Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 787/2010

Nr. 787/2010 4. október 2010
REGLUGERÐ
um flugumferðarþjónustu.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um sameiginlegar kröfur um veitingu flugumferðarþjónustu hér á landi með hliðsjón af alþjóðlegum reglum í þeim tilgangi að efla öryggi og skilvirkni þjónustunnar.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerðin tekur til flugumferðarþjónustu sem veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og í því loftrými sem Íslandi hefur verið falin þjónusta í samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar.

3. gr.

Orðskýringar.

Í texta þessara reglna er hugtakið „þjónusta“ notað sem sértækt nafnorð er táknar starfsemi eða veitta þjónustu.

Þegar eftirfarandi orð eða orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð hafa þau þá merkingu sem hér greinir:

Aðflugsstjórnardeild (Approach control unit): Deild sem veitir stjórnuðu flugi, í að- og brottflugi til og frá einum eða fleiri flugvöllum, flugstjórnarþjónustu.

Aðflugsstjórnarþjónusta (Approach control service): Flugstjórnarþjónusta við stjórnað flug í aðflugi og brottflugi.

Afhendingardeild (Transferring unit): Sú flugstjórnardeild sem er við það að færa ábyrgðina á því að veita loftfari flugstjórnarþjónustu yfir á næstu flugstjórnardeild á flugleiðinni.

AIRMET-upplýsingar (AIRMET information): Upplýsingar sem gefnar eru út af aðalveðurstofu vegna sérstakra veðurfyrirbrigða eða væntanlegra veðurfyrirbrigða sem haft geta áhrif á öryggi loftfara í lægri flughæðum og voru ekki þegar meðfylgjandi í spá fyrir flug í lægri flughæðum innan viðkomandi flugupplýsingasvæðis eða undirsvæðis þess.

Athafnasvæði (Movement area): Sá hluti flugvallar sem ætlaður er fyrir flugtök og lendingar loftfara og ferðir þeirra á jörðu, þ.e. umferðarsvæði og hlöð.

Blindflug (IFR flight): Flug samkvæmt blindflugsreglum.

Björgunarmiðstöð (Rescue coordination centre): Deild sem ber ábyrgð á að stuðla að skilvirkri skipulagningu leitar og björgunar og að samræma stjórnun við leit og björgun innan leitar- og björgunarsvæðis.

Ferill (Track): Leið loftfars miðuð við yfirborð jarðar, stefnan er venjulega tilgreind í gráðum frá norðri (réttvísandi, misvísandi eða netstefnu).

Flugheimild (Air traffic control clearance): Heimild veitt loftfari til að halda áfram samkvæmt skilyrðum, sem flugstjórnardeild tilgreinir. Til hagræðis er hugtakið „flugheimild“ oft stytt í „heimild“ þegar það er notað í viðeigandi samhengi. Fyrir framan „heimild“ má setja orðin „aksturs-“, „flugtaks-“, „brottflugs-“, „leiðar-“, „aðflugs-“ eða „lendingar-“ til að auðkenna þann hluta flugsins sem flugheimildin nær til.

Flugmálahandbók (AIP - Aeronautical information publication): Handbók sem gefin er út í umboði ríkis og inniheldur varanlegar flugmálaupplýsingar sem nauðsynlegar eru við flugleiðsögu.

Flugstjórnardeild (Air traffic control unit): Almennt hugtak sem táknar ýmist flugstjórnarmiðstöð, aðflugsstjórn eða flugturn.

Flugstjórnarmiðstöð (Area control centre): Deild sem veitir stjórnuðu flugi í flugstjórnarsvæðum sem undir hana heyra flugstjórnarþjónustu.

Flugstjórnarrými/stjórnað loftrými (Controlled airspace): Loftrými af tiltekinni stærð, þar sem flugstjórnarþjónusta er veitt samkvæmt flokkun loftrýmisins.

Flugstjórnarsvið (Control zone): Flugstjórnarrými sem nær frá jörðu upp að tilteknum efri mörkum.

Flugstjórnarsvæði (Control area): Flugstjórnarrými sem nær upp á við frá tiltekinni hæð yfir jörðu.

Flugstjórnarsvæðisþjónusta (Area control service): Flugstjórnarþjónusta sem veitt er stjórnuðu flugi í flugstjórnarsvæðum.

