Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 265/2008

Nr. 265/2008 27. febrúar 2008
REGLUGERÐ
um framkvæmd siglingaverndar.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi og viðaukar við hana gilda um öll skip, færanlega borpalla, útgerðar­aðila, hafnir og aðra aðila, íslenska jafnt og erlenda, sem falla undir lög um siglingavernd nr. 50/2004.

Reglugerðin gildir um alþjóðasjóflutninga og sjóflutninga innanlands. Hún gildir þó ekki um herskip og liðsflutningaskip, farþega- og flutningaskip í innanlandssiglingum, flutningaskip undir 500 brúttótonnum, skip sem eru ekki knúin áfram með vélrænum hætti, tréskip með frumstæðu byggingarlagi, fiskiskip eða skip sem eru ekki notuð í atvinnuskyni, nema rökstudd ástæða sé til annars.

Markmiðið með reglugerð þessari er að koma á og framkvæma viðeigandi ráðstafanir til að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms, hafna og hafnaraðstöðu, siglinga og skipasamgangna fyrir hryðjuverkum og öðrum vísvitandi ólögmætum aðgerðum. Ráð­stafanir sem mælt er fyrir um í reglugerðinni miðast við vástig 1 nema annað sé tekið fram.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:

 1. Áhættumat (Security assessment): Mat á áhættu gagnvart ógnunum og váatvikum og áætlun um ráðstafanir til að hindra og bregðast við vá.
 2. Hafnaraðstaða (port facility): Staður þar sem tengsl skips og hafnar eiga sér stað; þar á meðal svæði svo sem akkerislægi, legusvæði skipa og aðkomuleiðir frá sjó, eftir því sem við á.
 3. Hafnargæslumaður: Starfsmaður sem hefur sérstakt hlutverk í tengslum við höfn, hafnaraðstöðu, haftasvæði eða fyrirtæki vegna siglingaverndar s.s. vöktun, gæslu og eftirlit.
 4. Höfn (port): Tiltekið landsvæði og hafsvæði sem skilgreint er í hafnarreglugerð viðkomandi hafnar.
 5. Óvottað skip: Skip sem er ekki með alþjóðlegt siglingaverndarskírteini (ISSC skírteini).
 6. Siglingavernd (maritime security): Allar fyrirbyggjandi ráðstafanir sem ætlaðar eru til að vernda sjóflutninga, skip, hafnir, farm, útgerðir og viðeigandi fyrirtæki gegn hryðjuverkum eða ógn sem stafar af vísvitandi ólögmætum aðgerðum.
 7. Verndarfulltrúi hafnar (port security officer – PSO): Sá einstaklingur sem falin er ábyrgð verndaráætlunar tiltekinnar hafnar, þar á meðal framkvæmd, endur­skoðun og viðhald verndaráætlunar hafnar.
 8. Verndarfulltrúi hafnaraðstöðu (port facility security officer – PFSO): Sá ein­staklingur sem falin er ábyrgð verndaráætlunar tiltekinnar hafnaraðstöðu, þar á meðal framkvæmd, endurskoðun og viðhald verndaráætlunar hafnaraðstöðu.
 9. Verndaráætlun: (Security plan) Áætlun til að tryggja að gerðar séu ráðstafanir til að vernda hafnaraðstöðu, höfn með eina eða fleiri hafnaraðstöðu, skip, einstak­linga og farm og skulu vera í henni fyrirmæli um það hvernig unnið skuli að því markmiði.
 10. Viðurkenndur verndaraðili (recognised security organisation): Aðili sem býr yfir sérþekkingu á áhættu og áhættugreiningu og viðeigandi þekkingu á skipum og starfsemi hafna, og sem samþykktur hefur verið til að gera áhættumat, eða til skoð­ana, eða til viðurkenningar eða útgáfu skírteina í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
 11. Vottað skip: Skip með alþjóðlegt siglingaverndarskírteini (ISSC skírteini).

Að öðru leyti fer merking hugtaka eftir skilgreiningum í lögum um siglingavernd og sam­kvæmt reglugerð nr. 474/2007.

3. gr.

Eftirlit.

Siglingastofnun Íslands annast eftirlit og úttektir á siglingavernd eins og kveðið er á um í reglugerð þessari. Skal stofnunin tryggja fullnægjandi og reglubundið eftirlit með verndar­áætlunum hafna og framkvæmd þeirra.

Siglingastofnun Íslands er tengiliður (focal point for port security), þ.e. tengiliður við EFTA/ESA, Evrópusambandsins og EES-aðildarríkja til að greiða fyrir, fylgja eftir og upp­lýsa um beitingu ráðstafana um siglingavernd.

II. KAFLI

Hafnavernd.

4. gr.

Samhæfing verndarráðstafana.

Tryggja skal að verndarráðstafanir hafnar, sem eru innleiddar með þessari reglugerð, séu í samræmi við ráðstafanirnar sem gerðar eru samkvæmt reglugerð nr. 474/2007 með síðari breytingum.

5. gr.

Stjórnvald hafnaverndar.

Eigendur viðkomandi hafnar skulu fela hafnarstjórn að fara með stjórn og ábyrgð hafna­verndar en verndarfulltrúi hafnar fer með daglega stjórn og framkvæmd hafna­verndar.

Hafnarstjórn viðkomandi hafnar skal vera ábyrg fyrir gerð og framkvæmd áhættumats og verndaráætlunar hafnar.

6. gr.

Áhættumat fyrir höfn.

Gera skal áhættumat fyrir hafnir sem falla undir þessa reglugerð. Hafnarstjórn skal láta gera mat á mörkum hafnarsvæðis með tilliti til áhættumats hafnar samkvæmt reglugerð þessari og senda Siglingastofnun Íslands til samþykktar.

Ef siglingaverndaráætlun Íslands og áhættumat hafnaraðstöðu skv. lögum um siglinga­vernd nr. 50/2004 með síðari breytingum, tekur ekki nægjanlega á áhættumati hafnar að mati Siglingastofnunar Íslands, skal hafnarstjórn láta gera áhættumat hafnar.

Í áhættumati fyrir höfn skal að lágmarki taka tillit til þeirra krafna sem taldar eru upp í viðauka I.

Áhættumat fyrir höfn skal hljóta samþykki Siglingastofnunar Íslands, sem leitar áður umsagnar ríkislögreglustjóra.

7. gr.

Verndaráætlun hafnar.

Með fyrirvara um niðurstöðu áhættumats hafnar skal hafnarstjórn tryggja að verndar­áætlun hafnar sé gerð, henni haldið við og hún uppfærð. Verndaráætlun hafnar skal taka á öllum aðstæðum í viðkomandi höfn sem tengjast siglingavernd.

