Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 471/2014

Nr. 471/2014 5. maí 2014
REGLUGERÐ
um skipulagskröfur rekstrarfélaga verðbréfasjóða (þ.m.t. um hagsmunaárekstra, viðskiptahætti, áhættustýringu og inntak samkomulags milli vörslufyrirtækis og rekstrarfélags).

I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi og rekstur rekstrarfélaga verðbréfasjóða með starfs­leyfi samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.

Þegar vísað er til verðbréfasjóða í reglugerð þessari er einnig átt við fjárfestingarsjóði eftir því sem við á.

Ákvæði V. kafla gilda einnig um vörslufyrirtæki sem stunda starfsemi sína samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og skv. c-lið II. kafla laga nr. 128/2011.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari merkir:

1)

 

Eftirlitseining (e. supervisory function): Sá aðili eða aðilar sem bera ábyrgð á eftirliti með stjórnendum og mati og reglubundinni endurskoðun á því hvort áhættustýringarferli sé fullnægjandi og skilvirkt. Auk þess ber eftirlitseining ábyrgð á stefnum, fyrirkomulagi og verklagi í samræmi við gildandi lög og reglur.

2)

 

Fulltrúi rekstrarfélags (e. relevant person):

 

a)

stjórnarmaður, meðeigandi eða samsvarandi aðili eða stjórnandi rekstrar­félagsins,

 

b)

starfsmaður rekstrarfélagsins, eða hver sá einstaklingur sem starfar undir stjórn rekstrarfélagsins og á þátt í að veita þjónustu rekstrarfélagsins vegna sameiginlegrar stýringar verðbréfasafna,

 

c)

einstaklingur sem á beinan þátt í því að veita rekstrarfélagi þjónustu samkvæmt samningi um útvistun þjónustu á sviði sameiginlegrar stýringar verðbréfasafna.

3)

 

Markaðsáhætta (e. market risk): Hættan á tapi verðbréfasjóðins vegna sveiflna á markaðsvirði eigna í eignasafni verðbréfasjóðsins sem rekja má til breytinga á markaðsbreytum, svo sem vöxtum, gengi erlendra gjaldmiðla, hlutabréfa- og hrávöruverði eða lánshæfi útgefanda.

4)

 

Mótaðilaáhætta (e. counterparty risk): Hættan á tapi verðbréfasjóðs sökum þess að mótaðili viðskipta stendur ekki við skuldbindingar sínar áður en lokauppgjör sjóðstreymis viðskiptanna á sér stað.

5)

 

Lausafjáráhætta (e. liquidity risk): Hættan á að ekki sé hægt að selja, innleysa eða loka stöðu í eignasafni verðbréfasjóðsins, með takmörkuðum kostnaði og innan ásættanlegs tímaramma.

6)

 

Rekstraráhætta (e. operational risk): Hættan á tapi verðbréfasjóðs vegna ófull­nægjandi innri ferla og mistaka í tengslum við mannauð og kerfi rekstrar­félagsins, eða vegna ytri atburða, þ.m.t. lagaleg áhætta og áhætta vegna verklags við viðskipti, miðlun, uppgjör og mat sem innt er af hendi fyrir hönd verð­bréfa­sjóðsins.

7)

 

Rekstrarfélag (e. management company): Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og rekur verðbréfasjóð um sameiginlegar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum seljanlegum eignum.

8)

 

Stjórnendur (e. senior management): aðili eða aðilar sem í reynd stýra starf­semi rekstrarfélagsins.

9)

 

Stjórn (e. board of directors): Stjórn rekstrarfélagsins.

10)

 

OTC-afleiða (e. OTC-deravative): Afleiðusamningur sem ekki eru framkvæmd viðskipti með á skipulegum verðbréfamarkaði í skilningi 2. tölul. 2. gr. laga nr. 110/2007, um kauphallir, eða á markaði þriðja lands sem telst jafngildur skipu­legum verðbréfamarkaði.

11)

 

Viðskiptavinur (e. client): einstaklingur, lögaðili eða önnur efnahagsleg eining, þ.m.t. verðbréfasjóður, sem rekstrarfélag veitir þjónustu á sviði sameiginlegrar stýringar verðbréfasafns eða þjónustu skv. 1.-3. tölul. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 161/2002.

II. KAFLI

Skipulagskröfur.

1. ÞÁTTUR

Almennar meginreglur.

3. gr.

Almennar skipulagskröfur.

Rekstrarfélag skal uppfylla eftirfarandi kröfur:

 

a)

koma á og viðhalda skýrum skriflegum verkferlum um ákvarðanatöku og skipu­lagi þar sem kemur fram hverjar séu boðleiðir innan fyrirtækisins, sem og skipting verkefna og ábyrgðar,

 

b)

tryggja að fulltrúum rekstrarfélagsins sé kunnugt um þær reglur og verkferla er fylgt skal í starfsemi þess,

 

c)

starfrækja viðunandi innri eftirlitskerfi sem ætlað er að tryggja að ákvörðunum og ferlum sé fylgt í allri starfsemi fyrirtækisins,

 

e)

koma á og viðhalda skilvirkri innri skýrslugjöf og miðlun upplýsinga á öllum viðeigandi sviðum í fyrirtækinu og

 

f)

viðhalda fullnægjandi skrám um viðskipti sín og innra skipulag.

Ráðstafanir, sem rekstrarfélag gerir til að uppfylla framangreindar skipulagskröfur, skulu taka mið af eðli og umfangi starfsemi fyrirtækisins.

Rekstrarfélag skal koma á fót og viðhalda kerfum og ferlum sem duga til að vernda öryggi og réttmæti upplýsinga og trúnað, sem á þeim hvílir, að teknu tilliti til þess hvers eðlis þær upplýsingar eru sem um ræðir.

Rekstrarfélag skal setja sér stefnu um samfelldni viðskipta, sem miðar að því að tryggja varðveislu nauðsynlegra gagna og aðgerða og að viðhalda starfseminni ef truflun verður í kerfum þess eða ferlum, eða ef því verður ekki við komið, að slík gögn verði endur­heimt og að starfseminni verði komið í samt horf að nýju, eins fljótt og mögulegt er.

Rekstrarfélag skal setja sér stefnu um reikningsskil sem gerir því kleift að skila tímanlega til Fjármálaeftirlitsins, að beiðni þess, fjárhagsupplýsingum sem gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu félagsins og uppfylla alla þá reikningsskilastaðla og reglur sem eiga við.

Rekstrarfélag skal hafa eftirlit með og meta reglulega hæfi og skilvirkni kerfa sinna, innri eftirlitskerfa og fyrirkomulags sem komið er á í samræmi við 1.-5. mgr. og grípa til viðeigandi ráðstafana til að ráða bót á annmörkum.

4. gr.

Fulltrúar rekstrarfélags og eftirlit.

Rekstrarfélag skal ráða starfslið sem býr yfir færni, þekkingu og sérfræðikunnáttu sem nauðsynleg er til að sinna þeim verkefnum og ábyrgð sem þeim eru falin.

Rekstrarfélag skal tryggja að það hafi mannafla sem býr yfir sérþekkingu til að hafa fullnægjandi og skilvirkt eftirlit með starfsemi sem þriðju aðilar sinna fyrir rekstrarfélagið á grundvelli samnings, einkum að því er varðar áhættustýringu í tengslum við við­komandi samninga.

Rekstrarfélag skal tryggja að þegar fulltrúar þess sinna margþættum störfum geti þeir tekist á við störf sín af heilindum, heiðarleika og fagmennsku.

Í tengslum við 1., 2. og 3. mgr. skal rekstrarfélag taka tillit til annars vegar umfangs og eðlis af starfsemi rekstrarfélagsins og hversu flókin hún er, og hins vegar af umfangi og eðli þeirrar þjónustu sem rekstrarfélagið veitir í tengslum við þá starfsemi.

2. ÞÁTTUR

Stjórnun og bókhaldsfyrirkomulag.

5. gr.

Meðferð kvartana.

Rekstrarfélag skal starfrækja gagnsætt og skilvirkt verklag við meðferð kvartana frá fjárfestum. Hraða skal meðferð kvartana eins og kostur er.

Rekstrarfélag skal halda skrá yfir hverja kvörtun og þær ráðstafanir sem gripið er til við úrlausn hennar. Framlagning kvörtunar skal vera án endurgjalds og gildir hið sama um upplýsingar sem veita skal um meðferð hennar.

6. gr.

Rafræn skráning og gagnavinnsla.

Rekstrarfélag skal hafa til umráða kerfi fyrir rafræna skráningu með viðskipti eignasafns sjóðs og áskriftar- og innlausnarpantanir, til að unnt sé að mæta kröfum sem áskilið er í 13. og 14. gr. Kerfið skal tryggja að viðskipti séu skráð á réttan hátt og á réttum tíma.

Rekstrarfélag skal tryggja hátt öryggisstig við rafræna gagnavinnslu og tryggja trúnað um skráðar upplýsingar eftir því sem við á.

7. gr.

Bókhaldsfyrirkomulag.

Rekstrarfélag skal tryggja að beitt sé reikningsskilaaðferðum og ferlum til að tryggja vernd eigenda hlutdeildarskírteina, sbr. 5. mgr. 3. gr.

Bókhald verðbréfasjóðs skal vera með þeim hætti að unnt sé að greina allar eignir og skuldir verðbréfasjóðsins á hverjum tíma. Ef verðbréfasjóður hefur mismunandi deildir skal bókhald þeirra vera aðskilið.

