Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 100/2012

Nr. 100/2012 30. ágúst 2012
FORSETAÚRSKURÐUR
um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt:

Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með skírskotun til 15. gr. stjórnarskrárinnar, og laga um Stjórnarráð Íslands, ber stjórnarmálefni undir ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands sem hér segir:

1. gr.

Forsætisráðuneyti.

Forsætisráðuneyti fer með mál er varða:

A. Stjórnskipan, þar á meðal:

 1. Stjórnskipan lýðveldisins Íslands.
 2. Embætti forseta Íslands, þ.m.t. ákvörðun kjördags, embættisgengi og embættis­bústað.
 3. Ríkisráð Íslands.
 4. Alþingi.

B. Stjórnarráð Íslands, þar á meðal:

 1. Forystu og verkstjórn innan Stjórnarráðs Íslands.
 2. Skipun ráðherra og lausn.
 3. Skiptingu starfa og samhæfingu þeirra milli ráðherra og ráðuneyta.
 4. Ríkisstjórn og Stjórnarráð Íslands í heild, þ.m.t. ráðstöfun skrifstofuhúsa og gesta­húsa ríkisstjórnarinnar.
 5. Ráðherranefndir.
 6. Stjórnarfar almennt, þ.m.t. stjórnsýslulög og upplýsingalög.
 7. Umbætur í löggjöf og stjórnsýslu.
 8. Stefnumótun og þróun stjórnsýslu.
 9. Skipulag og starfshætti.

C. Þjóðartákn og orður, þar á meðal:

 1. Fána Íslands og ríkisskjaldarmerki.
 2. Þjóðsöng Íslendinga.
 3. Hina íslensku fálkaorðu.
 4. Önnur heiðursmerki.

D. Annað:

 1. Almannavarna- og öryggismálaráð.
 2. Vísinda- og tækniráð.
 3. Þjóðlendur.
 4. Samningagerð um endurgjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu og á forræði íslenska ríkis­ins.
 5. Umbreytingu varnarsvæða í borgaraleg not.
 6. Rannsókn á orsökum ofanflóðs og afleiðinga þess ef manntjón hlýst af.
 7. Rannsókn á starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.
 8. Embætti ríkislögmanns.
 9. Umboðsmann barna.
 10. Þingvelli og Þingvallaþjóðgarð.

2. gr.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fer með mál er varða:

A. Atvinnuþróun og nýsköpun, þar á meðal:

 1. Stuðningsþjónustu við frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.
 2. Tæknirannsóknir og þróun.
 3. Starfrækslu frumkvöðlasetra.
 4. Fjármögnun nýsköpunarverkefna.
 5. Ívilnanir vegna nýfjárfestinga og gerð fjárfestingarsamninga.
 6. Opinberar fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
 7. Staðla.
 8. Atvinnuþróunarfélög.
 9. Fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri.

B. Byggðamál, þar á meðal:

 1. Lánastarfsemi til atvinnulífs á landsbyggðinni.
 2. Gagnasöfnun og rannsóknir um byggðaþróun.
 3. Byggðaáætlun.

C. Ferðaþjónustu, þar á meðal:

 1. Mörkun ferðamálastefnu.
 2. Ferðamálaráð.
 3. Þróunar-, gæða- og skipulagsmál.
 4. Úrbætur og uppbygging á ferðamannastöðum.
 5. Samninga um ferðamál.

D. Hitaveitur, þar á meðal:

 1. Gjaldskrár og reglugerðir hitaveitna.
 2. Stofnstyrki til byggingar nýrra hitaveitna.

E. Iðnað, þar á meðal:

 1. Orkufrekan iðnað, þ.m.t. forræði á eldri fjárfestingarsamningum vegna stóriðju.
 2. Handiðnað.
 3. Verksmiðjuiðnað.
 4. Starfsréttindi í iðnaði.
 5. Löggildingu starfsheita í tækni- og hönnunargreinum.
 6. Visthönnun vöru sem notar orku.
 7. Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

F. Jarðrænar auðlindir, þar á meðal:

 1. Nýtingu á auðlindum í jörðu og á, í eða undir hafsbotni.
 2. Leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíuleit).
 3. Nýtingu vatns.

G. Orkumál, þar á meðal:

 1. Umsjón með raforkumarkaði og starfsemi orkufyrirtækja.
 2. Framleiðslu, flutning og dreifingu raforku.
 3. Orkusparnað, nýtingu orku og orkuskipti.
 4. Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.
 5. Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.
 6. Upprunaábyrgðir á raforku og orkumerkingar vöru.
 7. Öryggi raforkukerfisins.

