Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 466/2012

Nr. 466/2012 31. maí 2012
REGLUGERÐ
um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma.

I. KAFLI

Færni- og heilsumatsnefndir.

1. gr.

Starfssvæði færni- og heilsumatsnefnda.

Í hverju heilbrigðisumdæmi, sbr. reglugerð nr. 785/2007, um heilbrigðisumdæmi, með síðari breytingum, skal starfa færni- og heilsumatsnefnd.

2. gr.

Skipan færni- og heilsumatsnefnda.

Velferðarráðherra skipar þriggja manna færni- og heilsumatsnefnd í hverju heilbrigðis­umdæmi til fjögurra ára í senn til að annast mat á þörf einstaklinga fyrir dvöl í hjúkr­unar­rými og dvalarrými, sbr. 5. og 6. gr. Ráðherra er heimilt að skipa sex menn í færni- og heilsumatsnefnd í fjölmennum heilbrigðisumdæmum, svo sem heilbrigðis­umdæmi höfuðborgarsvæðisins.

Hver nefnd skal skipuð lækni með sérmenntun í öldrunar- eða heimilislækningum eða langvinnum sjúkdómum, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu eða hjúkrun langveikra og félagsráðgjafa, sálfræðingi eða öldrunarfræðingi með þekkingu á félagsþjónustu við aldraða eða langveikt fólk. Í sex manna nefnd skulu nefndarmenn uppfylla sömu þekkingarskilyrði og í þriggja manna nefnd og jafnvægi milli sérþekkingar skal vera það sama.

Ráðherra skipar jafnmarga varamenn sem skulu uppfylla sömu menntunarskilyrði og aðalmenn og skal jafnvægi milli sérþekkingar vera það sama.

Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.

3. gr.

Skipunarbréf.

Í skipunarbréfum aðal- og varamanna er gerð grein fyrir skyldum þeirra.

4. gr.

Störf færni- og heilsumatsnefnda.

Fundir skulu haldnir reglulega, a.m.k. mánaðarlega. Í fjölmennum heilbrigðisumdæmum, svo sem heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins, skal þó halda fundi a.m.k. vikulega. Varamenn skulu boðaðir geti aðalmenn ekki sótt reglulega fundi.

Fundarhaldi nefnda skal hagað þannig að alla jafna líði ekki meira en fjórar vikur frá því að færni- og heilsumatsnefnd berst umsókn um færni- og heilsumat þar til niðurstaða liggur fyrir.

Sé nefnd skipuð sex mönnum skal skipta nefndinni í tvennt þannig að annar hluti nefndarinnar meti eingöngu hvíldarinnlagnir, sbr. III. kafla, og skal varaformaður starfa sem formaður í þeim hluta nefndarinnar. Forfallist fulltrúi hinnar tvískiptu nefndar skal kalla til þann fulltrúa úr hinum hluta nefndarinnar sem hefur sömu fagmenntun. Ef fyrr­nefndur fulltrúi er einnig forfallaður skal kalla til varamann með sömu fagmenntun. Ætíð skal þó aðalmaður stýra fundum.

5. gr.

Verkefni færni- og heilsumatsnefnda vegna mats fyrir dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými.

Verkefni nefndanna er að leggja faglegt mat á þörf aldraðs fólks fyrir dvöl í dvalarrými og þörf fólks fyrir dvöl í hjúkrunarrými. Færni- og heilsumatsnefndir skulu í störfum sínum hafa að leiðarljósi það markmið að fólki skuli gert kleift að búa á eigin heimili utan stofnana eins lengi og unnt er með viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu og öðrum raunhæfum úrræðum.

6. gr.

Verkefni færni- og heilsumatsnefnda vegna mats fyrir hvíldarinnlögn í hjúkrunarrými.

Verkefni nefndanna er að leggja faglegt mat á þörf fólks fyrir hvíldarinnlögn í hjúkr­unar­rými, sbr. III. kafla.

II. KAFLI

Dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými. Forsendur og framkvæmd færni- og heilsumats.

7. gr.

Forsenda fyrir mati á þörf fyrir dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými.

Forsenda fyrir gerð færni- og heilsumats er að fyrir liggi skrifleg umsókn, sbr. 8. gr.

8. gr.

Umsókn um færni- og heilsumat. Upplýst samþykki.

Telji einstaklingur að hann þurfi að dvelja til langframa í dvalar- eða hjúkrunarrými skal hann senda skriflega umsókn til færni- og heilsumatsnefndar í því heilbrigðisumdæmi þar sem hann á lögheimili. Umsóknareyðublöð fyrir færni- og heilsumat eru gefin út af embætti landlæknis.

