Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 656/2009

Nr. 656/2009 3. júlí 2009
REGLUR
um skólaakstur í grunnskóla.

1. gr.

Gildissvið og orðskýringar.

Reglur þessar taka til skipulags skólaaksturs milli heimilis og grunnskóla. Reglurnar gilda einnig um akstur nemenda í sérgreinakennslu sem fram fer utan skólalóðar eftir því sem við á.

Með skólaakstri er í reglum þessum átt við akstur á milli heimilis og grunnskóla þar sem þess er þörf til að tryggja jafnan aðgang nemenda að grunnskólanámi. Heimili í reglum þessum merkir skráð lögheimili eða annar staður þar sem barnið hefur fasta búsetu.

2. gr.

Ábyrgð.

Sveitarfélög bera kostnað og ábyrgð á öryggi, velferð og hagsmunum nemenda í skóla­akstri og að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um umferðaröryggi.

Sveitarfélög geta í samningum við önnur sveitarfélög, sbr. 5. og 45. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, kveðið nánar á um samstarf um skólaakstur og skiptingu kostnaðar. Þegar um er að ræða tímabundna vistun fósturbarns, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um grunn­skóla, ber lögheimilissveitarfélag kostnað af skólaakstri.

Sveitarfélög, sem fela aðila sem ekki er starfsmaður sveitarfélags að annast skólaakstur, bera eftir sem áður ábyrgð á framkvæmd skólaaksturs.

3. gr.

Fyrirkomulag - akstursáætlun.

Sveitarstjórn setur, að fenginni umsögn skólanefndar, reglur um fyrirkomulag skóla­aksturs er taki m.a. mið af kennsluskipan, fjölda nemenda, aldri þeirra, sam­setn­ingu nemendahóps og umhverfisaðstæðum. Sveitarstjórn er heimilt að skipu­leggja aksturs­leiðir skólabifreiða með tilliti til staðsetningar skóla í sveitarfélaginu.

Skólanefnd skal fyrir upphaf hvers skólaárs birta endurskoðaða áætlun um skólaakstur. Áætlunina skal kynna skólaráðum og skal hún vera íbúum sveitarfélagsins aðgengileg.

4. gr.

Um skipulag skólaaksturs.

Skólaakstur skal skipulagður í samræmi við þarfir nemenda með hliðsjón af öryggi þeirra, velferð og umhverfisaðstæðum, svo sem fjarlægðar milli heimilis og skóla. Sveitar­félag getur í reglum, sbr. 1. mgr. 3. gr., sett almenn viðmið um skipulag skóla­aksturs.

Séu umhverfisaðstæður með þeim hætti að ekki er ástæða til að óttast um öryggi og velferð nemenda er heimilt að skipuleggja skólaakstur með þeim hætti að skólabifreið aki samkvæmt áætlun og stöðvi á tilgreindum biðstöðvum. Heimilt er að nýta almennings­samgöngur til skólaaksturs þar sem það á við.

Daglegum skólaakstri ber að haga með þeim hætti að nemendum sé ekið heim sem fyrst eftir að lögbundnum skóladegi lýkur. Miða skal við að daglegur heildartími skólaaksturs, að meðtöldum biðtíma, sé að jafnaði ekki lengri en 120 mínútur.

Sveitarstjórn er heimilt að semja við foreldra um þátttöku þeirra í skólaakstri. Í slíku samkomulagi skal kveðið á um heimildir til uppsagnar samkomulagsins. Við uppsögn fer um skólaakstur samkvæmt reglum þessum og fyrirmælum sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 3. gr.

Skólareglur, skv. 30. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, eiga við um framkomu og háttsemi nemenda í skólaakstri. Fara skal með brot á skólareglum skv. 14. gr. laga um grunnskóla.

5. gr.

Öryggi og búnaður skólabifreiða.

Bifreið, sem notuð er í skólaakstri, skal uppfylla skilyrði til fólksflutninga samkvæmt lögum þar um, reglugerðum og settum reglum um öryggi farþega, gerð, búnað og notkun öryggis- og verndarbúnaðar og merkingu bifreiða sem í gildi eru á hverjum tíma. Í bif­reiðum sem notaðar eru í skólaakstri skal vera fjarskiptabúnaður.

Bifreiðastjóri leggur mat á hvort aðstæður séu með þeim hætti, t.d. vegna veðráttu eða ófærðar, að breyta þurfi út frá fyrirliggjandi áætlun um daglegan skólaakstur. Tilkynna ber um slíkar breytingar án tafar til skólans.

Sveitarfélag skal við setningu reglna, skv. 1. mgr. 3. gr., meta hvort þörf sé á gæslu­manni í skólabifreið með hliðsjón af öryggi, fjölda, aldri nemenda og samsetningu nemendahópsins sem ferðast með bifreiðinni, vegalengd og öðrum aðstæðum. Ákvæði þetta tekur ekki til skólaaksturs þar sem notast er við almenningssamgöngur í sveitar­félaginu.

Bifreiðastjóra ber að sýna sérstaka aðgát áður en nemendum er hleypt út úr skólabifreið.

6. gr.

Bifreiðastjóri skólabifreiða.

Bifreiðastjóri skólabifreiða skal hafa aukin ökuréttindi og hafa sótt skyndihjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð bifreiðastjórum fólksflutningabíla.

Óheimilt er að ráða bifreiðastjóra til skólaaksturs eða gæslumann, sbr. 3. mgr. 5. gr., sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við afgreiðslu umsóknar um starf bifreiðastjóra eða gerð ráðningarsamnings skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólastjóra, eða þegar svo ber undir, sveitarstjórnar til þess að afla upplýsinga úr sakaskrá, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

Ákvæði um þagnarskyldu starfsfólks skóla og tilkynningarskyldu til barna­verndar­yfirvalda taka til bifreiðastjóra skólabifreiðar þó að hann sé ekki starfsmaður sveitar­félags. Í samningi sveitarfélags um skólaakstur á þess vegum skal kveðið sérstak­lega á um hæfi og skyldur bifreiðastjóra.

7. gr.

Fatlaðir nemendur.

Nemendur sem sökum fötlunar geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur eða skólaakstur eiga rétt á ferðaþjónustu til og frá skóla skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra.

8. gr.

Um meðferð ágreiningsmála.

Telji foreldri einhverju áfátt í fyrirkomulagi skólaaksturs eða að á rétti barns sé brotið getur það leitað leiðréttingar hjá sveitarstjórn eða hlutaðeigandi skólastjóra.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 22. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 3. júlí 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Baldur Guðlaugsson.

B deild - Útgáfud.: 24. júlí 2009