H. Fjármálamarkaðinn, þar á meðal:

 1. Fjármálafyrirtæki.
 2. Vátryggingar og vátryggingastarfsemi.
 3. Málefni verðbréfamarkaða.
 4. Greiðslukerfi og greiðsluþjónustu.
 5. Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
 6. Neytendalán og fjarsölu á fjármálaþjónustu.
 7. Innstæðutryggingar og málefni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
 8. Opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
 9. Málefni Fjármálaeftirlitsins.
 10. Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD).

I. Félagarétt, endurskoðendur og ársreikninga, þar á meðal:

 1. Hlutafélög, einkahlutafélög, opinber hlutafélög, samvinnufélög, sameignarfélög, sam­lags­félög, Evrópufélög, evrópsk samvinnufélög, evrópsk fjárhagsleg hagsmuna­félög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
 2. Endurskoðendur og endurskoðendaráð.
 3. Bókhald og ársreikninga.
 4. Skráningu fyrirtækja og félaga.

J. Almenn viðskiptamál, þar á meðal:

 1. Samningarétt.
 2. Löggildingu viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
 3. Fyrningu.
 4. Ábyrgðarmenn.
 5. Viðskiptabréf.
 6. Innheimtu.
 7. Rafræn viðskipti, aðra rafræna þjónustu og rafrænar undirskriftir.
 8. Kauparétt: lausafjárkaup, fasteignakaup, neytendakaup og þjónustukaup.
 9. Sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.
 10. Verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.
 11. Verslunaratvinnu og viðskipti með vöru og þjónustu, aðra en útflutningsverslun.
 12. Þjónustuviðskipti.
 13. Umboðsviðskipti.
 14. Innflutning.
 15. Hugverkaréttindi á sviði iðnaðar, þ.m.t. einkaleyfi, vörumerki, félagamerki, upp­finningar starfsmanna og hönnun.
 16. Faggildingu.
 17. Samkeppnismál.
 18. Jöfnun á flutningskostnaði.

K. Sjávarútveg, þar á meðal:

 1. Rannsóknir á fiskistofnum og öðrum lifandi auðlindum hafsins og hafsbotnsins.
 2. Stjórn á nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins á grundvelli viðmiða um sjálfbæra nýtingu auðlinda, sbr. 2. tölul. k-liðar 6. gr.
 3. Eftirlit með verndun og nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins.
 4. Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
 5. Fiskvinnslu og aðra vinnslu úr sjávarfangi.
 6. Uppboðsmarkað sjávarafla.
 7. Verðlagsráð sjávarútvegsins.

L. Landbúnað, þar á meðal:

 1. Framleiðslu- og markaðsmál í landbúnaði, inn- og útflutning landbúnaðarafurða og eftirlit með slíkri starfsemi, þ.m.t. vottun á lífrænni framleiðslu í landbúnaði.
 2. Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaði, þ.m.t. hagrannsóknir, ráðgjafar- og kynbótastarf.
 3. Almenn jarðamál samkvæmt ákvæðum í jarða- og ábúðarlögum, svo sem lausn úr landbúnaðarnotum, landskipti jarða og stofnun lögbýla.
 4. Mál er varða afrétti, fjallskil og girðingar.
 5. Nýtingu hlunninda jarða, svo sem æðardún.
 6. Inn- og útflutning dýra, plantna og erfðaefnis þeirra, varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði og yrkisrétt.
 7. Dýravelferð, dýravernd, aðbúnað búfjár og eftirlit með því.

M. Fiskeldi, fiskrækt og skeldýrarækt, þar á meðal:

 1. Eldi hvers konar nytjastofna í sjó eða ferskvatni, skipulag og eftirlit með því.
 2. Veiði í ám og vötnum, fiskrækt, eftirlit og önnur veiðimál, þ.m.t. Fiskræktarsjóð.
 3. Inn- og útflutning seiða og erfðaefnis.
 4. Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í fiskeldi og fiskrækt.

N. Matvæli og matvælaöryggi, þar á meðal:

 1. Heilbrigðiseftirlit með framleiðslu, vinnslu, inn- og útflutningi og markaðssetningu matvæla og fóðurs.
 2. Heilbrigði dýra, varnir gegn dýrasjúkdómum.
 3. Löggildingu dýralækna og störf þeirra.
 4. Heilbrigði plantna og varnir gegn plöntusjúkdómum.
 5. Eftirlit með sáðvöru og áburði.
 6. Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, þ.m.t. málefni Matvæla­rannsókna Íslands ohf.

