Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 625/2013

Nr. 625/2013 10. júní 2013
REGLUR
um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.

1. gr.

Skilgreiningar.

Í þessum reglum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Dótturfélag: Dótturfélag samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og sérhvert félag sem að mati Fjármálaeftirlitsins er undir verulegum áhrifum (e. dominant influence) móðurfélags.

Fjölþjóða þróunarbankar og alþjóðastofnanir: Bankar og stofnanir sem hafa áhættuvog skv. 14. gr. reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007.

Hópur tengdra viðskiptamanna: Það telst hópur tengdra viðskiptamanna ef öðru eða báðum eftirtalinna skilyrða er fullnægt:

 1. tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur sem, nema sýnt sé fram á annað, mynda eina áhættu vegna þess að einn þeirra hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum, eða
 2. tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og skilgreint er í a-lið, en þeir teljast til sömu áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjárhags­erfiðleikum, einkum í tengslum við fjármögnun eða endurgreiðslu skulda, eigi hinn aðilinn eða allir í erfiðleikum með fjármögnun eða endurgreiðslu skulda.

Móðurfélag: Móðurfélag samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og sérhvert félag sem að mati Fjármáleftirlitsins hefur veruleg áhrif (e. dominant influence) á starfsemi dótturfélags.

Stór áhættuskuldbinding: Áhættuskuldbinding fjármálafyrirtækis vegna einstaks viðskipta­manns eða hóps tengdra viðskiptamanna telst vera stór áhættuskuldbinding ef hún nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni.

Viðskiptahúsnæði (e. commercial real estate): Verslunar- og skrifstofuhúsnæði og annað þjónustuhúsnæði sem auðvelt er að breyta notkun á, sbr. 2. gr. reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007.

Sé ekki annað tekið fram hafa hugtök í þessum reglum sömu merkingu og í lögum um fjár­mála­fyrirtæki, nr. 161/2002.

2. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til fjármálafyrirtækja sem fengið hafa starfsleyfi skv. 1. – 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þ.e viðskiptabanka, sparisjóða og lána­fyrirtækja. Reglurnar taka einnig til verðbréfafyrirtækja, að undanskildum verðbréfa­fyrirtækjum sem ekki hafa starfsheimildir skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laga um fjármála­fyrirtæki, nr. 161/2002.

Reglurnar taka til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja, þ.m.t. útibúa, við mat á áhættuskuldbindingum þeirra.

Við útreikning á áhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækis, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, skulu áhættuskuldbindingar dótturfyrirtækja og útibúa, með tilskilin starfsleyfi utan Evrópska efnahagssvæðisins, taldar með.

3. gr.

Útreikningur áhættuskuldbindinga.

Áhættuskuldbinding fjármálafyrirtækis, vegna einstakra viðskiptavina eða hóps tengdra við­skipta­manna, telst vera samtala lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða auk annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtæki.

Til áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækis, vegna einstakra viðskiptavina eða hóps tengdra viðskiptamanna, teljast eignaliðir og liðir utan efnahagsreiknings sem tilgreindir eru í V. kafla reglna um eigin­fjár­kröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, án þeirra áhættu­voga sem þar er mælt fyrir um.

Áhættuskuldbindingar vegna afleiðusamninga sem tilgreindir eru í 9. gr. reglna um eigin­fjár­kröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, skal reikna samkvæmt aðferðum skv. viðauka III, sbr. 55. gr. A sömu reglna.

Eignaliðir sem dragast frá við útreikning á eiginfjárgrunni skv. 84. og 85. gr. laga um fjár­mála­fyrirtæki, nr. 161/2002, eru undanskildir við útreikning skv. 1. – 3. mgr. þessarar greinar.

