga fer skv. gildandi kjarasamningum hverju sinni, þar á meðal um heimildir til framgangs.

9. gr.

Reglur þessar sem hlotið hafa staðfestingu háskólaráðs, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 21. desember 2005.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 12. janúar 2006