Rekstrarfélag skal koma á, framkvæma og viðhalda reikningsskilaaðferðum í samræmi við gildandi reikningsskilastaðla og reikningsskilareglur, til að tryggt sé að útreikningur á hreinni eign hvers verðbréfasjóðs sé réttur á grundvelli reikningsskila og að framkvæma megi áskriftar- og innlausnarpantanir í samræmi við verðmæti hreinnar eignar.

3. ÞÁTTUR

Innra eftirlit.

8. gr.

Eftirlit stjórnenda og eftirlitseiningar.

Við innri verkskiptingu skal tryggt að stjórnendur rekstrarfélags og eftirlitseining, þar sem hún er til staðar, beri ábyrgð á að rekstrarfélag starfi í samræmi við skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 128/2011.

Rekstrarfélag skal tryggja að stjórnendur þess:

 

a)

beri ábyrgð á framkvæmd á almennri fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða sem félagið stjórnar, og ef við á, útboðslýsingu sjóða og reglum þeirra,

 

b)

hafi umsjón með samþykki á fjárfestingarmarkmiðum fyrir verðbréfasjóði undir stjórn rekstrarfélags,

 

c)

beri ábyrgð á að rekstrarfélag hafi varanlega og skilvirka regluvörslu, sbr. 9. gr., þótt þriðji aðili inni starfsemina af hendi,

 

d)

tryggi og staðfesti með reglulegu millibili að almennri fjárfestingarstefnu, fjár­fest­ingarmarkmiðum og áhættutakmörkunum verðbréfasjóða rekstrarfélags sé fylgt og þær séu framkvæmdar rétt með skilvirkum hætti, einnig þegar þriðji aðili innir áhættustýringuna af hendi,

 

e)

samþykki og endurskoði með reglulegu millibili hvort innra verklag við fjár­fest­ingar­ákvarðanir sé fullnægjandi í tilvikum verðbréfasjóða rekstrar­félaga, til að tryggja að slíkar ákvarðanir séu í samræmi við samþykkt fjárfest­ingarmarkmið og

 

f)

samþykki og endurskoði með reglulegu millibili áhættustýringarstefnu og verk­ferla hennar, eins og um getur í 38. gr., þ.m.t. kerfi til að takmarka áhættu (e. risk limit system) fyrir verðbréfasjóði rekstrarfélaga.

Rekstrarfélag skal einnig sjá til þess að stjórnendur þess og, þegar við á, eftirlitseining:

 

a)

meti og endurskoði með reglulegu millibili skilvirkni stefnu, fyrirkomulags og verk­lags, sem komið hefur verið á til að uppfylla skyldur samkvæmt lögum og reglum og

 

b)

geri viðeigandi ráðstafanir til að taka á annmörkum á stefnu, fyrirkomulagi og verklagi.

Rekstrarfélag skal tryggja að stjórnendur þess fái reglulega, a.m.k. einu sinni á ári, skrif­lega skýrslur um málefni varðandi regluvörslu, innri endurskoðun og áhættustýringu, þar sem sérstaklega skal tekið fram hvort annmarkar hafi komið fram og hvort við­eig­andi ráðstafanir hafi verið gerðar.

Rekstrarfélag skal tryggja að stjórnendur þess fái reglulega skýrslu um framkvæmd fjár­festingarmarkmiða og innra verklag við fjárfestingarákvarðanir sem um getur í b- til e-lið 2. mgr.

Rekstrarfélag skal tryggja að eftirlitseining, sé hún til staðar, fái reglulega skriflega skýrslu um málefnin sem um getur í 4. mgr.

9. gr.

Regluvarsla.

Rekstrarfélag skal koma á og viðhalda viðeigandi stefnu og ferlum til að greina hvers konar hættur á misbrestum hjá rekstrarfélagi við að uppfylla skyldur sínar samkvæmt gildandi lögum og reglum um verðbréfasjóði. Rekstrarfélag skal móta ferla til þess að lág­marka hættur á misbrestum og gera Fjármálaeftirlitinu kleift að viðhafa skilvirkt eftir­lit.

Ráðstafanir rekstrarfélags til að uppfylla kröfur um regluvörslu skulu taka mið af eðli og umfangi starfsemi og verkefna rekstrarfélags.

Rekstrarfélag skal koma á og viðhalda skilvirkri regluvörslu sem er óháð öðrum þáttum í starfsemi félagsins og hefur eftirfarandi hlutverki að gegna:

 

a)

að fylgjast með og meta hvort ráðstafanir og ferlar skv. 1. mgr. séu full­nægjandi og skilvirk sem og aðgerðir til að bæta úr misbrestum félagsins við að uppfylla skyldur sínar samkvæmt gildandi lögum og reglum og

 

b)

að veita fulltrúum rekstrarfélags sem annast viðskipti og þjónustu við verð­bréfa­sjóði nauðsynlega fræðslu, ráðgjöf og aðstoð til að þeir geti uppfyllt skyldur félagsins samkvæmt gildandi lögum og reglum.

Rekstrarfélag skal tryggja að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt til að gera regluvörslu kleift að uppfylla skyldur sínar með réttum og óháðum hætti:

 

a)

þeir aðilar sem fara með regluvörslu skulu hafa nauðsynlegt vald, úrræði og sérfræðiþekkingu og aðgang að upplýsingum sem máli skipta,

 

b)

tilnefna skal regluvörð sem ber ábyrgð á regluvörslu og skýrslugjöf til yfir­stjórnar, sbr. 4. mgr. 8. gr.,

 

c)

fulltrúum rekstrarfélags sem starfa við regluvörslu sé óheimilt að veita þjónustu eða sinna starfsemi sem þeir hafa eftirlit með og

 

d)

aðferð við ákvörðun þóknunar fulltrúa rekstrarfélags sem starfa við regluvörslu skal ekki vera líkleg til að hafa áhrif á hlutlægni þeirra.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er rekstrarfélagi ekki skylt að uppfylla c- eða d-lið ef það getur sýnt fram á að skilyrðin séu of þungbær miðað við umfang og eðli starfsemi félagsins og að regluvarsla sé að öðru leyti fullnægjandi.

10. gr.

Innri endurskoðun.

Rekstrarfélag skal koma á og viðhalda aðferð við innri endurskoðun sem er aðskilin og óháð öðrum deildum og starfsemi félagsins, með tilliti til eðlis og umfangs starfsemi rekstrarfélagsins og eðlis og umfangs sjóðastýringar.

Innri endurskoðun skv. 1. mgr. sinnir eftirfarandi hlutverkum:

 

a)

að koma á og viðhalda endurskoðunaráætlun til að greina og meta hvort kerfi rekstrarfélags, innri eftirlitskerfi og fyrirkomulag séu fullnægjandi og skilvirk,

 

b)

gefur út tilmæli sem byggjast á niðurstöðu greiningar í samræmi við a-lið,

 

c)

sannreynir að ráðleggingum samkvæmt b-lið hafi verið fylgt og

 

d)

gefur skýrslu um innri endurskoðun í samræmi við 4. mgr. 8. gr.

11. gr.

Viðvarandi áhættustýringarferli.

Rekstrarfélag skal koma á og viðhalda varanlegri áhættustýringu.

Starfseining áhættustýringar skv. 1 mgr. skal vera sjálfstæð og óháð öðrum rekstrar­einingum. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu. Við mat á því hvort veita skuli undanþágu skal taka mið af eðli og umfangi starfsemi rekstrar­félags og verðbréfasjóða sem það stýrir. Rekstrarfélag skal sýna fram á að gerðar hafi verið viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra þannig að starf­semi áhættustýringar sé sjálfstæð og óháð og standist kröfur sem til hennar eru gerðar.

Starfsemi áhættustýringar skal sjá um eftirfarandi verkefni:

 

a)

framkvæmd áhættustýringarstefnu og verklags í tengslum við hana,

 

b)

tryggja að farið sé að kerfi verðbréfasjóðsins til að takmarka áhættu (e. risk limit system), þ.m.t. lögboðinni takmörkun heildaráhættu og mótaðilaáhættu, sbr. 41., 42. og 43. gr.,

 

c)

veita stjórn ráðgjöf um áhættusnið (e. risk profile) verðbréfasjóða rekstrar­félags,

 

d)

að gefa stjórn og, ef við á, eftirlitseiningu reglulega skýrslu um:

 

i.

samræmi milli núverandi áhættustigs hvers verðbréfasjóðs og áhættu­sniðs sem samþykkt hefur verið fyrir viðkomandi verðbréfasjóð,

 

ii.

hvort verðbréfasjóðum rekstrarfélags sé stýrt í samræmi við kerfi verð­bréfa­sjóðs til að takmarka áhættu (e. risk limit system),

 

iii.

hvort áhættustýringarverklag og/eða ferli er fullnægjandi og skilvirkt, einkum hvort viðeigandi ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta úr ann­mörkum sem kunna að koma upp,

 

e)

gefa stjórnendum reglulega skýrslur um núverandi áhættustig verðbréfasjóða rekstrarfélags, hvort farið hafi verið umfram takmarkanir þeirra eða hvort það sé fyrirsjáanlegt að slíkt muni gerast, til að tryggja að unnt sé að grípa skjótt til viðeigandi aðgerða,

 

f)

endurskoða og styrkja verklag við mat á virði OTC-afleiðna, sbr. 44. gr. og

 

g)

tilkynna Fjármálaeftirlitinu með reglubundnum hætti um tegundir afleiðna, sbr. 45. gr. er varðar skýrslu um afleiður.

Starfsmenn áhættustýringar skulu hafa nauðsynlegt vald og aðgang að öllum upp­lýs­ingum sem þörf er á til að sinna þeim verkefnum sem tilgreind eru í a-f-lið 3. mgr.

