Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 46/2013

Nr. 46/2013 8. janúar 2013
AUGLÝSING
ríkisskattstjóra um gjaldstofn búnaðargjalds vegna rekstrarársins 2012.

Eftirfarandi reglur skulu gilda um ákvörðun búnaðargjaldsstofns við álagningu á árinu 2013 vegna búvöruframleiðslu á árinu 2012. Reglurnar byggjast á ákvæðum 1. til 3. gr. laga nr. 84/1997, um búnaðargjald, og eru settar samkvæmt heimild í 2. gr. laganna.

Gjaldskyldir eru búvöruframleiðendur sem stunda landbúnað, skógrækt eða skógarhögg, þ.e. starfsemi sem fellur undir atvinnugreinar í deildum 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands (ÍSAT 2008), aðrar en atvinnugreinar í flokkum 01.61, 01.62, 01.63 og 01.64 (þjónusta við jarðyrkju og búfjárrækt), 01.70 (dýraveiðar og tengd þjónusta) og 02.40 (þjónusta við skógrækt og skógarhögg).

Búnaðargjald nemur 1,2% af gjaldstofni, sem ákvarðast af veltu búvöru og tengdrar þjón­ustu. Til gjaldstofns telst virðisaukaskattsskyld velta og velta undanþegin virðisaukaskatti, svo sem sala úr landi og samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði (beingreiðslur) vegna mjólkur- eða sauðfjárframleiðslu. Til gjaldstofns telst ekki andvirði seldra varanlegra rekstrar­fjármuna.

Frá gjaldstofni ákvörðuðum með framangreindum hætti heimilast frádráttur, annars vegar vegna vinnslu búvara og/eða sölu þeirra og hins vegar vegna kaupa á lífdýrum til áfram­eldis. Frádráttur ákvarðast sem hér segir:

1. Frádráttur vegna vinnslu og sölu búvara.

1.1. Vegna vinnslu búvara.

Að því leyti sem verð unninnar búvöru myndar gjaldstofn, sbr. framanritað, er búvöru­framleið­anda heimilt að draga frá þannig reiknuðum gjaldstofni þóknun þá er hann greiðir vinnslu­fyrirtæki fyrir vinnsluna. Virðisaukaskattur af þóknuninni telst ekki til frádráttar, enda myndar hann innskatt í virðisaukaskattsuppgjöri búvöruframleiðandans.

Annist loðdýraræktandi sjálfur verkun loðskinna sinna má hann vegna verkunarinnar draga frá söluverði unninna skinna, er myndar gjaldstofn sbr. framanritað, fjárhæð er nemur:

550 kr. fyrir hvert verkað minkaskinn.
1.320 kr. fyrir hvert verkað refaskinn.

Annist æðarræktandi sjálfur verkun dúns má hann vegna verkunarinnar draga frá söluverði dúnsins, er myndar gjaldstofn sbr. framanritað, fjárhæð er nemur:

13.000 kr. fyrir hvert kg fullverkaðs dúns.

Annist svínaræktandi sjálfur slátrun svína sinna og verkun kjötsins má hann draga frá söluverði kjöts, er myndar gjaldstofn sbr. framanritað, fjárhæð er nemur:

45 kr. fyrir hvert kg verkaðs kjöts.

1.2. Vegna heildsölu búvara.

Að því leyti sem heildsöluverð búvöru myndar gjaldstofn, sbr. framanritað, er búvöru­framleiðanda heimilt að draga frá þannig reiknuðum gjaldstofni þóknun þá er hann greiðir heildsölufyrirtæki fyrir heildsöludreifinguna. Virðisaukaskattur af þóknuninni telst ekki til frádráttar, enda myndar hann innskatt í virðisaukaskattsuppgjöri búvöruframleiðandans.

Annist búvöruframleiðandi sjálfur heildsöludreifingu afurða sinna má hann vegna dreifingar­innar draga frá heildsöluverði, er myndar gjaldstofn sbr. framanritað, fjárhæð er nemur:

16% heildsöluverðs eggja.
15% heildsöluverðs annarra búvara.

Annist alifuglaræktandi sjálfur slátrun fugla sinna og heildsöludreifingu kjötsins má hann vegna slátrunarinnar og heildsöludreifingarinnar draga frá heildsöluverði, er myndar gjald­stofn sbr. framanritað, fjárhæð er nemur:

25% heildsöluverðs alifuglakjöts.

1.3. Vegna smásölu búvara.

Annist búvöruframleiðandi smásölu afurða sinna (sölu beint til neytanda) má hann draga frá smásöluverði, er myndar gjaldstofn sbr. framanritað, fjárhæð er nemur:

65% smásöluverðs garðplantna.
30% smásöluverðs annarra afurða.

2. Frádráttur vegna kaupa á lífdýrum.

Búvöruframleiðandi, sem kaupir lífdýr til áframeldis í búnaðargjaldsskyldri starfsemi sinni, má draga kaupverð lífdýranna frá gjaldstofni sínum. Virðisaukaskattur af kaupverðinu telst ekki til frádráttar, enda myndar hann innskatt í virðisaukaskattsuppgjöri fyrirtækisins.

Reglur þessar taka þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu búnaðargjalds á árinu 2013 vegna búvöruframleiðslu á árinu 2012.

Reykjavík, 8. janúar 2013.

F.h. ríkisskattstjóra,

Jónína Björg Jónasdóttir.

Bjarni Amby Lárusson.

B deild - Útgáfud.: 22. janúar 2013