1. gr. Ráðning og hæfi. Velferðarráðherra ræður réttindagæslumenn fatlaðs fólks að fenginni umsögn frá heildarsamtökum fatlaðs fólks. Réttindagæslumenn skulu hafa þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðs fólks og leitast skal við að ráða einstaklinga sem hafa menntun sem nýtist í starfi. Réttindagæslumenn heyra undir réttindavakt ráðuneytisins sem hefur eftirlit og yfirumsjón með störfum þeirra. 2. gr. Fjöldi réttindagæslumanna. Réttindagæslumenn skulu vera átta talsins og skiptast þeir milli landshluta með eftirfarandi hætti: Á þjónustusvæði Reykjavíkur og Seltjarnarness skulu starfa tveir réttindagæslumenn í einu og hálfu stöðugildi. Kópavogur, Garðabær, Álftanes, Mosfellsbær og Kjós skulu hafa sameiginlegan réttindagæslumann í hálfu stöðugildi. Hafnarfjörður og Suðurnes skulu hafa sameiginlegan réttindagæslumann í hálfu stöðugildi. Vesturland og Vestfirðir skulu hafa sameiginlegan réttindagæslumann í hálfu stöðugildi. Norðurland vestra, Akureyri og Norðurþing skulu hafa sameiginlegan réttindagæslumann í 75% stöðugildi. Austurland og Hornafjörður skulu hafa sameiginlegan réttindagæslumann í hálfu stöðugildi. Vestmannaeyjar og Suðurland skulu hafa sameiginlegan réttindagæslumann í hálfu stöðugildi.
Velferðarráðuneytið skal útvega réttindagæslumönnum starfsaðstöðu og annað sem þeim er nauðsynlegt vegna starfs síns. 3. gr. Hlutverk réttindagæslumanns. Hlutverk réttindagæslumanns er að veita þeim fatlaða einstaklingi, sem á erfitt með að gæta réttinda sinna sjálfur, aðstoð og ráðgjöf, telji hinn fatlaði einstaklingur eða einhver sem stendur honum nærri að réttindi hans séu ekki virt sem skyldi. Réttindagæslumenn skulu fylgjast með högum fatlaðs fólks á sínu svæði og koma með ábendingar til sveitarfélaga, stofnana og annarra aðila á svæðinu um það sem betur má fara. Réttindagæslumaður skal aðstoða þá sem til hans leita eftir því sem honum er unnt. Réttindagæslumanni er þó heimilt að vísa máli frá ef hann telur ekki þörf á aðgerðum þegar ljóst er að viðkomandi einstaklingur getur sjálfur gætt réttinda sinna eða ef viðkomandi einstaklingur hefur annan umboðsmann sem gætir réttinda hans í því tiltekna máli. Réttindagæslumaður skal rökstyðja þá ákvörðun sína skriflega, óski viðkomandi eftir því. Ákvörðun réttindagæslumanns má skjóta til réttindavaktar ráðuneytisins. Réttindagæslumaður skal kynna sig og hlutverk sitt, halda reglulega fundi með fötluðu fólki á sínu svæði og standa fyrir fræðslu fyrir fatlaða einstaklinga og þá sem veita þeim þjónustu. Réttindagæslumenn skulu hafa eftirlit með persónulegum talsmönnum fatlaðra samkvæmt reglugerð um persónulega talsmenn. 4. gr. Aðgengi réttindagæslumanns að upplýsingum. Búi fatlaður einstaklingur á heimili fyrir fatlað fólk skal forstöðumaður viðkomandi heimilis veita réttindagæslumanni þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar vegna starfs síns. Þegar um er að ræða upplýsingar sem varða persónuleg atriði eða upplýsingar um einkafjármuni hins fatlaða einstaklings skal leita eftir samþykki hans eða þess sem heimild hefur til þess að koma fram fyrir hans hönd, til dæmis persónulegs talsmanns. Geti fatlaður einstaklingur ekki tjáð vilja sinn og persónulegum talsmanni eða öðrum talsmanni er ekki til að dreifa getur réttindagæslumaður í samstarfi við réttindavakt ráðuneytisins krafið þjónustuveitanda um upplýsingar ef rökstuddur grunur liggur fyrir um að verið sé að brjóta á réttindum einstaklingsins. 5. gr. Tilkynningar til réttindagæslumanns. Hver sá sem telur að réttur fatlaðs einstaklings sé fyrir borð borinn skal tilkynna það réttindagæslumanni á viðkomandi svæði. Einnig skal hver sá sem verður vitni að atviki sem vekur grun um að brotið sé á réttindum fatlaðs einstaklings tilkynnt atvikið til réttindagæslumanns. Réttindagæslumaður getur einnig hvenær sem er tekið upp mál að eigin frumkvæði. 