Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 834/2010

Nr. 834/2010 15. október 2010
REGLUGERÐ
um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að draga úr losun tiltekinna flúoraðra gróðurhúsa­lofttegunda og stuðla að öruggri meðhöndlun þeirra með tilliti til verndunar umhverfisins.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerðin gildir um takmörkun á losun, notkun og meðhöndlun flúoraðra gróðurhúsa­lofttegunda ásamt lekaleit, skráningu, setningu þeirra á markað og merkingar. Reglugerðin gildir einnig um menntun og hæfni starfsmanna sem meðhöndla flúoraðar gróðurhúsalofttegundir ásamt kröfum um þjálfun og vottun starfsmanna og fyrirtækja.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:

Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir: Vetnisflúorkolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF6) sem eru tilgreind í I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, sbr. 11. gr., og efnablöndur, sem innihalda þessi efni, að undanskildum efnum sem falla undir reglugerð nr. 586/2002 um efni sem eyða óson­laginu. Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eru einnig nefndar flúraðar eða flúoreraðar gróður­húsa­lofttegundir.

Vetnisflúorkolefni: Lífrænt efnasamband úr kolefni, vetni og flúor, þar sem sameindin er úr sex kolefnisfrumeindum eða færri.

Perflúorkolefni: Lífrænt efnasamband, eingöngu úr kolefni og flúor, þar sem sameindin er úr sex kolefnisfrumeindum eða færri.

Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber raunverulega, tæknilega ábyrgð á þeim búnaði og þeim kerfum sem heyra undir gildissvið þessarar reglugerðar og gerða Evrópusambandsins sem innleiddar eru með henni, eða ef sá aðili finnst ekki, eigandi viðkomandi búnaðar og kerfa. Rekstraraðili er einnig nefndur stjórnandi.

Þjónustuaðili: Einstaklingur eða lögaðili sem þjónustar þann búnað og þau kerfi sem heyra undir gildissvið þessarar reglugerðar og gerða Evrópusambandsins sem innleiddar eru með henni.

Fyrirtæki: Rekstraraðili og/eða þjónustuaðili.

Notkun: Nýting flúoraðra gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu, áfyllingu, þjónustu eða viðhald vara og búnaðar sem heyra undir gildissvið þessarar reglugerðar og gerða Evrópusambandsins sem innleiddar eru með henni.

Setning á markað: Það að sjá þriðja aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins, gegn greiðslu eða án hennar, í fyrsta sinn fyrir vörum og búnaði sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eða vörum og búnaði sem krefjast slíkra lofttegunda, þ.m.t. innflutningur á slíkri vöru og búnaði á Evrópska efnahagssvæðið.

4. gr.

Skráning á innflutningi og sölu – innra eftirlit.

Innflytjendur og söluaðilar skulu halda skrá yfir allan innflutning og sölu flúoraðra gróðurhúsalofttegunda og vara sem innihalda slíkar lofttegundir hér á landi. Innflytjendur og söluaðilar skulu senda upplýsingar um innflutning og sölu hér á landi fyrir undan­gengið almanaksár til Umhverfisstofnunar fyrir 1. mars ár hvert.

5. gr.

Skilyrði fyrir afhendingu.

Óheimilt er að afhenda rekstraraðilum flúoraðar gróðurhúsalofttegundir nema við­komandi starfsmenn þeirra hafi hlotið vottun, sbr. 7. gr.

6. gr.

Merkingar vara og búnaðar.

Óheimilt er að flytja, setja á markað eða afhenda vöru og búnað sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, nema á vörunni og búnaðinum sé merkiskilti með viðurkenndum iðnaðarheitum, innihaldslýsingu og varnaðarorðum. Merkingar skulu vera á íslensku.

7. gr.

Menntun og faggilding starfsmanna.

Starfsmönnum er eingöngu heimilt að annast uppsetningu, viðhald, áfyllingu, lekaleit og aðra þjónustu vegna staðbundinna kæli- og varmadælukerfa, loftkælinga, staðbundinna slökkvikerfa, spenna með hárri rafspennu, leysiefna eða loftkælinga í vélknúnum ökutækjum sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, hafi þeir hlotið faggildingu um að þeir uppfylli viðeigandi menntunarkröfur samkvæmt I. – V. viðauka við reglugerð þessa.