Í verndaráætlunum skal auðkenna, fyrir hvert hinna mismunandi vástiga sem um getur í 8. gr.:

 1. Verklagsreglur sem fylgja á,
 2. ráðstafanir sem eiga að vera fyrir hendi og
 3. aðgerðir sem grípa á til.

Í hverri verndaráætlun hafnar skal að lágmarki taka tillit til krafna sem taldar eru upp í II. viðauka. Þar sem það á við skal verndaráætlun hafnar sérstaklega fela í sér verndar­ráðstafanir vegna farþega og ökutækja á leið um borð í skip sem flytja farþega og ökutæki. Ef um er að ræða alþjóðlega sjóflutningaþjónustu skal Siglingastofnun eiga samstarf við hlutaðeigandi EES-ríki um áhættumat.

Verndaráætlanir hafna skulu samþykktar af Siglingastofnun Íslands áður en þeim er hrint í framkvæmd og getur stofnunin farið fram á að gerðar séu viðeigandi breytingar á þeim. Siglingastofnun Íslands leitar umsagnar ríkislögreglustjóra áður en samþykki á verndaráætlun er veitt.

Hafnarstjórn skal tryggja að eftirlit sé haft með framkvæmd verndaráætlana hafna. Eftirlitið skal samhæft annarri eftirlitsstarfsemi sem fer fram í höfninni.

Hafnarstjórn skal tryggja að fullnægjandi æfingar fari fram, að teknu tilliti til krafnanna um grunnverndarþjálfunina sem tilgreind er í III. viðauka.

Áhættumat fyrir hafnir og verndaráætlanir hafna skulu endurskoðaðar eftir því sem við á, en þó eigi sjaldnar en einu sinni á fimm ára fresti, eins og nánar er kveðið á um í 35. gr. Umfang endurskoðunarinnar skal vera í samræmi við ákvæði 35. gr. eftir því sem við á.

8. gr.

Vástig.

Taka skal upp kerfi um vástig fyrir hafnir eða hluta hafna.

Vástigin skulu vera þrjú samkvæmt skilgreiningu í reglugerð nr. 474/2007:

 1. Vástig 1 er það stig þegar viðeigandi lágmarksverndarráðstöfunum skal beitt öllum stundum.
 2. Vástig 2 er það stig þegar viðeigandi viðbótar verndarráðstöfunum skal beitt tímabundið vegna aukinnar hættu á váatviki
 3. Vástig 3 er það stig þegar grípa skal tímabundið til sértækra verndar- og öryggis­ráðstafana meðan líkur eru taldar á váatviki eða það er yfirvofandi, þótt e.t.v. sé ekki unnt að benda á tiltekið skotmark.

Ríkislögreglustjóri ákvarðar vástig fyrir hverja höfn eða hluta hafnar samkvæmt lögum um siglingavernd. Á hverju vástigi má ákvarða að beita eigi mismunandi verndar­ráðstöfunum á mismunandi stöðum innan hafnarinnar með tilliti til niðurstaðna áhættu­mats fyrir höfn.

Ríkislögreglustjóri sendir til viðeigandi aðila, fyrirtækja og stofnana upplýsingar um vástig sem í gildi er fyrir hverja höfn eða hluta hafnar auk allra breytinga á þeim. Upplýsingar um vástig skal alltaf senda til eftirfarandi:

 1. verndarfulltrúa viðkomandi hafnar,
 2. vaktstöðvar siglinga,
 3. Landhelgisgæslu Íslands,
 4. lögreglustjóra viðkomandi sveitarfélags,
 5. tollstjórans í Reykjavík,
 6. Siglingastofnunar Íslands og
 7. skipa á leið eða í viðkomandi höfn.

9. gr.

Verndarfulltrúi hafnar.

Hver höfn skal hafa verndarfulltrúa hafnar sem er samþykktur af Siglingastofnun Íslands. Heimilt er með samþykki Siglingastofnunar Íslands, að tilnefna sameiginlegan verndar­fulltrúa fyrir fleiri en eina höfn.

Verndarfulltrúar hafna skulu gegna hlutverki tengiliðar í málum sem tengjast siglinga­vernd og bera ábyrgð á daglegri framkvæmd hafnaverndar í viðkomandi höfn.

Ef verndarfulltrúi hafnar er ekki hinn sami og verndarfulltrúi hafnaraðstöðu samkvæmt reglugerð nr. 474/2007, skal tryggt að þeir starfi náið saman.

10. gr.

Viðurkenndur verndaraðili.

Tilnefna má viðurkennda verndaraðila til að ná markmiðum þessarar reglugerðar. Viður­kenndir verndaraðilar skulu uppfylla skilyrðin í IV. viðauka og skulu samþykktir af Siglinga­stofnun Íslands.

III. KAFLI

Gæsla, vöktun og afmörkun hafnaraðstöðu og haftasvæða.

11. gr.

Girðingar og afmarkanir.

Eftirfarandi flokkar eru við það miðaðir að sé eftir þeim farið á að vera tryggt að girð­ingar og afmarkanir uppfylli kröfur ISPS-kóðans, gerða EB og Siglingastofnunar Íslands um aðgangshindranir að hafnaraðstöðu og haftasvæðum (restricted areas). Reglurnar eru miðaðar við vástig 1 og skal bregðast við breytingum á vástigi í samræmi við fyrirmæli verndaráætlunar.

Girðingar og afmarkanir að hafnaraðstöðu og haftasvæðum skulu samþykktar af Siglingastofnun Íslands. Val á girðingum og afmörkunum og umfang ráðstafana til að hindra óviðkomandi aðgang að hafnaraðstöðu og haftasvæðum skal ætíð byggjast á áhættumati viðkomandi hafnaraðstöðu og þeirri verndaráætlun sem í gildi er fyrir hana. Girðingar og afmarkanir hafnaraðstöðu og haftasvæða skal flokka í þrennt:

a. Flokkur I, einföld afmörkun.

 1. Tilgangur afmörkunar: Að afmarka hafnaraðstöðu eða haftasvæði og vekja athygli á því með sýnilegum hætti að aðgangur að því sé takmarkaður.
 2. Lýsing: Einföld afmörkun (keðja, reipi eða öryggissnúra á færanlegum stólpum). Gagnast fyrst og fremst sem leiðbeining en ekki sem farartálmi.
 3. Notkunarsvið: Í fáförnum höfnum þar sem skipaumferð er óregluleg (51 eða færri skip á ári sem falla undir siglingavernd) og þar sem umferð er lítil um hafnarsvæði. Einkum efnis- og vöruflutningar og tilfallandi innflutningur. Í undantekningartilfellum getur þetta gilt um hafnir með tilfallandi gáma­útflutning en það er háð samþykki Siglingastofnunar Íslands.

b. Flokkur II, færanleg rimlagirðing.