3. gr.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti fer með mál er varða:

A. Fjárreiður ríkisins og fjármál að því marki sem þau eru ekki falin öðrum aðilum, þar á meðal:

 1. Stefnumörkun og langtímaáætlun í ríkisfjármálum.
 2. Forsvar og gerð frumvarps til fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga.
 3. Skuldbindingar fram yfir fjárlagaárið, þ.m.t. rekstrar- og þjónustusamninga.
 4. Almennt eftirlit með framkvæmd fjárlaga.
 5. Sjóðstýringu.
 6. Lánsfjármál og lántökur.
 7. Ríkisaðstoð, ríkisábyrgðir og styrki til einkafyrirtækja.
 8. Reikningshald ríkisins.
 9. Samhæfingu fjármála sveitarfélaga við ríkisfjármál.

B. Eignir ríkisins, þar á meðal:

 1. Fasteignir, verðbréf og hlutabréf og fyrirsvar þeirra að því marki sem þær eignir eru ekki faldar öðrum.
 2. Húsnæðismál ríkisstofnana.
 3. Bifreiðamál ríkisstofnana.
 4. Opinberar framkvæmdir.
 5. Ríkisjarðir.
 6. Jarðasjóð ríkisins.

C. Tekjuöflun ríkisins, þar á meðal:

 1. Skattamál, svo sem álagningu, uppgjör og aðra skattframkvæmd, skattrannsóknir og úrskurði í skattamálum.
 2. Tollar og vörugjöld, þ.m.t. tollgæslu og innheimtu opinberra gjalda.
 3. Aðrar tekjur ríkissjóðs, þ.m.t. arðgreiðslur, leigutekjur og ýmis gjöld.

D. Starfsmannamál ríkisins, þar á meðal:

 1. Almenna stefnumótun í mannauðsmálum ríkisins og fræðslu.
 2. Launa- og kjaramál.
 3. Launavinnslu.
 4. Löggjöf og reglur um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna.

E. Lífeyrismál, þar á meðal:

 1. Lífeyrismál starfsmanna ríkisins.
 2. Skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
 3. Starfsemi lífeyrissjóða að því marki sem þau verkefni eru ekki falin öðrum.
 4. Viðbótartryggingarvernd og séreignarsparnað, þ.m.t. starfstengda eftirlaunasjóði.

F. Hagstjórn, þar á meðal:

 1. Mat á þróun og horfum í efnahagsmálum og gerð þjóðhagsspár.
 2. Efnahagsáætlanir og samstillingu opinberrar hagstjórnar.
 3. Vexti og verðtryggingu.
 4. Lögeyri, gjaldeyri og fjármagnshreyfingar milli landa.
 5. Málefni Seðlabanka Íslands.
 6. Málefni Hagstofu Íslands.

G. Almennar umbætur í ríkisrekstri, þar á meðal:

 1. Skipulag og stjórnarhætti í ríkisstarfsemi.
 2. Opinber innkaup.
 3. Hagræðingu í ríkisrekstri og árangursstjórnun.

H. Önnur verkefni:

 1. Kröfulýsing í þjóðlendur.
 2. Verslun með áfengi og tóbak.
 3. Málefni, og eigendaforsvar fjölþjóðlegra lánastofnana, annarra en þeirra sem fara með þróunaraðstoð, þ.m.t. gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum (NIB) og Alþjóða­gjaldeyrissjóðnum (IMF).

4. gr.

Innanríkisráðuneyti.

Innanríkisráðuneyti fer með mál er varða:

A. Dómstóla, réttarfar, stjórnskipunarrétt og skaðabótarétt, þar á meðal:

 1. Dómaskipan, dómstóla aðra en Félagsdóm, réttarfar, gjafsókn, réttaraðstoð vegna nauðasamninga, lögmenn, dómtúlka og skjalaþýðendur.
 2. Eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem og framkvæmd eignarnáms er eigi ber undir annað ráðuneyti.
 3. Skaðabætur utan samninga, bætur til þolenda afbrota, sanngirnisbætur og niður­jöfn­unar­menn sjótjóns.
 4. Birtingu laga og stjórnvaldserinda, útgáfu Stjórnartíðinda, lagasafns og Lögbirt­inga­blaðs.

