Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 60/2010

Nr. 60/2010 16. júní 2010
LÖG
um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um nauðungarsölu, lögum um lögmenn og innheimtulögum, með síðari breytingum (réttarstaða skuldara).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.
1. gr.
    Á eftir 1. mgr. 87. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skiptastjóra heimilt við gjaldþrotaskipti á búi einstaklings að heimila honum í allt að tólf mánuði að búa áfram í húsnæði í eigu þrotabúsins eða halda umráðum einstakra lausafjármuna þess. Fyrir þau afnot skal þá greidd leiga, sem nemur að minnsta kosti þeim kostnaði sem þrotabúið ber af eigninni, en heimilt er skiptastjóra að áskilja að trygging sé sett fyrir spjöllum sem kunna að verða á henni. Áður en ákvörðun er tekin skal skiptastjóri leita afstöðu þeirra sem njóta tryggingarréttinda í eigninni.

2. gr.
    Við 1. mgr. 123. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er skiptastjóra heimilt að fresta ráðstöfun eignar eftir því sem nauðsyn krefur vegna heimildar sem þrotamanni er veitt skv. 2. mgr. 87. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.
3. gr.
    6. tölul. 1. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: að kaupandi beri áhættu af eigninni frá því að boð hans er samþykkt og njóti réttar til umráða yfir henni frá sama tíma, sbr. þó 55. gr., en við nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði, sem gerðarþoli hefur til eigin nota, skuli hann þrátt fyrir þetta njóta réttar til að halda notum af því í tiltekinn tíma, allt að tólf mánuði frá samþykki boðs gegn greiðslu sem rennur til kaupanda og svarar að mati sýslumanns til hæfilegrar húsaleigu. Sýslumanni er heimilt að áskilja að gerðarþoli setji tryggingu fyrir spjöllum sem kunna að verða á íbúðarhúsnæði.

4. gr.
    57. gr. laganna orðast svo:
    Nú hefur sá sem notið hefur réttinda yfir eigninni ekki fengið þeim fullnægt með öllu af söluverðinu og getur hann þá aðeins krafið gerðarþola eða annan um greiðslu þess sem eftir stendur af skuldbindingunni að því leyti sem hann sýnir fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar.
    Jafnframt er þeim heimilt sem kann að verða krafinn um eftirstöðvar skuldbindingar að höfða mál á hendur þeim sem með hana fer til að fá þær felldar eða færðar niður samkvæmt því sem segir í 1. mgr.

5. gr.
    3. mgr. 69. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæðum 57. gr. verður beitt við nauðungarsölu samkvæmt reglum þessa kafla.

III. KAFLI
Breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum.
6. gr.
    Á eftir 2. mgr. 24. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dómsmálaráðherra skal að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefa út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu, sbr. 24. gr. a. Lögmönnum er óheimilt að nota leiðbeiningar þessar í öðrum tilgangi.

7. gr.
    Við lögin bætist ný grein, 24. gr. a, svohljóðandi:
    Lögmenn annast löginnheimtu. Með löginnheimtu er átt við innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga og markast upphaf hennar við aðgerðir sem byggðar eru á lögum um aðför, nr. 90/1989, lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, eða tilkynningum sem samrýmast góðum lögmannsháttum.
    Við löginnheimtu skv. 1. mgr. er lögmanni óheimilt að áskilja sér endurgjald skv. 3. mgr. 24. gr. af þeim hluta kröfu sem fallinn er í gjalddaga vegna gjaldfellingar eftirstöðva skuldar sökum vanefnda á greiðslu afborgunar eða vaxta.

IV. KAFLI
Breyting á innheimtulögum, nr. 95/2008, með síðari breytingu.
8. gr.
    3. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Með löginnheimtu er átt við innheimtumeðferð á grundvelli 24. gr. a laga um lögmenn, nr. 77/1998.

9. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 16. júní 2010.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Ragna Árnadóttir.

A deild - Útgáfud.: 18. júní 2010