6. gr. Málsmeðferð réttindagæslumanns. Eftir að réttindagæslumanni berst mál skal hann veita hinum fatlaða einstaklingi nauðsynlegan stuðning og kanna málið að höfðu samráði við hann og talsmann ef við á. Við könnun málsins skal réttindagæslumaður afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna málsins og ræða við málsaðila. Leiði könnun réttindagæslumanns til þess að hann telji rétt fatlaðs einstaklings fyrir borð borinn aðstoðar hann einstaklinginn við að leita réttar síns miðað við atvik og stöðu máls hverju sinni. Skal réttindagæslumaður styðja hinn fatlaða einstakling í að leita sjálfur réttar síns og leiðbeina honum eftir þörfum. Leiði það til þess að málið leysist lýkur aðkomu réttindagæslumanns að málinu. Dugi það ekki til getur réttindagæslumaður, að fengnu samþykki hins fatlaða einstaklings, komið ábendingum um úrbætur á framfæri við hlutaðeigandi og gefið viðkomandi frest til að verða við ábendingunum. Í þeim skal koma fram af hvaða tilefni ábendingunum er komið á framfæri, forsaga málsins rakin og lögð fram tillaga að lausn þess. Ef ágreiningur er milli aðila í málinu getur réttindagæslumaður boðað þá til fundar til að ræða tillögur að úrbótum og reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Verði ekki brugðist við ábendingum réttindagæslumanns getur hann aðstoðað hinn fatlaða einstakling við að kæra ákvörðun eða málsmeðferð til æðra stjórnvalds þegar um kæranlega ákvörðun er að ræða. Réttindagæslumaður aðstoðar hinn fatlaða einstakling við kæru og er honum innan handar varðandi rekstur málsins óski hann eftir því. Ef ekki næst niðurstaða sem hinn fatlaði einstaklingur getur fellt sig við með framangreindum hætti skal réttindagæslumaður meta í hverju tilviki fyrir sig, í samráði við hinn fatlaða einstakling, hvort rétt sé að tilkynna mál sem honum berast með framangreindum hætti til réttindavaktar ráðuneytisins sem gerir viðeigandi ráðstafanir. Lýkur þá aðkomu réttindagæslumanns að málinu nema réttindavaktin feli honum að fylgja því áfram fyrir sína hönd. Ákveði einstaklingur sem notið hefur aðstoðar réttindagæslumanns að skjóta máli sínu til dómstóla, lýkur aðkomu réttindagæslumanns að málinu. Telji réttindagæslumaður sig þurfa á leiðbeiningum eða aðstoð að halda varðandi einstök mál skal hann snúa sér til réttindavaktar ráðuneytisins. Um störf réttindagæslumanna gilda ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. 7. gr. Fræðsla. Réttindavakt ráðuneytisins skal funda með réttindagæslumönnum fatlaðs fólks ár hvert þar sem farið er yfir skýrslur réttindagæslumanna, sbr. 8. gr. Réttindavaktin skal einnig standa fyrir fræðslu- og samráðsfundum fyrir réttindagæslumenn eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Réttindavaktin skal sjá um fræðslu til nýrra réttindagæslumanna og að réttindagæslumenn séu ávallt upplýstir um það sem best þykir í þjónustu við fatlað fólk. 8. gr. Eftirlit. Réttindagæslumaður skráir mál sem honum berast, meðferð þeirra og afgreiðslu. Hann skal taka mál sem honum berast til meðferðar svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en 14 dögum eftir að mál berst honum. Réttindagæslumaður skal fyrir 1. apríl ár hvert skila skýrslu til velferðarráðuneytisins þar sem gerð skal grein fyrir störfum réttindagæslumanns á liðnu almanaksári eftir leiðbeiningum ráðuneytisins hverju sinni. Í skýrslunni skal meðal annars eftirfarandi koma fram: Almennt um störf réttindagæslumanns á liðnu ári. Mál sem komið hafa inn á borð réttindagæslumanns. Önnur störf réttindagæslumanns en einstaklingsmál, svo sem frumkvæðismál og fræðsla.
Einnig getur ráðuneytið hvenær sem er kallað eftir skýrslum frá réttindagæslumönnum um einstök mál eða störf hans. Hafi fatlaður einstaklingur, aðstandendur hans, heildarsamtök fatlaðs fólks, aðrir þeir sem láta sig málefni fatlaðra einstaklinga varða eða þjónustuaðilar athugasemdir við starfsemi réttindagæslumanns fatlaðs fólks skal þeim komið á framfæri við réttindavakt ráðuneytisins. 9. gr. Þagnarskylda. Réttindagæslumaður skal gæta þagnarskyldu um þau atvik sem honum verða kunn í starfinu og leynt eiga að fara vegna persónulegra hagsmuna hins fatlaða einstaklings og almannahagsmuna. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. 10. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 4. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, tekur þegar gildi. Velferðarráðuneytinu, 6. nóvember 2012. Guðbjartur Hannesson. Sveinn Magnússon. |