Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 956/2006

Nr. 956/2006 9. nóvember 2006
REGLUGERÐ
um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Neytendastofu.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til faggiltra prófunarstofa sem starfa við löggildingar í umboði Neytendastofu og mælifræðilegt eftirlit á starfssviði sínu, sbr. 2. gr.

2. gr.

Hlutverk prófunarstofu.

Prófunarstofa annast mælifræðilegt eftirlit í umboði Neytendastofu í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að mælifræðilegar niðurstöður mælitækja í notkun séu réttar og uppfylli kröfur um nákvæmni sem gerðar eru í lögum og reglum settum samkvæmt þeim.

3. gr.

Skilgreiningar.

Prófunarstofa: merkir í reglugerð þessari prófunarstofu sem hlotið hefur umboð til að annast löggild­ingar mælitækja í umboði Neytendastofu og hlotið faggildingu til lög­gild­ingar mælitækja samkvæmt ákvæðum laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og reglna settra sam­kvæmt þeim.

Mælitæki: er tæki sem ætlað er, eitt sér eða ásamt tilheyrandi og viðurkenndum við­bótar­tækjum til að framkvæma mælingu.

Löggilding mælitækis: er aðgerð til að tryggja og staðfesta formlega að mælitæki fullnægi öllum kröfum laga og reglugerða og fer hún fram með athugun, merkingu og útgáfu vottorðs og er venjulega lokið með innsiglun á aðgengi stillinga.

Mælifræðilegt eftirlit: er eftirlit með framleiðslu, innflutningi, uppsetningu, notkun, viðhaldi og viðgerð á mælitækjum, framkvæmt til að athuga hvort tækin séu notuð rétt eins og lög og reglugerðir um mælifræði segja, þ.m.t. hvort forpakkningar innihaldi leyfilega þyngd og hvort hún sé rétt mæld.

Ábyrgðaraðili: er eigandi, eða annar ábyrgðaraðili þegar það á við, sem ber ábyrgð á að mælitæki í notkun uppfylli ávallt reglur sem kveðið er á um í lögum og reglum settum samkvæmt þeim og er hann ábyrgur fyrir greiðslu löggildingargjalds í samræmi við ákvæði IX. kafla laga, nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og ber ábyrgð á viðhaldi löggildingar á löggildingarskyldu mælitæki í notkun.

Löggildingartákn: er tákn með auðkenni Neytendastofu og skjaldarmerki Íslands sem sýnir að mælitæki hefur verið löggilt þar sem ártal fylgir, ásamt faggildingarnúmeri próf­unar­stofu, sbr. nánari ákvæði í reglugerð um löggildingartákn og merkingar eftirlits­skyldra mælitækja.

Löggildingarvottorð: er vottorð sem sýnir að mælitæki hafi staðist kröfur laga og reglna settra samkvæmt þeim um löggildingu.

Löggildingarhæfi mælitækis: merkir að mælitæki uppfylli kröfur laga og reglna settra samkvæmt þeim um markaðssetningu og fyrstu notkun, séu rétt merkt, rétt upp sett og standist tilskildar prófanir.

Löggildingarsvið: eru þau svið sem löggildingar mælitækja skiptast í og afmarkast af þeim reglugerðum sem fjalla um löggildingar einstakra flokka þeirra utan reglna sem gilda um löggildingar ósjálfvirkra voga þar sem löggildingarsviði er frekar skipt upp.

Faggilding: er formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat.

Samræmismat: er mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur.

Tilkynntur aðili: er aðili sem stjórnvöld hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, fram­kvæmda­stjórnar ESB og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins að upp­fylli kröfur til þess að fást við samræmismat samkvæmt tiltekinni tæknilegri reglu­gerð.

Mæligrunnur: er efnismát, mælitæki, viðmiðunarefni eða mælikerfi sem ætlað er til að skilgreina, raungera, varðveita, birta eða endurgera mælieiningu eða eina eða fleiri stærðir sem hafa skal til viðmiðunar.

Yfireftirlit: merkir eftirlit Neytendastofu með ákvæðum í lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og að reglum settum samkvæmt þeim á sviði mælifræði sé fylgt í framkvæmd, yfirumsjón með eftirliti sem einkaaðilar framkvæma í umboði hennar svo og taka stjórnvaldsákvarðana á grundvelli laga sem gilda um mælifræðilegt eftirlit.