Flugstjórnarþjónusta (Air traffic control service): Þjónusta veitt í því skyni að:

a)

koma í veg fyrir árekstra:

1)

milli loftfara, og

2)

milli loftfara og hindrana á umferðarsvæði flugvallar;

b)  

flýta fyrir og stuðla að skipulegri flugumferð.

Flugturn (Aerodrome control tower): Deild sem veitir flugvallarumferð flugstjórnar­þjónustu.

Flugumferðarþjónusta (Air traffic services; ATS): Almennt hugtak sem táknar ýmist flugupplýsingaþjónustu, viðbúnaðarþjónustu, ráðgjafarþjónustu eða flugstjórnarþjónustu, (flugstjórnarsvæðisþjónustu, aðflugsstjórnarþjónustu eða flugturnsþjónustu).

Flugupplýsingamiðstöð (Flight information centre): Deild sem veitir flugupplýsinga- og viðbúnaðarþjónustu.

Flugupplýsingasvæði (Flight information region): Loftrými af skilgreindri stærð þar sem veitt er flugupplýsingaþjónusta og viðbúnaðarþjónusta.

Flugupplýsingaþjónusta (Flight information service): Þjónusta sem felst í ráð­leggingum og upplýsingum sem stuðla að öryggi og hagkvæmni flugs.

Flugvallarumferð (Aerodrome traffic): Öll umferð á umferðarsvæði flugvallar og öll loftför á flugi í nánd við flugvöll. Loftfar telst vera í nánd við flugvöll þegar það er í umferðarhring flugvallar, er að koma inn í hann eða er að fara út úr honum.

Flugvarðstofa (Air traffic services reporting office): Deild sem tekur við tilkynningum um flugumferðarþjónustu og flugáætlunum fyrir brottför.

Ath. – Flugvarðstofa getur verið sérstök deild eða sameinuð annarri flugumferðar­þjónustu­deild eða deild úr upplýsingaþjónustu flugvalla.

Flæðisstjórnun flugumferðar (Air traffic flow management): Þjónusta sem er veitt með það að markmiði að stuðla að öruggu, skipulegu og hröðu flæði flugumferðar með því að tryggja að geta flugumferðarstjórnar sé nýtt til hins ýtrasta og að umfang flugumferðar sé í samræmi við getuna sem viðeigandi þjónustuveitendur flugumferðar hafa gefið upp.

Handbók flugumferðarþjónustu (Air traffic services Manual (ATS Manual)): Handbók veitanda flugumferðarþjónustu (eða flugumferðarþjónustudeildar) sem inniheldur m.a. fyrirmæli og leiðbeiningar til starfsmanna um framkvæmd þjónustunnar. Handbók flugumferðarþjónustu er hluti af rekstrarhandbók veitanda flugleiðsöguþjónustu.

Heimildarmark (Clearance limit): Sá staður sem loftfar fær flugheimild til.

Hlutaðeigandi veitandi flugumferðarþjónustu (Appropriate ATS authority): Opinber aðili stofnun eða fyrirtæki sem tilnefndur hefur verið til að veita flugumferðarþjónustu í tilteknu loftrými. Í Flugmálahandbók Íslands eru birtar upplýsingar um tilnefnda veitendur flugumferðarþjónustu.

Hættuástand (Emergency phase): Yfirhugtak sem nær yfir óvissuástand, viðbúnaðar­ástand og neyðarástand.

Lag (Level): Almennt hugtak sem varðar lóðrétta stöðu loftfars á flugi og á ýmist við hæð, flughæð eða fluglag.

Loftfar (Aircraft): Sérhvert tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.

Loftrými flugumferðarþjónustu (Air traffic services airspace): Loftrými af tilgreindri stærð, merkt bókstöfum, og innan hvers tilgreindar tegundir flugs eru heimilaðar og mismunandi flugumferðarþjónusta og flugreglur gilda. ATS-loftrými er flokkað og merkt bókstöfunum A-G.

Meginreglur mannþáttafræði (Human factors principles): Meginreglur sem gilda um hönnun, vottun, þjálfun, rekstur og viðhald kerfa og miða að öruggri tengingu milli mannsins og annarra kerfisþátta með því að taka viðeigandi tillit til mannlegrar getu.

Aths. – Sjá nánar: ICAO DOC 9683 Human Factors Training Manual.

Neyðarástand (Distress phase): Ástand þegar víst þykir að alvarleg og yfirvofandi hætta steðjar að loftfari og þeim sem um borð eru, eða þeir þarfnast aðstoðar án tafar.