 1. Tilgangur afmörkunar: Að torvelda óviðkomandi aðgang að hafnaraðstöðu eða haftasvæði. Afmörkun skal vera þannig úr garði gerð að einhvern tíma taki að komast yfir eða í gegnum girðinguna.
 2. Lýsing: Færanleg rimlagirðing, a.m.k. tveggja metra há, á stöðugum stólpum með það litlum möskvum að erfitt sé að klifra upp þær. Ekki skal vera hægt að lyfta girðingunni með handafli. Lágmarkskrafa um stöðug­leika girðinga er 150 kgm/m.
 3. Notkunarsvið: Í höfnum sem taka á móti farþegaskipum, í höfnum þar sem eru reglulegar siglingar flutningaskipa sem falla undir siglingavernd og þar sem umferð um hafnarsvæði gefur tilefni til.

c. Flokkur III, jarðföst rimlagirðing.

 1. Tilgangur afmörkunar: Að hindra óviðkomandi aðgang að hafnaraðstöðu eða haftasvæði.
 2. Lýsing: Varanleg rimlagirðing á jarðföstum stólpum með það litlum möskvum að torvelt sé að klifra yfir girðinguna og má möskvastærð ekki vera yfir 5x20 cm (breidd x hæð). Girðingarhæð skal vera a.m.k. 2 metrar. Ef ástæða þykir til vegna mikillar umferðar um svæðið og nágrenni þess, eða til að minnka hættu á að einhver komist yfir girðinguna, má bæta gaddavírsstrengjum ofan á girðinguna, sem skulu vera á vinklum sem standa út fyrir hana.
 3. Notkunarsvið: Í höfnum þar sem skipaumferð og umferð um hafnarsvæði er mikil og regluleg umferð skipa sem falla undir siglingavernd og þar sem eru víðáttumiklir gámavellir og stórar vörugeymslur.

Heimilt er að fjarlægja girðingar í flokki I þegar hafnaraðstaða er ekki notuð til að þjónusta skipaumferð sem siglingaverndin tekur til.

Heimilt er að fjarlægja girðingar í flokki II þegar hafnaraðstaða er ekki notuð til að þjónusta skipaumferð sem siglingaverndin tekur til eða vörur er falla undir farmvernd.

12. gr.

Leiðbeiningar um uppsetningu.

Þegar settar eru upp girðingar í flokki II og III skal tryggja að í næsta námunda við girð­ing­una utanverða sé ekkert sem auðveldar fólki að fara yfir hana. Bifreiðum og öðrum tækjum sem gætu auðveldað mönnum að brjóta sér leið í gegnum girðinguna eða yfir hana má ekki leggja nær en 2 metrum utanvert við hana. Einnig skal taka tillit til snjóalaga og snjómoksturs.

Girðingum í flokki II og III sem liggja að byggingum skal þannig fyrir komið að tekið sé tillit til húshluta sem skaga yfir þær, s.s. ufsa og dyraskyggna, sem geta auðveldað mönnum að klífa yfir girðinguna.

Bil frá jörðu upp í girðingu má ekki vera meira en 10 cm.

Hlið eru hluti girðingar og skal gera sömu kröfur um styrk þeirra og hæð og til annarra hluta girðingarinnar. Í aksturshliðum á girðingum í flokki II eða III má nota bómur að jafnaði en gera skal ráðstafanir til þess að hægt sé að loka þeim tryggilega fyrir allri umferð ef ástæða er til, s.s. vegna breytinga á vástigi.

Lágmarksbirta við girðingar og hlið skal vera 10 lux.

13. gr.

Jafngildar lausnir.

Ef í ljós kemur, þegar unnið er að gerð áhættumats og verndaráætlunar að aðrar aðferðir en uppsetning girðinga séu tiltækar til að tryggja hafnaraðstöðu og haftasvæði, getur Siglingastofnun Íslands heimilað að beitt sé jafngildum lausnum sem skila sama árangri og girðing myndi gera. Að jafnaði skulu þessar ráðstafanir fela í sér eftirlit og vöktun.

14. gr.

Merkingar og skilti.

Leiðbeininga- og fyrirmælaskilti skulu sett upp sem afmarka hafnaraðstöðu og hafta­svæði eftir því sem þörf krefur, þar sem fram kemur að óviðkomandi sé bannaður aðgangur, s.s. „akstur bannaður“ eða „óviðkomandi bannaður aðgangur“. Við hlið skal að lágmarki setja skilti með upplýsingum um að viðkomandi svæði sé haftasvæði og óvið­komandi sé bannaður aðgangur, símanúmer hafnargæslumanns eða verndarfulltrúa auk neyðarnúmersins 112 og leiðbeininga um hvert skuli hafa samband ef váatvik verður.

Leiðbeiningar og fyrirmæli samkvæmt þessari grein skulu að lágmarki vera á íslensku og ensku.

15. gr.

Vöktun sjávarmegin í höfnum.

Fylgjast skal með umferð um hafnarmynni eða innsiglingu og umferð við skipshlið. Vöktun skal viðhöfð með að ekkert fari á milli skips sem liggur í hafnaraðstöðu og aðvífandi skipa. Þessa vöktun má samræma annarri vöktun, fela má skipi þessa vöktun eða hún má fara fram frá landi. Tryggja skal næga lýsingu þannig að unnt sé að fylgjast með skipshlið og nánasta umhverfi hennar í náttmyrkri. Lágmarksbirta við skipshlið sjávarmegin skal vera 5 lux og skal skip sjá um að uppfylla þessa kröfu.

16. gr.

Girðingar og vöktun með myndavélum.

Myndavélakerfi kemur ekki í stað girðinga en getur verið til viðbótar vöktun og eftirliti. Með notkun myndavéla má t.d. draga úr fjölda hafnargæslumanna sem ella þarf til að sinna gæslu og eftirliti. Í þeim höfnum þar sem hafnaraðstaða og haftasvæði er afgirt með girðingu af flokki II og III, umferð er lítil eða tilfallandi og lýsing er fullnægjandi nægir myndavélavöktun til að uppfylla kröfur um vöktun nema annars sé krafist. Ef myndavélavöktun er notuð skal koma upp upptökubúnaði. Geyma skal upptökur að lágmarki í 4 vikur.

