Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 90/2008

Nr. 90/2008 12. júní 2008
LÖG
um leikskóla.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Gildissvið og markmið.
1. gr.
Gildissvið.
    Lög þessi taka til starfsemi leikskóla. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Leikskóli annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri í samræmi við lög þessi.
    Foreldrar samkvæmt lögum þessum teljast þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga.

2. gr.
Markmið.
    Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.
    Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera:
    a.    að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
    b.    að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
    c.    að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
    d.    að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
    e.    að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
    f.     að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

II. KAFLI
Stjórnskipan leikskóla.
3. gr.
Yfirstjórn.
    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til, að öðru leyti en varðar stofnun og rekstur leikskóla, sbr. IX. kafla. Ráðherra gætir þess að farið sé eftir ákvæðum sem lög þessi og reglugerð með þeim mæla fyrir um, sbr. V. kafla.
    Ráðherra gerir Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í leikskólum landsins á þriggja ára fresti.

4. gr.
Sveitarfélög.
    Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla. Sveitarfélög hafa forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélags, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Sveitarfélög setja almenna stefnu um leikskólahald í sveitarfélagi og kynna fyrir íbúum þess.
    Nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Leikskólastjórar, starfsfólk leikskóla og foreldrar í sveitarfélagi kjósa hver úr sínum hópi aðal- og varamann til setu á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt.

5. gr.
Leikskólastjóri.
    Við leikskóla skal vera leikskólastjóri sem stjórnar starfi hans í umboði rekstraraðila. Leikskólastjóri stjórnar daglegum rekstri og starfi leikskóla og gætir þess að leikskólastarf sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá leikskóla, skólanámskrá og önnur gildandi fyrirmæli. Leikskólastjóri stuðlar að samstarfi milli foreldra, starfsfólks leikskóla og annars fagfólks með velferð barna að markmiði. Leikskólastjóri boðar til kennara- og starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir.
    Leikskólastjóri gerir rekstraraðila og sveitarstjórn grein fyrir starfsemi leikskóla í ársskýrslu.

III. KAFLI
Starfsfólk leikskóla.
6. gr.
Ráðning.
    Um ráðningu leikskólastjóra og starfsfólks leikskóla fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélags eftir því sem við á.
    Leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólakennari skulu hafa menntun leikskólakennara, sbr. lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Heimilt er að starfsfólk án leikskólakennaramenntunar taki þátt í að annast uppeldi og menntun barna, enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins. Kveða má á um leiðbeiningar- og stjórnunarhlutverk leikskólakennara gagnvart öðru starfsfólki leikskóla í reglugerð.
    Óheimilt er að ráða til starfa við leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.

7. gr.
Starfsfólk.
    Starfsfólk leikskóla skal rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki.
    Að frumkvæði leikskólastjóra skal móta áætlun um hvernig símenntun starfsfólks skuli hagað svo að hún sé í sem bestu samræmi við áherslur leikskóla, sveitarfélags og skólanámskrár.
    Leikskólastjórar og starfsfólk leikskóla skulu samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar og eftir því sem kann að vera mælt fyrir um í kjarasamningum eiga kost á símenntun í þeim tilgangi að efla starfshæfni sína, kynnast nýjungum í leikskóla- og uppeldismálum og njóta stuðnings við nýbreytni- og þróunarstörf.

8. gr.
Þagnarskylda.
    Starfsfólk leikskóla skal gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna og foreldra þeirra, sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum.
    Þagnarskylda starfsfólks leikskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Skal leikskólastjóri brýna skyldur þessar fyrir starfsfólki og sérstaklega tilkynningarskyldu þess samkvæmt barnaverndarlögum.

IV. KAFLI
Foreldrar og foreldraráð.
9. gr.
Foreldrar.
    Foreldrar leikskólabarna skulu gæta hagsmuna barna sinna. Þeir skulu hafa náið samráð við starfsfólk leikskóla og fylgjast með skólagöngu barna sinna og veita þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð barna. Foreldrar skulu jafnframt eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og stöðu barna sinna.
    Eigi í hlut foreldrar sem tala ekki íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja þeim túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.

10. gr.
Samstarf foreldra og starfsfólks.
    Leikskólastjóri skal stuðla að samstarfi milli foreldra og starfsfólks leikskóla með velferð barna að markmiði. Sé óskað eftir stofnun foreldrafélags skal leikskólastjóri aðstoða við stofnun þess.

11. gr.
Foreldraráð.
    Kjósa skal foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði. Leikskólastjóri getur sótt um undanþágu til sveitarfélags um stofnun foreldraráðs ef gildar ástæður eru fyrir hendi, svo sem vegna fámennis í leikskóla.
    Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.

