1. gr. Auglýsing þessi gildir um sendingar eða farm af fiskeldisafurðum, hér eftir nefndar vörur og eru upprunnar í Indónesíu eða eru fluttar frá Indónesíu og ætlaðar eru til manneldis. Auglýsingin tekur ekki til vara sem þegar hafa verið skoðaðar á landamærastöðvum á EES-svæðinu. 2. gr. Matvælastofnun skal taka sýni af a.m.k. 20% sendinga fiskeldisafurða frá Indónesíu sem fara í gegnum landamærastöðvar. Efnagreining skal framkvæmd til að skoða tilvist choramphenicol, efnasambönd nitrofurans, tetracycline (a.m.k. tetracycline, oxytetracycline og chlortetracycline) auk annarra efna sem tilgreind eru í reglugerð nr. 653/2001 um hámark dýralyfjaleifa í sláturafurðum, eggjum og mjólk. 3. gr. Varan skal vera í vörslu Matvælastofnunar þar til niðurstöður efnagreininga liggja fyrir og sýni að þau efni sem nefnd eru í 2. gr. séu ekki til staðar eða önnur innihaldsefni ekki yfir því hámarksmagni lyfjaleifa sem sett eru fram í reglugerð nr. 653/2001. 4. gr. Allur kostnaður við eftirlit, rannsóknir og förgun samkvæmt auglýsingu þessari skal greiddur af innflutnings- og dreifingaraðilum eftir því sem við á. 5. gr. Innflutnings- eða dreifingaraðilar sem flytja inn eða dreifa vörum sem auglýsing þessi tekur til, skulu senda Matvælastofnun tilkynningu og gögn um fyrirhugaðan innflutning ásamt upplýsingum um áætlaðan komutíma. 6. gr. Matvælastofnun hefur eftirlit samkvæmt 6. gr. laga nr. 93/1995 með því að ákvæðum þessarar auglýsingar sé framfylgt. 7. gr. Um valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1995, um matvæli og ákvæðum laga nr. 55/1998 um sjávarafurðir. 8. gr. Auglýsing þessi er sett með stoð í 27. gr. b., 28. og 29. gr., sbr. 31. gr. a. laga nr. 93/1995, um matvæli og 5. gr. og 24. gr. laga nr. 55/1998, um sjávarafurðir og með hliðsjón af ákvörðun 2010/220/ESB. Auglýsingin öðlast gildi við birtingu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 18. mars 2011. F. h. r. Sigurgeir Þorgeirsson. Baldur P. Erlingsson. |