Sé beitt vöktun með myndavélum eða annars konar rafrænni vöktun skal gera viðvart um það í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd.

17. gr.

Vöktun og gæsla haftasvæða.

Þær kröfur sem gerðar verða til hafnaraðstöðu eru breytilegar eftir umfangi og starfsemi, en til leiðbeiningar má skipta hafnaraðstöðu í fimm flokka:

a)

Gáma- og stóriðjuhöfn: Hafnaraðstaða skal afgirt, aðgangsstýrð og vöktuð allan sólarhringinn alla daga ársins. Fylgjast þarf með hvað og hverjir fara inn á hafnaraðstöðu og í hvaða erindagjörðum þeir eru. Einnig þurfa gámar sem fara inn á svæðið að vera með farmverndaryfirlýsingu og innsigli í samræmi við kröfur toll­yfirvalda. Höfnin getur falið þriðja aðila að sjá um aðgangsstýringu, eftirlit og vöktun, þ.e. skipaútgerð, löndunargengi eða fyrirtæki.

b)

Olíuhöfn: Hafnaraðstaða skal afgirt, aðgangsstýrð og vöktuð. Þar sem skip sem falla undir siglingavernd hafa reglulega viðkomu (minnst einu sinni í viku) skal vakta allan sólarhringinn með myndavélakerfi eða af hafnargæslumanni/mönnum á meðan skip er í hafnaraðstöðu. Unnt er að fela þriðja aðila framkvæmdina.

c)

Ferju- og farþegaskipahöfn: Hafnaraðstaða skal afgirt með færanlegum eða varanlegum girðingum. Aðgangsstýring, eftirlit og vöktun skal viðhöfð á meðan skip er í hafnaraðstöðu. Farmur sem tilbúin er til útflutnings og fer um borð í skip skal verndaður samkvæmt reglum tollstjórans í Reykjavík. Fylgjast þarf með hverjir fara um hafnaraðstöðuna.

 

Öryggisleit skal fara fram á farþegum í samræmi við verndaráætlun. Heimilt er að fela skipi eða þriðja aðila framkvæmd öryggisleitar. Öryggisleit skal fara fram í aðgangshliði inn á hafnaraðstöðu eða um borð í skipi.

 

Tryggt skal að fullnægjandi ráðstafanir á grundvelli áhættumats séu til staðar sem tryggir að öll ökutæki sem eiga að fara um borð í ferjur, sem eru í ferðum innan­lands eða milli landa, skapi ekki áhættu fyrir skipið, farþega þess og áhöfn eða farm. Ráðstafanirnar sem gripið er til skulu vera þannig að starfsemin gangi sem greið­legast fyrir sig.

d)

Efnis- og vöruflutningahöfn: Ef umfangið er lítið þá nægir að vera með færanlegar girðingar eða borða og skilti um að óviðkomandi sé bannaður aðgangur, annars skal vera með færanlegar eða varanlegar girðingar. Á meðan upp- og útskipun stendur yfir skulu hafnargæslumenn á hafnaraðstöðu sinna aðgangsstýringu, eftirliti og vöktun. Unnt er að fela þriðja aðila framkvæmdina. Ef engin starfsemi er meðan skipið liggur við bryggju er unnt að fela áhöfn skipsins að sjá um framkvæmd verndarráðstafana en þó skulu liggja fyrir upplýsingar um hvernig er hægt að ná í verndarfulltrúa og lögreglu og fyrirmæli um hvernig eigi að framfylgja vernd við­komandi hafnaraðstöðu, s.s. gæslu, eftirliti og vöktun að lágmarki á ensku.

 

Þar sem flutningaskip sem falla undir siglingavernd hafa reglulega viðkomu (minnst einu sinni í viku) skal svæðið vera lokað með girðingu í flokki II eða III og vaktað með myndavélakerfi eða af hafnargæslumanni/mönnum á meðan skip er í hafnar­aðstöðu.

e)

Tilfallandi innflutningur: Ef aðeins er verið að skipa upp úr skipi nægja aðvör­unarborðar og skilti. Aðgangsstýring, eftirlit og vöktun skal viðhöfð en hægt er að fela þriðja aðila eða áhöfn skips framkvæmd þess bæði í uppskipun og á meðan skipið liggur við höfn.

18. gr.

Afhending á vistum og meðhöndlun fylgdarlauss farangurs.

Þegar vistir eru afhentar til flutningaskipa skal umboðsmaður skips, skipstjóri, verndar­fulltrúi skips eða útgerð tilkynna um vistirnar til verndarfulltrúa þeirrar hafnar þar sem skip liggur, áður en vistir fara um borð í skip.

Þegar vistir eru afhentar til farþegaskipa skal tilkynna til verndarfulltrúa hafnar um allar vistir sem fara um borð í skip og eftirlit og athugun skal framkvæmd af viðkomandi höfn áður en vistir fara inn á hafnaraðstöðuna. Hægt er að fela verndarfulltrúa skips þessa ábyrgð.

Það er á ábyrgð verndarfulltrúa skips að hafa eftirlit með vistum og fylgdarlausum farangri sem fer um borð í viðkomandi skip nema annars sé óskað. Ef verndarfulltrúi skips óskar eftir að höfn sjái um þessa framkvæmd, skal höfnin viðhafa eftirlit og athugun með afhendingu vista.

19. gr.

Óvottuð skip.

Afmarka skal sérstaklega skip sem er óvottað ef það er innan hafnaraðstöðu á sama tíma og vottað skip. Viðhafa skal sérstaka vöktun með óvottaða skipinu. Hægt er að fela þriðja aðila vöktunina.

Ef óvottað skip ætlar að leggjast utan á vottað skip innan hafnar skal verndarfulltrúi hafnar upplýstur um það. Verndarfulltrúi hafnar ber ábyrgð á að upplýsa viðeigandi aðila.

20. gr.

Undanþágur.

Ef fyrir er girðing sem ekki uppfyllir kröfur Siglingastofnunar Íslands er hægt að fá undanþágu stofnunarinnar til að nota þá girðingu. Siglingastofnun Íslands getur gefið fyrirmæli um viðbótarráðstafanir eða breytingar sem gera þarf til þess að fá slíka girð­ingu samþykkta.

Siglingastofnun Íslands getur gefið tímabundna undanþágu til að komið sé fyrir girðingu sem ekki uppfyllir gerðar kröfur. Getur stofnunin gefið fyrirmæli um viðbótarráðstafanir eða breytingar sem gera þarf til þess að fá slíka girðingu samþykkta tímabundið.

