Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1180/2014

Nr. 1180/2014 16. desember 2014
REGLUGERÐ
um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um tengda lögaðila sem eiga í viðskiptum skv. 3.-5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. gr.

Skilgreiningar.

Eftirfarandi hugtök hafa þessa merkingu skv. 3.-5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og reglugerð þessari:

Armslengdarregla: Meginreglan um að verðlagning í viðskiptum milli tengdra aðila eigi að vera sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum á milli ótengdra aðila undir sam­bæri­legum kringumstæðum, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Föst starfsstöð: Starfsemi sem uppfyllir skilyrði til að teljast föst starfsstöð skv. tví­skött­unarsamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Ef starfsemi fellur ekki undir tví­skött­unarsamning sem Ísland hefur gert skal litið svo á að föst starfsstöð sé til staðar þar sem starfsemi félags fer fram ef skilyrði gildandi samningsfyrirmyndar OECD um tví­skött­unarsamninga eins og hún er á hverjum tíma eru uppfyllt.

Leiðbeiningarreglur OECD um milliverðlagningu: Leiðbeiningarreglur OECD fyrir fjöl­þjóð­leg fyrirtæki og skattayfirvöld sem samþykktar voru af OECD árið 1995, með síðari breytingum (e. OECD Transfer Pricing Guidelines for Multinational Enterprises and Tax Administrations).

Móðurfélag samstæðu: Lögaðili sem hefur stöðu móðurfélags en sætir ekki sjálfur yfir­ráðum annars móðurfélags (e. ultimate parent company).

Samanburður innri viðskipta: Samanburður á viðskiptum sem skjölunarskyldur aðili á við ótengdan aðila og eru sambærileg við viðskipti sem sami aðili á við tengdan aðila til þess að ganga úr skugga um að verðlagning milli tengdra aðila sé í samræmi við arms­lengdar­sjónarmið.

Samanburður ytri viðskipta: Samanburður á viðskiptum sem skjölunarskyldur aðili á við tengdan aðila og eru sambærileg við viðskipti milli ótengdra aðila til þess að ganga úr skugga um að verðlagning milli tengdra aðila sé í samræmi við armslengdar­sjónarmið.

Samningsfyrirmynd OECD að tvísköttunarsamningum: Samningsfyrirmynd OECD að tvísköttunarsamningum eins og hún er á hverjum tíma.

Skjölun: Skjölun felur í sér upplýsingaöflun, skráningu upplýsinga og varðveislu gagna með það að markmiði að skjölunarskyldur aðili geti sýnt fram á og rökstutt að verð­ákvörðun og skilmálar í viðskiptum við tengda aðila séu í samræmi við armslengdar­reglu. Skjölun felur ekki í sér eitt tiltekið form skráningar og upplýsingaöflunar heldur tekur hún mið af þeim viðskiptum sem eru skjölunarskyld ásamt rekstri, tengslum og öðrum aðstæðum hins skjölunarskylda aðila.

Skjölunarskyld viðskipti: Viðskipti tengdra lögaðila skv. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt sem uppfylla skilyrði 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

3. gr.

Skjölun.

Skjölun sem unnin er í samræmi við 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt er grundvöllur mats á því hvort verð í viðskiptum tengdra aðila sé í samræmi við arms­lengdar­regluna. Skjölun ber að haga í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og þær megin­reglur sem er að finna í leiðbeiningarreglum OECD um milliverðlagningu eins og þær eru á hverjum tíma.

Skjölun skal innihalda nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem sýna fram á að verð í við­skiptum tengdra aðila sé í samræmi við armslengdarregluna. Magn og innihald upp­lýsinga og gagna sem varðveita ber skal taka mið af eðli og umfangi viðskipta og vera þannig framsett að þau tryggi sem best aðgengi skattyfirvalda í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að verð sé í samræmi við armslengdarregluna.

Ef skjölun er umfangsmikil skulu gögn og upplýsingar skilmerkilega flokkuð og hafa að geyma yfirlit yfir meginatriði.

4. gr.

Upplýsingar um samstæðu, einstaka lögaðila og starfsemi.