Faggilding samkvæmt þessari grein er framkvæmd af skoðunarstofu sem hefur verið faggilt af faggildingarsviði Einkaleyfastofu í samræmi við lög nr. 24/2006 um faggildingu o.fl. Skoðunarstofa gefur út vottorð um faggildingu starfsmanna. Vottorðið skal gilda í fjögur ár en framlengist um önnur fjögur ár hafi viðkomandi starfsmaður sannanlega unnið við umrædd kerfi. Vottorð skal gefið út á íslensku og ensku. Í vottorði skal koma fram með skýrum hætti að starfsmaður fullnægi kröfum viðeigandi reglugerðar Evrópu­sambandsins, sbr. 11. gr. Skoðunarstofa skal halda skrá yfir faggilta einstaklinga og jafnframt senda upplýsingar um útgefin vottorð til Umhverfisstofnunar fyrir undan­gengið almanaksár fyrir 1. mars ár hvert. Umhverfisstofnun heldur skrá yfir starfs­menn sem hlotið hafa faggildingu. Skrár skulu varðveittar í a.m.k. fimm ár.

Faggilding sem veitt hefur verið í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins vegna starfs­manna sem annast verkefni sem getið er um í 1. mgr. skal teljast jafngild faggild­ingu skv. 2. mgr. Umhverfisstofnun getur þó gert að skilyrði að viðkomandi skili inn afriti af prófskírteini, ásamt þýðingum unnum af löggiltum skjalaþýðendum eða öðrum aðilum sem stjórnvöld viðurkenna. Þýðingar mega vera á ensku eða Norðurlanda­máli, öðru en finnsku.

8. gr.

Vottun fyrirtækja.

Fyrirtækjum er eingöngu heimilt að annast uppsetningu staðbundinna kæli- og varma­dælukerfa, loftkælinga, staðbundinna slökkvikerfa, spenna með hárri rafspennu, leysiefna eða loftkælinga í vélknúnum ökutækjum, sem innihalda flúoraðar gróðurhúsa­lofttegundir, eða viðhald eða þjónustu slíks búnaðar eða kerfa, hafi þau hlotið vottun um að þau uppfylli viðeigandi kröfur samkvæmt I. – II. viðauka og að starfsmenn þeirra hafi tilskilin réttindi.

Vottun samkvæmt þessari grein er framkvæmd af skoðunarstofu sem hefur verið faggilt af faggildingarsviði Einkaleyfastofu í samræmi við lög nr. 24/2006 um faggildingu o.fl. Skoðunarstofa gefur út vottorð um vottun fyrirtækja. Vottorðið skal gilda í fjögur ár en hafi viðkomandi fyrirtæki sannanlega unnið við umrædd kerfi framlengist vottorðið um önnur fjögur ár. Vottorðið skal gefið út á íslensku og ensku. Í vottorði skal koma fram með skýrum hætti að fyrirtæki fullnægi kröfum viðeigandi reglugerðar Evrópu­sambandsins, sbr. 11. gr. Skoðunarstofa skal halda skrá yfir fyrirtæki sem hlotið hafa vottun og jafnframt senda upplýsingar um útgefin vottorð til Umhverfisstofnunar fyrir undangengið almanaksár fyrir 1. mars ár hvert. Umhverfisstofnun heldur skrá yfir fyrirtæki sem hlotið hafa vottun. Skrár skulu varðveittar í a.m.k. fimm ár.

Vottun sem framkvæmd hefur verið í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins vegna fyrirtækja sem annast verkefni sem getið er í 1. mgr. skal teljast jafngild faggildingu skv. 2. mgr. Umhverfisstofnun getur þó gert að skilyrði að viðkomandi skili inn afriti af prófskírteini, ásamt þýðingum unnum af löggiltum skjalaþýðendum eða öðrum aðilum sem stjórnvöld viðurkenna. Þýðingar mega vera á ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku.

9. gr.

Eftirlit.

Um eftirlit með reglugerð þessari fer samkvæmt 23. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni.

10. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni.

11. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir Evrópusambandsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. og XX. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

a)

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006 frá 17. maí 2006 um tilteknar flúraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 112/2008. Í samræmi við 1. og 2. gr. ákvörðunarinnar gildir 6. gr. reglugerðarinnar ekki. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 6 frá 5. febrúar 2010 2010/EES/6/39 bls. 215-225.

b)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1494/2007 frá 17. desember 2007 um snið merkimiða og frekari kröfur um merkingar, í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, að því er varðar vörur og búnað sem innihalda tilteknar flúraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 30/2009. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi nr. 6 frá 5. febrúar 2010 2010/EES/6/55 bls. 286-287.

c)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1497/2007 frá 18. desember 2007 um staðlaðar kröfur um eftirlit með leka, í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, að því er varðar föst brunavarnarkerfi sem innihalda tilteknar flúraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 30/2009. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 6 frá 5. febrúar 2010 2010/EES/6/56 bls. 288-289.

