Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 490/2014

Nr. 490/2014 9. maí 2014
REGLUR
um áframhaldandi úthlutun andvirðis beingreiðslna af 7500 ærgildum á árunum 2014-2017.

1. gr.

Markmið o.fl.

Ríkissjóður greiddi á árunum 2001-2007 andvirði árlegra beingreiðslna af 7500 ærgildum sem keypt voru samkvæmt ákvæði 2.3 í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða dagsettum 11. mars 2000 í þeim tilgangi að styrkja svæði á landinu sem eru sérstaklega háð sauðfjárrækt og möguleikar á annarri tekjuöflun eru takmarkaðir. Í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar dagsettum 25. janúar 2007 er kveðið á um áframhaldandi svæðisbundnar greiðslur, sbr. gr. 4.7.

2. gr.

Heildargreiðslur.

Heimilt er að verja allt að 62 milljónum króna árið 2014 til greiðslna samkvæmt 1. gr. Fjárhæðirnar taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga.

3. gr.

Sauðfjársvæði.

Um þau landsvæði sem eru háð sauðfjárrækt og með takmarkaða möguleika á annarri tekjuöflun samkvæmt 1. gr. vísast til 3. gr. reglna nr. 522/2005 um úthlutun andvirðis beingreiðslna af 7500 ærgildum á árunum 2005-2007.

Þótt mælihlutföll og stigagjöf samkvæmt viðaukum I-II við reglur nr. 522/2005 breytist svæðisbundið hefur það ekki áhrif á áframhaldandi úthlutun greiðslna á tímabilinu 2014-2017.

4. gr.

Rétthafar greiðslna.

Rétthafar greiðslna geta verið sauðfjárframleiðendur sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

 

a)

áttu 200 ær eða meira samkvæmt forðagæsluskýrslum veturinn 2002-2003,

 

b)

eru búsettir á lögbýli á sauðfjársvæði samkvæmt 3. gr.

Sauðfjárframleiðendur í Árneshreppi teljast þó uppfylla skilyrði 1. mgr. ef þeir eiga 100 ær eða fleiri.

Sauðfjárframleiðandi getur því aðeins átt rétt til áframhaldandi greiðslna á gildistíma þessara reglna að fjárfjöldi fari ekki niður fyrir 75% af viðmiðunarmarki samkvæmt 1. mgr., 150 ær samkvæmt forðagæsluskýrslum staðfestum af búfjáreftirlitsmanni og að hann hafi búsetu á lögbýli samkvæmt 1. mgr. Réttur til greiðslna er bundinn við það lögbýli sem hann stofnaðist á samkvæmt 1. mgr. Ef eigendaskipti verða að lögbýlinu öðlast nýr eigandi rétt til greiðslna enda uppfylli hann önnur skilyrði þessara reglna. Flytji rétthafi á annað lögbýli á sauðfjársvæði samkvæmt 3. gr. getur hann þó flutt með sér rétt til greiðslna enda sé slíkur réttur ekki fyrir á því lögbýli.

Ef sauðfjárframleiðandi selur greiðslumark sauðfjár að hluta eða öllu leyti sem fylgir lögbýli hans fellur niður réttur hans til greiðslna eftir þann tíma.

5. gr.

Fjárhæðir.

Fjárhæðir samkvæmt 2. gr. skulu skiptast milli rétthafa á hverjum tíma, sbr. 4. gr. og taka breytingum miðað við breytingar á fjölda rétthafa og verðlagsforsendum fjárlaga, sbr. 2. gr.

Sauðfjárframleiðendur í Árneshreppi skulu fá greitt 50% álag á fjárhæð samkvæmt 1. mgr.

6. gr.

Gjalddagar.

Fjárhæðir samkvæmt 5. gr. skulu greiddar með einni árlegri greiðslu eigi síðar en 1. júní ár hvert. Ef ágreiningur rís um rétt til greiðslna skulu greiðslur fara fram eigi síðar en 30 dögum eftir að ákvörðun eða úrskurður um rétt til greiðslna liggur fyrir.

7. gr.

Skráning rétthafa.

Ákvarðanir um rétthafa greiðslna skulu byggðar á opinberum upplýsingum, m.a. upp­lýs­ingum úr forðagæsluskýrslum Bændasamtaka Íslands veturinn 2002-2003, greiðslu­marks­skrá í vörslu Matvælastofnunar, sbr. lög nr. 99/1993 um framleiðslu, verð­lagn­ingu og sölu á búvörum með síðari breytingum, lögbýlaskrá atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins og þjóðskrá.

8. gr.

Tilkynningar.

Bændasamtök Íslands skulu tilkynna öllum sauðfjárframleiðendum á sauðfjársvæðum samkvæmt 3. gr. um rétt til greiðslna samkvæmt 5. gr. fyrir 15. febrúar hvers árs. Athugasemdir við tilkynningar skulu hafa borist Bændasamtökum Íslands innan 30 daga frá dagsetningu þeirra. Bændasamtök Íslands skulu hafa svarað öllum athugasemdum um rétt til greiðslna eigi síðar en 15. apríl hvert ár.

Einnig skulu Bændasamtök Íslands kynna fyrir sauðfjárframleiðendum úthlutunarreglur þessar og vekja athygli á rétti þeirra til athugasemda ef þeir telja sig uppfylla skilyrði fyrir framlögum en fá ekki tilkynningu samkvæmt 1. mgr.

9. gr.

Uppgjör.

Bændasamtök Íslands annast útreikning, skráningu og uppgjör greiðslna.

10. gr.

Réttur til greiðslna fellur niður.

Ef réttur til greiðslna fellur niður skulu Bændasamtök Íslands tilkynna sauðfjár­framleið­anda það eigi síðar en 1. júní ár hvert. Athugasemdir skulu hafa borist Bænda­samtökum Íslands innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar og skulu Bænda­samtök Íslands hafa svarað athugasemdum eigi síðar en 15. ágúst ár hvert.

11. gr.

Kæruheimild.

Ágreining um rétt til greiðslna samkvæmt reglum þessum er heimilt að kæra til atvinnu­vega- og nýsköpunarráðuneytisins.

12. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Réttur til greiðslna samkvæmt reglum þessum er háður skilyrðum samnings um starfs­skilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007, með síðari breytingum.

Reglur þessar eru settar með heimild í 50. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993 ásamt síðari breytingum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 9. maí 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 23. maí 2014