Skjölun hjá móðurfélagi samstæðu skal fela í sér almenna lýsingu á samstæðunni, ein­stökum lögaðilum innan hennar og hlutverki þeirra innan samstæðu. Í henni skal eftir­farandi koma fram:

 1. Stutt sögulegt yfirlit yfir samstæðuna og einstaka lögaðila innan hennar.
 2. Almenn lýsing á eignarhaldi og réttarformi lögaðila innan samstæðunnar og hvar þeir eru heimilisfastir.
 3. Lýsing á starfsemi einstakra lögaðila og hlutverki þeirra innan samstæðunnar. Almenn lýsing og skipurit þar sem um formlegt stjórnkerfi er að ræða.
 4. Upplýsingar um helstu markaði, helstu samkeppnisaðila og samkeppnisvörur samstæðunnar og hins skjölunarskylda lögaðila.
 5. Lýsing á helstu breytingum hjá samstæðunni og skjölunarskyldum lögaðila innan tekjuársins, þ.m.t. upplýsingar um endurskipulagningu á rekstri og helstu breyt­ingar í starfsemi, þeim eignum sem nýttar eru í starfseminni og þeirri áhættu sem viðkomandi lögaðili ber vegna viðskiptanna.

5. gr.

Upplýsingar um fjárhagsmálefni.

Skjölun skal innihalda ársreikninga síðustu þriggja ára hjá þeim tengdu aðilum sem skjöl­unarskyldur aðili á í viðskiptum við. Séu ársreikningar ekki aðgengilegir eða ef ekki koma fram upplýsingar í þeim um hagnað fyrir afskriftir, vexti eða hagnað fyrir mats­breytingar og skatta skal veita þær upplýsingar sérstaklega.

Hafi tap myndast í rekstri skjölunarskylds lögaðila skal gera grein fyrir því hvernig og í hvaða þáttum rekstrarins það hefur myndast og helstu ástæðum þess.

6. gr.

Upplýsingar um eðli og umfang viðskipta.

Skjölun skal innihalda almenna lýsingu á öllum viðskiptum hins skjölunarskylda lögaðila við tengda aðila, þ.m.t. eðli þeirra og umfang. Heimilt er að lýsa sambærilegum eða samkynja viðskiptum heildstætt ef þau eru stunduð með reglubundnum hætti og skal það þá tekið fram í lýsingunni.

Upplýsingar um viðskiptaskilmála skulu ávallt liggja fyrir í skjölunargögnum s.s. upp­lýs­ingar um verksamninga, greiðslukjör, ábyrgðir og gildistíma samninga. Þá ber að gera sérstaklega grein fyrir því ef viðskiptaskilmálar eru verulega frábrugðnir því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila.

Skjölunarskyldur aðili skal, eftir því sem við á, varðveita upplýsingar um kostnaðarverð þeirrar vöru, þjónustu eða eigna sem hann kaupir af eða selur tengdum aðila.

Skjölunarskyldur aðili skal skrá og varðveita upplýsingar um hvernig ákvörðun um verð var tekin, hvort hún tók mið af verði í sambærilegum viðskiptum eða tók mið af annarri aðferð leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu, byggðri á mati óháðra sér­fræð­inga eða öðrum tiltækum aðferðum. Því til viðbótar ber að lýsa viðskiptunum með hlið­sjón af þeim samanburðaratriðum sem getið er um í leiðbeiningarreglum OECD um milli­verðlagningu, sbr. einnig 10. gr. reglugerðar þessarar.

Í reglubundnum og/eða viðvarandi viðskiptum skal vera til lýsing á því hvernig viðskipti ganga fyrir sig, s.s. upplýsingar um verðþróun, hvernig vara er pöntuð, hvar og hvernig vara eða þjónusta er afhent, hvort þjónusta er keypt af milligönguaðilum og lýsingar á flutningsmáta og bókunarreglum.

7. gr.

Þjónusta milli tengdra lögaðila.