Umsókn um færni- og heilsumat skal því aðeins lögð fram að félagsleg heimaþjónusta, heimahjúkrun og önnur raunhæf úrræði og aðstoð sem eiga að styðja fólk til búsetu í heimahúsi séu fullreynd.

Búi viðkomandi einstaklingur í dvalarrými og óski eftir dvöl í hjúkrunarrými, skal tekið fram í umsókninni að hann telji að þjónustan sem veitt er á dvalarheimilinu sé ekki lengur nægileg heilsu hans vegna. Umsóknin skal send færni- og heilsumatsnefnd í heilbrigðisumdæmi stofnunarinnar þar sem viðkomandi á lögheimili.

Miða skal við að alla jafna líði ekki meira en fjórar vikur frá því að færni- og heilsu­mats­nefnd berst umsókn um færni- og heilsumat þar til að niðurstaða liggur fyrir.

Með umsókn þarf að fylgja samþykki einstaklingsins sem heimilar færni- og heilsu­mats­nefnd að afla upplýsinga um viðkomandi einstakling frá veitendum heilbrigðis- og félags­þjónustu. Samþykkið felur einnig í sér að niðurstöður nefndarinnar verði sendar þessum sömu aðilum.

9. gr.

Flutningur af sjúkrahúsi.

Hafi aldraður einstaklingur verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar með­ferðar skal meta þörf hans fyrir dvöl á öldrunarstofnunum eða fyrir önnur úrræði.

10. gr.

Ábyrgð færni- og heilsumatsnefnda.

Færni- og heilsumatsnefndir eru ábyrgar fyrir mati á dvalarþörf íbúa í því heilbrigðis­umdæmi sem þær starfa. Ábyrgðin felur meðal annars í sér að afla allra áskilinna gagna og upplýsinga, sbr. 11. gr., og tryggja að fagleg sjónarmið ráði ferðinni við matsgerðina. Færni- og heilsumatsnefndir bera ábyrgð á rafrænni skráningu færni- og heilsu­matsins og að meðferð og varðveisla gagna sem færni- og heilsumatið byggist á samræmist lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Nefndirnar bera einnig ábyrgð á að kynna niðurstöður færni- og heilsumats þeim sem málið varðar, sbr. 12. gr. Þeir sem sinna færni- og heilsumati eru bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu í samræmi við 12. og 13. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga.

Færni- og heilsumatsnefndir skulu við meðferð mála fara að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

11. gr.

Framkvæmd færni- og heilsumats.

Þegar færni- og heilsumatsnefnd hefur borist umsókn um færni- og heilsumat, sbr. 8. gr., skal nefndin afla skriflegra upplýsinga frá heimahjúkrun og félagsþjónustu um aðstæður viðkomandi einstaklings og kanna gaumgæfilega hvort öll raunhæf félagsleg og heilsufarsleg úrræði og aðstoð til dvalar í heimahúsi hafi verið fullreynd. Nýta skal upplýsingar úr InterRAI-matskerfinu þar sem það er í notkun. Auk þessa skal færni- og heilsumatsnefndin afla læknabréfa og hjúkrunarbréfa um viðkomandi einstakling, eftir því sem við á, frá hlutaðeigandi fagfólki og sjúkrastofnunum. Þá skal nefndin ganga úr skugga um það eins og kostur er að viðeigandi greiningarvinna, meðferð og endurhæfing hafi verið reynd til fullnustu með bætta heilsu og sjálfsbjargargetu að leiðarljósi. Hafi einstaklingur orðið bráðveikur skal þá fyrst meta hann þegar veikindin eru um garð gengin og eftir atvikum endurhæfingu lokið.

Þörf einstaklingsins skal metin og skýrð í stigum.

Komist færni- og heilsumatsnefnd að þeirri niðurstöðu að öll raunhæf félagsleg og heilsufarsleg úrræði hafi ekki verið fullreynd og að vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými sé ekki tímabær skal sú niðurstaða skráð í rafræna vistunarskrá og hún kynnt, sbr. 12. gr.

Skráning upplýsinga í rafræna færni- og heilsumatsskrá skal gerð í samræmi við notendahandbók sem fylgir matskerfinu. Færni- og heilsumatsnefnd aflar upplýsinganna í samvinnu við starfsfólk félagsþjónustu og þá heilbrigðisstarfsmenn sem þekkja til viðkomandi einstaklings. Nefndin er ábyrg fyrir skráningu upplýsinganna og ber að staðfesta réttmæti þeirra.