12. gr.

Eigin viðskipti fulltrúa rekstrarfélagsins.

Rekstrarfélag skal koma á og viðhalda fyrirkomulagi, sem miðar að því að koma í veg fyrir eftirtalda starfsemi ef fulltrúi rekstrarfélags sinnir störfum sem valdið gætu hags­muna­árekstrum eða hefur aðgang að innherjaupplýsingum í skilningi laga um verð­bréfa­viðskipti eða öðrum trúnaðarupplýsingum sem tengjast verðbréfasjóði eða við­skiptum við eða fyrir verðbréfasjóð á grundvelli starfsemi sem hann innir af hendi sjálfur eða fyrir hönd rekstrarfélagsins:

 

a)

að stofna til eigin viðskipta þar sem a.m.k. eitt af eftirfarandi viðmiðum á við:

 

i.

hlutaðeigandi einstaklingum er óheimilt að stofna til viðskiptanna sam­kvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, s.s. vegna reglna um innherja­viðskipti,

 

ii.

ef viðskiptin fela í sér misnotkun eða óviðeigandi birtingu trúnaðar­upplýsinga eða

 

iii.

ef viðskiptin stangast á við eða eru líkleg til að stangast á við skyldur rekstrar­félagsins samkvæmt lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, lögum um fjármálafyrirtæki eða lögum um verðbréfa­viðskipti,

 

b)

að gefa þriðja aðila ráð eða aðstoða hann við að stofna til viðskipta með fjár­mála­gerninga sem ekki verða talin í samræmi við eðlilegar starfsskyldur hans, ef viðskiptin falla undir a-lið þessa ákvæðis, a- eða b-lið 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 47. gr. reglugerðar nr. 995/2007 eða

 

c)

að veita þriðja aðila upplýsingar eða álit, nema það samrýmist 2. tölul. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, aðrar en þær sem um er að ræða í venjubundnu starfi eða samkvæmt þjónustusamningi ef hlutaðeigandi fulltrúi rekstrarfélagsins veit eða má vita að móttakandi muni eða líklegt er að hann muni grípa til eftirfarandi úrræða:

 

i.

stofna til viðskipta með fjármálagerninga sem falla undir a-lið þessa ákvæðis, a- eða b-lið 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 47. gr. reglugerðar nr. 995/2007 ef um væri að ræða eigin viðskipti fulltrúa rekstrarfélags eða

 

ii.

ráðleggja eða aðstoða þriðja aðila við að stofna til slíkra viðskipta.

Fyrirkomulagið, sem krafist er skv. 1. mgr., skal tryggja að:

 

a)

sérhverjum fulltrúa rekstrarfélags, sem 1. mgr. tekur til, sé kunnugt um tak­mark­anir á eigin viðskiptum og um þær ráðstafanir sem rekstrarfélag hefur komið á í tengslum við slík viðskipti og veitingu upplýsinga í samræmi við 1. mgr.,

 

b)

rekstrarfélag sé tafarlaust tilkynnt um öll eigin viðskipti fulltrúa þess annað­hvort með tilkynningu um viðskiptin eða með öðrum hætti til að unnt sé að greina viðskiptin og

 

c)

haldin sé skrá um eigin viðskipti fulltrúa rekstrarfélagsins, þ.m.t. um allar heimildir eða synjanir í tengslum við slík viðskipti.

Að því er varðar b-lið 1. mgr. skal rekstrarfélag, ef þriðji aðili framkvæmir tilteknar aðgerðir, tryggja að sú eining er framkvæmir þær haldi skrá yfir eigin viðskipti fulltrúa rekstrarfélags og veiti rekstrarfélaginu þær upplýsingar án tafar, óski það eftir því.

Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um eftirfarandi eigin viðskipti fulltrúa rekstrarfélags:

 

a)

eigin viðskipti sem framkvæmd eru í eignastýringu þar sem engin samskipti hafa farið fram á milli þess aðila sem stýrir eignasafninu og fulltrúa rekstrar­félagsins eða hlutaðeigandi einstaklings sem viðskiptin eru framkvæmd fyrir eða

 

b)

eigin viðskipti með hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum sem uppfylla skilyrði laga nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, að því tilskildu að fulltrúi rekstrarfélags eða hlutaðeigandi einstaklingur sem við­skiptin eru framkvæmd fyrir taki ekki þátt í stjórnun viðkomandi sjóðs.

13. gr.

Skráning viðskipta með eignasafn.

Rekstrarfélag skal tryggja að skráðar séu upplýsingar um öll viðskipti með eignasafn verðbréfasjóða þess. Skrá skal allar upplýsingar um viðskiptin á fullnægjandi hátt þannig að unnt sé að rekja upplýsingar um pöntun og framkvæmd viðskipta án tafar.

Skráning skal fela í sér:

 

a)

nafn eða annað heiti verðbréfasjóðs og viðkomandi einstaklings sem starfar fyrir hönd verðbréfasjóðsins,

 

b)

upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina viðkomandi gerning,

 

c)

magn,

 

d)

eðli pöntunar eða viðskipta,

 

e)

verð,

 

f)

dagsetningu pöntunar og nákvæma tímasetning, nafn eða annað heiti aðilans sem pöntunin var send til, ef um er að ræða viðskipti skal koma fram dag­setning þeirra og nákvæm tímasetning ákvörðunar um að eiga viðskipti og fram­kvæmd viðskipta,

 

g)

nafn aðila sem sendir pöntunina eða framkvæmir viðskiptin,

 

h)

ef við á, ástæður afturköllunar pöntunar og

 

i)

auðkenni mótaðila og viðskiptakerfis varðandi framkvæmd viðskipti.

Með viðskiptakerfi í i-lið er átt við skipulegan verðbréfamarkað, markaðstorg fjár­mála­gerninga, innmiðlara eða viðskiptavaka, sbr. lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 eða annan aðila sem útvegar lausafé eða einingu sem gegnir sambærilegu hlut­verki og einhver hinna framangreindu.

14. gr.

Skráning áskriftar- og innlausnarpantana.

Rekstrarfélag skal gera eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að áskriftar- og innlausnar­pöntunum sem berast verðbréfasjóðnum sé safnað saman og þær skráðar tafar­laust við viðtöku.

Skráning skal innhalda upplýsingar um eftirfarandi:

 

a)

viðkomandi verðbréfasjóð,

 

b)

aðila sem leggur fram eða sendir pöntunina,

 

c)

aðila sem tekur við pöntuninni,

 

d)

dagsetningu og tímasetningu pöntunar,

 

e)

greiðsluskilmála og greiðslumáta,

 

f)

eðli pantana,

 

g)

dagsetningu á framkvæmd pantana,

 

h)

fjölda hlutdeildarskírteina, verð á hverju hlutdeildarskírteini og heildarvirði hlut­deildarskírteina sem aðili skrifar sig fyrir eða innleysir og

 

i)

heildarvirði pöntunar, þ.m.t. gjöld vegna áskriftar eða hreina fjárhæð að frá­dregnum innlausnargjöldum.

15. gr.

Skráningarskylda.

Rekstrarfélag skal varðveita skrár, sem um getur í 13. og 14. gr., í a.m.k. 5 ár. Við sér­stakar aðstæður getur Fjármálaeftirlitið, sé það nauðsynlegt til að sinna eftirlits­hlutverki sínu, krafist þess að rekstrarfélag varðveiti skráningar í lengri tíma, að teknu tilliti til eðli gerninga eða viðskipta með eignasafn.

Eftir að leyfi rekstrarfélags hefur verið fellt úr gildi getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að rekstrarfélag varðveiti skrár skv. 1. mgr. það sem eftir er af 5 ára tímabilinu.

Ef rekstrarfélag felur öðru rekstrarfélagi skyldur sínar við verðbréfasjóð getur Fjár­mála­eftirlitið krafist þess að hið nýja félag geri ráðstafanir til að varðveita skrár sam­kvæmt 1. mgr.

Skrár skal varðveita á miðli sem gerir Fjármálaeftirlitinu kleift að nálgast þær síðar og með þeim hætti sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

 

a)

auðvelt skal vera fyrir Fjármálaeftirlitið að nálgast skrár og skal hvert stig í viðskiptaferli með eignasafn vera gagnsætt og auðvelt að endurgera,

 

b)

í skrám skal vera auðvelt að rekja allar leiðréttingar eða breytingar, sem og innihald skráa áður en leiðréttingar eða breytingar voru gerðar og

 

c)

ekki má vera hægt að hagræða eða breyta skránum að öðru leyti.

III. KAFLI.

Hagsmunaárekstrar.

16. gr.

Greining hagsmunaárekstra.

Rekstrarfélag skal gera allar tiltækar ráðstafnir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem geta skaðað hagsmuni viðskiptavina þess. Í því skyni að greina hagsmunaárekstra sem geta skapast við veitingu þjónustu í tengslum við sjóðastýringu eða aðra starfsemi skal rekstrarfélag meta hvort félagið, fulltrúi rekstrarfélagsins eða aðili sem beint eða óbeint er tengdur fyrirtækinu í gegnum yfirráð:

 

a)

sé líklegur til að njóta fjárhagslegs ágóða eða forðast fjárhagslegt tap á kostnað verðbréfasjóðsins,

 

b)

hefur hagsmuna að gæta af niðurstöðu þeirrrar þjónustu sem verðbréfa­sjóðnum eða öðrum viðskiptavini er veitt eða viðskipta fyrir hönd verðbréfa­sjóðs eða annars viðskiptavinar og þessir hagsmunir eru aðgreindir frá hags­munum verðbréfasjóðsins að því er varðar niðurstöðuna,

 

c)

hafi fjárhagslegan hvata eða annars konar hvata til þess að setja hagsmuni annars viðskiptavinar eða hóps viðskiptavina framar hagsmunum verðbréfa­sjóðsins,

 

d)

framkvæmi sömu aðgerðir fyrir verðbréfasjóð og fyrir annan viðskiptavin eða viðskiptavini sem ekki eru verðbréfasjóðir eða

 

e)

þiggur eða mun þiggja umbun í tengslum við sjóðastýringu verðbréfasjóðs í formi peninga, vöru eða þjónustu, annarra en venjubundinna umboðslauna eða þóknana fyrir þjónustuna, frá öðrum aðila en verðbréfasjóðnum.