Eftirfarandi liðir teljast ekki með við afmörkun á samtölu áhættuskuldbindinga, skv. 1. mgr. þessarar greinar:

 1. áhættuskuldbindingar vegna gjaldeyrisviðskipta sem verða til í tengslum við eðlilegt uppgjör tveimur starfsdögum eftir greiðslu,
 2. áhættuskuldbindingar vegna kaupa og sölu á verðbréfum sem verða til í tengslum við eðlilegt uppgjör fimm virkum dögum eftir greiðslu verðbréfanna, eða afhendingu þeirra, ef sú dagsetning fer á undan,
 3. seinkuð móttaka fjármögnunar vegna millifærslu peninga og aðrar áhættu­skuldbind­ingar vegna starfsemi viðskiptavina, sem varir ekki lengur en næsta viðskipta­dag, þ.m.t. framkvæmd greiðsluþjónustu, greiðslujöfnun og uppgjör í hvaða gjald­miðli sem er, millibankaviðskipti eða uppgjör fjármálagerninga og uppgjör og vörslu­þjónusta gagnvart viðskiptavinum,
 4. áhættuskuldbindingar vegna millifærslu peninga sem eiga sér stað innan dags gagn­vart stofnunum eða fyrirtækjum sem veita þá þjónustu, þ.m.t. framkvæmd greiðslu­þjónustu, greiðslujöfnun og uppgjör í hvaða gjaldmiðli sem er og milli­banka­viðskipti.

4. gr.

Ákvörðun á hópi tengdra viðskiptamanna.

Við ákvörðun á hópi tengdra viðskiptamanna skal fjármálafyrirtæki meta áhættur vegna undir­liggjandi eigna í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, sbr. o-lið 10. gr. reglna um eigin­fjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, með því að athuga:

 1. eignasöfn sjóðanna (e. schemes),
 2. undirliggjandi áhættur þeirra eða
 3. bæði eignasöfnin og undirliggjandi áhættur.

Fjármálafyrirtæki skal við ákvörðun á hópi tengdra viðskiptamanna meta áhættur vegna verðbréfunar, sbr. m-lið 10. gr. reglna nr. 215/2007 eða annarra áhættuskuldbindinga, sbr. p-lið 10. gr. reglna nr. 215/2007, með sama hætti.

Til að greina undirliggjandi áhættur skv. 1. mgr. skal fjármálafyrirtæki leggja mat á efna­hags­legt inntak (e. economic substance) og áhættur sem felast í umgjörð fjármála­gerninganna.

Leiki vafi á því hverjir teljast til hóps tengdra viðskiptamanna er fjármálafyrirtæki skylt að tengja aðila saman nema viðkomandi fjármálafyrirtæki geti sýnt fram á hið gagnstæða.

5. gr.

Innra eftirlit.

Fjármálafyrirtæki skal beita traustum stjórnunar- og reikningsskilaaðferðum (e. sound administrative and accounting procedures) og hafa yfir að ráða innra eftirlitskerfi þar sem allar stórar áhættuskuldbindingar og breytingar á þeim eru rekjanlegar.

Hjá fjármálafyrirtæki skulu vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar til að greina og meta stórar áhættuskuldbindingar, þannig að unnt sé að hafa eftirlit með þeim. Innri ferlarnir skulu endurmetnir reglulega til að tryggja að þeir séu ávallt fullnægjandi.

6. gr.

Skýrslugjöf.

Fjármálafyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða hóps tengdra viðskiptamanna á því formi sem það ákveður. Skýrslur skal senda eigi sjaldnar en ársfjórðungslega, þ.e. miðað við lok mars, júní, september og desember.

Í skýrslum skal tilgreina eftirfarandi upplýsingar um allar stórar áhættuskuldbindingar fjár­mála­fyrirtækis:

 1. auðkenningu viðskiptavinar fjármálafyrirtækis eða kennitölur og nöfn allra aðila í hópi tengdra viðskiptamanna fjármálafyrirtækis,
 2. heildarfjárhæð áhættuskuldbindingar (e. exposure value) áður en tekið er tillit til áhrifa af því að draga úr útlánaáhættu, þegar við á,
 3. heildarfjárhæð áhættuskuldbindingar eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifa af því að draga úr útlánaáhættu skv. 8. – 12. gr. þessara reglna,
 4. tegund fjármagnaðrar eða ófjármagnaðrar útlánavarnar, ef þess háttar vörn er notuð.

Fjármálafyrirtæki skal greina verulega samþjöppunaráhættu í hlutfalli af eiginfjárgrunni, sem tengist útgefanda trygginga eða ábyrgða, veitanda ófjármagnaðrar útlánavarnar eða undir­liggjandi eignum skv. 1. og 2. mgr. 4. gr. þessara reglna, og grípa til viðeigandi ráðstaf­ana til að draga úr slíkri áhættu. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu reglulega um niður­stöður slíkra greininga.

