Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1235/2011

Nr. 1235/2011 22. desember 2011
REGLUGERÐ
um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til þeirra sem hófu nám á haustönn 2011 á vegum verkefnisins „Nám er vinnandi vegur“.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til þeirra sem hófu nám á haustönn 2011 á vegum verkefnisins „Nám er vinnandi vegur“ vegna náms þeirra á vor- og haustönn árið 2012 sem og á vorönn árið 2013. Með vorönn er átt við mánuðina janúar, febrúar, mars, apríl og maí en með haustönn er átt við mánuðina september, október, nóvember og desember.

Það tímabil sem styrkur er greiddur á grundvelli reglugerðar þessarar telst ekki hluti af því tímabili sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 29. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

2. gr.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks.

Eftirfarandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt fyrir greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar:

  1. Umsækjandi skal hafa hafið nám á haustönn árið 2011 á vegum verkefnisins „Nám er vinnandi vegur“ sem ekki er lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
  2. Liggja skal fyrir námssamningur milli Vinnumálastofnunar og umsækjanda þar sem umsækjandi skuldbindur sig til að stunda að fullu það nám sem hann hefur valið sér auk þess sem hann veitir Vinnumálastofnun heimild til að afla allra nauðsynlegra gagna að mati stofnunarinnar.
  3. Umsækjandi skal vera skráður í 100% nám samkvæmt reglum viðkomandi skóla á þeirri námsönn sem um ræðir hverju sinni.
  4. Umsækjandi skal fullnægja skilyrðum um mætingu sem sett eru um námið sem og önnur skilyrði um reglulega ástundun, þar á meðal skilaskyldu verkefna, í hverjum mánuði á námsönn samkvæmt reglum viðkomandi skóla.
  5. Umsækjandi skal sýna fram á námsframvindu á undangenginni námsönn sem nemur a.m.k. 60% af fullu námi eins og það er skilgreint hjá viðkomandi skóla.

Styrkgreiðslur samkvæmt reglugerð þessari falla niður ef skilyrði 1. mgr. fyrir greiðslu styrks eru ekki lengur uppfyllt að mati Vinnumálastofnunar.

3. gr.

Styrkur.

Sá sem var að fullu tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, þegar hann hóf nám á vegum verkefnisins „Nám er vinnandi vegur“ á haustönn árið 2011 á rétt á fullum grunnstyrk að fjárhæð 132.793 kr. á mánuði. Sá sem var tryggður hlutfallslega samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á rétt á sama hluta styrkfjárhæðar skv. 1. málsl. Lágmarksréttur til atvinnuleysistrygginga veitir rétt til ¼ hluta styrkfjárhæðar skv. 1. málsl.

Sá sem fær greiddan styrk á grundvelli reglugerðar þessarar og hefur framfærsluskyldu gagnvart barni eða börnum yngri en 18 ára á rétt á 20.000 kr. á mánuði með hverju barni.

Ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, um frádrátt vegna tekna gildir um frádrátt tekna þeirra sem fá greiddan styrk samkvæmt reglugerð þessari á fjárhæð styrksins.

4. gr.

Umsókn um styrk.

Sækja skal um styrk samkvæmt reglugerð þessari fyrir hverja námsönn fyrir sig og skal umsókn um styrk hafa borist Vinnumálastofnun eigi síðar en 20. janúar 2012 fyrir vorönn 2012, 31. ágúst 2012 fyrir haustönn 2012 og 28. desember 2012 fyrir vorönn 2013.

Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn um styrk skv. 1. mgr.:

  1. Upplýsingar um nám sem umsækjandi leggur stund á.
  2. Staðfesting á námsárangri umsækjanda á undangenginni námsönn, sbr. e-lið 1. mgr. 2. gr.
  3. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að það nám sem umsækjandi leggur stund á sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

5. gr.

Útgreiðsla styrks.

Vinnumálastofnun annast greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar.

Styrkur samkvæmt reglugerð þessari skal greiddur eftir á, fyrir undanfarandi mánuð, eigi síðar en fimmta virka dag í febrúar, mars, apríl, maí og júní fyrir vorönn og október, nóvember, desember og janúar fyrir haustönn enda séu uppfyllt skilyrði reglugerðar þessarar fyrir greiðslu styrks.

Áður en til greiðslu kemur skv. 1. og 2. mgr. skal Vinnumálastofnun meta að því marki sem unnt er hverju sinni hvort uppfyllt séu skilyrði reglugerðar þessarar fyrir greiðslu styrks til viðkomandi umsækjanda.

6. gr.

Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli reglu­gerðar þessarar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 12. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 62. og 64. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, að fenginni tillögu og umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, öðlast gildi 1. janúar 2012.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir e-lið 1. mgr. 2. gr. er heimilt að greiða styrk á grundvelli reglugerðar þessarar fyrir vorönn 2012 þó umsækjandi um styrk geti ekki sýnt fram á námsframvindu á haustönn 2011 sem nemur a.m.k. 60% af fullu námi eins og það er skilgreint hjá viðkomandi skóla.

Velferðarráðuneytinu, 23. desember 2011.

Guðbjartur Hannesson.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 28. desember 2011