Við greiningu á tegundum hagsmunaárekstra skal rekstrarfélag taka tillit til eftirfarandi þátta:

 

a)

hagsmuna rekstrarfélagsins, þar með talið hagsmuna sem eru afleiðing þess að félagið tilheyrir samstæðu eða af framkvæmd þjónustu og verkefna, hagsmuna viðskiptavina og skyldum rekstrarfélags gagnvart verðbréfasjóðnum og

 

b)

hagsmuna tveggja eða fleiri verðbréfasjóða undir stjórn rekstrarfélagsins.

17. gr.

Stefna varðandi hagsmunaárekstra.

Rekstrarfélag skal setja og viðhalda skilvirkri skriflegri stefnu varðandi hagsmuna­árekstra. Stefnan skal vera í samræmi við stærð og skipulag félags og eðli og umfang starf­semi.

Ef rekstrarfélagið er aðili að samstæðu skal stefnan taka mið af hvers konar aðstæðum, sem félaginu ætti að vera kunnugt um, sem gætu leitt til þess að hagsmunaárekstrar verði vegna skipulags og starfsemi annarra aðila að samstæðunni.

Stefna sem komið er á í samræmi við 1. mgr. skal taka á eftirfarandi efnisatriðum:

 

a)

hvaða aðstæður það eru sem valda eða geta valdið hagsmunaárekstrum, í starfsemi á sviði sameiginlegrar stjórnunar verðbréfasafns sem stunduð er af rekstrarfélaginu, sem hafa í för með sér verulega hættu á að hagsmunir verðbréfasjóðsins eða eins eða fleiri viðskiptavina skaðist og

 

b)

verklagi og öðrum ráðstöfunum í því skyni að stýra slíkum hagsmuna­árekstrum.

18. gr.

Sjálfstæði við mat á hagsmunaárekstrum.

Verklag og aðrar ráðstafanir skv. b-lið 3. mgr. 17. gr., skulu tryggja að fulltrúar rekstrar­félags, sem sinna störfum sem hafa í för með sér hagsmunaárekstra og sem til­greindir eru í a-lið 3. mgr. 17. gr., séu sjálfstæðir í störfum sínum með tilliti til umfangs og starfsemi rekstrarfélagsins og samstæðunnar sem það tilheyrir og þess hversu raun­veru­leg áhættan er á því að hagsmunir viðskiptavinanna skaðist.

Verklag og aðrar ráðstafanir sem beita skal skv. b-lið 3. mgr. 17. gr. skulu fela í sér eftirfarandi þætti, þegar það er nauðsynlegt og viðeigandi fyrir rekstrarfélagið til að tryggja tilskilið sjálfstæði:

 

a)

aðferðir til að koma í veg fyrir eða stýra upplýsingastreymi milli fulltrúa rekstrar­félags, sem stundar starfsemi á sviði sameiginlegrar stjórnunar verð­bréfa­safns, sem hefur í för með sér hættu á hagsmunaárekstrum, ef þessi upplýs­inga­skipti geta skaðað hagsmuni eins eða fleiri viðskiptavina (kína­múrar),

 

b)

sérstakt eftirlit með fulltrúum rekstrarfélags sem hafa það að meginverkefni að annast sameiginlega stjórnun verðbréfasafns fyrir hönd viðskiptavina eða fjárfesta eða veita þeim þjónustu, hverra hagsmunir geta stangast á, eða koma að öðru leyti fram fyrir ólíka hagsmuni sem geta skarast, þ.m.t. hagsmuni félagsins,

 

c)

afnema skal bein tengsl milli þóknunar fulltrúa rekstrarfélagsins, sem annast fyrst og fremst eitt verksvið, og þóknunar eða tekjuöflunar fulltrúa á öðrum sviðum rekstrarfélagsins, ef til hagsmunaárekstra gæti komið milli þessara verksviða,

 

d)

ráðstafanir til að koma í veg fyrir að nokkur aðili hafi óviðeigandi áhrif á það hvernig fulltrúar rekstrarfélags annast sameiginlega stjórnun verðbréfasafns, eða til að takmarka getu hans til að hafa slík áhrif og

 

e)

ráðstafanir til að takmarka eða stýra aðstæðum þegar fulltrúar rekstrarfélags sinna samtímis, eða í beinu framhaldi, aðskildum verkefnum í sjóðastýringu, þar sem slík þátttaka getur dregið úr tilhlýðilegri stjórnun hagsmunaárekstra.

Þegar innleiðing eða framkvæmd einnar eða fleiri framangreindra aðferða eða ráð­stafana tryggir ekki tilskilið sjálfstæði skal rekstrarfélag grípa til annarra nauðsyn­legra og viðeigandi aðferða eða ráðstafana.

19. gr.

Stjórnun verkefna sem hafa í för með sér skaðlega hagsmunaárekstra.

Rekstrarfélag skal halda skrá sem það uppfærir reglulega yfir þá tegund starfsemi félagsins, á sviði sameiginlegrar stjórnunar verðbréfasafns, sem stunduð er af félaginu eða fyrir hönd þess þar sem skapast hefur hagsmunaárekstur, sem hefur í för með sér verulega hættu á að hagsmunir eins eða fleiri verðbréfasjóða eða annarra viðskiptavina skaðist, eða slíkur hagsmunaárekstur kunni að skapast þegar um er að ræða viðvarandi sameiginlega stjórnun verðbréfasafns.

Ef talið er að skipulag eða stjórnunarfyrirkomulag rekstrarfélags til að stýra hags­muna­árekstrum sé ekki fullnægjandi til að tryggja að komið sé í veg fyrir hættu á tjóni á hagsmunum verðbréfasjóðs eða eigenda hlutdeildarskírteina hans skal slíkt tafar­laust tilkynnt stjórnanda rekstrarfélagsins, eða öðrum þar til bærum aðila, til að unnt sé að gera viðeigandi ráðstafanir sem tryggja að rekstrarfélagið starfi með hagsmuni verðbréfa­sjóðsins og eigenda hlutdeildarskírteina hans að leiðarljósi.

Rekstrarfélag skal tilkynna fjárfestum um aðstæður sem um getur í 2. mgr. á varanlegum miðli og rökstyðja ákvörðun sína.

20. gr.

Áætlun um nýtingu atkvæðisréttar.

Rekstrarfélag skal móta fullnægjandi og árangursríkar áætlanir til að ákvarða hvenær og hvernig nýta skuli atkvæðisrétt sem fylgir gerningum í eignasöfnum í stýringu með hags­muni viðkomandi verðbréfasjóðs í huga.

Áætlun skv. 1. mgr. ræður verklagi og ráðstöfun við:

 

a)

eftirlit með viðeigandi athöfnum fyrirtækis,

 

b)

að tryggja nýtingu atkvæðisréttar í samræmi við fjárfestingarmarkmið og stefnu viðkomandi verðbréfasjóðs og

 

c)

að koma í veg fyrir eða stjórna hagsmunaárekstrum sem eru afleiðing nýtingar á atkvæðisrétti.

Upplýsingar um aðgerðir sem gripið er til á grundvelli þessara áætlana skulu gerðar aðgengilegar eigendum hlutdeildarskírteina án endurgjalds, óski þeir þess.

IV. KAFLI

Hátternisreglur.

I. ÞÁTTUR

Almennar meginreglur.

21. gr.

Skylda til að þjóna hagsmunum verðbréfasjóðs og eigendum hlutdeildarskírteina.

Rekstrarfélag skal tryggja að eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði undir þeirra stjórn fái sanngjarna meðhöndlun.

Rekstrarfélag skal ekki setja hagsmuni eins hóps eigenda hlutdeildarskírteina ofar hags­munum annars hóps.

Rekstrarfélag skal koma á og beita viðeigandi stefnum og verklagi til að koma í veg fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi starfsmanna og stjórnenda, sem framin eru af ásetningi eða gáleysi, sem líklegt er að hefðu áhrif á stöðugleika og trúverðugleika markaðarins.

Rekstrarfélag skal nota sanngjörn, rétt og gegnsæ verðmatslíkön og -kerfi fyrir verð­bréfa­sjóði sem þau stjórna og starfa með hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðar­ljósi. Rekstrarfélag skal geta sýnt fram á að eignasöfn verðbréfasjóðs séu verðlögð með nákvæmum hætti.

Rekstrarfélag skal starfa með þeim hætti að komið sé í veg fyrir óþarfa kostnað fyrir verðbréfasjóð og eigendur hlutdeildarskírteina hans.

22. gr.

Kröfur um áreiðanleikakönnun.

Rekstrarfélag skal tryggja áreiðanleika við val á og viðvarandi eftirlit með fjárfestingum með hagsmuni verðbréfasjóðs og heilleika markaðarins að leiðarljósi.

Rekstrarfélag skal búa yfir fullnægjandi þekkingu og skilningi á þeim eignum sem verð­bréfa­sjóður hefur fjárfest í.

