Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1171/2008

Nr. 1171/2008 10. desember 2008
REGLUGERÐ
um starfsemi sprengjusérfræðinga, hæfisskilyrði og menntun.

1. gr.

Rétt til að bera starfsheitið sprengjusérfræðingur og starfa sem slíkur hefur aðeins sá sem hlotið hefur leyfi til starfans frá Landhelgisgæslu Íslands.

Sprengjusérfræðingar sjá um að gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi. Sprengju­sérfræðingar stjórna öryggisleit um borð í skipum, loftförum og í byggingum á landi skv. beiðni lögreglu eða stjórnvalda.

2. gr.

Leyfi skv. 1. gr. má aðeins veita þeim sem uppfyllir skilyrði 3. gr. um menntun á sviði sprengjueyðingar, sem Landhelgisgæsla Íslands metur gilda.

3. gr.

Sprengjusérfræðingar skulu þjálfaðir samkvæmt lágmarksstaðli Atlantshafsbandalagsins er tilgreinir kröfur sem gerðar eru til starfsfólks sem starfar við sprengjueyðingu (NATO STANAG 2389 – Minimum standards of proficiency for Explosive Ordnance Disposal Personnel).

Sprengjusérfræðingar flokkast með eftirfarandi hætti eftir þjálfun:

 1. Aðstoðarmaður sprengjusérfræðings, stig 1.
  Hefur lokið námskeiði Landhelgisgæslunnar fyrir aðstoðarmenn sprengju­sérfræðinga (Explosive Ordnance Disposal).
 2. Aðstoðarmaður sprengjusérfræðings, stig 2.
  Hefur lokið námskeiði skv. a-lið og námskeiði Landhelgisgæslunnar fyrir aðstoðar­menn við eyðingu heimatilbúinna sprengja (IEDD).
 3. Sprengjusérfæðingur, stig 1.
  Hefur lokið framhaldsnámskeiði fyrir sprengjusérfræðinga í skóla sem kennir skv. stöðlum Atlantshafsbandalagsins, NATO STANAG 2389.
 4. Sprengjusérfræðingur, stig 2.
  Hefur lokið framhaldsnámi skv. c-lið og einnig framhaldsnámskeiði í eyðingu heima­tilbúinna sprengja í skóla sem kennir skv. stöðlum Atlantshafsbandalagsins, NATO STANAG 2389.

4. gr.

Sprengjusérfræðingar skulu viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar varðandi starfið.

Til að viðhalda réttindum sínum skal sprengjusérfræðingur ljúka minnst einni æfingu, einu verkefni eða einu útkalli mánaðarlega.

Til að viðhalda réttindum skv. d-lið 3. gr. skal viðkomandi sækja framhaldsnámskeið í eyðingu heimatilbúinna sprengja skv. NATO STANAG 2389 á minnst þriggja ára fresti.

5. gr.

Sprengjusérfræðingur sem starfar við sprengjueyðingu neðansjávar skal ljúka a.m.k. fjórum verkefnum eða æfingum á ári. Þeir sem starfa við skotvopnaþjálfun skulu taka þátt í a.m.k. sex slíkum æfingum á ári. Nánar er kveðið á um lágmarkskröfur til þjálfunar í NATO STANAG 2389.

6. gr.

Landhelgisgæslan gefur út starfsleyfi til sprengjusérfræðinga sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar þar sem jafnframt kemur fram hvort þeir hafa heimild til að halda réttindanámskeið í faginu.

7. gr.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fara með lögregluvald þegar þeir eru að störfum sem tengjast löggæslu í efnahagslögsögu Íslands. Sem slíkir starfa þeir einnig á vegum lögreglu í landi.

8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 52/2006 um Landhelgis­gæslu Íslands, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 10. desember 2008.

Björn Bjarnason.

Skúli Þór Gunnsteinsson.

B deild - Útgáfud.: 23. desember 2008