Siglingastofnun Íslands getur heimilað að náttúrulegar hindranir geti komið í stað girð­inga.

Siglingastofnun Íslands getur gefið undanþágu frá skilyrðinu um lágmarksbirtu ef notast er við jafngildar lausnir, t.d. ef notað er myndavélakerfi með myndavélum sem hægt er að nota við birtuskilyrði undir 10 lux.

IV. KAFLI

Meðferð trúnaðarskjala.

21. gr.

Trúnaður.

Gæta skal trúnaðar um allar upplýsingar sem tengjast siglingavernd, um starfsemi og aðstæður í höfnum og við mannvirki þeim tengd, þar sem þær geta reynst afar skaðlegar berist þær til aðila sem vilja ógna hafnastarfsemi, fremja þar spellvirki, þjófnaði o.s.frv.

Siglingastofnun Íslands ákveður hvaða aðilar sem hafa aðgang að viðkvæmum svæðum eða meðhöndla trúnaðarmál sem tengjast þessari reglugerð skulu hafa viðeigandi öryggis­vottun. Í þessu getur falist að viðkomandi skuli undirgangast öryggisathugun ríkis­lögreglustjóra í samræmi við lög um siglingavernd.

22. gr.

Aðgangur að trúnaðarupplýsingum.

Aðgangur einstaklinga að trúnaðarupplýsingum ræðst af störfum þeirra innan siglinga­verndar.

Verndarfulltrúum er heimilt að veita öðrum aðgang að trúnaðarupplýsingum að því marki sem þeir telja nauðsynlegt vegna starfa viðkomandi eða vegna annarra ástæðna sem varða siglingavernd.

Allir starfsmenn sem hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum hafna, aðrir en starfsmenn Siglingastofnunar Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, lögreglu- og tollayfirvalda, skulu gera skriflegan samning um trúnaðar- eða þagnarskyldu gagnvart höfninni og skal gera grein fyrir því í verndaráætlun. Skal sá trúnaður haldast þrátt fyrir að starfi eða afskiptum af máli ljúki. Siglingastofnun Íslands áskilur sér rétt til að takmarka hve mikinn aðgang aðilar hafa vegna siglingaverndar. Skila skal til Siglingastofnunar Íslands skrá yfir þá einstaklinga sem hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum vegna siglingaverndar.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að kanna meðhöndlun á trúnaðarupplýsingum og skylt er að láta í té upplýsingar sem stofnunin krefst í því skyni.

23. gr.

Móttaka trúnaðarskjala.

Skjöl siglingaverndar sem flokkuð eru sem trúnaðarskjöl skulu send í ábyrgðarpósti eða boðsend. Komutilkynningar skipa eru undanskildar þessu ákvæði og senda má þær með tölvupósti. Tryggja skal að trúnaðarskjal sé eingöngu meðhöndlað af þeim sem hafa lögmætan aðgang að trúnaðarupplýsingum viðkomandi hafnar eða hafnaraðstöðu, stofnunar eða fyrirtækis.

Ekki má opna trúnaðarskjöl sem tengjast siglingavernd sem koma í ábyrgðarpósti eða eru boðsend nema einhver af skilgreindum tengiliðum innan viðkomandi hafnar eða hafnaraðstöðu, stofnunar eða útgerðarfélags í siglingavernd sé viðstaddur.

24. gr.

Geymsla og dreifing trúnaðarskjala.

Trúnaðarskjöl skal varðveita tryggilega. Útbúa skal á hverjum stað verklagsreglur sem tryggja eiga örugga varðveislu og skjalageymslur sem uppfylla kröfur um varðveislu trúnaðarskjala. Trúnaðarskjöl skulu varðveitt að jafnaði í eitt ár en mikilvægt er að þau séu ekki varðveitt lengur en nauðsyn krefur og skulu forsendur og ástæður fyrir varð­veislu þeirra metnar í úttekt Siglingastofnunar Íslands eða að jafnaði einu sinni á ári. Ábyrgðar­aðili skal setja sér verklagsreglur um eyðingu trúnaðarskjala.

Áhættumati, verndaráætlunum og öðrum trúnaðarskjölum er dreift á pappír eða á rafrænum geymslumiðli á borð við geisladisk. Hvert eintak er á ábyrgð viðtakanda sem skal tryggja að skjölin séu varðveitt í læstri hirslu og liggi ekki á glámbekk.

V. KAFLI

Aðgangsheimildir og skírteini vegna siglingaverndar.

25. gr.

Verndarfulltrúar og hafnargæslumenn.

Verndarfulltrúi starfar í samræmi við ákvæði laga og reglugerða er varða siglingavernd. Skal hann hafa lokið viðeigandi námskeiði Siglingastofnunar Íslands eða sambærilegu námskeiði að mati Siglingastofnunar Íslands. Verndarfulltrúi fær skírteini því til staðfestingar sem gildir í fimm ár. Til að viðhalda réttindum sínum þarf verndarfulltrúi að fara á skyldubundið endurmenntunarnámskeið Siglingastofnunar Íslands eða sambæri­legt námskeið að mati Siglingastofnunar Íslands, telji hún þess þörf áður en gildis­tíma skírteinis lýkur.

Verndarfulltrúi skal ávallt hafa skírteinið á sér við störf sín sem verndarfulltrúi og framvísa því ef þess er óskað.

Ef verndarfulltrúi lætur af störfum eða er látinn hætta sem verndarfulltrúi skal hann tilkynna það tafarlaust til Siglingastofnunar Íslands og viðkomandi hafnaryfirvalda. Viðkomandi heldur skírteininu og réttindunum til að starfa sem verndarfulltrúi út gildis­tíma þess. Ef skírteinið týnist eða eyðileggst ber verndarfulltrúa að tilkynna það strax til Siglingastofnunar Íslands.

Ef verndarfulltrúi brýtur af sér í starfi er Siglingastofnun Íslands heimilt að afturkalla starfsréttindi viðkomandi og innkalla skírteini hans þegar í stað annaðhvort varanlega eða tímabundið.

Hafnargæslumenn skulu hafa lokið viðeigandi námskeiði Siglingastofnunar Íslands eða sambærilegu námskeiði sem uppfyllir kröfur vegna starfans að mati Siglingastofnunar Íslands og skulu þeir viðhalda þekkingu sinni eftir þörfum í samvinnu við Siglingastofnun Íslands.

Hafnargæslumaður skal ávallt hafa skírteinið á sér við störf sín sem hafnargæslumaður og framvísa því ef þess er óskað. Ef skírteinið týnist eða eyðileggst ber viðkomandi að tilkynna það strax til Siglingastofnunar Íslands.