Rekstrarfélag skal koma á skriflegri stefnu og verklagi um áreiðanleikakannanir og inn­leiða skilvirkt fyrirkomulag til að tryggja að fjárfestingarákvarðanir, sem teknar eru fyrir hönd verðbréfasjóðs, séu framkvæmdar í samræmi við fjárfestingarstefnu og fjár­fest­ingarmarkmið og áhættutakmarkanir sjóðsins.

Rekstrarfélag skal við framkvæmd áhættustýringarstefnu sinnar og eftir því sem við á með tilliti til eðlis fyrirhugaðrar fjárfestingar setja fram spár og framkvæma greiningu um áhrif fjárfestingar á samsetningu, seljanleika og áhættu á móti ávinningi eignasafns verðbréfasjóðs áður en fjárfestingin er framkvæmd. Greiningin skal framkvæmd á grund­velli áreiðanlegra og uppfærðra upplýsinga, bæði megindlegra og eigindlegra.

Rekstrarfélag skal sýna færni, aðgát og kostgæfni þegar það stofnar til, fer með eða bindur endi á hvers kyns samninga við þriðja aðila í tengslum við framkvæmd áhættu­stýr­ingar­starfsemi. Áður en slíkir samningar eru gerðir skal rekstrarfélag gera nauðsyn­legar ráðstafanir til að sannreyna að þriðji aðili hafi getu og hæfni til að fram­kvæma áhættustýringarstarfsemi á áreiðanlegan, faglegan og skilvirkan hátt. Rekstrar­félag skal koma á fót aðferðum fyrir viðvarandi mat á frammistöðu þriðja aðila.

2. ÞÁTTUR

Meðferð áskriftar- og innlausnarpantana.

23. gr.

Skýrslugjöf vegna áskriftar- og innlausnarpantana.

Þegar framkvæmd er áskriftar- eða innlausnarpöntun frá eiganda hlutdeildarskírteinis skal rekstrarfélag senda eiganda staðfestingu á varanlegum miðli um framkvæmd pönt­unar eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fyrsta viðskiptadag eftir framkvæmdina eða, ef rekstrarfélag móttekur staðfestingu frá þriðja aðila, eigi síðar en fyrsta viðskipta­dag eftir að staðfesting hefur borist frá þriðja aðila.

Ákvæði 1. mgr. gildir ekki ef í staðfestingu eru að finna sömu upplýsingar og í stað­fest­ingu sem annar aðili á að senda eiganda hlutdeildarskírteinanna tafarlaust.

Eftir því sem við á skulu í staðfestingu skv. 1. mgr. koma fram eftirfarandi upplýsingar:

 

a)

auðkenni rekstrarfélags,

 

b)

nafn eða annað auðkenni eiganda hlutdeildarskírteinis,

 

c)

viðtökutími og -dagur pöntunar og greiðslumáti,

 

d)

dagsetning framkvæmdar,

 

e)

auðkenni verðbréfasjóðs,

 

f)

eðli pöntunar (áskrift eða innlausn),

 

g)

fjöldi hlutdeildarskírteina í viðskiptum,

 

h)

virði hlutdeildarskírteina við áskrift eða innlausn,

 

i)

dagsetning viðmiðunargildis (e. reference value date),

 

j)

heildarvirði pöntunar, þ.m.t. áskriftargjöld eða hrein fjárhæð að frádregnum innlausnargjöldum og

 

k)

samtala þóknana, innheimts kostnaðar og, ef fjárfestirinn fer fram á það, sundur­liðuð skipting.

Ef pantanir eiganda hlutdeildarskírteina eru framkvæmdar með reglulegu millibili þá er rekstrarfélagi heimilt að velja hvort upplýsingagjöf vegna viðskipta fari fram skv. 1. mgr eða hvort eiganda hlutdeildarskírteinis séu veittar þær upplýsingar sem fram koma í 3. mgr. á sex mánaða fresti.

Rekstrarfélag skal veita eiganda hlutdeildarskírteina upplýsingar um stöðu pantana hans sé óskað eftir þeim.

3. ÞÁTTUR

Besta framkvæmd.

24. gr.

Framkvæmd fyrirmæla um viðskipti (viðmið um bestu framkvæmd).

Rekstrarfélag skal þjóna hagsmunum verðbréfasjóðs sem það stýrir þegar það fram­kvæmir fyrirmæli um viðskipti fyrir hönd sjóðsins.

Rekstrarfélag skal gera allar eðlilegar ráðstafanir við framkvæmd fyrirmæla til að ná fram niðurstöðu sem er sem hagstæðust fyrir verðbréfasjóð, að teknu tilliti til verðs, kostnaðar, hraða, líkinda á framfylgd og greiðslu, umfangs og eðlis pantana eða annarra þátta sem máli skipta. Ákvarða skal hlutfallslegt mikilvægi slíkra þátta með vísan til eftirfarandi viðmiða:

 

a)

markmiðs, fjárfestingarstefnu og áhættu verðbréfasjóðs, eins og tilgreint er í lýsingu eða, eftir því sem við á, í sjóðsreglum eða samþykktum verðbréfa­sjóðs,

 

b)

einkenna pöntunar,

 

c)

einkenna fjármálagerninga sem um er að ræða í þeirri pöntun og

 

d)

einkenna þeirra markaða sem unnt er að beina fyrirmælum til.

Rekstrarfélag skal koma á ráðstöfunum sem gera því kleift að uppfylla skyldur skv. 2. mgr. Þá skal rekstrarfélag móta stefnu til að ná fram hagstæðustu niðurstöðu er varðar framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd verðbréfasjóðs. Rekstrarfélag skal gera helstu upp­lýsingar um stefnuna og um allar verulegar breytingar á henni, aðgengilegar eig­endum hlutdeildarskírteina.

Rekstrarfélag skal hafa reglubundið eftirlit með skilvirkni fyrirkomulags og stefnu um fram­kvæmd fyrirmæla til að greina og leiðrétta annmarka, eftir því sem við á. Endur­skoðun á stefnu skal framkvæmd árlega. Jafnframt skal endurskoða stefnu þegar veru­leg breyting verður sem hefur áhrif á getu rekstrarfélagsins til að ná besta hugsan­lega árangri fyrir verðbréfasjóð sem það stýrir.

Rekstrarfélag skal geta sýnt fram á að fyrirmæli hafi verið framkvæmd fyrir hönd verðbréfasjóðs í samræmi við stefnu félagsins.

25. gr.

Framkvæmd fyrirmæla af hálfu verðbréfasjóðs sem aðrir aðilar framkvæma.

Rekstrarfélag skal þjóna hagsmunum verðbréfasjóðs sem það stýrir þegar sett er fram framkvæmd fyrirmæla fyrir verðbréfasjóðinn í tengslum við stýringu á eignasafni hans sem annar aðili skal framkvæma.

Rekstrarfélag skal gera allar eðlilegar ráðstafanir til að niðurstaðan verði sem hag­stæðust fyrir verðbréfasjóð, að teknu tilliti til verðs, kostnaðar, hraða, líkinda á fram­fylgd og greiðslu, umfangs, eðlis eða annarra þátta sem máli skipta fyrir fram­kvæmd pöntunar. Ákvarða skal hlutfallslegt mikilvægi slíkra þátta, sbr. 2. mgr. 24. gr.

Í samræmi við framangreint skal rekstrarfélag setja sér stefnu sem gerir því kleift að uppfylla skyldu skv. 1. mgr. Í stefnunni skal tilgreina, að því er varðar sérhvern flokk gerninga, þá aðila sem koma má pöntunum til. Rekstrarfélag skal aðeins gera samning um framkvæmd ef slíkt fyrirkomulag er í samræmi við skyldur sem mælt er fyrir um í ákvæði þessu. Rekstrarfélag skal gera helstu upplýsingar um stefnuna og um allar veru­legar breytingar á henni aðgengilegar eigendum hlutdeildarskírteina.

Rekstrarfélag skal hafa reglubundið eftirlit með skilvirkni stefnu skv. 3. mgr., einkum gæði framkvæmdar hjá þeim aðilum sem tilgreindir eru í stefnu, og leiðrétta annmarka eftir því sem við á. Jafnframt skal rekstrarfélag endurskoða stefnuna árlega. Slík endur­skoðun skal einnig fara fram ef veruleg breyting á sér stað sem hefur áhrif á getu rekstrar­félags til að halda áfram að ná fram hagstæðustu niðurstöðu fyrir verðbréfasjóð.

Rekstrarfélag skal geta sýnt fram á að fyrirmæli hafi verið framkvæmd fyrir hönd verð­bréfasjóðs í samræmi við stefnu félagsins.

4. ÞÁTTUR

Meðferð fyrirmæla.

26. gr.

Almennar meginreglur.

Rekstrarfélag skal móta verklagsreglur um meðferð fyrirmæla og tryggja að þeim sé fylgt eftir. Í verklagsreglum skal kveðið á um skjóta og sanngjarna framfylgd fyrirmæla um viðskipti með eignasafn fyrir hönd verðbréfasjóðs. Verklagsreglur skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 

a)

tryggt skal að fyrirmæli, sem eru framkvæmd fyrir hönd verðbréfasjóðs, séu skráð og þeim úthlutað án tafar og af nákvæmni og

 

b)

framkvæma skal fyrirmæli fyrir hönd verðbréfasjóðs, sem eru sambærileg að öðru leyti, í þeirri röð sem þau berast og án tafar nema það sé ekki gerlegt vegna þess hvers eðlis fyrirmælin eru eða vegna ríkjandi markaðsaðstæðna eða vegna þess að hagsmunir verðbréfasjóðs krefjast þess.