B. Réttarvörslukerfið og almannaöryggi, þar á meðal:

 1. Meðferð ákæruvalds, er það ber undir ráðherra að lögum, og eftirlit með fram­kvæmd ákæruvalds annars.
 2. Fullnustu refsingar, fangelsi og fangavist, reynslulausn refsifanga, samfélags­þjónustu, náðun, sakaruppgjöf, uppreist æru, framsal sakamanna og gagn­kvæma réttaraðstoð.
 3. Lögreglu og löggæslu, þ.m.t. gæslu landamæra, landhelgi og fiskimiða, almanna­varnir, alþjóðlegt löggæslusamstarf, þ.m.t. á grundvelli Schengen-samn­ings­ins.
 4. Skipströnd og vogrek, sjómælingar og sjókortagerð.
 5. Öryggisfjarskipti, netöryggi, samræmda neyðarsímsvörun, köfun, leit og björgun og öryggisþjónustu í atvinnuskyni.
 6. Eftirlit með innflutningi, framleiðslu, útflutningi, sölu og meðferð skotvopna auk annarra vopna samkvæmt vopnalögum.
 7. Framkvæmd löggjafar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og áfengis­löggjafar sem eigi ber undir annað ráðuneyti.

C. Mannréttindi, þar á meðal: mannréttindasáttmála og persónuvernd.

D. Persónuréttindi, þar á meðal:

 1. Málefni útlendinga að frátöldum atvinnuréttindum.
 2. Ríkisborgararétt og útgáfu vegabréfa, annarra en diplómatískra vegabréfa.
 3. Mannanöfn.
 4. Sifjarétt, erfðarétt, hjúskaparmál, ættleiðingarmál, persónurétt, lög um horfna menn og yfirfjárráð.

E. Trúfélög og málefni þjóðkirkjunnar, þar á meðal:

 1. Skráningu trúfélaga, kristnisjóð, kirkjumálasjóð, sóknargjöld, utanfararstyrk presta og bókasöfn prestakalla.
 2. Kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.
 3. Helgidagafrið.

F. Almannakosningar, þar á meðal:

 1. Kjör forseta Íslands, kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, þjóðaratkvæði og aðrar almannakosningar sem eigi ber undir annað ráðuneyti.
 2. Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra.

G. Neytendamál, þar á meðal:

 1. Eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
 2. Lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.
 3. Alferðir.
 4. Húsgöngu- og fjarsölusamninga.
 5. Vöruöryggi, þ.m.t. vörur unnar úr eðalmálmum.
 6. Mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

H. Happdrættismál, þar á meðal: happdrætti, veðmálastarfsemi, hlutaveltur, getraunir og almennar fjársafnanir.

I. Málefni sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

J. Málefni sveitarfélaga og sýslumanna, þar á meðal:

 1. Sveitarstjórnarmál, þ.m.t. stjórnsýslu og verkefni sveitarfélaga, mörk sveitar­félaga, tekjustofna og fjármál þeirra.
 2. Sýslumenn.
 3. Fasteignaskráningu og fasteignamat, þjóðskrá, lögheimilismál og almanna­skráningu.

K. Samgöngur, þar á meðal:

 1. Skipulag samgöngukerfisins, uppbyggingu, rekstur innviða, samgönguþjónustu, samgönguöryggi, samgönguvernd og rannsókn samgönguslysa.
 2. Eftirlit með skráningu og búnaði ökutækja, loftfara og skipa.
 3. Eftirlit með loftferðum, umferð ökutækja og skipa. Eftirlit með leiðsögu-, vöktunar-, upplýsinga- og eftirlitskerfi í siglingum, flugi og umferð ökutækja.
 4. Réttindamál fagaðila í samgöngum. Slysavarnaskóla sjómanna.
 5. Hafnir, sjóvarnir, vita og sjómerki og varnir gegn mengun sjávar hvað varðar skip og búnað.
 6. Eftirlit með og skráningu bílaleiga og leigubifreiða.
 7. Flugvelli, uppbyggingu, rekstur og viðhald. Skipulag loftrýmis.
 8. Vegi: lagningu, rekstur og viðhald, þ.m.t. stofnun hlutafélaga um vega­framkvæmd­ir, sbr. lög nr. 97/2010.