d)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1516/2007 frá 19. desember 2007 um staðlaðar kröfur um eftirlit með leka, í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað sem inniheldur tilteknar flúraðar gróðurhúsa­lofttegundir, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 30/2009. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambands­ins nr. 6 frá 5. febrúar 2010 2010/EES/6/57 bls. 290-292.

e)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 303/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun fyrirtækja og starfsfólks að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað sem inniheldur tilteknar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. ákvörðun sameigin­legu EES-nefndarinnar nr. 27/2010. Framangreind reglugerð er birt í fylgiskjali I við þessa reglugerð.

f)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 304/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun fyrirtækja og starfsfólks að því er varðar föst brunavarnarkerfi og slökkvitæki sem innihalda tilteknar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. ákvörðun sameigin­legu EES-nefndarinnar nr. 27/2010. Framangreind reglugerð er birt í fylgiskjali II við þessa reglugerð.

g)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 305/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun starfsfólks sem endurheimtir tilteknar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir úr háspennu­rofbúnaði, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2010. Framangreind reglugerð er birt í fylgiskjali III við þessa reglugerð.

h)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 306/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur og skilyrði fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottun starfsfólks sem endurheimtir tiltekna leysa, sem í eru flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, úr búnaði, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2010. Framan­greind reglugerð er birt í fylgiskjali IV við þessa reglugerð.

i)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 307/2008 frá 2. apríl 2008 um að setja, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, lágmarkskröfur um menntunaráætlanir og skilyrði fyrir gagnkvæmri viður­kenningu á námsvottorðum fyrir starfsfólk að því er varðar loftræstikerfi í tiltekn­um vélknúnum ökutækjum sem innihalda tilteknar flúoraðar gróðurhúsa­lofttegundir, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2010. Framan­greind reglugerð er birt í fylgiskjali V við þessa reglugerð.

j)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 308/2008 frá 2. apríl 2008 um ákvörðun, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, á sniði fyrir tilkynningar um menntunar- og vottunaráætlanir aðildarríkjanna, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2010. Framangreind reglugerð er birt í fylgiskjali VI við þessa reglu­gerð.

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 230/1998 um tiltekin efni sem stuðla að auknum gróðurhúsaáhrifum, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Setning á markað fram til 31. desember 2012.

Fram til 31. desember 2012 er óheimilt að setja á markað hér á landi flúoraðar gróður­húsa­lofttegundir og vörur sem innihalda slíkar lofttegundir, með eftirfarandi undan­tekningum:

1.

Vetnisflúorkolefni (HFC):

a)

í kæli-, og varmadælukerfum, að því gefnu að um sé að ræða loftþétt kerfi sem leiða ekki til beinnar uppgufunar,

b)

í loftkælingum, að því gefnu að um sé að ræða loftþétt kerfi sem leiða ekki til beinnar uppgufunar, og

c)

sem drifefni í lyfjum.

2.

Brennisteinshexaflúoríð (SF6) í rofum og rafbúnaði þar sem aðrar lofttegundir eru ónothæfar.

Ef sérstakar aðstæður mæla með getur umhverfisráðherra fram til 31. desember 2012 veitt tímabundnar undanþágur frá 1. mgr. að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. Í umsókn um undanþágu skal gerð grein fyrir fyrirhugaðri notkun efnisins eða vörunnar og hvers vegna ekki sé hægt að nota önnur efni sem eru minna skaðleg umhverfinu.

Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við ákvæði 9. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, sbr. 11. gr. þessarar reglugerðar.

II.

Bráðabirgðavottun starfsmanna og fyrirtækja.

Starfsmönnum og fyrirtækjum sem við gildistöku þessarar reglugerðar starfa við kæli- og varmadælukerfi, loftkælingar, staðbundin slökkvikerfi, spenna með hárri rafspennu, leysiefni eða loftkælingar í vélknúnum ökutækjum er heimilt að starfa áfram til 4. júlí 2011 þrátt fyrir að hafa ekki hlotið vottun samkvæmt 7. og 8. gr. Heimild þessi gildir eingöngu hér á landi en ekki í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Starfsmenn og fyrirtæki sem framangreint á við um skulu senda umsókn til Umhverfisstofnunar sem gefur út bráðabirgðaskírteini þessu til staðfestingar.

Umhverfisráðuneytinu, 15. október 2010.

F. h. r.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Kristín Rannveig Snorradóttir.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 29. október 2010