Fjármálagerningum eða fjármunum, sem er veitt viðtaka við uppgjör eftir framkvæmd þessara fyrirmæla skal komið til skila án tafar og með viðeigandi hætti á reikning við­komandi verðbréfasjóðs.

Rekstrarfélagi er óheimilt að misnota upplýsingar sem tengjast óafgreiddum fyrirmælum verðbréfasjóðs og skal félagið grípa til allra eðlilegra ráðstafana til að hindra að fulltrúar rekstrarfélags eða aðrir tengdir aðilar misnoti slíkar upplýsingar.

27. gr.

Samsafn og úthlutun fyrirmæla.

Rekstrarfélagi er óheimilt að sameina fyrirmæli verðbréfasjóðs við fyrirmæli annars verð­bréfa­sjóðs, annars viðskiptavinar eða fyrirmæli fyrir eigin reikning nema að upp­fylltum eftirfarandi skilyrðum:

 

a)

að ólíklegt sé að samsafn fyrirmæla og viðskipta muni í heild reynast óhagstæð einhverjum verðbréfasjóði eða viðskiptavini og

 

b)

að mótuð sé stefna um úthlutun fyrirmæla og framkvæmd með skilvirkum hætti, þar sem kveðið er á um sanngjarna dreifingu samsafnaðra fyrirmæla og viðskipta á nægilega ítarlegu máli, þ.m.t. hvernig magn og verð fyrirmæla ákvarðar dreifingu og meðferð fyrirmæla sem framkvæmdar eru að hluta.

Ef rekstrarfélag setur fyrirmæli verðbréfasjóðs með einum eða fleiri fyrirmælum annarra verðbréfasjóða eða viðskiptavina og samsöfnuðu fyrirmælin eru framkvæmd að hluta, skal félagið úthluta viðskiptum í samræmi við stefnu sína um dreifingu fyrirmæla.

Rekstrarfélag sem hefur safnað saman viðskiptum fyrir eigin reikning og bætt þeim við ein eða fleiri fyrirmæli verðbréfasjóðs eða annarra viðskiptavina er óheimilt að úthluta viðskiptunum á þann hátt að það skaði viðkomandi verðbréfasjóð eða viðskiptavin.

Ef rekstrarfélag bætir fyrirmælum verðbréfasjóðs eða annars viðskiptavinar við viðskipti fyrir eigin reikning og samsöfnuðu fyrirmælin eru framkvæmd að hluta, skal það úthluta tengdum viðskiptum til verðbréfasjóðs eða viðskiptavinar fremur en til rekstrarfélagsins sjálfs.

Ef rekstrarfélagið getur sýnt verðbréfasjóði eða öðrum viðskiptavini sínum fram á að ef ekki hefði verið fyrir samsöfnun hefði því ekki verið unnt að framkvæma fyrirmælin á eins hagstæðum kjörum, eða yfirleitt, þá getur það úthlutað viðskiptunum fyrir eigin reikning hlutfallslega, í samræmi við stefnuna sem um getur í b-lið 1. mgr.

5. ÞÁTTUR

Umbun.

28. gr.

Verndun hagsmuna verðbréfasjóðs í tengslum við umbun.

Rekstrarfélag skal starfa af heiðarleika, sanngirni og fagmennsku með hagsmuni verð­bréfa­sjóðs að leiðarljósi. Rekstrarfélag er ekki talið starfa í samræmi við framan­greint ef það, í tengslum við fjárfestingar og rekstur verðbréfasjóðs, greiðir eða þiggur þóknun eða umboðslaun eða veitir eða fær ófjárhagslega umbun, aðrar en eftir­far­andi:

 

a)

þóknun, umboðslaun eða ófjárhagslegan ávinning, greiddan eða veittan verð­bréfa­sjóði eða aðila sem er fulltrúi verðbréfasjóðs, eða sem verð­bréfa­sjóður greiðir eða veitir eða aðili fyrir hönd sjóðsins,

 

b)

þóknun, umboðslaun eða ófjárhagslegan ávinning, greiddan eða veittan þriðja aðila, eða aðila sem er fulltrúi þriðja aðila, eða sem þriðji aðili greiðir eða veitir eða aðili fyrir hans hönd ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

 

i.

verðbréfasjóður er upplýstur með ítarlegum og skiljanlegum hætti um tilvist, eðli og fjárhæð þóknunar, umboðslauna eða ávinnings eða þá aðferð sem notuð er til að reikna út fjárhæð þóknunar ef ekki er unnt að ákvarða hana áður en viðkomandi þjónusta er veitt og

 

ii.

greiðsla þóknunar eða umboðslauna eða afhending ófjárhagslegs ávinn­ings er með þeim hætti að hún bæti viðkomandi þjónustu og komi ekki í veg fyrir að rekstrarfélag geti sinnt þeirri skyldu sinni að þjóna hags­munum verðbréfasjóðs sem best,

 

c)

viðeigandi þóknanir, sem auðvelda eða eru nauðsynlegar til að viðkomandi þjónusta sé veitt, þ.m.t. vörslugjöld, uppgjörs- og viðskiptaþóknanir, eftirlits­gjöld eða lögfræðiþóknanir og sem, vegna eðlis þeirra, geta ekki valdið hagsmuna­árekstrum við skyldu rekstrarfélagsins skv. 1. mgr.

Rekstrarfélagi er heimilt í tilfellum skv. i-lið b-liðar 1. mgr. að greina aðeins frá megin­atriðum fyrirkomulags þóknunar, umboðslauna eða annars fjárhagslegs ávinnings. Óski eigandi hlutdeildarskírteina eftir frekari upplýsingum ber rekstrarfélagi að veita þær.

V. KAFLI

Samkomulag vörslufyrirtækis og rekstrarfélags.

29. gr.

Verklag sem aðilum að samkomulagi ber að fylgja.

Vörslufyrirtæki og rekstrarfélag skulu gera með sér skriflegt samkomulag þegar heima­ríki rekstrarfélags er annað en verðbréfasjóðs.

Samkomulagið skal taka til nauðsynlegs upplýsingaflæðis milli þessara aðila til að vörslufyrirtæki geti sinnt skyldum sínum skv. 20. gr. og 22. gr. laga nr. 128/2011 og/eða öðrum lögum og reglum sem gilda um vörslufyrirtæki í viðkomandi ríki. Í samkomulaginu skulu a.m.k. eftirfarandi atriði tiltekin í tengslum við þjónustuna sem aðilar að samkomu­laginu veita og verklag sem þeim ber að fylgja:

 

a)

lýsing á verklagi, þ.m.t. það sem tengist varðveislu, sem skal samþykkja fyrir hvern eignaflokk verðbréfasjóðs sem falinn er vörslufyrirtæki,

 

b)

lýsing á verklagi sem ber að fylgja eftir ef rekstrarfélag gerir ráð fyrir að breyta sjóðsreglum eða lýsingu verðbréfasjóðs og tilgreina hvenær beri að upplýsa vörslufyrirtækið, eða hvenær þörf er á undanfarandi samkomulagi við vörslufyrirtækið til að hægt sé að halda áfram með breytinguna,

 

c)

lýsing á aðferðum og verklagi sem vörslufyrirtæki notar til að senda rekstrar­félagi allar viðeigandi upplýsingar sem það þarf til að inna starf sitt af hendi, þ.m.t. lýsing á aðferðum og verklagi í tengslum við nýtingu réttinda sem eru tengd fjármálagerningum, og aðferðum og verklagi sem nýtt eru til að gera rekstrar­félagi og verðbréfasjóði kleift að hafa í tæka tíð aðgang að upplýs­ingum í tengslum við reikninga verðbréfasjóðs,

 

d)

lýsing á aðferðum og verklagi sem vörslufyrirtæki getur nýtt til að nálgast allar viðeigandi upplýsingar sem það þarf til að geta uppfyllt skyldur sínar,

 

e)

lýsing á verklagi sem vörslufyrirtæki getur fylgt til að fá upplýsingar um fram­kvæmd rekstrarfélagsins og til að meta gæði sendra upplýsinga, þ.m.t. með vettvangsheimsóknum og

 

f)

lýsing á verklagi sem rekstrarfélag getur farið eftir við endurskoðun á frammi­stöðu vörslufyrirtækis að því er varðar samningsbundnar skyldur vörslu­fyrirtækis.

30. gr.

Upplýsingaskipti, þagnarskylda og viðnám gegn peningaþvætti.

Í samkomulagi skv. 29. gr. skal að lágmarki fjalla um eftirfarandi þætti í tengslum við upp­lýsingaskipti, þagnarskyldu og aðgerðir gegn peningaþvætti:

 

a)

skrá yfir allar upplýsingar sem verðbréfasjóður, rekstrarfélag hans og vörslu­fyrirtæki þurfa að skiptast á í tengslum við áskrift, innlausn, útgáfu, afpöntun og endurkaup hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði,

 

b)

þagnarskyldu sem gildir um aðila að samkomulagi og

 

c)

upplýsingar um aðgerðir og ábyrgð vörslufyrirtækis og rekstrarfélags hvað varðar skyldur þeirra til að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðju­verkastarfsemi, eins og við á.

Þagnarskylda skv. b-lið 1. mgr. skal sett fram með þeim hætti að hún skerði hvorki heimildir lögbærra yfirvalda í heimaríki rekstrarfélags né lögbærra yfirvalda í heimaríki verðbréfasjóðs til að fá aðgang að viðeigandi skjölum og upplýsingum.

31. gr.

Tilnefning þriðju aðila.