L. Fjarskipti, þar á meðal:

 1. Innviði og öryggi rafrænna samskipta, lén og umsýslu netsins.
 2. Póstþjónustu, póstflutninga og póstrekstur.
 3. Fjarskiptaþjónustu, gagnaflutninga og fjarskiptarekstur.
 4. Fjarskiptanet, þó ekki efni sem sent er á fjarskiptanetum.

5. gr.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með mál er varða:

A. Fræðslumál, þar á meðal:

 1. Leikskóla.
 2. Grunnskóla.
 3. Framhaldsskóla.
 4. Háskóla.
 5. Tónlistarskóla.
 6. Framhaldsfræðslu.
 7. Listaskóla.
 8. Námskrárgerð.
 9. Námsgögn.
 10. Námsmat.

B. Námsaðstoð, þar á meðal:

 1. Námslán.
 2. Námsstyrki.

C. Vísindamál, þar á meðal:

 1. Rannsóknastarfsemi, einkum á sviði grunnrannsókna.
 2. Vísindastarfsemi sem eigi ber undir annað ráðuneyti.
 3. Opinberan stuðning við vísindastarfsemi.

D. Safnamál, þar á meðal:

 1. Bókasöfn, utan bókasafna prestakalla.
 2. Skjalasöfn.
 3. Minjasöfn.
 4. Safnasjóð.
 5. Listasöfn.

E. Menningarminjar, þar á meðal:

 1. Fornleifar.
 2. Húsfriðun.
 3. Varðveislu menningararfsins, þ.m.t. friðun húsa, jarðfastra minja og gripa og flutn­ing menningarverðmæta úr landi og skil þeirra til annarra landa.

F. Listir og menningu, þar á meðal:

 1. Bókmenntir.
 2. Myndlist.
 3. Listskreytingar opinberra bygginga.
 4. Sviðslist.
 5. Tónlist.
 6. Kvikmyndir.
 7. Starfslaun listamanna.
 8. Stuðning við listir og kynningu íslenskrar listar innan lands og utan.

G. Höfundarétt, þar á meðal:

 1. Úrskurðarnefnd höfundaréttarmála, höfundaréttarnefnd og höfundaréttarráð.
 2. Fylgiréttargjald samkvæmt höfundalögum og lögum um verslunaratvinnu.

H. Íslensk fræði, þar á meðal:

 1. Íslenska tungu.
 2. Íslenskt táknmál.
 3. Örnefni og örnefnanefnd.
 4. Bæjanöfn.

I. Fjölmiðla, þar á meðal:

 1. Mynd- og hljóðmiðla.
 2. Netmiðla.
 3. Prentmiðla.
 4. Eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

J. Ábyrgðarreglur og efnisréttindi á netinu, þ.m.t. höfundarétt.

K. Íþróttamál, þar á meðal:

 1. Málefni þjóðarleikvanga.
 2. Frjáls félagasamtök.
 3. Sjóði.
 4. Íslenskar getraunir.
 5. Launasjóð stórmeistara í skák og málefni Skákskóla Íslands.

L. Æskulýðsmál, þar á meðal:

 1. Æskulýðsráð ríkisins.
 2. Æskulýðssjóð.
 3. Frjáls félagasamtök.

M. Lögvernduð starfsheiti, þar á meðal:

 1. Starfsréttindi bókasafns- og upplýsingafræðinga.
 2. Lögverndun starfsréttinda leik-, grunn- og framhaldsskólakennara.
 3. Starfsréttindi náms- og starfsráðgjafa.
 4. Viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

N. Erlent samstarf á sviði menntunar, menningar og vísinda.

O. Annað, þar á meðal:

 1. Félagsheimili.
 2. Byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn.
 3. Landgræðslustörf skólafólks.

6. gr.

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti fer með málefni er varða:

A. Náttúruvernd, þar á meðal:

 1. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni, erfðaauðlinda og vistkerfa, þar með talin vistkerfi í hafi.
 2. Ákvörðun um verndarsvæði í hafi til varðveislu náttúruminja eða sérstakra vist­kerfa á hafsbotni til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
 3. Þjóðgarða, aðra en Þingvallaþjóðgarð.
 4. Friðlýst svæði.
 5. Gerð og framkvæmd náttúruverndaráætlunar.
 6. Svæði sem njóta verndar samkvæmt sérlögum vegna náttúru eða landslags.
 7. Sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.
 8. Úrbætur og uppbygging á aðstöðu til móttöku ferðamanna í þjóðgörðum og frið­lýstum svæðum.

B. Skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis, þar á meðal:

 1. Friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar.
 2. Jarðvegsvernd og varnir gegn landbroti.

C. Söfnun og skráningu upplýsinga um náttúru landsins, hafsins og hafsbotnsins, þar á meðal:

 1. Umhverfisrannsóknir og umhverfisvöktun.
 2. Rannsóknir á jarðrænum auðlindum á landi og á hafsbotni öðrum en olíu og ráð­gjöf um nýtingu þeirra.
 3. Rannsóknir á lífríki í ám og vötnum og ráðgjöf um nýtingu þeirra.

D. Söfnun upplýsinga um málefni norðurslóða.

E. Vatnsvernd og ráðgjöf um nýtingu vatns.

F. Mengunarvarnir, þar á meðal:

 1. Hljóðvist.
 2. Varnir gegn mengun hafs og stranda.
 3. Mengun jarðvegs.
 4. Meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjald.
 5. Fráveitur og skólp.
 6. Loftgæði.

G. Loftslagsvernd, þar á meðal:

 1. Losun gróðurhúsalofttegunda.
 2. Viðskipti með losunarheimildir.
 3. Skráningarkerfi gróðurhúsalofttegunda og losunarheimilda.

H. Hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þar á meðal öryggisþætti tengda þeim.

I. Efni og efnavörur, þar á meðal eiturefni og hættuleg efni.

J. Skipulagsmál, þar á meðal:

 1. Gerð landnýtingaráætlana og landskipulagsstefnu.
 2. Skipulag haf- og strandsvæða.

K. Sjálfbæra þróun, þar á meðal:

 1. Stefnumörkun um sjálfbæra þróun og ráðgjöf um nýtingu auðlinda.
 2. Skilgreiningar á viðmiðum um sjálfbæra nýtingu auðlinda.

L. Mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda.

M. Upplýsingarétt um umhverfismál.

N. Landmælingar og grunnkortagerð.

O. Mannvirki, þar á meðal:

 1. Eftirlit með mannvirkjum og gerð þeirra.
 2. Brunavarnir.
 3. Eftirlit með byggingarvörum.
 4. Eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum.

P. Veður og náttúruvá, þar á meðal:

 1. Veðurþjónustu.
 2. Vöktun á náttúruvá.
 3. Varnir gegn ofanflóðum.
 4. Fjarkönnun og mælingar og rannsóknir á vatnafari landsins.

Q. Veiðistjórnun og alþjóðaverslun með villt dýr og plöntur, þar á meðal:

 1. Stjórnun veiða villtra fugla og villtra dýra, annarra en sjávardýra.
 2. Vernd og friðun villtra dýra og villtra fugla.
 3. Alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu.

R. Erfðabreyttar lífverur.

S. Framkvæmd alþjóðasamninga um umhverfismál.

T. Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

  7. gr.

  Utanríkisráðuneyti.

  Utanríkisráðuneyti fer með mál er varða:

  A. Utanríkismál, þar á meðal:

  1. Skipti forseta Íslands og annarra þjóðhöfðingja.
  2. Sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur Íslands erlendis.
  3. Sendiráð og ræðisskrifstofur erlendra ríkja á Íslandi.
  4. Skipti við erlend ríki, þ.m.t. norræna samvinnu.
  5. Réttindi Íslendinga og íslenska hagsmuni erlendis.
  6. Samninga við önnur ríki og gerð þeirra og framkvæmd tiltekinna samninga, sbr. m.a. lög nr. 90/1994, 57/2000, 93/2008 og 58/2010.
  7. Aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum, stofnunum, ráðstefnum og fundum er varða opinbera hagsmuni og eigi ber undir annað ráðuneyti samkvæmt ákvæðum þessa úrskurðar eða eðli máls. Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana.
  8. Diplómatísk vegabréf, þjónustuvegabréf og áritun vegabréfa.
  9. Kynningu Íslands og íslenskra efna með öðrum þjóðum, sbr. m.a. lög nr. 38/2010, nema slík mál séu lögð til annars ráðuneytis.
  10. Varnarmál, aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO), varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, samskipti og samstarf við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóða­stofnanir á sviði öryggis- og varnarmála, varnarsvæði, öryggissvæðið á Keflavíkur­flugvelli og önnur öryggissvæði, þ.m.t. skipulags- og mannvirkjamál, rekstur mannvirkja og eigna Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, þ.m.t. íslenska ratsjár- og loftvarnakerfið (IADS).
  11. Útflutningsverslun.
  12. Undirbúning og framkvæmd viðskiptasamninga.
  13. Skipti Íslands við alþjóðleg viðskiptasamtök.
  14. Vörusýningar erlendis.
  15. Þróunarsamvinnu, friðargæslu og neyðarhjálp.