Löggildingargjald: er gjald sem prófunarstofur innheimta af eiganda, eða ábyrgðaraðila þegar það á við, og skila Neytendastofu fyrir umsýslu og yfireftirlit hennar með framkvæmd löggildinga á viðkomandi löggildingarsviði í samræmi við ákvæði í gjaldskrá Neytendastofu sem staðfest er af ráðherra, samkvæmt 3. mgr. 31. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

4. gr.

Starfsumhverfi.

Prófunarstofa skal hafa hlotið faggildingu í samræmi við lög nr. 24/2006 um faggildingu o.fl. samkvæmt staðlinum ÍST EN 17025, sbr. lög nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og reglur settar samkvæmt þeim.

Prófunarstofu er aðeins heimilt að löggilda þau mælitæki sem umboð hennar nær til og skal hún geta löggilt öll mælitæki sem falla undir viðkomandi löggildingarsvið eins og það er afmarkað af reglum um viðkomandi flokk mælitækja. Prófunarstofu má faggilda til að annast löggildingar á fleiri en einu löggildingarsviði en ekki hluta af sviði.

Umsækjandi skal leggja inn umsókn til Neytendastofu ásamt fylgigögnum og öðrum upplýsingum sem hún telur nauðsynlegar til afgreiðslu umsóknarinnar og veitingu umboðs til eftirlits í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og eðli máls.

Um störf og starfsemi prófunarstofu fer að öðru leyti eftir ákvæðum í lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, eftir því sem við getur átt.

5. gr.

Umboð til eftirlits.

Prófunarstofa sem vill annast löggildingar í umboði Neytendastofu skal jafnframt uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Prófunarstofa og starfsmenn hennar skal vera óháð eftirlitsskyldum aðilum og hafa sérþekkingu og hæfni á viðkomandi sviði, sem staðfest er með faggildingu starfseminnar.
  2. Í faggildingarúttekt skal staðfest að mæligrunnar og mælitæki sem prófunarstofa notar við löggildingar séu kvörðuð og skal kvörðunin vera rekjanleg til mæli­grunna sem Neytendastofa viðurkennir.
  3. Í faggildingarúttekt skal prófunarstofa sýna fram á að heildaróvissa við lög­gild­ingar sem hún annast eða ætlar sér að annast sé ekki meiri en þriðjungur af leyfilegu hámarksfráviki mælitækisins. Prófunarstofa skal einnig sýna fram á að áhrifa­þættir svo sem umhverfisaðstæður, sem framkvæmd löggildinga verður heimiluð við, geti ekki aukið heildaróvissuna upp fyrir framangreint hámark.

Umboð er auk þess háð því skilyrði að starfsvettvangur prófunarstofu er landið allt á þeim löggildingarsviðum sem umboðið tekur til. Berist prófunarstofu ósk um löggildingu mælitækis, sem fellur undir löggildingarsvið hennar er henni hvorki heimilt að hafna löggildingu vegna landfræðilegrar staðsetningar mælitækis, sem prófað er á vettvangi, né af öðrum þeim sökum sem teljast þrengja starfssvið prófunarstofunnar. Hún skal framkvæma löggildinguna svo skjótt sem auðið er.

6. gr.

Bráðabirgðaumboð.

Þegar aðili sækir í fyrsta sinn um umboð til að framkvæma löggildingar er hægt að veita honum það til bráðabirgða. Bráðabirgðaumboð gildir aldrei lengur en til eins árs. Á þessum tíma getur hann löggilt tæki eins og um prófunarstofu sé að ræða.

Aðili getur aðeins fengið bráðabirgðaumboð einu sinni fyrir hvert löggildingarsvið.

Þeir sem sækja um bráðabirgðaumboð skulu hafa komið upp nauðsynlegu gæðakerfi og verklagsreglum ásamt því að leggja fram áætlun um á hvern hátt þeir hyggjast nota aðlögunartímann til að byggja upp starfsemi sína til að uppfylla öll þau ákvæði sem liggja til grundvallar fullu umboði til eftirlits.

Áður en bráðabirgðaumboð er veitt skal umsækjandi sýna fram á að hann hafi sótt um forúttekt faggildingarsviðs Einkaleyfastofu.