Komi til þess að skipta þurfi sameiginlegum kostnaði á milli tengdra lögaðila skal sýna fram á með tryggilegum hætti að skjölunarskyldur aðili sem gjaldfærir slíka þjónustu hafi notið hennar í þeim mæli sem gjaldfærslan segir til um. Grunnur skiptingarinnar skal vera fyrirliggjandi og gagnsær og kostnaðurinn uppfylla armslengdarsjónarmið leið­bein­ingar­reglna OECD um milliverðlagningu í skattalegu tilliti. Sömu sjónarmið skulu gilda þegar innheimt er jafnharðan fyrir veitta þjónustu og eins þegar vextir eru reiknaðir af kröfum/skuldum á milli tengdra aðila. Skjölunarskyldur aðili sem veitir þjónustu eða skiptir kostnaði á milli tengdra aðila skal sjá til þess að til staðar séu fullnægjandi gögn um hvernig þjónustan er verðlögð og hvaða aðferðir liggi að baki skiptingunni og hvernig þau samrýmist armslengdarreglunni.

Sé kostnaði vegna rannsóknar og/eða þróunar skipt á milli lögaðila innan samstæðu áður en kemur til tekjuöflunar skulu fullnægjandi upplýsingar um forsendur skiptingarinnar liggja fyrir og hvernig skiptingu tekna skuli háttað þegar tekjuöflun hefst.

8. gr.

Upplýsingar um óefnislegar eignir.

Skjölunarskyldur aðili skal lýsa óefnislegum eignum innan samstæðu sem hafa áhrif á skjölunarskyld viðskipti. Í lýsingunni skulu koma fram upplýsingar um eignarhald, notkun, þróun og viðhald á hinum óefnislegu eignum. Í lýsingunni skal einnig veita upp­lýsingar um líklegt endursöluverð og núvirði væntra framtíðartekna þeirra.

9. gr.

Aðferðir við verðlagningu.

Í skjölun skal gera grein fyrir þeim aðferðum sem notaðar eru við verðákvörðun í við­skiptum milli tengdra aðila. Gera skal grein fyrir því hvers vegna tiltekin aðferð var valin og hvernig hún leiðir til þess að verðlagning er í samræmi við arms­lengdar­sjónarmið.

Við verðákvörðun milli tengdra aðila er m.a. hægt að miða við eftirfarandi aðferðir sem koma fram í leiðbeiningarreglum OECD:

 1. Samanburðaraðferðin (e. comparable uncontrolled price method (CUP)).
 2. Kostnaðarálagningaraðferðin (e. cost plus method (CPM)).
 3. Endursöluaðferðin (e. resale price method (RPM)).
 4. Hagnaðarskiptingaraðferðin (e. profit split method (PSM)).
 5. Nettóálagningaraðferðin (e. transactional net margin method (TNMM)).

Veita skal upplýsingar um að hvaða marki verðlagningin er í samræmi við þær aðferðir sem tilgreindar eru í 2. mgr.

10. gr.

Upplýsingar um samanburðargreiningu.

Skjölun skal fela í sér samanburðargreiningu eftir því sem við á. Samanburðargreining, ásamt þeim upplýsingum sem veita skal samkvæmt ákvæðum í 3.-9. gr. og 11. gr., mynda grunn til mats á því hvort verð og skilmálar í viðskiptum milli tengdra aðila séu í samræmi við armslengdarregluna.

Með samanburðargreiningu er gerður samanburður á verði og öðrum skilmálum í við­skiptum milli tengdra aðila og verði og skilmálum í viðskiptum milli ótengdra aðila. Grein­ingin er bæði unnin út frá innri og ytri samanburðargreiningu með hliðsjón af þeim þáttum sem hafa mest áhrif á samanburðarhæfni eins og þeim er lýst í leið­beiningar­reglum OECD um milliverðlagningu. Í þessu sambandi skal eftirfarandi m.a. koma fram:

 1. Einkenni þeirrar eignar eða þjónustu sem um er að ræða (e. characteristics of property or service).
 2. Greining á starfsemi (e. functional analysis).
 3. Samningsskilmálar (e. contractual terms).
 4. Efnahagslegar kringumstæður (e. economic circumstances).
 5. Viðskiptastefna fyrirtækis (e. business strategies).