V. KAFLI
Skólahúsnæði og aðstaða í leikskólum.
12. gr.
Húsnæði og fjöldi barna í leikskóla.
    Gerð leikskólahúsnæðis skal taka mið af þörfum barna og þeirri starfsemi sem fram fer í leikskóla. Leggja skal áherslu á öruggt og rúmgott náms- og starfsumhverfi. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan barna og starfsfólks, svo sem hvað varðar húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Gert skal sérstaklega ráð fyrir rými fyrir sérfræðiþjónustu vegna barna með sérþarfir og vinnuaðstöðu starfsfólks.
    Við ákvörðun fjölda barna í leikskóla skal m.a. tekið tillit til aldursdreifingar barna og sérþarfa, lengdar dvalartíma þeirra, stærðar leik- og kennslurýmis og samsetningar starfsmannahóps.
    Ráðherra setur reglugerð um starfsumhverfi leikskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um öryggi barna og slysavarnir, um lágmarkskröfur til húsnæðis og aðbúnaðar barna og starfsfólks, um lengd daglegs dvalartíma barna og um aðstöðu vegna þjónustu við börn með sérþarfir.

VI. KAFLI
Námskrár og samstarf skólastiga.
13. gr.
Aðalnámskrá.
    Ráðherra setur leikskólum aðalnámskrá sem er endurskoðuð reglulega. Í henni koma fram helstu markmið leikskólastarfs og uppeldis- og menntunarhlutverk leikskóla, sbr. 2. gr. Í aðalnámskrá skal m.a. leggja áherslu á gildi leiks í öllu leikskólastarfi. Einnig skal fjallað um markmið fyrir námssvið leikskólans, foreldrasamstarf, þróunarstarf, mat á leikskólastarfi og tengsl leikskóla og grunnskóla. Í aðalnámskrá skal skilgreina hæfniþætti á námssviðum leikskólans í samræmi við aldur og þroska barna.
    Auglýsing um gildistöku aðalnámskrár leikskóla skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

14. gr.
Skólanámskrá og starfsáætlun.
    Í hverjum leikskóla skal gefa út skólanámskrá og er leikskólastjóri ábyrgur fyrir gerð hennar. Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá leikskóla og felur í sér uppeldis- og námsáætlun leikskóla þar sem markmið eru sett og skilgreindar leiðir að þeim markmiðum. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu skóla og skólastefnu viðkomandi sveitarfélags. Skólanámskrá skal endurskoða reglulega.
    Leikskólastjóri gefur árlega út sérstaka starfsáætlun. Í starfsáætlun er gerð grein fyrir árlegri starfsemi leikskóla, svo sem skóladagatali og öðru því sem varðar starfsemi leikskólans.
    Skólanámskrá og starfsáætlun skulu staðfestar af nefnd skv. 2. mgr. 4. gr., að fenginni umsögn foreldraráðs, og skulu þær kynntar foreldrum.

15. gr.
Sprotasjóður skóla.
    Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá leikskóla. Til sjóðsins renna fjármunir sem veittir eru í fjárlögum hverju sinni. Menntamálaráðuneyti hefur umsjón með sjóðnum og setur reglugerð um styrkveitingar. Sjóðurinn er sameiginlegur fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
    Í reglugerð er heimilt að fela stofnun á vegum ráðuneytisins eða öðrum þar til bærum aðila umsjón með sjóðnum og að annast úthlutanir úr honum.

16. gr.
Tengsl leikskóla og grunnskóla.
    Sveitarstjórn skal koma á gagnvirku samstarfi leikskóla og grunnskóla. Í skólanámskrá skal gera grein fyrir samstarfi milli leikskóla og grunnskóla og hvernig skuli standa að færslu og aðlögun barna milli skólastiga.
    Persónuupplýsingar, sem fyrir liggja um hvert einstakt barn í leikskóla og nauðsynlegar eru fyrir velferð og aðlögun þess í grunnskóla, skulu fylgja barninu, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessari upplýsingamiðlun. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi leikskólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess.
    Ráðherra setur reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla þar sem m.a. skal kveðið á um hvaða upplýsingar falla undir grein þessa, um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga milli skólastiga og um stöðu og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum sem varða börn þeirra.

VII. KAFLI
Mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs.
17. gr.
Markmið.
    Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í leikskólum er að:
    a.    veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks leikskóla, viðtökuskóla og foreldra,
    b.    tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár leikskóla,
    c.    auka gæði náms og leikskólastarfs og stuðla að umbótum,
    d.    tryggja að réttindi barna séu virt og að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum.

18. gr.
Innra mat.
    Hver leikskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 17. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, barna og foreldra eftir því sem við á.
    Leikskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.

19. gr.
Ytra mat sveitarfélaga.
    Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur.
    Sveitarfélög skulu fylgja eftir innra og ytra mati þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi.

