Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 705/2008

Nr. 705/2008 4. júlí 2008
REGLUR
um samræmingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna sem falla undir norrænt samkomulag um lífeyrismál.

1. gr.

Gildissvið og tilgangur.

Reglur þessar taka til ríkisstarfsmanna sem hafa áunnið sér lífeyrisréttindi í störfum sem falla undir samkomulag Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar frá 1. júní 2001, um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Í reglum þessum nefnt samkomulagið.

Til ríkisstarfsmanna samkvæmt reglum þessum teljast þeir sem falla undir gildissvið laga um réttindi og skyldur starfmanna ríkisins og hafa öðlast lífeyrisréttindi samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Reglunum er ætlað að stuðla að því að lífeyrismál komi ekki í veg fyrir að ríkisstarfsmenn taki við samsvarandi starfi í öðru norrænu landi.

2. gr.

Samræming réttinda.

Við beitingu samkomulagsins skal við það miðað að ríkisstarfsmaður hvorki tapi áunnum réttindum né öðlist aukin réttindi við að hann taki við sambærilegu starfi í öðru norrænu landi.

3. gr.

Starfstími í samsvarandi starfi.

Ríkisstarfsmaður getur óskað eftir því að litið sé til réttindatímabila í öðru norrænu landi til að virkja rétt til lífeyris eða til að iðgjaldagreiðsluskylda hans falli niður.

Samkomulagið tryggir ríkisstarfsmanni ekki áframhaldandi aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 1/1997, né að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, sbr. 6. mgr. 17. gr. laga nr. 2/1997, hafi hann látið af starfi sínu hér á landi vegna starfa erlendis lengur en í 12 mánuði. Þetta á þó ekki við um launalaus leyfi frá starfi.

4. gr.

Um útborgun lífeyris.

Jafnan skal miða við að lífeyrisþegi geti, þegar hann óskar þess, notið áunninna lífeyrisréttinda í öðru norrænu landi frá sama tíma og hann öðlast rétt til töku lífeyris í því landi þar sem lífeyrisgreiðslur til hans hefjast enda hefjist taka lífeyris í beinu framhaldi af starfslokum eða fráfalli starfsmannsins.

Ríkisstarfsmaður, sem lætur af starfi í öðru norrænu landi og hefur töku ellilífeyris samkvæmt reglum þess lands en hefur jafnframt áunnið sér lífeyriséttindi í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, getur farið fram á að réttindi úr þessum sjóðum verði virk frá sama tíma, þó svo að hann hafi ekki öðlast rétt til töku lífeyris samkvæmt almennum reglum um sjóðina. Taka ellilífeyris er þó fyrst möguleg eftir 60 ára aldur.

Nú ákveður ríkisstarfsmaður að hefja töku ellilífeyris úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga áður en hann hefur öðlast rétt til hans, sbr. 2. mgr., og skal þá lækka réttindi hans hlutfallslega svo að heildarskuldbindingar sjóðsins aukist ekki. Leggja skal til grundvallar útreikning tryggingafræðings, sem byggður er á sömu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins.

5. gr.

Framkvæmd og skipulag.

Fjármálaráðherra er í fyrirsvari gagnvart öðrum aðilum samkomulagsins um framkvæmd þess og um úrlausn deilumála sem upp kunna að rísa við túlkun eða beitingu þess.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tekur við umsóknum um útborgun lífeyris, annast útreikning hans og veitir jafnframt upplýsingar og leiðbeiningar til ríkisstarfsmanna um réttindi þeirra samkvæmt samkomulaginu. Lífeyrissjóðurinn gerir fjármálaráðuneytinu grein fyrir framkomnum umsóknum og útreikningum sínum.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins annast greiðslu lífeyris samkvæmt samkomulaginu. Mismunur sem leiðir af framkvæmd þess og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, greiðist úr ríkissjóði.

Telji ríkisstarfsmaður að lífeyrir hans sé ekki rétt ákveðinn samkvæmt samkomulaginu eða reglum þessum, sker fjármálaráðherra úr.

6. gr.

Kostnaður.

Fjármálaráðuneytið ber kostnað af framkvæmd reglna þessara og gerir samning við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um uppgjör á kostnaði sjóðsins af framkvæmd þeirra.

7. gr.

Lagaheimild og gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 41. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 27. gr. laga nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Reglur þessar öðlast þegar gildi og taka til þeirra sem öðlast hafa lífeyrisréttindi vegna starfa sem falla undir samkomulagið, sem undirritað var 1. júní 2001 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda og tók gildi 1. mars 2002, en höfðu ekki hafið töku lífeyris við gildistöku þess.

Fjármálaráðuneytinu, 4. júlí 2008.

F. h. r.
Ingvi Már Pálsson.

Lilja Sturludóttir.

B deild - Útgáfud.: 16. júlí 2008