7. gr.

Takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum.

Áhættuskuldbindingar, að teknu tilliti til 8. – 12. gr. þessara reglna, vegna viðskiptavina eða hóps tengdra viðskiptamanna mega ekki fara fram yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármála­fyrirtækis.

Áhættuskuldbinding vegna viðskiptavinar sem er fjármálafyrirtæki eða vegna hóps tengdra viðskiptavina, sem inniheldur eitt eða fleiri fjármálafyrirtæki, mega ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis eða 500 milljónir króna, hvort heldur sem er hærra. Þetta er þó háð því að samtala áhættuskuldbindinga þeirra aðila í viðkomandi hópi tengdra viðskiptamanna sem ekki eru fjármálafyrirtæki fari ekki yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins, að teknu tilliti til mildunar áhættu skv. 8. – 12. gr.

Þegar hlutfallið 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis nemur lægri fjárhæð en 500 milljónum króna, skal áhættuskuldbinding, að teknu tilliti til mildunar áhættu skv. 8. – 12. gr., ekki fara umfram hæfileg mörk með hliðsjón af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Fjármálafyrirtæki skal ákveða hvað teljist hæfileg mörk í samræmi við stefnu og verklags­reglur um samþjöppunaráhættu sem kveðið er á um í 7. lið viðauka V, sbr. 55. gr. A reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, en þó mega umrædd mörk ekki vera hærri en 100% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Fjármála­eftirlitið getur heimilað fjármálafyrirtæki að setja mörk umfram 100% af eiginfjár­grunni í einstökum tilvikum.

Fjármálafyrirtæki skal ávallt virða þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. Fari áhættu­skuldbindingar fjármálafyrirtækis yfir þau mörk, skal Fjármálaeftirlitinu tilkynnt án tafar um fjárhæð áhættuskuldbindinganna. Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf.

8. gr.

Heimilar aðferðir við mildun útlánaáhættu.

Hugtakið „ábyrgð“ skv. 9. – 12. gr. þessara reglna tekur einnig til lánaafleiða (e. credit derivatives), skv. 2. hluta viðauka VIII, sbr. 55. gr. A reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, að undanskildum lánshæfistengdum skulda­bréfum (e. credit linked notes).

Þær aðferðir sem fjármálafyrirtæki er heimilt að nota við mildun útlánaáhættu vegna 9. – 12. gr. þessara reglna, skulu uppfylla skilyrði skv. 31. – 34. gr. reglna um eiginfjárkröfur og áhættu­grunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007.

Fjármálafyrirtæki skal ekki taka tillit til þeirra trygginga sem um getur í 20. – 22. lið 1. hluta viðauka VIII, sbr. 55. gr. A reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, nema það sé heimilt skv. 11. gr. þessara reglna.

9. gr.

Frádráttur vegna öruggra eignaliða.

Við útreikning fjárhæðar áhættuskuldbindinga skv. 7. gr. þessara reglna er fjármálafyrirtæki heimilt að undanskilja eftirtalda liði:

