Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 381/2007

Nr. 381/2007 13. apríl 2007
REGLUR
um merkingar efnis í skófatnaði.

Gildissvið.

1. gr.

Reglur þessar taka til fyrirtækja sem selja skófatnað til neytenda og kveða á um skyldu til að merkja efni í aðalhlutum skófatnaðar.

Skrá, sem ekki er tæmandi, yfir vörurnar sem reglurnar gilda um er að finna í viðauka I.

Reglur þessar gilda ekki um:

– notaðan skófatnað,
– hlífðarskófatnað sem tilskipun 89/686/EBE1 tekur til,
– skófatnað sem tilskipun 76/769/EBE2 tekur til,
– leikfangaskófatnað.

_______
1 EES-gerðir, sérrit nr. 24, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993.
2 EES-gerðir, sérrit nr. 18, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993.

Orðskýringar.

2. gr.

Skófatnaður merkir í reglum þessum allar vörur með sólum sem ætlað er að verja eða þekja fætur, þar með taldir þeir hlutar sem eru markaðssettir sér eins og um getur í viðauka II. Skilgreining á einstökum hlutum skófatnaðar er að finna í viðauka II.

Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.

Neytandi er einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi, enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni.

Merkingar.

3. gr.

Einungis er heimilt að markaðssetja skófatnað ef upplýsingum um samsetningu hans er komið á framfæri með merkingum á þann hátt sem tilgreint er í 4.–9. gr. í reglum þessum.

4. gr.

Samsetning skófatnaðar skal annaðhvort tilgreind með hjálp skýringarmynda eða -texta um tiltekin efni eins og mælt er fyrir um í viðauka III.

Merkingarnar skulu veita upplýsingar um hina þrjá hluta skófatnaðar sbr. skilgreiningu í viðauka II.

5. gr.

Ef um efri hluta skófatnaðar er að ræða skal flokkun efnisins ákvörðuð með hliðsjón af ákvæðum í 6. gr. og í viðauka III án þess að tekið sé tillit til aukahluta eða styrkinga, svo sem ökklavarna, bryddinga, skreytinga, sylgna, leppa og lykkna fyrir bönd auk snúra og þess háttar.

Ef um slitsóla er að ræða skal flokkunin ákvörðuð með hliðsjón af magni efnisins sem í honum er, í samræmi við 6. gr.

6. gr.

Merkingar skulu veita upplýsingar um efnið sem er, í samræmi við viðauka III, minnst 80% af yfirborði efri hluta og fóðurs og bindsóla skófatnaðarins og að minnsta kosti 80% af efnismagni slitsóla. Ef ekkert eitt efni er að minnsta kosti 80% ætti að veita upp­lýsingar um að minnsta kosti tvö af aðalefnunum sem skófatnaðurinn er samsettur úr.

7. gr.

Upplýsingarnar skulu tilgreindar á skófatnaðinum með skýringarmynd eða skýringartexta sbr. viðauka II og III.

8. gr.

Upplýsingarnar skulu að minnsta kosti tilgreindar á öðrum skó hvers pars. Þetta er hægt að gera með því að prenta upplýsingarnar, líma þær eða greypa á skóinn eða nota áfastan merkimiða.

9. gr.

Merkingar skulu vera læsilegar, tryggilega festar og aðgengilegar og skýringarmyndirnar skulu vera nógu stórar til að auðvelt sé að skilja upplýsingarnar sem þær hafa að geyma. Merkingar mega ekki vera villandi fyrir neytendur.

10. gr.

Ef þörf krefur er heimilt að bæta við áföstum upplýsingum í textaformi til viðbótar upp­lýsingunum sem er krafist samkvæmt reglum þessum.

Viðurlög.

11. gr.

Ef brotið er í bága við reglur þessar varðar það viðurlögum skv. 22. og 26. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Gildistaka.

12. gr.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 18. gr. laga nr. 57/2005 um órétt­mæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins, öðlast gildi við birtingu og koma í stað reglna nr. 522/1995 sem falla jafnframt úr gildi.

Með reglunum er Ísland að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).*

Neytendastofu, 13. apríl 2007.

Tryggvi Axelsson.

Kristín Færseth.

* Reglurnar taka mið af tilskipun ráðsins um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um merkingar efnis í aðalhlutum skófatnaðar nr. 94/11/EB.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 4. maí 2007