Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 713/2012

Nr. 713/2012 21. ágúst 2012
REGLUR
um útlit og frágang kjörseðla við þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi hefur ályktað um.

1. gr.

Reglur þessar gilda um útlit og frágang kjörseðla við þjóðaratkvæðagreiðslur þegar Alþingi ályktar að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um framkvæmd þjóðar­atkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, með síðari breytingum.

2. gr.

Um orðalag og framsetningu þeirrar spurningar, sem lögð er fyrir kjósendur á kjörseðli, fer samkvæmt ályktun Alþingis. Sama gildir ef Alþingi ákveður að spurningar og svar­kostir á kjörseðli verði fleiri eða orðaðir með öðrum hætti.

3. gr.

Kjörseðill skal vera af karton gerð eða úr öðrum haldgóðum pappír með minnst 125 gramma þyngd á fermetra (125 g/m²). Á seðlinum skal vera brot svo að kjósandi geti lagt hann saman og stungið í atkvæðakassa þannig að óprentaða hliðin snúi út. Brot í kjörseðlinum fari ekki yfir prentaðan texta.

4. gr.

Ekki skal vera sami litur á kjörseðlum við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi. Skipta skal um lit á kjörseðlum við hverja þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðuneytið ákveður lit kjörseðla hverju sinni.

5. gr.

Efst á kjörseðilinn fyrir miðju skal prentað með 30 punkta feitu letri orðið kjörseðill. Beint þar fyrir neðan komi með 10,5 punkta hálffeitu letri frá vinstri hlið seðilsins texti þess málefnis eða heiti lagafrumvarps sem greiða á atkvæði um. Í textanum komi fram að um ráðgefandi atkvæðagreiðslu sé að ræða og hvenær ályktun Alþingis hafi verið samþykkt.

6. gr.

Fyrir neðan textann, sem tilgreindur er í 5. gr., komi grannt lárétt strik. Þar fyrir neðan með 11,5 punkta hálffeitu letri standi fyrir miðju seðilsins: „Merkið í annan hvorn fern­inginn“. Séu spurningar á kjörseðlinum fleiri en ein standi: „Merkið í annan hvorn ferning hverrar spurningar“. Séu svarkostir fleiri en „Já“ eða „Nei“ eða orðaðir með öðrum hætti, sbr. 2. málsl. 2. gr., standi: „Merkið í einn af ferningunum“.

Séu spurningar fleiri en ein á kjörseðlinum, og komi ekki annað fram í þingsályktun, standi með feitu letri fyrir miðju seðilsins beint fyrir neðan texta í 1. mgr.: „Kjósandi getur sleppt því að svara einstökum spurningum“.

Fyrir neðan texta samkvæmt þessari grein komi hálffeitt lárétt strik.

7. gr.

Á kjörseðlinum fyrir neðan spurningu sem borin er upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni komi annars vegar ferningur fyrir „Já-svar“ en hins vegar ferningur fyrir „Nei-svar“. Ferningur fyrir „Nei-svar“ komi fyrir neðan ferning fyrir „Já-svar“. Ferningarnir skulu vera jafnstórir.

Séu spurningar fleiri en ein skal fara með þær á líkan hátt. Séu svarkostir fleiri en „Já“ eða „Nei“ komi þeir ferningar fyrir neðan „Nei-svar“. Þessi ferningur eða ferningar skulu vera jafnstórir hinum. Séu spurningar fleiri en ein komi grannt lárétt strik á milli þeirra. Spurning eða spurningar, ef við á, skulu vera skáletraðar með 10,5 punkta letri.

8. gr.

Ferningar skulu vera vinstra megin á kjörseðlinum fyrir neðan spurningu og hæfilega fyrir framan orðin „Já“ og „Nei“. Ferningarnir skulu vera með hálffeitum strikum en orðin „Já“ og „Nei“ með 11,5 punkta feitu letri. Ferningarnir skulu vera það stórir að nægt rými sé til að merkja í þá. Eins skal fara með ef spurningar eða svarkostir eru samkvæmt 2. mgr. 7. gr.

9. gr.

Beri þingsályktun með sér að kjörseðill skuli geyma skýringartexta skal hann vera skáletraður neðst á seðlinum með 10,5 punkta letri. Fyrir ofan skýringartexta skal vera hálffeitt lárétt strik.

10. gr.

Lárétt strik, sem tilgreind eru í reglum þessum, skulu ná þvert yfir kjörseðilinn.

11. gr.

Reglur þessar sem settar eru samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga um framkvæmd þjóðar­atkvæðagreiðslna, nr. 91 25. júní 2010, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 21. ágúst 2012.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 23. ágúst 2012