  8. gr.

  Velferðarráðuneyti.

  Velferðarráðuneyti fer með mál er varða:

  A. Velferðar- og fjölskyldumál, þar á meðal:

  1. Félagsþjónustu sveitarfélaga.
  2. Málefni fatlaðs fólks.
  3. Barnavernd.
  4. Málefni aldraðra.
  5. Málefni innflytjenda og flóttafólks.
  6. Lífeyristryggingar almannatrygginga.
  7. Slysatryggingar almannatrygginga.
  8. Félagslega aðstoð.
  9. Skuldamál heimilanna.
  10. Sjúklingatryggingu.
  11. Málefni langveikra og alvarlega fatlaðra barna.
  12. Ættleiðingarstyrki.
  13. Fjárhagsaðstoð við lifandi líffæragjafa.

  B. Heilbrigðismál, þar á meðal:

  1. Heilbrigðisþjónustu.
  2. Sjúkratryggingar.
  3. Málefni sjúklinga.
  4. Lýðheilsu og forvarnir.
  5. Sóttvarnir.
  6. Geislavarnir.
  7. Heilsugæslu.
  8. Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir.
  9. Uppbyggingu og þjónustu á hjúkrunarheimilum.
  10. Endurhæfingarstarfsemi og meðferðarstofnanir.
  11. Lyf.
  12. Ávana- og fíkniefni.
  13. Lækningatæki.
  14. Brottnám líffæra.
  15. Lífsýnasöfn.
  16. Sjúkraskrár og gagnasöfn á heilbrigðissviði.
  17. Tæknifrjóvgun.
  18. Lífvísindi, þ.m.t. vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.
  19. Ákvörðun dauða.
  20. Starfsréttindi í heilbrigðisþjónustu og löggildingu starfsheita í heilbrigðisgreinum.
  21. Málefni græðara.

  C. Húsnæði, þar á meðal:

  1. Íbúðalán samkvæmt lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998.
  2. Húsaleigumál, þ.m.t. stuðningsaðgerðir við uppbyggingu félagslegra leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka og húsaleigubætur.
  3. Húsnæðissamvinnufélög, byggingarsamvinnufélög og fjöleignarhús.
  4. Frístundabyggð og leigu lóða undir frístundabyggð.

  D. Vinnumarkað, þar á meðal:

  1. Réttindi og skyldur á vinnumarkaði, þ.m.t. orlof, starfsmenn í hlutastörfum, tíma­bundnar ráðningar, hópuppsagnir, starfsmannaleigur og samskipti við aðila vinnu­mark­aðarins.
  2. Félagsdóm.
  3. Félagsmálaskóla alþýðu.
  4. Sáttastörf í vinnudeilum.
  5. Aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
  6. Vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.
  7. Vinnumarkaðsaðgerðir, þ.m.t. vinnumiðlun, mat á vinnufærni atvinnuleitenda, skipulag vinnumarkaðsúrræða og atvinnutengda endurhæfingu.
  8. Atvinnuleysistryggingar.
  9. Atvinnuréttindi útlendinga.
  10. Ábyrgð á launum við gjaldþrot.
  11. Fæðingar- og foreldraorlof.

  E. Jafnréttismál.

   9. gr.

   Ágreiningur.

   Málefni sem eigi er getið í 1.–8. gr. skulu lögð til ráðuneytis þar sem þau eðli sínu sam­kvæmt eiga heima.

   Nú leikur vafi á hvaða ráðuneyti skuli með mál fara, og sker forsætisráðherra þá úr.

   10. gr.

   Gildistaka.

   Forsetaúrskurður þessi, sem á sér stoð í 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, öðlast gildi frá og með 1. september 2012. Frá sama tíma falla úr gildi ákvæði eldri forsetaúrskurðar nr. 125 frá 28. september 2011 um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

   Gjört á Bessastöðum, 30. ágúst 2012.

   Ólafur Ragnar Grímsson.
   (L. S.)

   Jóhanna Sigurðardóttir.

   A deild - Útgáfud.: 30. ágúst 2012