Ef hafnargæslumaður brýtur af sér í starfi er Siglingastofnun Íslands heimilt að afturkalla starfsréttindi viðkomandi sem hafnargæslumaður og innkalla skírteini hans þegar í stað annaðhvort varanlega eða tímabundið.

26. gr.

Aðgangsheimildir.

Einstaklingum, ökutækjum og vinnuvélum skal einungis heimil ferð um og inn á hafnar­aðstöðu og haftasvæði, hafi þeir gildar aðgangsheimildir útgefnar af viðkomandi höfn, fyrirtæki, stofnun eða aðila sem höfn viðurkennir, s.s. farþegar og áhafnir skipa í farþegaflutningum á eðlilegri leið til og frá skipi enda beri þeir á sér gildar ferðaheimildir sem umráðandi skips eða umboðsmaður hans gefur út. Aðgangsheimildir skulu vera á sýnilegum stað.

Slíkar heimildir eru:

 1. auðkenniskort fyrir aðila,
 2. ökutækjaheimildir fyrir farartæki.

Aðgangsheimildir skulu gefnar út með tiltekinn gildistíma að hámarki 5 ár. Takmarka má heimild við tiltekna mánuði, vikudaga og tilgreindan hluta sólarhrings. Almennt skal heimildin bundin ákveðnu starfi eða starfsemi og er handhafa þá einungis heimilt að nýta heimildina í þeim tilgangi. Láti handhafi af því starfi eða leggi niður þá starfsemi, fellur heimildin úr gildi. Gæta skal að hafa gildistíma ekki lengri en þörf er á.

Aðgangsheimildum skal skilað þegar gildistími er útrunninn, heimild hefur verið aftur­kölluð eða handhafi lætur af störfum eða lögð hefur verið niður sú starfsemi sem var tilefni heimildar. Óheimilt er að nota aðgangsheimild sé gildistími hennar liðinn.

Undanþegin ákvæðum þessarar greinar eru aðilar, ökutæki og vinnuvélar sem eru í erindum vegna neyðartilvika.

Áhöfnum skipa sem fara með framkvæmd verndarráðstafana er heimilt að láta persónu­skilríki einstaklinga nægja sem aðgangsheimildir ef það er í samræmi við samþykkta verndaráætlun hafnar.

Nægjanlegt er að starfsmenn lögreglu, tolls og Landhelgisgæslu Íslands framvísi embættis­skilríkjum og ekki er þörf á frekari aðgangsheimildum fyrir þessa aðila.

27. gr.

Fulltrúar stjórnvalds og starfsmenn Siglingastofnunar Íslands.

Starfsmenn hjá Siglingastofnun Íslands sem skilgreindir eru sem fulltrúar stjórnvalds bera sérstök skírteini. Þeir hafa heimild til þess að sinna eftirliti og úttektum á siglingaverndarráðstöfunum samkvæmt lögum og reglum um siglingavernd og gera viðeigandi ráðstafanir ef þess er þörf. Skírteinið veitir aðgang að öllum skipum, hafnar­aðstöðu og haftasvæðum og fyrirtækjum vegna siglingaverndar, án þess að frekari aðgangsheimilda sé þörf. Gera skal grein fyrir þessu og taka tillit til í verndar­áætlunum.

Skírteini starfsmanns Siglingastofnunar Íslands veitir aðgang að hafnaraðstöðu vegna vinnu viðkomandi starfsmanns. Gildistími skírteinis fyrir fulltrúa stjórnvalds og starfs­menn Siglingastofnunar Íslands er fimm ár.

Handhafi skírteinis samkvæmt þessari grein skal ávallt hafa skírteinið á sér við störf þar sem siglingaverndarráðstafanir eru viðhafðar og bera það á sýnilegum stað.

Láti handhafi af störfum skal hann skila skírteininu til Siglingastofnunar Íslands, annað­hvort til eyðingar eða tímabundinnar varðveislu. Glatist skírteinið ber starfsmanni að tilkynna það strax til Siglingastofnunar Íslands.

28. gr.

Svipting aðgangsheimildar.

Siglingastofnun Íslands eða hafnarstjórn viðkomandi hafnar er heimilt að svipta aðila aðgangsheimild ef telja verður með framferði aðilans að varhugavert sé að hann hafi aðgangsheimild, vegna brota gegn lögum um siglingavernd og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða vegna brota gegn reglum viðkomandi hafnar samkvæmt reglugerð þessari. Ákvörðun skal rökstudd og aðila gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en ákvörðun er tekin, í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

VI. KAFLI

Framkvæmd siglingaverndar.

29. gr.

Vottanir og siglingaverndarskírteini skipa.

Sérhvert íslenskt skip sem fellur undir lög um siglingavernd skal uppfylla kröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 474/2007. Í kjölfarið skal skipið vottað með útgáfu alþjóðlegs siglingaverndarskírteinis (ISSC-skírteini). Siglingaverndarskírteini skips skal endurnýjað á fimm ára fresti.

30. gr.

Gildistími og varðveisla verndaryfirlýsinga.

Gildistími verndaryfirlýsingar skal vera frá þeim tíma þegar skip kemur að hafnaraðstöðu og þar til það áætlar að leggja úr höfn. Hafnir og skip skulu varðveita verndaryfirlýsingu í eitt ár frá því gildistíma hennar lauk.

31. gr.

Tilkynningar skipa.

Hafnir mega ekki taka skip að bryggju nema rík ástæða sé til fyrr en tilkynning (Manda­tory All vessels report to Iceland 24 hours before arrival) um skipið hefur borist frá vaktstöð siglinga. Vaktstöð siglinga skal tryggja að upplýsingar um að óvottað skip sé á leið til hafnar berist Siglingastofnun Íslands og verndarfulltrúa hafnar.

Starfsmenn hafna skulu tafarlaust tilkynna vaktstöð siglinga og Siglingastofnun Íslands ef þeir verða varir við ótilkynntar skipakomur er falla undir siglingavernd.

Hafnir skulu varðveita komutilkynningu skips í a.m.k. þrjá mánuði frá þeim tíma sem komutilkynningin barst.

32. gr.

Umboðsmenn skipa.

Umboðsmenn skipa skulu tilkynna Siglingastofnun Íslands um tengiliðaupplýsingar, m.a. um nafn fyrirtækis sem þeir starfa hjá og símanúmer sem hægt er að ná í þá í. Ef breyt­ingar verða á upplýsingum, s.s. símanúmerum skal senda Siglingastofnun Íslands upp­færðar upplýsingar.