Gera skal grein fyrir leiðréttingum sem framkvæmdar eru í því skyni að samræma samanburðargögn. Einnig skal gerð grein fyrir því hvaða sjónarmið liggja til grundvallar vali á samanburðargögnum.

11. gr.

Upplýsingar um samninga o.fl.

Skjölunarskyldan tekur til allra samninga milli tengdra aðila sem áhrif hafa á verð í við­skiptum þeirra.

Samkomulag um aðferð við verðlagningu (e. Advance Pricing Agreement), sem lögaðili, eða aðili honum tengdur, hefur gert við skattyfirvöld í öðru ríki vegna viðskipta milli tengdra aðila, skal fylgja með skjölun. Sama gildir ef fyrir liggur samkomulag um aðrar ráðstafanir sem lögaðili hefur gert við erlend skattyfirvöld og varðar viðskipti milli tengdra aðila.

12. gr.

Undanþága vegna minniháttar viðskipta milli tengdra aðila.

Skjölunarskyldan sem lýst er í 3.-11. gr. gildir ekki um minniháttar viðskipti milli tengdra aðila. Einungis skal gera grein fyrir því að slík viðskipti hafi átt sér stað og að þau teljist minniháttar.

Með minniháttar viðskiptum er átt við ráðstafanir innan hvers rekstrarárs sem hafa tak­markað efnahagslegt umfang og vægi fyrir rekstur hins skjölunarskylda aðila.

Ef skjölunarskyldur aðili nýtir sér undanþágu samkvæmt ákvæði þessu skal hann, við framtalsskil, gera grein fyrir eðli og umfangi viðskiptanna og skýra hvers vegna við­skiptin falla undir undanþáguna.

Undanþágan á ekki við um viðskipti með óefnislegar eignir.

13. gr.

Samantekt og skil skjölunar.

Skjölun í samræmi við ákvæði 3.-11. gr. skal unnin fyrir hvert reikningsár. Lögaðila ber að haga skjölun á þann hátt að framlagning allra skjölunarskyldra gagna geti átt sér stað innan 45 daga frá því að skattyfirvöld óska eftir þeim, sbr. 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Samhliða framtalsskilum ber öllum skjölunarskyldum lögaðilum sem eiga viðskipti við tengda lögaðila, sbr. 4. og 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að veita ríkisskattstjóra upplýsingar um þá tengdu lögaðila sem þeir eiga í viðskiptum við, eðli tengsla, tegund og fjárhæð viðskipta og staðfesta að skjölunarskyldu hafi verið fullnægt á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

14. gr.

Framlagning gagna samkvæmt beiðni skattyfirvalda.

Skjölunarskyld gögn skulu afhent skattyfirvöldum innan 45 daga frá því að beiðni er lögð fram. Ekki er heimilt að óska eftir gögnum fyrr en að liðnum framtalsfresti skv. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Ef skjölun skv. 1. mgr. felur ekki í sér samanburðargreiningu eins og henni er lýst í 10. gr. geta skattyfirvöld farið fram á að skjölunarskyldur aðili skili slíkri greiningu telji þau það nauðsynlegt.

Reglugerð þessi takmarkar ekki heimildir skattyfirvalda til að óska eftir gögnum skv. öðrum ákvæðum skattalaga.

15. gr.

Ýmis ákvæði.

Skjölunarskyld gögn skulu vera tiltæk á íslensku og/eða ensku.

Skjölunarskyld gögn skulu varðveitt í 7 ár frá lokum reikningsárs, sbr. 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. getur skjölunarskyldur lögaðili valið að skjala í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í starfsreglum Evrópusambandsins um skjölun í við­skiptum milli tengdra aðila innan ESB (e. EU code of conduct on transfer pricing docu­mentation for associated enterprises in the European Union 2006/C 176/01). Ákvæði 2. gr. og 11.-15. gr. gilda óháð því hvort skjalað er skv. reglugerð þessari eða framan­greindum starfsreglum Evrópusambandsins.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 6. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, tekur gildi 1. janúar 2015.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 16. desember 2014.

F. h. r.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Rakel Jensdóttir.

B deild - Útgáfud.: 23. desember 2014