Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 520/2015

Nr. 520/2015 1. júní 2015

REGLUGERÐ
um eldishús alifugla, loðdýra og svína.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um eldishús, þ.e. um staðsetningu þeirra, skipulag og húsakost. Með eldishúsum er í reglugerð þessari átt við hús sem ætluð eru til eldis alifugla, loðdýra og svína, þar með taldar hauggeymslur (haughús).

2. gr.

Skipulag.

Í samræmi við ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á gerð skipu­lags og tekur ákvarðanir um fjarlægðir með hliðsjón af ákvæðum reglugerðar þessarar. Byggingarfulltrúar og Mannvirkjastofnun bera ábyrgð á útgáfu byggingarleyfa í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Staðsetning eldishúsa skal vera í samræmi við skipulagsáætlanir og skipulagsreglugerð. Fjarlægðarmörk skulu ákvörðuð í skipulagsáætlunum að teknu tilliti til hugsanlegra umhverfis­þátta og þeirra lágmarksfjarlægða sem kveðið er á um í reglugerð þessari. Eldishús má aðeins byggja á svæðum sem skipulögð eru fyrir landbúnað, iðnað eða þar sem hefur verið mörkuð stefna í aðalskipulagi um staðsetningu eldishúsa.

Við ákvörðun um staðsetningu annarra mannvirkja en eldishúsa, sem eru óháð búrekstri viðkomandi jarðar, svo sem atvinnuhúsnæðis, íbúðar- eða frístundahúsa, skal þess gætt að notkun þeirra geti farið saman við þá starfsemi sem er á viðkomandi stað.

3. gr.

Varnir gegn mengun vatns.

Um varnir gegn mengun vatns gilda ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns. Við nýbyggingu eldishúsa og við meiriháttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum, sem valdið geta óþægindum umfram það sem fyrir er gilda ákvæði um vatnsverndarsvæði vegna neyslu­vatns (brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði) skv. reglugerð um varnir gegn mengun vatns.

4. gr.

Vatnsból og matvælafyrirtæki.

Við nýbyggingu eldishúsa og við meiriháttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum, sem valdið geta óþægindum umfram það sem fyrir er, skal fjarlægð við vatnsból að lágmarki vera 200 m hafi vatnsverndarsvæði ekki verið ákvörðuð.

Við nýbyggingu eldishúsa, við meiriháttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum og breytta notkun í eldishús, sem valdið geta óþægindum umfram það sem fyrir er skulu að lágmarki gilda eftirfarandi fjarlægðir við matvælafyrirtæki:

  a) fjarlægð á milli eldishúss alifuglaeldis eða loðdýraeldis og matvælafyrirtækja annarra en sjálfs búsins skal ekki vera undir 300 m.
  b) fjarlægð á milli eldishúss svínaeldis (smágrísaframleiðslu og grísaeldis) og matvæla­fyrirtækja skal ekki vera undir 500 m.

Þau fjarlægðarmörk sem fram koma í a- og b-lið 2. mgr. gilda einnig þegar um er að ræða nýbyggingu matvælafyrirtækja, meiriháttar breytingar á slíkum byggingum, stækkanir á þeim eða breytta notkun bygginga í matvælafyrirtæki.

5. gr.

Mengunarvarnir.

Við hönnun og byggingu eldishúsa skal farið eftir bestu fáanlegu tækni eins og kostur er, sbr. skilgreiningu í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Húsakostur eldishúsa skal vera þannig gerður:

  1. Að skítur og mykja blandist ekki regnvatni.
  2. Að skítur og mykja sé flutt með lokaðri rennu frá eldishúsum í haughús eða með öðrum sambærilegum lokuðum kerfum þar sem það á við.

Um stærð og gerð haughúsa skal farið samkvæmt viðeigandi ákvæðum í reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnu­rekstri.

Um skilyrði vegna mengunarvarna gilda starfsleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í starfsleyfi skal, eftir því sem við á, kveða á um bestu fáanlegu tækni, setja ákvæði um nýtingu og förgun skíts og mykju og ákvæði um varnir gegn ólykt og um lyktardreifingu.

6. gr.

Fjarlægðir.

Sveitarstjórn ákveður í skipulagsáætlun fjarlægð milli eldishúsa. Þegar um er að ræða nýbygg­ingu eldishúsa, meiriháttar breytingar eða stækkanir á þeim og breytta notkun í eldishús, sem valdið geta auknum óþægindum, ber að ákveða, í samræmi við grein þessa, fjarlægðir þeirra við mannabústaði, útivistarsvæði, vinnustaði eða svæði sem afmörkuð hafa verið fyrir framangreinda notkun í aðalskipulagi eða með byggingarreitum í deiliskipulagi. Sveitarstjórn skal ákvarða fjarlægðir með hliðsjón af hugsanlegum umhverfisáhrifum og mega fjarlægðir aldrei vera minni en sem hér segir:

I. Eldi alifugla:

  1. 100 m fyrir bú ætluð fyrir fleiri en 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 stæði fyrir hænur.
  2. 50 m fyrir bú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 60.000 stæði fyrir hænur.

II. Eldi refa:

  1. 400 m fyrir bú ætluð fyrir fleiri en 2.000 læður. Á skilgreindu landbúnaðarsvæði er lágmarksfjarlægð 300 m frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi.
  2. 300 m fyrir bú ætluð fyrir færri en 2.000 læður. Á skilgreindu landbúnaðarsvæði er lágmarksfjarlægð 200 m frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi.

III. Eldi annarra loðdýra en refa:

  1. 300 m fyrir bú ætluð fyrir fleiri en 10.000 læður. Á skilgreindu landbúnaðarsvæði er lágmarksfjarlægð 200 m frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi.
  2. 200 m fyrir bú ætluð fyrir færri en 10.000 læður. Á skilgreindu landbúnaðarsvæði er lágmarksfjarlægð 100 m frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi.

IV. Eldi svína:

  1. 600 m fyrir bú með meira en 2.000 stæði fyrir alisvín yfir 30 kg eða yfir 750 stæði fyrir gyltur. Á skilgreindu landbúnaðarsvæði er lágmarksfjarlægð 500 m frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi.
  2. Lágmarksfjarlægð á milli 50 til 500 m skal reiknuð út samkvæmt viðauka fyrir bú með meira en 45 stæði fyrir alisvín yfir 30 kg eða yfir 20 stæði fyrir gyltur. Á skil­greindu landbúnaðarsvæði er lágmarksfjarlægð 300 m frá eldishúsi að næsta íbúðar­húsi.

Þau fjarlægðarmörk sem fram koma í 1. mgr. gilda einnig þegar um er að ræða nýbyggingu mannvirkja sem teljast mannabústaðir eða vinnustaðir, meiriháttar breytingar eða stækk­anir á þeim og þegar um er að ræða breytta notkun.

Fjarlægðarmörk skv. 1. mgr. eiga ekki við um mannabústaði og vinnustaði sem tilheyra búrekstrinum eða vinnustaði með sambærilega starfsemi. Með mannabústöðum er átt við íbúðarhúsnæði, frístundahús, gistihús og sambærilegt. Með útivistarsvæðum er átt við svæði sem eru skipulögð til sértækrar útivistar, svo sem íþróttasvæði, leikvelli og ferða­manna­staði.

7. gr.

Eftirlit.

Heilbrigðisnefnd, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, ber að sjá um að ákvæðum reglu­gerðar­innar sé framfylgt í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unar­varnir.

8. gr.

Þvingunarúrræði.

Um þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unar­varnir.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 1. júní 2015.

Sigrún Magnúsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 15. júní 2015