12. gr.

Kynning á niðurstöðum færni- og heilsumats. Málskot.

Sé einstaklingur metinn í þörf fyrir dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými skal niðurstaðan kynnt honum skriflega og afrit sent heimilislækni, heimahjúkrun og félagsþjónustu.

Telji færni- og heilsumatsnefnd að dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými sé ekki tímabær og að önnur raunhæf úrræði hafi ekki verið fullreynd skal nefndin kynna þá niðurstöðu skriflega fyrir viðkomandi einstaklingi ásamt rökstuðningi. Jafnframt skal senda afrit til heimilislæknis, heimahjúkrunar og félagsþjónustu.

Sætti viðkomandi einstaklingur sig ekki við niðurstöðu færni- og heilsumatsins getur hann skotið niðurstöðunni til ráðherra, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

13. gr.

Gildistími færni- og heilsumats og endurmat á þörf fyrir dvöl.

Ef einstaklingur er metinn í þörf fyrir dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými gildir færni- og heilsumatið í tólf mánuði frá undirritun þess. Fari ekki fram endurmat innan tólf mánaða fellur færni- og heilsumat viðkomandi einstaklings úr gildi. Áður en færni- og heilsumat fellur úr gildi skal færni- og heilsumatsnefnd kynna það fyrir þeim sem hlut eiga að máli með óyggjandi hætti og kanna hvort þörf sé fyrir endurmat.

14. gr.

Ákvörðun um dvöl.

Stjórn eða matsteymi stofnana tekur ákvörðun um dvöl einstaklings í dvalar- eða hjúkrunarrými í samræmi við niðurstöður færni- og heilsumatsnefndar í sínu heilbrigðis­umdæmi nema sérstakir þjónustusamningar kveði á um annað. Þegar dvalar- eða hjúkr­unar­rými losnar á stofnun skal færni- og heilsumatsnefnd veita stofnuninni aðgang að upplýsingum um tvo einstaklinga sem óskað hafa eftir að dvelja þar og eru metnir í mestri þörf umsækjenda fyrir dvalar- eða hjúkrunarrými samkvæmt niður­stöðum færni- og heilsumatsnefndar. Ákvörðun um þessa tvo einstaklinga skal byggð á stigafjölda samkvæmt færni- og heilsumati. Einnig skal höfð hliðsjón af því hvort viðkom­andi hafi legið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án möguleika á útskrift nema í dvalar- eða hjúkrunarrými eða hvort viðkomandi hafi beðið lengi í mikilli þörf fyrir dvöl.

Einstaklingur sem að öðru jöfnu þarf að bíða á sjúkrahúsi eftir rými á dvalar- eða hjúkrunarheimili skal einnig hafa þá möguleika að bíða eftir því heimili sem hann óskar eftir á öðru dvalar- eða hjúkrunarheimili, ef viðkomandi einstaklingur kýs svo, án þess að það komi niður á möguleikum hans á dvöl á því dvalar- eða hjúkrunarheimili sem hann hefur óskað eftir. Skal hann teljast þar á vegum viðkomandi sjúkrahúss þar til varanlegt dvalarúrræði býðst.

15. gr.

Tilkynning um dvöl.

Þegar ákvörðun um dvöl einstaklings í dvalar- eða hjúkrunarrými liggur fyrir, sbr. 14. gr., skal tilkynna hlutaðeigandi einstaklingi ákvörðunina og jafnframt skal hún tilkynnt færni- og heilsumatsnefnd í viðkomandi heilbrigðisumdæmi. Færni- og heilsumatsnefnd skal senda öll gögn sem varða viðkomandi einstakling til stofnunarinnar þar sem hann dvelur og skulu þau geymd í sjúkraskrá hans. Einnig skal færni- og heilsumatsnefnd senda tilkynningu um dvöl viðkomandi einstaklings til Tryggingastofnunar ríkisins.

III. KAFLI

Hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili.

16. gr.

Skilgreining á hvíldarinnlögn.

Með hvíldarinnlögn er átt við tímabundna dvöl í hjúkrunarrými. Dvölin getur staðið yfir frá nokkrum dögum allt að átta vikum. Markmiðið með hvíldarinnlögn er að gera fólki kleift að búa áfram á eigin heimili með:

  1. tímabundinni endurhæfingu,
  2. reglubundinni hvíldarinnlögn,
  3. tímabundinni umönnun vegna sértækra vandamála, svo sem heilabilunar.