Bráðabirgðaumboð fellur úr gildi þegar í stað ef faggildingar er synjað.

7. gr.

Fyrsta notkun og merking mælitækis um löggildingarhæfi.

Mælitæki, sem uppfyllir ákvæði laga og reglugerða um markaðssetningu á Evrópska efnahagssvæðinu telst mæla rétt þegar það er rétt sett á markað og tekið í notkun enda hafi það réttar stillingar fyrir Ísland, er löggildingarhæft mælitæki og telst vera löggilt til fyrstu notkunar.

Mælitæki samkvæmt þessari grein sem uppfyllir kröfur, sbr. 1. mgr. er heimilt að taka í fyrstu notkun án löggildingar prófunarstofu.

Ábyrgðaraðili ber ábyrgð á að mælitæki sem tekið er í fyrstu notkun beri rétt merki í samræmi við ákvæði í reglugerð um löggildingartákn og merkingar eftirlitsskyldra mæli­tækja.

Um löggildingu og gildistíma löggildingar mælitækja í notkun fer eftir ákvæðum reglu­gerða sem gilda um löggildingar hlutaðeigandi mælitækjaflokka.

Neytendastofa birtir og uppfærir reglulega upplýsingar um hvaða mælitæki eru eftir­lits­skyld og skal löggilda samkvæmt lögum og reglum sem gilda hér á landi.

8. gr.

Löggilding mælitækis og notkun löggildingartákna.

Prófunarstofa annast framkvæmd reglubundinna löggildinga mælitækja í notkun í sam­ræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Tæknileg framkvæmd löggildinga skal vera í samræmi við ákvæði laga og ákvæða í viðeigandi reglugerðum sem gilda um löggildingar einstakra mælitækjaflokka.

Prófunarstofu er heimilt að stilla mælitæki inn fyrir leyfileg fráviksmörk þegar það reynist nauðsynlegt. Skýrsla er gerð um prófunina og gefið er út vottorð og löggildingu mælitækisins er lokið. Um löggildingartákn og merkingar fer samkvæmt ákvæðum í reglugerð um löggildingartákn og merkingar eftirlitsskyldra mælitækja.

9. gr.

Um réttindi og skyldur prófunarstofa.

Um réttindi og skyldur prófunarstofa, svo sem rétt þeirra til að hafa óhindrað aðgengi að starfsstöðvum og innréttingum eftirlitsskyldra aðila, rétt til upplýsinga frá eftirlitsskyldum aðilum og aðstoð þeirra við framkvæmd eftirlits með mælitækjum, þagnarskyldu o.fl. fer eftir ákvæðum í VI. kafla laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn svo og öðrum ákvæðum sem um þetta gilda samkvæmt umboði Neytendastofu, stjórn­sýslu­lögum eða eðli máls.

10. gr.

Löggildingartákn, innsigli og skýrslublöð.

Prófunarstofa annast framkvæmd löggildingar mælitækis í samræmi við umboð sitt og annast merkingu mælitækja með viðeigandi löggildingartáknum í samræmi við lög og reglugerðir settar samkvæmt þeim.

Neytendastofa lætur prófunarstofu í té löggildingartákn, sbr. ákvæði í reglugerð um lög­gildingar­tákn og merkingar eftirlitsskyldra mælitækja. Ekki má nota önnur lög­gildingar­tákn en þau sem Neytendastofa hefur látið í té.

Prófunarstofa skal skila Neytendastofu skýrslum á því formi sem Neytendastofa ákveður þar sem fram koma upplýsingar um fjölda löggildinga mælitækja og önnur atriði sem nauðsynleg eru vegna yfireftirlits Neytendastofu samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

11. gr.

Samskipti.

Upplýsingum um niðurstöður löggildinga mælitækja skal skila til Neytendastofu mán­aðar­lega. Í upplýsingum sem sendar eru til Neytendastofu skulu koma fram að lág­marki eftirfarandi upplýsingar fyrir hvert löggilt mælitæki:

  1. Nafn, kennitala og aðsetur eiganda eða ábyrgðaraðila mælitækisins.
  2. Kennistærðir mælitækisins, svo og raðnúmer.
  3. Dagsetning löggildingar og gildistími.
  4. Löggildingarstaða mælitækis fyrir prófun.

