Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 508/2012

Nr. 508/2012 12. júní 2012
REGLUGERÐ
um dagsektir til að knýja fram upplýsingar vegna hagskýrslugerðar Hagstofu Íslands.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um dagsektir sem Hagstofa Íslands leggur á aðila sem ekki veitir umbeðnar upplýsingar til hagskýrslugerðar eða sinnir ekki kröfum um úrbætur á upplýsingagjöf innan hæfilegs frests, enda séu upplýsingar ófullnægjandi eða rangar.

Reglugerð þessi tekur til upplýsingaskyldra aðila sem falla undir lög nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands.

2. gr.

Úrskurður um dagsektir.

Hagstofa Íslands leggur á dagsektir með úrskurði og skal í úrskurðinum vísa til þeirra réttarreglna sem úrskurðurinn byggist á.

Aðila sem úrskurður um dagsektir beinist að skal veittur sjö daga frestur til að koma að skriflegum andmælum áður en Hagstofa Íslands úrskurðar skv. 1. mgr.

Úrskurður Hagstofu Íslands um dagsektir skal kynntur aðila skriflega með sannanlegum hætti og án ástæðulausra tafa.

3. gr.

Málshöfðunarfrestur.

Nú vill aðili ekki una úrskurði Hagstofu Íslands og getur hann þá höfðað mál til ógildingar úrskurðarins fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um úrskurðinn.

4. gr.

Fjárhæð dagsekta.

Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 50.000 kr. á dag fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu úrskurðar og þar til upplýsingaskyldu er sinnt.

Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots hins upplýsingaskylda aðila.

5. gr.

Innheimta dagsekta.

Úrskurðaðar dagsektir eru aðfararhæfar án undangengins dóms og er heimilt að innheimta þær að liðnum sjö dögum frá því úrskurður um dagsektir var lagður á skv. 1. mgr. 2. gr.

Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

Áfallnar, óinnheimtar dagsektir falla niður þegar Hagstofan telur að upplýsingaskyldu hafi verið fullnægt.

Innheimtar dagsektir verða ekki endurgreiddar þó að upplýsingaskyldur aðili hafi orðið við upplýsingaskyldu sinni, nema hagstofustjóri taki um það rökstudda ákvörðun.

Sé mál til ógildingar úrskurði um dagsektir skv. 2. gr. höfðað innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hann og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar á úrskurði leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.

II. KAFLI

Gildistaka.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 16. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð og öðlast hún þegar gildi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 12. júní 2012.

Steingrímur J. Sigfússon.

Helga Jónsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 15. júní 2012