VII. KAFLI

Eftirlit með skipa- og hafnavernd.

33. gr.

Heimildir, eftirlit og úttektir.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að framkvæma eftirlit og úttektir samkvæmt lögum og reglum um siglingavernd. Slíkar aðgerðir geta farið fram í samvinnu við til þess bæran utanaðkomandi aðila. Siglingastofnun Íslands skal tryggja fullnægjandi og reglubundið eftirlit með verndaráætlunum hafna og framkvæmd þeirra.

Siglingastofnun Íslands skal framkvæma a.m.k. eina úttekt á 5 ára tímabili á verndar­áætlunum og verndarráðstöfunum vottaðra skipa, hafna og hafnaraðstöðu, en jafn­framt er Siglingastofnun Íslands heimilt að framkvæma tíðari úttektir og skyndi­úttektir til að sannreyna hvort verndarráðstafanir séu fullnægjandi. Fjöldi úttekta og hversu reglulegar þær eru fer m.a. eftir niðurstöðu úttektar á viðkomandi höfn.

Hafnir sem Siglingastofnun Íslands framkvæmir ekki úttekt á skulu skila inn árlega niðurstöðum eigin skoðunar samkvæmt gátlista sem er aðgengilegur á heimasíðu Siglingastofnunar Íslands. Hafnir skulu skila niðurstöðum eigin skoðunar fyrir 1. desember hvert ár.

Siglingastofnun Íslands skal veittur allur sá aðgangur að skipum, athafnasvæðum, mannvirkjum, búnaði, gögnum og skjölum sem hún telur nauðsynlegan vegna ofan­greindra aðgerða. Heimilt er að krefja umráðamenn og starfsmenn aðila sem starfa sam­kvæmt leyfum útgefnum af Siglingastofnun Íslands um þá aðstoð sem þörf er á við fram­kvæmd slíkra aðgerða.

Ef óvottað skip er komið í hafnaraðstöðu án þess að komutilkynning hafi borist skal höfnin tilkynna það strax til vaktstöðvar siglinga og Siglingastofnunar Íslands. Verndar­fulltrúi hafnar skal krefjast þess að gefin verði út verndaryfirlýsing við við­komandi skip. Höfnin skal gera þær ráðstafanir sem þörf er á í samráði við skipstjóra skips. Höfnin skal einnig framfylgja siglingavernd eins og kveðið er á um í verndaráætlun hafnar­innar, t.d. hvað snertir vöktun og gengið skal eftir því að enginn fari um borð eða frá borði án þess að borin hafi verið kennsl á viðkomandi. Fulltrúi Siglingastofnunar Íslands fer um borð í hið óvottaða skip ef tök eru á og gerir athugun á því í samræmi við reglur siglingaverndar. Athugun getur átt sér stað áður en skip kemur til hafnar, ef fulltrúi Siglinga­stofnunar Íslands telur það nauðsynlegt.

Ef skip með alþjóðlegt siglingaverndarskírteini hefur átt samskipti við skip sem ekki hefur alþjóðlegt siglingaverndarskírteini eða hafnaraðstöðu sem ekki er vottuð getur fulltrúi Siglingastofnunar Íslands farið um borð í skipið ef ástæða þykir til og skoðað það með tilliti til laga og reglna um siglingavernd.

Ef skip er með alþjóðlegt siglingaverndarskírteini en er ekki skráð í fánaríki sem er aðili að SOLAS-samþykktinni getur fulltrúi Siglingastofnunar Íslands farið um borð í skipið ef ástæða þykir til og skoðað það með tilliti til laga og reglna um siglingavernd.

Ef skip er með alþjóðlegt siglingaverndarskírteini og er skráð í fánaríki sem er aðili að SOLAS-samþykktinni er fulltrúa Siglingastofnunar Íslands heimilt að gera skyndiskoðun á því og gera viðeigandi ráðstafanir á grundvelli þeirra.

34. gr.

Yfirlýsing um að hafnaraðstaða uppfylli kröfur um siglingavernd.

Yfirlýsing um að hafnaraðstaða uppfylli kröfur um siglingavernd er gefin að uppfylltum kröfum um siglingavernd. Yfirlýsing skal undirrituð og stimpluð af fulltrúa Siglinga­stofnunar Íslands, uppfylli hafnaraðstaða kröfur um siglingavernd og gildir hún í 5 ár.

35. gr.

Endurskoðanir á áhættumati og verndaráætlunum hafna og hafnaraðstöðu.

Verndarfulltrúi skal gera eigin skoðun á verndaráætlun að lágmarki einu sinni á ári og senda Siglingastofnun Íslands fyrir 1. desember hvert ár niðurstöður hennar samkvæmt gátlista sem er aðgengilegur á heimasíðu Siglingastofnunar Íslands. Ef Siglingastofnun Íslands framkvæmir úttekt í viðkomandi höfn þarf verndarfulltrúi ekki að gera eigin skoðun það árið.

Verndarfulltrúi skal endurskoða verndaráætlun hafnar eða hafnaraðstöðu og fá stað­festingu Siglingastofnunar Íslands ef:

 1. breytingar eru gerðar á áhættumati fyrir höfn eða hafnaraðstöðu,
 2. fram kemur við eigin skoðun verndarfulltrúa á verndaráætlun eða við prófun Siglingastofnunar Íslands, ríkislögreglustjóra eða tollgæslunnar á verndaráætlun, verndarráðstöfunum og verndarbúnaði hafnar eða hafnaraðstöðu að misbrestir séu á framkvæmd verndarráðstafana eða ef fram koma grunsemdir um að skipu­lagi eða framkvæmd mikilvægra þátta í verndaráætluninni sé áfátt,
 3. breytingar verða á eignarhaldi eða rekstrarstjórn hafnar, eða
 4. stórar breytingar eru gerðar á höfninni sjálfri.

Reglubundin athugun og endurskoðun verndarfulltrúa á áhættumati skal gera á fimm ára fresti nema upp komi atriði sem kalli á endurskoðun fyrr, t.d. breytingar á skipakomum og utanaðkomandi þáttum er geta aukið hættu hafnar er varða komu skipa til hafnar eða fólks sem þar vinnur, stækkun hafnar eða hafnaraðstöðu eða breytingar á rekstrar­fyrirkomulagi.

Verndaráætlun fyrir hafnir og hafnaraðstöðu gildir í fimm ár frá staðfestingu hennar.