Ef vörslufyrirtæki eða rekstrarfélag sem er aðili að samkomulagi skv. 29. gr. áætlar að tilnefna þriðja aðila til að inna af hendi skyldur sínar skulu aðilar að lágmarki tilgreina í samkomulaginu:

 

a)

skyldu aðila til að veita með reglulegu millibili upplýsingar um alla þá þriðju aðila sem vörslufyrirtæki eða rekstrarfélag tilnefnir til að inna af hendi skyldur sínar,

 

b)

ef annar þeirra óskar eftir því, skyldu hins aðilans til að veita upplýsingar um viðmiðanirnar sem við er stuðst við val á þriðja aðila og þær ráðstafanir sem gerðar eru til að hafa eftirlit með starfsemi sem þriðji aðili sinnir og

 

c)

yfirlýsingu þess efnis að það hafi ekki áhrif á ábyrgð vörslufyrirtækis, sbr. 22. gr. laga nr. 128/2011, þótt vörslufyrirtæki sem falið hefur verið að varðveita eignir verðbréfasjóðs feli þriðja aðila að varðveita þær.

32. gr.

Breytingar og slit samkomulags.

Í samkomulagi aðila skv. 29. gr. skal að lágmarki fjalla um eftirfarandi atriði í tengslum við breytingar og slit samkomulags:

 

a)

gildistíma samkomulags,

 

b)

skilyrði sem verða að vera fyrir hendi til að breyta megi samkomulagi eða slíta því og

 

c)

skilyrði sem þarf að uppfylla til að greiða fyrir flutning eigna til annars vörslu­fyrirtækis og í þeim tilvikum með hvaða hætti vörslufyrirtæki skal senda allar viðeigandi upplýsingar til hins nýja vörslufyrirtækis.

33. gr.

Gildandi lög.

Í samkomulagi aðila skv. 29. gr. skal tilgreint að lög heimaríkis verðbréfasjóðs gildi um það.

34. gr.

Rafræn sending upplýsinga.

Ef aðilar að samkomulagi skv. 29. gr. semja um að senda á milli allar upplýsingar eða hluta þeirra rafrænt skal samkomulagið fela í sér ákvæði sem tryggja að þær upp­lýsingar séu jafnframt vistaðar með öruggum hætti.

35. gr.

Gildissvið samkomulagsins.

Samkomulag skv. 29. gr. getur tekið til fleiri en eins verðbréfasjóðs undir stjórn rekstrar­félags. Í slíkum tilfellum þá skal tilgreint sérstaklega í samkomulagi lista yfir þá verð­bréfa­sjóði sem falla undir það.

36. gr.

Þjónustusamningur.

Heimilt er að fjalla um aðferðir og verklag vörslufélags við öflun upplýsinga og miðlun þeirra til rekstrarfélags skv. c- og d-lið 29. gr. í sérstöku skriflegu samkomulagi.

VI. KAFLI

Áhættustýring.

1. ÞÁTTUR

Meginreglur við áhættustýringu, áhættustýringarstefna og áhættumat.

37. gr.

Almennar meginreglur.

Rekstrarfélag skal hafa yfir að ráða eftirlitskerfi sem gerir því kleift að vakta, meta og stýra áhættu einstakra eigna og eignasafns verðbréfasjóðs á hverjum tíma, sbr. 38. gr. Sérstaka aðferð skal nota til að leggja nákvæmt og óháð mat á virði OTC-afleiðna, sbr. 44. gr.

Rekstrarfélag skal reglulega senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um tegundir afleiðna, undirliggjandi áhættur, magntakmarkanir og þær aðferðir sem notaðar eru til að meta áhættu tengda afleiðum hvers verðbréfasjóðs.

Heildaráhætta verðbréfasjóðs vegna afleiðna skal ekki fara yfir hreint heildarvirði eigna­safns hans.

Við útreikning áhættu skal taka mið af núvirði undirliggjandi eigna, mótaðilaáhættu, lík­legri þróun fjármálamarkaða og líftíma samninga.

Verðbréfasjóði er heimilt sem hluta af fjárfestingarstefnu sinni, að teknu tillit til þeirra tak­mark­ana sem fram koma í 35. gr. laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjár­fest­ingar­sjóði og fagfjárfestasjóði, að fjárfesta í afleiðum að því gefnu að áhætta undir­liggjandi eigna fari ekki yfir samanlögð fjár­festingarhámörk sem fram koma í 35. gr. laganna.

Þegar framseljanleg verðbréf eða peningamarkaðsskjöl fela í sér afleiðu þá skal afleiðan tekin með í útreikning.

38. gr.

Áhættustýringarstefna.

Rekstrarfélag skal koma á og viðhalda viðunandi stefnu um áhættustýringu sem vaktar og greinir áhættu verðbréfasjóðs sem það stýrir. Hið sama á við um áhættu sem verð­bréfa­sjóður kann að vera óvarinn fyrir og framlag hennar til heildaráhættu eigna­safns­ins.

Stefna um áhættustýringu skal taka til aðferða sem nauðsynlegar eru til að gera rekstrar­félagi kleift að meta markaðs-, seljanleika- og mótaðilaáhættu fyrir hvern verð­bréfa­sjóð sem það stjórnar og alla aðra áhættu sem verðbréfasjóður er óvarinn fyrir þ.m.t. rekstrar­áhætta, sem getur verið veruleg fyrir hvern verðbréfasjóð.

Rekstrarfélag skal m.a. tilgreina eftirfarandi þætti í stefnu um áhættustýringu:

 

a)

aðferðir, tæki og fyrirkomulag sem gerir því kleift að vera í samræmi við skyldur sínar skv. 40. og 41. gr. og

 

b)

úthlutun ábyrgðar er varðar áhættustýringu innan rekstrarfélags.

Rekstrarfélag skal tilgreina í stefnu um áhættustýringu sbr. 1. mgr. skilmála, inntak og tíðni skýrslugjafar um áhættustýringarstarfsemi, sem um getur í 11. gr., til stjórnar og yfirstjórnar og, ef við á, til eftirlitseiningar.

Að því er varðar 1. og 2. mgr. skal rekstrarfélag taka tillit til eðlis, umfangs og þess hve flókin starfsemi þess er og verðbréfasjóðs sem þau stýra.

39. gr.

Mat, eftirlit með og endurskoðun á stefnu um áhættustýringu.

Rekstrarfélag skal meta, hafa eftirlit og endurskoða með reglulegu millibili:

 

a)

hvort stefna um áhættustýringu og fyrirkomulag, ferli og aðferðir sem um getur í 40. og 41. gr. séu fullnægjandi og skilvirkar,

 

b)

í hvaða mæli rekstrarfélag fylgi áhættustýringarstefnu og fyrirkomulagi, ferlum og aðferðum sem um getur í 40. og 41. gr. og

 

c)

hvort ráðstafanir sem ætlað er að taka á annmörkum við framkvæmd áhættu­stýr­ingar­ferlis séu fullnægjandi og skilvirkar.

Rekstrarfélag skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um verulegar breytingar á áhættu­stýr­ingar­ferli.

Fjármálaeftirlitið skal reglubundið meta hvort rekstrarfélag sé að uppfylla skyldur sína skv. 1. mgr. sem og við veitingu leyfis.

2. ÞÁTTUR

Áhættustýringarferli, mótaðilaáhætta og samþjöppun útgefanda.

40. gr.

Áhættumat og áhættustýring.

Rekstrarfélag skal koma á fullnægjandi og árangursríkum verklagsreglum og ferlum til að:

 

a)

meta og stjórna á hverjum tíma áhættu sem verðbréfasjóður er óvarinn fyrir eða gæti verið óvarinn fyrir og

 

b)

tryggja að farið sé að takmörkunum varðandi heildar- og mótaðilaáhættu í samræmi við 41. og 43. gr.

Verklagsreglur og ferlar skulu vera í réttu hlutfalli við eðli, umfang og það hve flókin starf­semi rekstrarfélags og verðbréfasjóðs sem þau stýra er og vera í samræmi við áhættu­snið verðbréfasjóðs.

Að því er varðar 1. mgr. skal rekstrarfélag grípa til eftirfarandi aðgerða fyrir hvern og einn verðbréfasjóð sem það stýrir:

 

a)

koma á fyrirkomulagi, ferlum og aðferðum við áhættumat sem nauðsynlegt er til að tryggja að áhætta af teknum stöðum og framlag þeirra til heildar­áhættu­sniðs sé metið nákvæmlega á grundvelli traustra og áreiðanlegra gagna, og að fyrirkomulag, ferlar og aðferðir við áhættumat sé skráð með full­nægjandi hætti,

 

b)

framkvæmi, eftir því sem við á, reglulega afturvirkt eftirlit til að endurskoða gildi áhættumatsfyrirkomulags sem felur í sér notkun spá- og matslíkana,

 

c)

framkvæmi, eftir því sem við á, reglubundin álagspróf og sviðsmyndagreiningar til að taka á áhættu sem leiðir af mögulegum breytingum á markaðsaðstæðum sem gætu haft slæm áhrif á verðbréfasjóð,

 

d)

innleiði og viðhaldi skriflegu kerfi um innri takmarkanir varðandi mat sem nýtt er til að stjórna og hafa eftirlit með viðeigandi áhættu sem varðar hvern verðbréfasjóð fyrir sig að teknu tilliti til áhættu sem gæti haft veruleg áhrif á verðbréfasjóð, sbr. 38. gr., og tryggi samræmi við áhættusnið verðbréfasjóðs,

 

e)

tryggi að núverandi áhættustig sé í samræmi við kerfi um áhættutakmörkun sbr. d-lið fyrir hvern verðbréfasjóð og

 

f)

komi á og viðhaldi fullnægjandi verklagi sem leiðir til úrbóta í tæka tíð með hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi ef fram koma brestir í kerfi verðbréfasjóðs um takmörkun áhættu, eða ef fyrirsjáanlegt er að það gerist.

