Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Leiðréttingar:

PDF-skjal: Í stað „Nr. 250“ í haus auglýsingarinnar komi: Nr. 1306


Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1306/2012

Nr. 1306/2012 28. nóvember 2012

AUGLÝSING
um náttúruvættið Blábjörg á Berufjarðarströnd í Djúpavogshreppi.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu sveitarfélagsins Djúpavogshrepps og með samþykki landeiganda jarðarinnar Fagrahvamms að friðlýsa Blábjörg á Berufjarðarströnd í Djúpavogshreppi sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Blábjörg eru hluti af sambræddu líparíttúfflagi eða flikrubergi, sem hefur verið kallað Berufjarðartúff (Berufjörður acid tuff). Í jarðlagastaflanum er það rétt ofan við svokallað Hólmatindstúff, sem er með surtarbrandi, en nokkuð neðan við bleikt túfflag kennt við Skessu. Berufjarðartúffið má rekja upp með fjöllunum til norðausturs og er t.d. áberandi í Berunestindi. Það hefur ekki fundist sunnan Berufjarðar. Flikrubergið myndaðist í gjósku­flóði í líparítsprengigosi. Það er að mestu úr sambræddum líparítvikri, en basalt­bergbrot finnast einnig. Steindin klórít hefur myndast við ummyndun bergsins og gefur því grænleitan blæ.

Hið friðlýsta svæði er 1,49 hektarar að stærð.

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmiðið með friðlýsingu Blábjarga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarð­myndanir sem hafa hátt fræðslu- og vísindagildi. Blábjörg eru aðgengilegur staður til að skoða flikruberg enda vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

3. gr.

Mörk náttúruvættisins.

Mörk náttúruvættisins miðast við læk sem rennur undir þjóðveg og beint til sjávar á Langa­sandi sem teygir sig í suður frá Blábjörgum. Mörk svæðisins í norður er jaðar flikru­bergsins við sjó og þaðan beina línu að þjóðvegi. Þjóðvegurinn og helgunarsvæði hans markar svæðið í austur og sjórinn í vestur.

Mörk svæðisins eru nánar skilgreind í hnitatöflu (ISN93) og á meðfylgjandi uppdrætti í fylgiskjali.

ISN93

nr.

X

Y

1

723183,34

475673,36

2

723283,69

475631,25

3

723379,52

475598,13

4

723393,26

475548,50

5

723183,34

475573,76

4. gr.

Verndun jarðmyndana.

Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu.

5. gr.

Verndun gróðurs og dýralífs.

Óheimilt er að spilla gróðri í náttúruvættinu og trufla dýralíf af ásetningi innan marka náttúru­vættisins.

Ræktun og dreifing framandi plöntutegunda er óheimil innan marka náttúruvættisins í sam­ræmi við reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu framandi plöntutegunda, nr. 583/2000.

6. gr.

Umferð um náttúruvættið.

Almenningi er heimil för um náttúruvættið, en fylgja skal merktum leiðum í samræmi við fyrirmæli hverju sinni. Óheimilt er að klífa Blábjörgin.

Lausaganga hunda er óheimil í náttúruvættinu í samræmi við samþykkt Djúpavogshrepps um hundahald í Djúpavogshreppi.

7. gr.

Tjöldun, gisting og umgengni.

Óheimilt er að hafa næturstað innan hins friðlýsta svæðis. Einnig er óheimilt að urða, brenna eða henda úrgangi innan náttúruvættisins.

8. gr.

Umsjón með náttúruvættinu.

Umsjón náttúruvættisins skal vera í höndum landeigenda samkvæmt samningi við Umhverfis­stofnun sem umhverfis- og auðlindaráðherra staðfestir. Í samningnum skal kveða á um réttindi og skyldur samningsaðila, skiltagerð og aðrar framkvæmdir.

9. gr.

Verndar- og stjórnunaráætlun.

Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir náttúruvættið í sam­ráði við landeiganda og Djúpavogshrepp, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. laga um náttúru­vernd, nr. 44/1999.

Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar náttúru svæðisins, jarðmyndanir þess og lífríki í sam­starfi við Náttúrustofu Norðausturlands og upplýsir Umhverfisstofnun og landeigendur um aðsteðjandi hættur eða um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu verndar.

Í verndar- og stjórnunaráætlun skal fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, landvörslu og landnýtingu, s.s. aðgengi ferðamanna að svæðinu, stígagerð og uppbyggingu mann­virkja.

10. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi innan marka náttúruvættisins eru óheimilar nema með leyfi landeigenda, Djúpavogshrepps og Umhverfisstofnunar, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999, og að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við gild­andi skipulagsáætlun og verndar- og stjórnunaráætlun og ekki fara í bága við mark­mið friðlýsingarinnar, sbr. 2. gr.

11. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

12. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 28. nóvember 2012.

Svandís Svavarsdóttir.

Guðríður Þorvarðardóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 19. mars 2013