20. gr.
Ytra mat menntamálaráðuneytis.
    Menntamálaráðuneyti annast greiningu og miðlun upplýsinga um starf leikskóla á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum skv. 19. gr. og með sjálfstæðri gagnaöflun.
    Menntamálaráðuneyti gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd laga þessara, aðalnámskrár leikskóla og aðra þætti skólastarfs.
    Ráðherra setur reglugerð um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarfélaga að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

VIII. KAFLI
Sérfræðiþjónusta og stoðkerfi leikskóla.
21. gr.
Skipulag sérfræðiþjónustu.
    Á vegum sveitarfélaga skal rekin sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við leikskólabörn og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi leikskóla og starfsfólk þeirra. Sveitarfélög ákveða fyrirkomulag sérfræðiþjónustu en skulu stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskóla.
    Sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla getur verið rekin sameiginlega með sérfræðiþjónustu grunnskóla. Þá geta sveitarfélög sameinast um slíkan rekstur eða gert þjónustusamninga við önnur sveitarfélög, stofnanir eða aðila sem veita þá þjónustu sem þörf er fyrir hverju sinni.
    Ráðherra setur reglugerð um sérfræðiþjónustu leikskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

22. gr.
Framkvæmd sérfræðiþjónustu.
    Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eiga rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans. Þjónusta þessi skal fara fram undir handleiðslu sérfræðinga samkvæmt ákvörðun leikskólastjóra og sérfræðiþjónustu skv. 21. gr. í samráði við foreldra.
    Leikskólastjóri skal samræma innan hvers leikskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra barna skv. 21. gr. Jafnframt skal hafa samráð við félagsþjónustu sveitarfélaga vegna málefna einstakra barna eftir því sem þurfa þykir.
    Við framkvæmd sérfræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á góð tengsl leikskóla og grunnskóla með samfellu í skólastarfi að leiðarljósi.

23. gr.
Sérfræðingar í leikskólamálum.
    Á vegum sveitarfélaga skulu starfa sérfræðingar í leikskólamálum er veita leikskólum ráðgjöf og stuðning við nýbreytni og skólaþróun. Þeir sinna einnig eftirliti með starfsemi leikskóla og stuðla að samstarfi þeirra innbyrðis og milli skólastiga.

IX. KAFLI
Stofnun og rekstur leikskóla.
24. gr.
Tilkynningar.
    Sveitarstjórn skal tilkynna menntamálaráðuneytinu þegar það stofnar nýjan leikskóla og rekstri leikskóla er hætt.

25. gr.
Leyfi til reksturs leikskóla.
    Sveitarstjórn getur leyft öðrum aðilum að byggja og reka leikskóla í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Heimilt er að binda leyfi sveitarfélags við ákveðinn hámarksfjölda barna. Um slíka leikskóla gilda sömu lög og reglur og um aðra leikskóla samkvæmt lögum þessum eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 30. gr. laga þessara. Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku. Sveitarfélög skulu setja sér reglur um veitingu rekstrarleyfa. Skulu þær birtar opinberlega og vera aðgengilegar íbúum sveitarfélags.
    Í rekstrarleyfi skal skýrt kveðið á um réttindi og skyldur rekstraraðila samkvæmt lögum þessum. Í rekstrarleyfi skal sérstaklega fjallað um þagnarskyldu starfsfólks, sbr. 8. gr., um húsnæði og fjölda barna, sbr. 12. gr., og um gerð skólanámskrár, sbr. 14. gr., um skyldur rekstraraðila til þess að meta með reglubundnum hætti árangur og gæði skólastarfsins, sbr. 18. gr., láta sveitarstjórn í té gögn og upplýsingar vegna eftirlits, sbr. 19. gr., og um skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu, sbr. 21. og 22. gr. Sveitarstjórnum er heimilt að gera samning við viðkomandi skóla um fyrirkomulag þjónustu og gjaldtöku.
    Sveitarstjórn skal tilkynna menntamálaráðuneytinu um veitingu rekstrarleyfis sem og ef rekstrarleyfi fellur úr gildi.

26. gr.
Reglur um innritun.
    Sveitarstjórn er heimilt að setja reglur um innritun í leikskóla í sveitarfélaginu, enda njóti viðkomandi leikskóli framlags úr sveitarsjóði. Þessar reglur eru annars vegar settar með tilliti til aðstæðna barna og foreldra og hins vegar með tilliti til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins.
    Reglur sveitarstjórnar samkvæmt þessari grein skulu birtar opinberlega og vera aðgengilegar íbúum sveitarfélagsins.