Óvissuástand (Uncertainty phase): Ástand þegar óvissa ríkir um öryggi loftfars og þá sem í því eru.

Ráðgjafarþjónusta fyrir flugumferð (Air traffic advisory service): Þjónusta veitt innan ráðgjafarrýmis til að tryggja aðskilnað, eins og við verður komið, milli loftfara sem fljúga skv. blindflugsáætlunum.

Rekstraraðili (Operator): Einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem starfrækir eða býðst til að starfrækja loftfar. Í flutningaflugi nefnist rekstraraðili flugrekandi enda byggist heimild hans til rekstursins á flugrekandaskírteini.

Rekstrarhandbók (Operations manual): Handbók veitanda flugleiðsöguþjónustu til notkunar og leiðbeiningar fyrir starfsfólk sem kemur að rekstri flugleiðsöguþjónustunnar.

Samningur um svæðisbundna flugleiðsögu (Regional air navigation agreement): Þegar vísað er í samning um svæðisbundna flugleiðsögu í þessari reglugerð þá er átt við samning um skipulag flugleiðsögu í Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmála­stofnunar­innar (NAT ANP, ICAO Doc 9634) og samning um búnað og þjónustu vegna flugleiðsögu í Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (NAT FASID, ICAO Doc 9635).

Sérlegt sjónflug (Special VFR flight): Sjónflug, sem flugumferðarstjórn heimilar í flugstjórnarsviði við veðurskilyrði sem eru verri en sjónflugsskilyrði.

SIGMET (SIGMET information): Viðvaranir gefnar út af aðalveðurstofu um hættuleg veðurfyrirbæri í lofti, raunveruleg eða spáð, sem ógnað geta öryggi loftfara.

Sjónflug (VFR flight): Flug samkvæmt sjónflugsreglum.

Sjónflugsskilyrði (Visual meteorological conditions): Veðurskilyrði, sem tilgreind eru sem skyggni, fjarlægð frá skýjum og skýjahæð en eru jöfn eða betri en tilgreind lágmörk.

Stjórnað flug (Controlled flight): Sérhvert flug sem er með flugheimild.

Svæðisleiðsaga (Area navigation (RNAV)): Flugleiðsaga sem gerir mögulega starfrækslu loftfars eftir hvaða flugleið (flugslóð) sem er innan drægis land- eða gervihnatta staðsetn­ingarstöðva eða innan marka sem takmarkast af eigin staðsetningarbúnaði eða blöndu af þessum aðferðum. (Flugleiðsaga sem gerir mögulegt að beina loftfari eftir hvaða flugleið sem er án tillits til staðsetningar landstöðva, t.d. með aðstoð fjölstefnuvita og fjarlægðarvita, tregðuleiðsögukerfis, gervihnattaleiðsögu eða gleiðboga­leiðsögu.)

Umferðarsvæði (Manoeuvring area): Sá hluti flugvallar, sem ætlaður er fyrir flugtök, lendingar og akstur loftfara, þó ekki hlöð.

Varaflugvöllur (Alternate aerodrome): Flugvöllur sem fljúga má til þegar ógerlegt eða óráðlegt er að halda áfram til eða lenda á þeim flugvelli þar sem áætlað var að lenda.

Viðauki 11 (Annex 11): Þegar vísað er í viðauka 11 í reglugerð þessari þá er átt við viðauka 11 um flugumferðarþjónustu (Air Traffic Services) við stofnsáttmála Alþjóða­flugmálastofnunarinnar (ICAO) um alþjóðlegt almenningsflug (Convention on International Civil Aviation) (Chicago-samninginn),

Viðbúnaðarástand (Alert phase): Ástand þegar óttast er um öryggi loftfars og þá sem í því eru.

Viðbúnaðarþjónusta (Alerting service): Þjónusta sem tilkynnir viðeigandi stofnunum, þegar nauðsyn er leitar- og björgunaraðgerða vegna loftfara, og er til aðstoðar slíkum stofnunum eftir þörfum.

Viðtökudeild (Accepting unit): Sú flugstjórnardeild sem tekur næst við stjórn á loftfari.

4. gr.

Leiðbeiningarefni.