Jafnframt getur hvíldarinnlögn verið veitt þegar nákominn einstaklingur sem stutt hefur viðkomandi þarfnast hvíldar eða forfallast skyndilega.

17. gr.

Umsókn um hvíldarinnlögn.

Þurfi einstaklingur á hvíldarinnlögn í hjúkrunarrými að halda skal senda skriflega umsókn til færni- og heilsumatsnefndar í því heilbrigðisumdæmi þar sem hann á lögheimili og skal sú umsókn afgreidd innan viku.

18. gr.

Forsenda fyrir mati á þörf fyrir hvíldarinnlögn í hjúkrunarrými.

Forsenda fyrir gerð færni- og heilsumats er að fyrir liggi skrifleg umsókn.

Í undantekningartilvikum getur fagfólk metið bráða­hvíldarinnlögn nauðsynlega og fer þá færni- og heilsumatið fram eftir á. Skal matið fara fram innan viku frá því að bráðahvíldarinnlögn var ákveðin.

Ef færni- og heilsumatsnefnd telur að loknu mati að bráðahvíldarinnlögn hafi ekki verið nauðsynleg, hefur það ekki áhrif á greiðslu til viðkomandi stofnunar.

19. gr.

Framkvæmd hvíldarinnlagna.

Ef einstaklingur er þegar kominn með færni- og heilsumat um þörf fyrir dvöl í hjúkrunar- eða dvalarrými en hefur ekki enn fengið dvöl á slíku heimili getur fagfólk á hverjum stað tekið ákvörðun um hvíldarinnlögn án þess að sú ákvörðun fari sérstaklega fyrir færni- og heilsumatsnefnd.

Ef einstaklingur er metinn í þörf fyrir reglubundna hvíldarinnlögn, gildir það mat þar til ekki er talin þörf fyrir slíkar innlagnir.

Sé óskað framlengingar á hvíldarinnlögn skal senda slíka umsókn til færni- og heilsu­mats­nefndar. Ekki er hægt að framlengja hvíldarinnlögn nema nefndin meti þörf á því.

Færni- og heilsumatsnefnd getur lagt faglegt mat á hvers konar hvíldarinnlögn henti við­komandi einstaklingi best til þess að hann geti búið lengur á eigin heimili.

Færni- og heilsumatsnefnd getur einnig lagt faglegt mat á hversu langur tími í hvíldar­innlögn henti viðkomandi einstaklingi best.

Nefndin skal leggja fram tillögur til hjúkrunar- og dvalarheimila um þá einstaklinga sem koma til greina að fara í hvíldarinnlögn á viðkomandi heimili.

Að öðru leyti skal við framkvæmd hvíldarinnlagna farið að sömu reglum og gilda um færni- og heilsumat í reglugerð þessari.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

20. gr.

Umsjón og eftirlit embættis landlæknis.

Embætti landlæknis hefur yfirumsjón með framkvæmd mats samkvæmt reglugerð þessari á landsvísu. Umsjónin felur í sér leiðbeiningar til færni- og heilsumatsnefndanna um upplýsingaöflun og gerð færni- og heilsumats. Embætti landlæknis skal halda reglu­lega samráðs- og fræðslufundi með færni- og heilsumatsnefndum um framkvæmd­ina.

Embætti landlæknis fer með faglegt eftirlit með störfum nefndanna og hefur umsjón með rekstri, viðhaldi og þróun rafrænnar skrár um dvöl í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

21. gr.

Kostnaður.

Kostnaður af starfi nefndanna greiðist úr ríkissjóði. Embætti landlæknis sér um greiðslur alls kostnaðar.

Stofnanir þar sem nefndirnar og starfsmenn þeirra hafa aðsetur skulu útvega aðstöðu og nauðsynlegan búnað.

Ráðherra ákvarðar greiðslur til nefndarmanna.

22. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 15. gr. laga, nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðis­þjónustu, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. júní 2012. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerðir nr. 1000/2008, um vistunarmat vegna hjúkrunarrýma, og nr. 543/2008, um mat á þörf aldraðra fyrir dvalarrými.

Ákvarðanir um dvöl í hjúkrunar- eða dvalarrými og hvíldarinnlagnir sem teknar hafa verið fyrir 1. júní 2012 skulu standa óhaggaðar.

Velferðarráðuneytinu, 31. maí 2012.

Guðbjartur Hannesson.

Bryndís Þorvaldsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 31. maí 2012