 1. Eignaliði sem eru kröfur á ríki, seðlabanka, alþjóðastofnanir eða fjölþjóða þró­unar­banka, sem án tryggingar fengju 0% áhættuvog skv. V. kafla reglna um eigin­fjár­kröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007.
 2. Eignaliði sem eru kröfur eða aðrar áhættuskuldbindingar sem rekja má til eða eru með ábyrgð ríkja, seðlabanka, alþjóðastofnana, fjölþjóða þróunarbanka eða opinberra fyrirtækja og stofnana sem án tryggingar fengju 0% áhættuvog skv. V. kafla reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007.
 3. Eignaliði, sem fela í sér kröfur eða aðrar áhættuskuldbindingar á héraðs- og sveitar­stjórnir eða staðaryfirvöld í aðildarríkjum, þar sem þessum kröfum yrði úthlutað 0% áhættuvog skv. 12. gr. reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármála­fyrirtækja, nr. 215/2007.
 4. Áhættuskuldbindingar vegna mótaðila sem er fyrirtæki innan sömu samstæðu, ef þær fá áhættuvogina 0% skv. V. kafla reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007. Áhættuskuldbindingar gagnvart mótaðila sem er fyrirtæki innan sömu samstæðu sem ekki fá 0% áhættuvog skal meðhöndla sem áhættuskuldbindingar gagnvart þriðja aðila.
 5. Eignaliði og aðrar áhættuskuldbindingar sem tryggðar eru með handveði í innstæðum (e. cash deposits) hjá viðkomandi lánastofnun (e. lending credit institution) eða fjármálafyrirtæki sem er móðurfyrirtæki eða dótturfyrirtæki hennar. Reiðufé sem fjármálafyrirtæki fær greitt vegna útgefinna lánshæfistengdra skuldabréfa (e. credit linked notes) fellur undir þennan lið. Lán mótaðila til fjármálafyrirtækis, og innlán sama mótaðila hjá fjármálafyrirtæki, sem falla undir skuldajöfnunarsamning innan efnahagsreiknings sem er viðurkenndur skv. 33. og 34. gr. reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, falla einnig undir þennan lið.
 6. Eignaliði og aðrar áhættuskuldbindingar sem tryggðar eru með handveði í innláns­skírteinum (e. certificate of deposits) útgefnum af viðkomandi lánastofnun (e. lending credit institution) eða fjármálafyrirtæki sem er móðurfyrirtæki eða dóttur­fyrirtæki hennar.
 7. Liði utan efnahagsreiknings sem bera litla áhættu skv. 4. tölul. 8. gr. reglna um eigin­fjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, enda leiði samn­ingur um lánsheimild eða sambærilega áhættuskuldbindingu við viðskiptamann eða hóp tengdra viðskiptamanna ekki til þess að áhættuskuldbinding vegna viðkom­andi aðila fari yfir mörkin sem miðað er við í 7. gr. þessara reglna.
 8. Sértryggð skuldabréf sem uppfylla skilyrði laga um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008.

10. gr.

Útreikningur og álagspróf vegna mildunar útlánaáhættu.

Við útreikning fjárhæðar áhættuskuldbindinga skv. 7. gr. þessara reglna er fjármálafyrirtæki heimilt að nota leiðrétt virði áhættuskuldbindinga (e. fully adjusted exposure value), sbr. 1. mgr. 34. gr. reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, ef skilyrði þess eru uppfyllt.

Fjármálafyrirtæki sem hefur leyfi til að nota eigið mat á tapi að gefnum vanefndum (LGD) og breytistuðlum skv. VI. kafla reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, er heimilt að nýta heildaraðferðina (e. financial collateral comprehensive method) skv. viðauka VIII, sbr. 55. gr. A sömu reglna, við útreikning á fjárhæð áhættuskuldbindingar skv. 7. gr. þessara reglna. Fjármálafyrirtæki sem nýtir heildaraðferðina skal framkvæma reglubundin álagspróf vegna samþjöppunar á útlánaáhættu. Slík álagspróf skulu taka mið af áhættu sem stafar af mögulegum breytingum á markaðsaðstæðum og gætu haft neikvæð áhrif á eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækis og áhættu sem stafar af innlausn veðs við álags­aðstæður. Fjármálafyrirtæki skal sýna Fjármálaeftirlitinu fram á að álagsprófin sem hafa verið framkvæmd séu fullnægjandi fyrir mat á slíkri áhættu.

Þegar álagspróf bendir til lægra söluvirðis tryggingar skal virði hennar lækkað í samræmi við það.

Fjármálafyrirtæki, sem nýtir ofangreinda heimild, skal setja sér stefnu og verklagsreglur vegna samþjöppunaráhættu sem fela í sér eftirfarandi:

 1. meðhöndlun áhættu vegna misræmis í binditíma milli áhættuskuldbindinga og allrar útlánaverndar þessara áhættuskuldbindinga,
 2. meðhöndlun niðurstöðu álagsprófs sem bendir til lægra söluvirðis trygginga en gert var ráð fyrir við notkun heildaraðferðar, og
 3. meðhöndlun samþjöppunaráhættu sem verður til við mildun útlánaáhættu, og einkum stórrar óbeinnar útlánaáhættu, t.d. gagnvart einum útgefanda verðbréfa sem er sam­þykkt sem trygging.

11. gr.

Áhættuskuldbindingar vegna fasteignaveðlána.