Prófunarstofa skal einnig hafa aðgengilegar upplýsingar um beiðnir sem henni hafa borist um löggildingar mælitækja og um stöðu verka í vinnslu þegar það á við og sem nauðsynlegar eru vegna yfireftirlits Neytendastofu með framkvæmd laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Prófunarstofa skal skila ársskýrslu í samræmi við verklagsreglur Neytendastofu þar að lútandi með tölfræðilegum upplýsingum um niðurstöður löggildinga síðastliðið ár, m.a. upplýsingar um frávik og stillingar og önnur atriði sem mikilvæg eru vegna yfireftirlits á sviði mælifræði.

Prófunarstofa gerir skilagrein löggildingargjalds á gjalddaga hvers uppgjörstímabils á því formi sem Neytendastofa ákveður í samræmi við ákvæði 34. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Nú kemur fram við störf prófunarstofu að rökstuddur grunur sé til að ætla að eftirlits­skyldur aðili brjóti gegn ákvæðum laga nr. 91/2006 og reglna settra samkvæmt þeim skal hún jafnframt tilkynna þegar í stað um slík ætluð brot til Neytendastofu.

12. gr.

Afturköllun umboðs.

Neytendastofa getur afturkallað umboð prófunarstofu ef skilyrði fyrir því eru ekki lengur fyrir hendi. Sama á við ef hún hlítir ekki fyrirmælum Neytendastofu eða vanrækir hlutverk sitt og skyldur eða sýnir af sér ítrekaða óvarkárni. Um málsmeðferð samkvæmt þessari grein fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt.

Umboð fellur sjálfkrafa niður hafi faggildingarsvið Einkaleyfastofu svipt prófunarstofu faggildingu sinni.

13. gr.

Viðurlög.

Nú neitar eftirlitsskyldur aðili prófunarstofu um upplýsingar sem honum er skylt að láta í té, sbr. 20. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, þá getur prófunarstofa óskað eftir ákvörðun Neytendastofu til að beita viðurlögum í samræmi við heimildir í XI. kafla, réttarúrræði, viðurlög, o.fl. Hið sama gildir ef hún telur að afturkalla skuli löggildingu í samræmi við ákvæði 38. gr. laga nr. 91/2006. Um önnur viðurlög við brotum eftirlitsskyldra aðila eða prófunarstofu fer að öðru leyti eftir ákvæðum í lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn nema þyngri refsingar liggi við brotum lögum samkvæmt.

14. gr.

Gjaldskrá og innheimta löggildingargjalds.

Gjaldskrá prófunarstofu skal vera opinber og skal prófunarstofa sem annast löggildingu jafnframt innheimta löggildingargjald af eigendum eða eftir atvikum ábyrgðaraðilum er þeir löggilda mælitæki í samræmi við gjaldskrá sem ráðherra setur skv. 31. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Ábyrgðaraðili er ábyrgur fyrir greiðslu löggildingargjalds í samræmi við ákvæði IX. kafla laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn. Um skilagrein prófunarstofu á löggildingargjaldi, gjalddaga þess, dráttarvexti og skýrslur fer einnig eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/2006 og reglum settum samkvæmt þeim, eftir því sem við getur átt.

15. gr.

Málskot.

Um meðferð mála hjá Neytendastofu fer samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Komi upp ágreiningur um úrskurð Neytendastofu um einhver atriði varðandi ákvæði eða beitingu þessarar reglugerðar má skjóta málinu til áfrýjunarnefndar neytendamála.

Ákvörðunum Neytendastofu um dagsektir og stjórnvaldssektir vegna brota sem framin eru gegn IV. kafla laga nr. 91/2006, er heimilt að áfrýja til áfrýjunarnefndar neyt­enda­mála innan lögbundinna frestsskilyrða og verður ágreiningur um slíkar ákvarðanir ekki borinn undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 44. gr. laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 648/2000 ásamt síðari breytingum um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Málskot er heimilt til ráðherra þar til að almennt málskot til áfrýjunarnefndar neyt­enda­mála hefur verið heimilað með breytingu á lögum nr. 91/2006.

Viðskiptaráðuneytinu, 9. nóvember 2006.

Jón Sigurðsson.

Kristján Skarphéðinsson.

B deild - Útgáfud.: 24. nóvember 2006