Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 163/2010

Nr. 163/2010 28. desember 2010
LÖG
um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.
    3. tölul. 4. gr. laganna orðast svo: Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 1.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili frá því að starfsemi hefst.

2. gr.
    Á eftir 5. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, 6. mgr., svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að synja aðila um skráningu á virðisaukaskattsskrá liggi fyrir að opinber gjöld hans séu áætluð á einhverju ári af næstliðnum þremur tekjuárum á undan því ári sem sótt er um skráningu á virðisaukaskattsskrá.

3. gr.
    Í stað orðsins „vélknúinna“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: skráningarskyldra.

4. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna:
    a.    Á eftir orðinu „sérfræðiþjónusta“ í c-lið kemur: sem og gagnavinnsla og upplýsingamiðlun.
    b.    D-liður orðast svo: rafrænt afhent þjónusta; þjónusta þessi telst ávallt nýtt þar sem kaupandi þjónustunnar hefur búsetu eða starfsstöð; sama gildir um sölu gagnavera á hvers kyns blandaðri þjónustu til kaupenda sem búsettir eru erlendis og hafa ekki fasta starfsstöð hér á landi.

5. gr.
    Í stað tilvísunarinnar „sbr. 26. gr.“ í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: sbr. 25. gr.

6. gr.
    Við 1. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skilyrði innskattsfrádráttar er að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

7. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
    a.    Í stað „1.400.000 kr.“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: 3.000.000 kr.
    b.    Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Virðisaukaskattsskýrslu skal skila rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Ríkisskattstjóri getur veitt heimild til eins árs í senn til þess að skila virðisaukaskattsskýrslu á pappír ef gildar ástæður eru fyrir hendi og metur hann í hverju tilviki fyrir sig hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

8. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 25. gr. laganna:
    a.    Í stað orðanna ,,fimmtán daga“ í 1. og 3. málsl. kemur: tuttugu og eins dags.
    b.    Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Með skattákvörðun í þessu sambandi er ekki átt við áætlanir á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. þessarar greinar og 1. og 2. mgr. 26. gr.

9. gr.
    Á eftir 27. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 27. gr. A og 27. gr. B, svohljóðandi:

    a. (27. gr. A.)
    Hafi skattaðili sætt áætlun virðisaukaskatts skv. 25. eða 26. gr. samfellt í tvö ár eða lengur er ríkisskattstjóra heimilt að fella hann af virðisaukaskattsskrá.
    Skattaðili sem hefur verið felldur af virðisaukaskattsskrá skv. 1. mgr. getur ekki skráð sig aftur nema hann hafi gert fullnægjandi skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti. Í stað fullnægjandi skila á virðisaukaskatti getur ríkisskattstjóri heimilað skattaðila að leggja fram tryggingu í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka fyrir endurákvörðuðum virðisaukaskatti skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar, að viðbættu álagi, vöxtum og öðrum innheimtukostnaði.
    Skattaðili sem hefur verið skráður að nýju á virðisaukaskattsskrá skv. 2. mgr. skal nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil í að minnsta kosti tvö ár frá og með því tímabili sem skráning á sér stað að nýju og skal gjalddagi vera 15 dögum eftir að uppgjörstímabili lýkur. Hafi skattaðili gert fullnægjandi skil á þessu tímabili skal hann að því loknu standa skil á virðisaukaskatti samkvæmt almennum reglum 24. gr.
    Ákvæði 3. mgr. gilda einnig um nýskráningu á virðisaukaskattsskrá skv. 5. gr. og endurskráningu skv. 2. mgr. þessarar greinar ef skattaðili sjálfur, eigandi, framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður, sé um félag að ræða, hefur orðið gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir skráningu á virðisaukaskattsskrá.
    Fjármálaráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd þessarar greinar.
    
    b. (27. gr. B.)
    Berist virðisaukaskattsskýrsla eftir að skattaðili hefur sætt áætlun skal ríkisskattstjóri leggja á hann gjald að fjárhæð 5.000 kr. fyrir hverja virðisaukaskattsskýrslu sem hefur ekki verið skilað á réttum tíma skv. 2. mgr. 24. gr.
    Fella má niður gjald skv. 1. mgr. ef skattaðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og metur ríkisskattstjóri það í hverju tilviki hvað skuli telja gildar ástæður í þessu sambandi.
    Innheimtumaður ríkissjóðs annast innheimtu gjaldsins sem rennur í ríkissjóð.