Fjármálafyrirtæki er heimilt að lækka virði áhættuskuldbindingar um allt að 50% af virði íbúðar­húsnæðis ef annaðhvort eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:

 1. áhættuskuldbindingin er tryggð með veði í fullbúnu íbúðarhúsnæði sem eigandi býr í eða leigir út, eða
 2. áhættuskuldbindingin tengist eignarleigusamningi og leigusalinn hefur fullt eignarhald á fullbúnu íbúðarhúsnæði, svo fremi leigutaki nýti ekki forkaupsrétt sinn.

Kröfunum sem settar eru fram í 8. lið 2. hluta viðauka VIII, sbr. 55. gr. A reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, skal beitt að því er varðar 1. mgr.

Fjármálafyrirtæki er heimilt að lækka virði áhættuskuldbindingar um allt að 50% af virði viðskiptahúsnæðis enda fái áhættuskuldbindingin 50% áhættuvog skv. V. kafla reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, og uppfylli annaðhvort eftirfarandi skilyrða:

 1. áhættuskuldbindingin er tryggð með veði í fullbyggðu viðskiptahúsnæði sem er í leigu og gefur af sér viðeigandi leigutekjur, eða
 2. áhættuskuldbindingin tengist eignarleigusamningi er varðar fullbyggt viðskipta­húsnæði sem er í leigu og gefur af sér viðeigandi leigutekjur.

Virði íbúðarhúsnæðisins eða viðskiptahúsnæðis skal reiknað samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár Íslands eða öðru kerfisbundnu mati sem Fjármálaeftirlitið telur fullnægjandi, á grundvelli varfærinna matsreglna sem mælt er fyrir um í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum. Slíkt mat skal framkvæmt að minnsta kosti einu sinni á þriggja ára fresti.

12. gr.

Tryggingar frá þriðja aðila.

Ef þriðji aðili ábyrgist áhættuskuldbindingu fjármálafyrirtækis gagnvart viðskiptavini er fjármálafyrirtæki heimilt að líta á tryggðan hluta áhættuskuldbindingarinnar sem áhættu­skuldbindingu gagnvart ábyrgðarveitanda fremur en gagnvart viðskiptavini. Skilyrði er að ótryggð áhættuskuldbinding gagnvart ábyrgðarveitanda fengi sömu eða lægri áhættu­vog en áhættuvog hins ótryggða hluta áhættuskuldbindingarinnar gagnvart viðskipta­vininum.

Ef ábyrgð skv. 1. mgr. er í öðrum gjaldmiðli en áhættuskuldbindingin skal reikna út fjárhæð áhættuskuldbindingarinnar, sem telst vera tryggð, í samræmi við ákvæðin um meðferð gjaldmiðilsmisræmis vegna ófjármagnaðrar útlánavarnar í viðauka VIII, sbr. 55. gr. A reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007. Misræmi milli gjalddaga áhættuskuldbindingarinnar og gjalddaga varnarinnar skal farið með í samræmi við ákvæðin um meðferð gjalddagamisræmis í viðauka VIII, sbr. 55. gr. A sömu reglna.

Viðurkenna má vörn að hluta í samræmi við meðferðina sem er sett fram í viðauka VIII, sbr. 55. gr. A reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007.

Ef þriðji aðili tryggir áhættuskuldbindingu fjármálafyrirtækis gagnvart viðskiptavini með veitingu veðs er fjármálafyrirtæki heimilt að líta á þann hluta áhættuskuldbindingarinnar sem áhættuskuldbindingu gagnvart veðveitanda fremur en gagnvart viðskiptavini. Skilyrði er að veðtryggður hluti áhættuskuldbindingarinnar fengi sömu eða lægri áhættuvog en áhættuvog hins ótryggða hluta áhættuskuldbindingarinnar gagnvart viðskiptavininum.

Fjármálafyrirtæki er óheimilt að nota þá aðferð sem um getur í 4. mgr. ef um er að ræða misræmi milli binditíma áhættuskuldbindingar og binditíma áhættuvarnar.

Fjármálafyrirtæki er óheimilt að nota bæði heildaraðferðina (e. financial collateral compre­hensive method) og þá meðferð sem getið er í 4. mgr.

13. gr.

Gildistaka.

Með reglum þessum eru tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB, um stofnun og rekstur lánastofnana, með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2009/111/EB.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 4. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.

Fjármálaeftirlitinu, 10. júní 2013.

Unnur Gunnarsdóttir.

Halldóra E. Ólafsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 4. júlí 2013