27. gr.
Gjaldtaka.
    Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða gjaldtöku fyrir barn í leikskóla. Gjaldtaka fyrir hvert barn má þó ekki nema hærri fjárhæð en nemur meðalraunkostnaði við dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélagsins.
    Ákvæði þessarar greinar taka ekki til leikskóla sem fengið hafa rekstrarleyfi skv. 25. gr. nema kveðið sé á um slíkt í þjónustusamningi sem sveitarfélag gerir við aðila sem fengið hefur rekstrarleyfi skv. 25. gr.

28. gr.
Samrekstur skóla.
    Sveitarfélögum, tveimur eða fleiri, er heimilt að hafa með sér samvinnu um rekstur leikskóla, sbr. VIII. kafla sveitarstjórnarlaga. Í samningi sveitarfélaga skal kveðið á um hvernig fari með hlutverk nefndar skv. 2. mgr. 4. gr. Velji sveitarfélög að reka saman leikskóla í formi byggðasamlags, sbr. 82. gr. sveitarstjórnarlaga, fer stjórn byggðasamlags með verkefni nefndar skv. 2. mgr. 4. gr. nema stofnuð sé sérstök nefnd til að fara með það hlutverk á vegum byggðasamlagsins. Ákvæði um slíkt fyrirkomulag skulu sett í samning um stofnun byggðasamlags.
    Hafi sveitarfélög með sér samstarf um skólahald á leikskólastigi með þeim hætti að börn úr tilteknu sveitarfélagi sæki leikskóla sem rekinn er af öðru sveitarfélagi fer um samninga milli sveitarfélaga eftir 5. gr. laga um grunnskóla. Sæki hluti barna úr sveitarfélagi leikskóla í öðru sveitarfélagi á þeim grundvelli er viðkomandi sveitarfélögum heimilt að kveða svo á í samþykktum um stjórn sveitarfélaganna að í nefnd skv. 2. mgr. 4. gr. viðtökusveitarfélags eigi sæti, með málfrelsi og tillögurétt, fulltrúi sem kjörinn er af sveitarstjórn þess sveitarfélags þar sem umrædd börn eiga lögheimili.
    Sveitarfélögum er heimilt að reka saman leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn nefndar skv. 2. mgr. 4. gr. Skal stjórnandi slíkrar stofnunar hafa leyfisbréf til kennslu á leik- og/eða grunnskólastigi. Sveitarstjórn getur ákveðið að foreldraráð, sbr. 11. gr., og skólaráð, sbr. 8. gr. laga um grunnskóla, starfi sameiginlega í einu ráði. Ákvæði þetta gildir einnig um skóla sem reknir eru á grundvelli 1. mgr.
    Hinn samrekni skóli starfar að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig.

29. gr.
Þróunarleikskólar.
    Ráðherra getur veitt sveitarfélögum og sjálfstætt reknum leikskólum heimild til að reka þróunarleikskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga þessara, reglugerða settra á grundvelli þeirra og aðalnámskrár leikskóla. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.
    Heimilt er að styrkja þróunarleikskóla og sérstakar nýjungar eftir því sem fjárlög heimila hverju sinni.

X. KAFLI
Meðferð ágreiningsmála.
30. gr.
Málskotsréttur.
    Ákvarðanir um rétt einstakra barna, sem teknar eru á grundvelli 22. gr. um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar, um aðgang að skóla, sbr. 4. og 26. gr., og um gjaldtöku fyrir vist í leikskóla, sbr. 27. gr., eru kæranlegar til ráðherra. Um meðferð kærumála fer að ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Sveitarstjórn getur ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélags að áður en hægt er að kæra ákvörðun skv. 1. mgr. til ráðherra skuli fyrst beina kæru til nefndar skv. 2. mgr. 4. gr. eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélags. Sé heimild þessari beitt skal sveitarstjórn ákveða hvort þessi kæruréttur eigi við um hluta ákvarðana skv. 1. mgr. eða um þær allar. Um málsmeðferð á kærustigi innan sveitarfélags fer að ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Verði ákvörðun sem tekin er af hálfu sveitarfélags skv. 22. gr. um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar, eða um aðgang að skóla, sbr. 4. og 26. gr., ekki talin í samræmi við lög getur ráðherra, í úrskurði í tilefni af stjórnsýslukæru, kveðið á um að viðkomandi sveitarfélag skuli sjá barni fyrir slíkri þjálfun eða aðstoð eða aðgangi að leikskóla.

XI. KAFLI
Gildistaka o.fl.
31. gr.
    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 78/1994, um leikskóla.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Reglugerðir, auglýsingar og önnur fyrirmæli sett samkvæmt lögum nr. 78/1994, með síðari breytingum, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau stangast ekki á við lög þessi þar til nýjar reglugerðir, auglýsingar eða önnur fyrirmæli hafa öðlast gildi.

Gjört á Bessastöðum, 12. júní 2008.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

A deild - Útgáfud.: 20. júní 2008