Víða í reglugerð þessari er vísað til krafna og leiðbeiningarefnis í viðauka 11. Einnig er vísað í leiðbeinandi efni útgefið af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og krafna og leiðbeiningarefnis Evrópustofnunar um öryggi í flugleiðsögu (EUROCONTROL). Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja þeim kröfum sem í reglugerð þessari er lýst eða er þeim til frekari uppfyllingar. Fylgja skal þessu leiðbeiningarefni til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir sem ekki eru taldar skerða flugöryggi að mati Flugmálastjórnar Íslands. Til að fá aðrar aðferðir samþykktar þarf viðkomandi að sýna fram á með fullnægjandi hætti að flugöryggi skerðist ekki og því til staðfestingar að leggja fram sérfræðiálit sem Flugmálastjórn Íslands metur viðunandi.

Helsta leiðbeiningarefni sem stuðst er við og vísað til um framkvæmd flugumferðar­þjónustunnar:

 1. Verklagsreglur flugleiðsöguþjónustu – rekstrarstjórnun flugumferðar (ICAO PANS-ATM, Doc 4444).
 2. Svæðisbundnar verklagsreglur (Regional Supplementary Procedures, ICAO Doc 7030).
 3. Verklagsreglur flugleiðsöguþjónustu – starfræksla loftfara (ICAO PANS-OPS, Doc 8168).
 4. Verklagsreglur flugleiðsöguþjónustu – ICAO skammstafanir og kóðar (ICAO PANS-ABC, Doc 8400).
 5. Notkun lágmarksaðskilnaðar innan Norður-Atlantshafssvæðis (ICAO NAT ASM).
 6. Handbók um WGS-84 alþjóðalandmælingakerfið (ICAO World Geodetic System 1984 (WGS-84) Manual, Doc 9674).
 7. Handbók um samræmingu milli flugumferðarþjónustu, upplýsingaþjónustu flugmála og veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu (Manual on Coordination between Air Traffic Services, Aeronautical Information Services and Aeronautical Meteorological Services, ICAO Doc 9377).
 8. Handbók um skipulagningu flugumferðarþjónustu (Air Traffic Services Planning Manual, ICAO Doc 9426).
 9. Samningur um búnað og þjónustu vegna flugleiðsögu í Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (North Atlantic facilities and service implementation document, FASID, ICAO Doc 9635).
 10. Samningur um skipulag flugleiðsögu í Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmála-stofnunarinnar (North Atlantic Air Navigation Plan, ICAO Doc 9634).
 11. Ákvarðanir stjórnvalda um flug hervéla, framkvæmd heræfinga og loftrýmis­gæslu.

5. gr.

Eftirlitsstjórnvald.

Flugmálastjórn Íslands er tilnefnt stjórnvald sem fer með eftirlit, skv. reglugerð þessari, er lýtur að veitingu flugumferðarþjónustu á gildissviði reglugerðarinnar skv. 2. gr. Flugmálastjórn Íslands tilnefnir veitanda flugumferðarþjónustu sbr. reglugerð um flug­leiðsögu í samevrópska loftrýminu til þess að veita flugumferðarþjónustu innan tiltek­inna loftrýmisumdæma.

Ákvarðanir og fyrirmæli Flugmálastjórnar Íslands skulu birt í Flugmálahandbók.

6. gr.

Handbækur.

Veitanda flugumferðarþjónustu er skylt að gera handbók með leiðbeiningum til starfs­manna um framkvæmd þjónustunnar. Leiðbeiningarnar skulu vera hluti af rekstrar­handbók viðkomandi veitanda flugleiðsöguþjónustu. Fyrirmæli í handbók flug­umferðar­þjónustu binda viðkomandi flugumferðarþjónustu og starfsmenn hennar um fram­kvæmd þjónustunnar. Handbókin skal vera hlutaðeigandi starfsmönnum aðgengileg, heimilt er að hún sé á ensku. Breyting á handbók skal kynnt þeim starfsmönnum er hana varðar svo fljótt sem auðið er ásamt gildistöku breytinga. Um staðfestingu á handbók flug­umferðar­þjónustu og breytingar á henni fer skv. útgáfuskipulagi samþykktu af Flugmála­stjórn Íslands.

7. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórn­sýslu­laga.

8. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

9. gr.

Viðauki.

Viðauki sem fylgir reglugerð þessari skal vera hluti hennar.

10. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari, viðauka hennar ásamt ákvæðum í handbókum veitanda flug­umferðarþjónustu og með birtingu í Flugmálahandbók öðlast gildi hér á landi viðauki 11 um flugumferðarþjónustu við stofnsáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um alþjóð­legt almenningsflug (Chicago-samningurinn).

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. mgr. 57. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 4. október 2010.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 19. október 2010