Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 452/2007

Nr. 452/2007 17. apríl 2007
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 239/2004, um meistaranám við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands með áorðnum breytingum.

1. gr.

1. gr. reglnanna breytist og verður svohljóðandi:

Hjúkrunarfræðideild veitir menntun til meistaragráðu á þeim sviðum þar sem aðstaða og sérþekking eru fyrir hendi. Náminu er ætlað að efla fræðilega þekkingu í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði, þjálfa hjúkrunarfræðinga í vísindalegum vinnubrögðum og auka færni þeirra í rannsóknar- og þróunarstörfum.

2. gr.

2. málsliður 2. gr., um rannsóknanámsnefnd, breytist og verður svohljóðandi:

Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja nám til meistaragráðu í samvinnu við kennara deildarinnar, fjalla um umsóknir, samþykkja breytingar á námsáætlun (sbr. 4. gr.), skipa í meistaranámsnefndir (sbr. 11. gr.), tilnefna prófdómara fyrir meistarapróf (sbr. 12. gr.) og sjá um meistarapróf.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglnanna, um meðferð umsókna:

2. ml. 2. mgr. verður svohljóðandi:

Umsóknum um meistaranám skulu fylgja námsmarkmið og þeir sem velja 30 eininga lokaverkefni skulu skila inn lýsingu á því (sbr. umsóknareyðublað) og samningi við leið­beinanda.

2. ml. f ) liðar 3. mgr. verður svohljóðandi:

Þeir sem hyggjast hefja meistaranám skulu ganga frá skráningu innan þeirra tímamarka sem gefin eru í inntökubréfi.

4. gr.

Orðið hjúkrunarfræði í 1. ml. 6. gr., um einingafjölda og tímalengd náms, breytist og verður hjúkrunarfræðideild.

5. gr.

1. ml. 7. gr., um samsetningu náms, breytist og verður svohljóðandi:

Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og stór hluti þess er fólginn í vinnu nemanda að eigin rannsóknarverkefni og ritun rannsóknarskýrslu.

6. gr.

3. ml. 8. gr., um námskeið í grunnnámi sem hluta af meistaranámi, breytist og verður svohljóðandi:

Lágmarkseinkunn úr námskeiðum í grunnnámi skal vera heilum hærri en lágmarks­einkunn í viðkomandi námskeiði.

7. gr.

2. ml. 9. gr., um umsjónarkennara og leiðbeinendur, breytist og verður svohljóðandi:

Við upphaf náms leggur umsjónarkennari, ásamt stúdent, fram námsáætlun sem rann­sóknanámsnefnd samþykkir.

8. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 11. gr., um meistaranámsnefndir:

Framan við 1. mgr. kemur ný málsgrein svohljóðandi: Í námsleið sem lýkur með 30 eininga lokaverkefni skal meistaranámsnefnd skipuð þremur sérfróðum mönnum og er einn þeirra umsjónarkennarinn. Í námsleið sem lýkur með 15 eininga lokaverkefni skal meistaranámsnefnd skipuð tveimur sérfróðum mönnum og er einn þeirra umsjónar­kennarinn.

1. mgr. verður 2. mgr.

9. gr.

12. gr., um prófdómara, breytist og verður svohljóðandi:

Rannsóknanámsnefnd tilnefnir prófdómara sem prófa meistaranema og leggja mat á lokaverkefni hans ásamt leiðbeinanda. Einn prófdómari er tilnefndur fyrir 15 eininga lokaverkefni en tveir fyrir 30 eininga lokaverkefni. Prófdómarar skulu ekki vera tengdir lokaverkefninu. Rektor skipar prófdómara að fenginni tilnefningu deildar.

10. gr.

13. gr., um námsmat, skil og frágang meistararitgerða, breytist og verður svohljóðandi:

Lágmarkseinkunn í námskeiðum og meistaraverkefni er 6,0. Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats rannsóknanámsnefndar staðfest námsferilsyfirlit stúdents ásamt samþykki meistaranámsnefndar þess efnis að verkefnið sé tilbúið til varnar. Verkefninu skal skila til prófdómara fjórum vikum fyrir áætlaðan prófdag. Í meistaraverkefni skal vera ítarlegur inngangur þar sem fram kemur staða rannsókna á fræðasviðinu, sú aðferðafræði sem beitt var, niðurstöður og ítarlegar umræður. Í lok ritgerðarinnar skal vera heimildaskrá samkvæmt almennum reglum vísindatímarita. Í ritgerð skal getið stofnunar sem rannsóknin var unnin við og tekið fram hverjir leiðbeinendur voru. Koma skal skýrt fram að verkefnið var unnið við Háskóla Íslands og geta skal þeirra sjóða sem styrktu verkefnið. Meistaraverkefni skal skilað í þremur fullbúnum eintökum sem taka mið af hönnunarstaðli hjúkrunarfræðideildar, eigi síðar en tveimur vikum fyrir áætlaðan brautskráningardag.

Meistaravörn er stýrt af prófstjóra sem rannsóknanámsnefnd tilnefnir. Viðstaddir vörnina auk prófstjóra eru nemandi, leiðbeinandi(ur), prófdómari(ar) sem rannsóknanámsnefnd tilnefnir sbr. 12. gr. og meðlimir meistaranámsnefndar, sé þess óskað. Að lokinni 20-25 mínútna kynningu af hálfu nemandans fá prófdómarar tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og spurningum við nemandann varðandi verkefnið og heyra röksemda­færslur hans. Þegar vörn lýkur dregur nemandi sig í hlé og prófdómari(ar) ásamt leiðbeinanda(um) leggja mat á verkefnið og gefa því einkunn (0-10). Í allt má gera ráð fyrir að meistaravörnin taki um eina til tvær klukkustundir.

Nemandi getur ekki brautskráðst nema hann hafi áður haldið opinberan fyrirlestur um meistaraverkefni sitt á vegum hjúkrunarfræðideildar. Verkefnastjóri framhaldsnáms sér um að skipuleggja fyrirlesturinn í samvinnu við nemanda og leiðbeinanda(ur). Ekki er gerð krafa um aðkomu prófdómara að því ferli.

Hjúkrunarfræðideild tekur ekki þátt í kostnaði vegna meistaraverkefna.

11. gr.

Reglur þessar sem samþykktar hafa verið af deildarfundi í hjúkrunarfræðideild og hlotið staðfestingu háskólaráðs, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og 67. og 68. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 17. apríl 2007.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 23. maí 2007