10. gr.
    Í stað orðanna „rannsóknarlögreglustjóra ríkisins“ í 7. mgr. 41. gr. laganna kemur: ríkislögreglustjóra.

11. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
    a.    Í stað orðanna „14 dögum“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: 30 dögum.
    b.    Á eftir 4. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Endurgreiðsla til byggingaraðila sem byggir íbúðarhúsnæði til sölu eða leigu og er skattskyldur skv. 2. mgr. 3. gr. má því aðeins fara fram að hann hafi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir sama tímabil og endurgreiðslubeiðni hans tekur til og skal endurgreiðslu samkvæmt þessum málslið skuldajafnað á móti álögðum virðisaukaskatti sama tímabils.
    c.    4. mgr. fellur brott.

12. gr.
    Á eftir 42. gr. laganna kemur ný grein er verður 42. gr. A, svohljóðandi:
    Innflutningur á netþjónum og tengdum búnaði skal vera undanþeginn virðisaukaskatti í þeim tilvikum þegar eigendur þeirra eru heimilisfastir í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og ekki með fasta starfsstöð hér á landi í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með tengdum búnaði er átt við búnað sem er nauðsynlegur þáttur í virkni netþjónanna og nýtist eingöngu eiganda viðkomandi netþjóns.
    Skilyrði undanþágu skv. 1. mgr. eru:
    1.    Eigandi netþjóna og tengds búnaðar sé í virðisaukaskattsskyldri starfsemi í heimaríki sínu.
    2.    Starfsemi eiganda netþjóna og tengds búnaðar væri skráningarskyld samkvæmt lögum þessum væri hún rekin hér á landi.
    3.    Netþjónar og tengdur búnaður sé gagngert fluttur til landsins til notkunar eða staðsetningar í gagnaveri sem eigandi þeirra er í viðskiptum við.
    4.    Netþjónar og búnaður sé eingöngu nýttur af eigandanum en ekki í annarri starfsemi gagnaversins.
    5.    Vinnsla netþjóna og tengds búnaðar sé nýtt utan Íslands eða í þágu aðila sem ekki eru heimilisfastir eða með fasta starfsstöð hér á landi.
    Í skilningi þessa ákvæðis er gagnaver sérútbúið húsrými sem hannað er fyrir búnað til upplýsingavinnslu og fyrir þá starfsemi sem því tengist.
    Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd og skilyrði undanþágunnar, þ.m.t. til hvaða búnaðar hún nær.
    Grein þessi skal endurskoðuð að tveimur árum liðnum frá því að hún kemur til framkvæmda.

13. gr.
    Ákvæði til bráðabirgða X í lögunum orðast svo:
    Heimilt er að endurgreiða þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna á tímabilinu frá 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2011. Endurgreiðsluheimildin vegna hópferðabifreiða er bundin við ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, eru skráð fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni og eru nýskráð á tímabilinu og búin aflvélum samkvæmt EURO 5 staðli ESB. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslunnar.

14. gr.
    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2010“ í ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum kemur: 31. desember 2011.

15. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum:
    a.    Í stað tilvísunarinnar „1. mgr. 42. gr.“ tvívegis í 1. mgr. kemur: 2. mgr. 42. gr.
    b.    Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2011“ í 1. og 2. mgr. kemur: 1. janúar 2012.

16. gr.
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.
    Ákvæði b-liðar 4. gr. og 12. gr. öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. maí 2011.

Gjört á Bessastöðum, 28. desember 2010.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 30. desember 2010