Verndarfulltrúi getur lagt til breytingar á viðurkenndri verndaráætlun á gildistíma hennar að undangenginni hvers konar endurskoðun hennar. Minni háttar breytingar, s.s. á lýsingu og tækjabúnaði þarf ekki að leggja fyrir Siglingastofnun Íslands til samþykktar, en uppfæra þarf verndaráætlun með tilliti til þeirra breytinga.

Breytingatillögur sem leggja þarf fyrir Siglingastofnun Íslands til samþykktar eru:

 1. þær sem í grundvallaratriðum breyta þeim aðferðum sem beitt er til að viðhalda vernd innan hafnaraðstöðunnar,
 2. tillögur um brottflutning, breytingar eða endurnýjun varanlegra hindrana, verndar- eða öryggisbúnaðar og öryggiskerfa sem teljast mikilvæg fyrir vernd hafnar­aðstöð­unnar og
 3. breytingar á framkvæmd siglingaverndar í höfn eða hafnaraðstöðu.

Verndaráætlanir, breytingar og endurskoðanir verndaráætlana skulu taka gildi án undan­dráttar eftir að hafa hlotið samþykki Siglingastofnunar Íslands.

Siglingastofnun Íslands metur hvort leita skuli umsagnar ríkislögreglustjóra vegna breyt­inga og endurskoðana verndaráætlana.

36. gr.

Áhættumat og verndaráætlun skipa.

Áhættumat og verndaráætlun fyrir skip skulu gerð í samræmi við reglugerð nr. 474/2007 og endurskoðuð eftir því sem við á, þó eigi sjaldnar en einu sinni á fimm ára fresti.

37. gr.

Hafnaverndarnefnd.

Hafnarstjórn getur skipað hafnaverndarnefnd. Hún skal leita eftir tilnefningum í nefndina frá aðilum sem hagsmuna eiga að gæta vegna hafnaverndar í viðkomandi höfn og hafnaraðstöðu. Upplýsingar um stofnun nefndarinnar skulu sendar Siglingastofnun Íslands sem getur farið fram á að fulltrúi hennar taki þátt í fundum eða að stofnuninni verði sendar fundargerðir nefndarinnar.

Hlutverk nefndarinnar er m.a. að koma á samráði verndarfulltrúa og annarra aðila sem koma að siglingavernd, t.d. lögreglu, tollgæslu, slökkviliðs, sveitarstjórnar og fyrirtækja. Hún getur m.a. verið hafnarstjórn til ráðgjafar vegna siglingaverndar og tekið þátt í skipu­lagningu æfinga.

Nefndin skal koma saman eftir þörfum og getur Siglingastofnun Íslands farið fram á að haldinn verði fundur í nefndinni.

38. gr.

Ráðstafanir Siglingastofnunar Íslands.

Fari fulltrúi Siglingastofnunar Íslands um borð í skip eða sé hann kallaður til vegna kvart­ana um bresti í siglingavernd skal jafnan gerð skýrsla um tilefni fararinnar og niður­stöður athugana.

Geri Siglingastofnun Íslands athugasemdir við siglingavernd í höfn eða hafnaraðstöðu er fulltrúum hennar heimilt, ef ástæða þykir til, að grípa til ráðstafana á borð við að:

 1. gera verndarfulltrúa að bregðast við athugasemdum,
 2. framkvæma endurúttekt,
 3. gera kröfu um verndarráðstafanir,
 4. afturkalla vottun hafnaraðstöðu,
 5. vísa skipum frá hafnaraðstöðu eða höfn.

Geri Siglingastofnun Íslands athugasemdir við siglingavernd um borð í skipi er fulltrúum hennar heimilt, ef ástæða þykir til, að grípa til ráðstafana á borð við að:

 1. framkvæma skoðun um borð í skipi á sjó, akkerislægi eða við bryggju,
 2. leggja farbann á skip,
 3. gera kröfu um verndarráðstafanir,
 4. senda fánaríki og flokkunarfélagi viðkomandi skips athugasemdir,
 5. krefjast þess að skip verði fært milli hafna,
 6. vísa skipi frá höfn.

Við beitingu úrræða samkvæmt þessari grein skal hafa hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi eru og ekki ganga lengra en nauðsynlegt er.

39. gr.

Athugasemdir við siglingavernd.

Geri verndarfulltrúi eða skipstjóri skips eða fánaríki athugasemdir við tilhögun eða framkvæmd siglingaverndar hafnar eða hafnaraðstöðu skal fulltrúi Siglingastofnunar Íslands kallaður til. Hann skal leggja mat á hvort athugasemdirnar séu á rökum reistar. Ef svo reynist vera skal hann stuðla að því að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar. Fulltrúi Siglingastofnunar Íslands sendir greinargerð til fánaríkis sem athugasemdirnar bárust frá, telji hann þess þörf.

Geri verndarfulltrúi hafnar athugasemdir við tilhögun eða framkvæmd siglingaverndar á skipi skal Siglingastofnun Íslands senda fulltrúa sinn á staðinn ef þess er kostur. Lagt skal mat á tilefni athugasemdanna og skal greinargerð send til fánaríkis viðkomandi skips.

VIII. KAFLI

Viðurlög, gildistaka o.fl.

40. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt 15. gr. laga um siglingavernd nr. 50/2004 og VII. kafla laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003 nema þyngri refsing liggi við skv. öðrum lögum.

Hafnarstjórn er heimilt að kæra aðila til lögreglu sem er í heimildarleysi innan hafnar­aðstöðu eða haftasvæði sem skilgreind og merkt eru sem svæði, þar sem óvið­komandi er bannaður aðgangur í samræmi við lög um siglingavernd nr. 50/2004.

41. gr.

Innleiðing.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/65/EB frá 26. október 2005 um að efla hafnavernd sem vísað er til í XIII. viðauka við samn­ing­inn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameigin­legu EES-nefndarinnar nr. 65/2006 frá 2. júní 2006, sem birtist í EES-viðauka 44 bls. 13.

Með reglugerðinni eru jafnframt settar reglur sem koma til viðbótar reglugerð Evrópu­þings­ins og ráðsins (EB) nr. 725/2004 um að efla vernd skipa og hafnaraðstöðu og nr. 884/2005 um verklagsreglur við framkvæmd skoðana framkvæmdastjórnarinnar á sviði siglingaverndar, sem báðar hafa verið innleiddar í íslenskan rétt með reglugerð um vernd skipa og hafnaraðstöðu, nr. 474/2007, með síðari breytingum.

42. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 13. gr. laga um siglingavernd nr. 50/2004 og 4. mgr. 1. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 27. febrúar 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 14. mars 2008