Rekstrarfélag skal beita viðeigandi stýringu lausafjáráhættu til að tryggja að hver og einn verðbréfasjóður sem þau stjórna uppfylli ávallt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 128/2011. Rekstrarfélag skal, eftir því sem við á, framkvæma álagspróf sem gera því kleift að meta lausafjáráhættu verðbréfasjóðs við óvenjulegar aðstæður.

Rekstrarfélag skal tryggja að lausafjársnið fjárfestinga verðbréfasjóðs sé í samræmi við innlausnarstefnu sem sett er fram í sjóðsreglum, stofnsamningi eða lýsingu.

41. gr.

Útreikningur á heildaráhættu.

Rekstrarfélag skal reikna út heildaráhættu verðbréfasjóðs sem það stýrir, vegna afleiðu­viðskipta sbr. 34. gr. laga nr. 128/2011, sem annaðhvort:

 

a)

aukin áhætta og skuldsetning vegna notkunar verðbréfasjóðs á afleiðum, þ.m.t. að innbyggðar afleiður megi ekki vera umfram samtölu verðmætis hreinnar eignar verðbréfasjóðs eða

 

b)

markaðsáhætta eignasafns verðbréfasjóðs.

Rekstrarfélag skal reikna út heildaráhættu verðbréfasjóðs eigi sjaldnar en daglega.

Rekstrarfélagi er heimilt að reikna út heildaráhættu með notkun staðfestuaðferðar (e. the commitment approach) eða vágildisaðferðar (e. value at risk approach, VaR). „Vágildi“ merkir mælikvarða á hámark vænts taps á tilteknu öryggisstigi á tilteknu tímabili.

Rekstrarfélag skal tryggja að aðferðin sem valin er til að mæla heildaráhættu sé við­eigandi. Við mat á því hvort aðferð sé viðeigandi skal horft til fjárfestingarmarkmiða verð­bréfa­sjóðs, tegundar afleiðna og þess hversu flóknar þær eru auk hlutfalls afleiðna af eigna­safni verðbréfasjóðs.

Ef verðbréfasjóður, beitir tilteknum aðferðum og gerningum til að auka skilvirkni í stýr­ingu eignasafna, þ.m.t. endurhverf verðbréfakaup eða verðbréfalán til að auka skuld­setningu eða markaðsáhættu, skal rekstrarfélag taka viðkomandi viðskipti til greina við útreikn­ing á heildaráhættu.

42. gr.

Staðfestuaðferð.

Ef staðfestuaðferð er notuð við útreikning á heildaráhættu skal rekstrarfélag beita þeirri aðferð á allar afleiður, þ.m.t. innbyggðar afleiður, hvort sem þær eru notaðar í samræmi við almenna fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs, til að draga úr áhættu eða að því er varðar skilvirka stýringu eignasafns.

Ef staðfestuaðferð er notuð við útreikning á heildaráhættu skal rekstrarfélag umreikna hverja og eina afleiðu í eignasafni yfir í markaðsvirði sambærilegrar stöðu í undirliggjandi eign viðkomandi afleiðu (hefðbundna staðfestuaðferðin).

Rekstrarfélagi er heimilt að taka til greina skuldajöfnun og áhættuvarnir við útreikning á heildaráhættu, ef slíkt fyrirkomulag leiðir ekki til þess að augljós og veruleg áhætta er undanskilin og að það dragi greinilega úr áhættu.

Ef notkun afleiðna eykur ekki áhættu verðbréfasjóðs þarf ekki að taka tillit til undir­liggjandi áhættu við staðfestuútreikning.

Ef staðfestuaðferð er notuð þarf ekki að taka tillit til skammtímalána sem verð­bréfa­sjóður hefur tekið í samræmi við 2. mgr. 41. gr. laga nr. 128/2011 við útreikn­ing á heildaráhættu.

43. gr.

Mótaðilaáhætta og samþjöppun útgefanda.

Rekstrarfélag skal tryggja að mótaðilaáhætta, sem leiðir af OTC-afleiðu, falli undir tak­markanir sem settar eru fram í 35. gr. laga nr. 128/2011.

Við útreikning á mótaðilaáhættu verðbréfasjóðs í samræmi við takmarkanir 1. og 2. mgr. 35. gr. laga nr. 128/2011 skal rekstrarfélag nota jákvætt markaðsvirði OTC-afleiðu við þann mótaðila.

Rekstrarfélag getur skuldajafnað afleiðustöðu verðbréfasjóðs við sama mótaðila, að því tilskildu að félagið geti framfylgt skuldajöfnunarsamningi við mótaðila fyrir hönd verð­bréfa­sjóðs. Skuldajöfnun er eingöngu leyfileg að því er varðar OTC-afleiður ef þeir eru við sama mótaðila og tengjast engri annarri áhættu verðbréfasjóðs sem gæti haft sama mót­aðila.

Rekstrarfélagi er heimilt að minnka áhættu verðbréfasjóðs gagnvart mótaðila í við­skiptum með OTC-afleiðu ef félagið fær tryggingu. Móttekin trygging skal vera nægi­lega seljanleg til að unnt sé að selja hana hratt og á verði sem er nálægt verðmati hennar fyrir sölu.

Rekstrarfélag skal taka tillit til trygginga við útreikning á mótaðilaáhættu, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 128/2011, þegar rekstrarfélagið framselur tryggingu til mótaðila í viðskiptum með OTC-afleiður fyrir hönd verðbréfasjóðsins. Aðeins má taka tillit til framseldra trygginga við skuldajöfnun ef rekstrarfélag getur framfylgt skuldajöfnunarsamningi við mótaðila fyrir hönd verðbréfasjóðs.

Rekstrarfélag skal reikna út fjárfestingarhámark útgefanda eins og um getur í 35. gr. laga nr. 128/2011 á grundvelli undirliggjandi áhættu vegna notkunar afleiðna samkvæmt staðfestuaðferðinni.

Að því er varðar áhættu vegna viðskipta með OTC-afleiður, sbr. 4. mgr. 35. gr. laga nr. 128/2011, skal rekstrarfélag taka tillit til mótaðilaáhættu vegna OTC-afleiðna við útreikn­ing.

3. ÞÁTTUR

Verklag við mat á virði OTC-afleiðna.

44. gr.

Verklag við mat á virði OTC-afleiðna.

Rekstrarfélag skal sannreyna að áhætta verðbréfasjóðs vegna OTC-afleiðna sé metin á raunvirði sem byggir ekki eingöngu á markaðsskráningu mótaðila í viðskiptunum sbr. 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1166/2013.

Að því er varðar 1. mgr. skal rekstrarfélag koma á, framkvæma og viðhalda fyrir­komu­lagi og verklagi sem tryggir viðeigandi, gagnsætt og sanngjarnt mat á áhættu verð­bréfa­sjóðs vegna OTC-afleiðna. Rekstrarfélag skal tryggja að gangvirði OTC-afleiðna sé metið á fullnægjandi, nákvæman og óháðan hátt. Matsfyrirkomulag og ferli skal vera fullnægjandi og í réttu hlutfalli við eðli viðkomandi OTC-afleiðu og það hversu flókin hún er.

Rekstrarfélag skal fara að kröfum sem settar eru fram í 2. mgr. 3. gr. og í 5. mgr. 22. gr. ef fyrirkomulag og verklag við mat á OTC-afleiðum felur í sér að þriðju aðilar framkvæmi tilteknar aðgerðir.

Starfseining áhættustýringar rekstrarfélags skal falin ábyrgð á eftirliti með skyldum rekstrar­félags skv. 1. og 2. mgr., eftir því sem við á.

Matsfyrirkomulag og ferli sem um getur í 2. mgr. skal vera skráð á fullnægjandi hátt.

4. ÞÁTTUR

Miðlun upplýsinga um afleiður.

45. gr.

Skýrsluskil um afleiður.

Rekstrarfélag skal afhenda Fjármálaeftirlitinu, eigi sjaldnar en árlega, skýrslur með upp­lýs­ingum sem gefa glögga mynd af þeim tegundum afleiðna sem hver og einn verð­bréfa­sjóður notar, undirliggjandi áhættu þeirra, magntakmarkanir og aðferðir sem notast er við til að meta áhættu í tengslum við afleiðuviðskipti.

Fjármálaeftirlitið skal endurskoða tíðni og heilleika upplýsinga sem um getur í 1. mgr. og beita heimildum sínum til íhlutunar ef við á.

VII. KAFLI

Lokaákvæði.

46. gr.

Lögleiðing.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 64. gr. laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði og 27. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Reglugerðin felur í sér innleiðingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/43/ESB um efni tilskipunar 2009/65/EB, varðandi skipulagskröfur, hagsmunaárekstra, viðskiptahætti, áhættustýringu og inntak samkomulagsins milli vörslufyrirtækis og rekstrarfélags og hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS). Tilskipun 2010/43/ESB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2012 sem birt var 13. desember 2012 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 70/2012. Tilskipun 2009/65/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 sem birt var 3. mars 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambands­ins nr. 12/2011.

47. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi tekur gildi 1. september 2014.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 5. maí 2014.

F. h. r.

Anna Borgþórsdóttir Olsen.

Guðmundur Kári Kárason.

B deild - Útgáfud.: 19. maí 2014