Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 572/2008

Nr. 572/2008 30. maí 2008
REGLUR
um einkaumboðsmenn fjármálafyrirtækja.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar eiga við um markaðssetningu á þjónustu fjármálafyrirtækja, móttöku og miðlun fyrirmæla, milligöngu um sölu fjármálagerninga og fjárfestingaráðgjöf, sem fjármálafyrirtæki fela einkaumboðsmönnum, með skriflegum samningi.

2. gr.

Skilgreiningar.

Með einkaumboðsmanni í reglum þessum er átt við einstakling eða lögaðila, sem hlotið hefur leyfi Fjármálaeftirlitsins og starfar í umboði og á ábyrgð eins fjármálafyrirtækis með heimild til að:

a) markaðssetja fjármálagerninga og kynna fjármála- og/eða viðbótarþjónustu fyrir viðskiptavinum, eða mögulegum viðskiptavinum,

b) móttaka og miðla fyrirmælum frá viðskiptavinum vegna fjármálaþjónustu eða fjármálagerninga,

c) hafa milligöngu um kaup eða sölu fjármálagerninga og/eða

d) veita viðskiptavinum, eða mögulegum viðskiptavinum, ráðgjöf varðandi fjármálagerninga eða fjármálaþjónustu.

Með fjármálafyrirtæki í reglum þessum er átt við fjármálafyrirtæki með heimild til verðbréfaviðskipta í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

3. gr.

Fjárfestavernd.

Fjármálafyrirtæki skal tryggja að viðskiptavinir einkaumboðsmanna njóti sömu fjárfestaverndar og ef þeir hefðu átt í viðskiptum við fjármálafyrirtækið sjálft.

II. KAFLI

Ábyrgð, eftirlit, hæfi og skyldur.

4. gr.

Leyfi Fjármálaeftirlitsins og opinber skrá.

Fjármálafyrirtæki sem hyggst tilnefna aðila með heimilisfesti á Íslandi sem einkaumboðsmann skal beina skriflegri umsókn þess efnis til Fjármálaeftirlitsins. Hið sama gildir hyggist fjármálafyrirtæki með Ísland sem heimaríki tilnefna aðila með heimilisfesti í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki heimilar fjármálafyrirtækjum að tilnefna einkaumboðsmenn.

Einungis aðilar með heimilisfesti á Evrópska efnahagssvæðinu geta fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til að starfa sem einkaumboðsmenn.

Með umsókn skal fylgja samningur sá er gerður er skv. 6. gr. ásamt yfirlýsingu fjármálafyrirtækisins þess efnis að sá aðili sem það hyggst veita umboð:

a) sé lögráða og hafi ekki á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um verðbréfaviðskipti eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, og

b) hafi staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Sé einkaumboðsmaður lögaðili skal framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum.

Fjármálaeftirlitið heldur opinbera skrá yfir þá aðila sem hafa hlotið leyfi samkvæmt 1. mgr.

Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu tafarlaust um lok starfa einkaumboðsmanns fyrir hönd þess. Fjármálafyrirtæki ber ábyrgð á störfum einkaumboðsmanns þar til slík tilkynning hefur borist.

5. gr.

Eftirlit.

Fjármálafyrirtæki skulu hafa eftirlit með að einkaumboðsmenn þeirra:

a) búi yfir nægilegri þekkingu á því sviði verðbréfaviðskipta sem fjármálafyrirtækið starfar á og þeim lögum og reglum sem þar gilda,

b) veiti ráðgjöf á faglegan hátt og taki mið af þörfum þess viðskiptavinar sem ráðgjöfin er veitt,

c) leysi starf sitt af hendi í samræmi við góðar venjur og viðskiptahætti í verðbréfaviðskiptum og

starfi í samræmi við þau lög og reglur sem gilda um verðbréfaviðskipti.

Fjármálafyrirtæki skulu gera ráðstafanir til að tryggja að einkaumboðsmaður sinni ekki öðrum störfum sem geta haft neikvæð áhrif á trúverðugleika fjármálafyrirtækisins eða sem gætu valdið hagsmunaárekstrum.

6. gr.

Skriflegur samningur.

Aðilar skulu gera með sér skriflegan samning, þar sem kveðið skal á um réttindi og skyldur aðila, þar á meðal að viðkomandi umboðsmaður starfi á ábyrgð og undir stjórn og eftirliti fjármálafyrirtækisins.

7. gr.

Ábyrgð fjármálafyrirtækis.

Fjármálafyrirtæki ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á störfum einkaumboðsmanna sinna.

Fjármálafyrirtæki ber ábyrgð á því að öllum skyldum sem gilda um fjármálaþjónustu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 sé fullnægt, þrátt fyrir að þjónustan hafi verið veitt af einkaumboðsmanni þess.

8. gr.

Skyldur einkaumboðsmanna.

Skyldur sem hvíla á starfsmönnum fjármálafyrirtækja skv. lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, skulu einnig gilda um einkaumboðsmenn, eftir því sem við á.

III. KAFLI

Gildistaka.

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 4. mgr. 20. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, öðlast þegar gildi.

Fjármálaeftirlitinu, 30. maí 2008.

Jónas Fr. Jónsson.

B deild - Útgáfud.: 18. júní 2008